laugardagur, 1. febrúar 2014

Sjálfsmynd

Janúar liðinn og ég hef staðið mig sæmilega vel við vikumarkmiðin mín þennan mánuðinn.
Eins og áður hefur komið fram byrjaði ég fyrstu viku ársins á sparnaðaráskorun þar sem ég skipulagði 5 kvöldmáltíðir fyrir vikuna á eftir. Það gekk eftir og ég meira að segja stóð við planið. Reyndar líkaði okkur svo vel við þetta fyrirkomulag að við höfum síðan sett niður plan á hverjum sunnudegi fyrir komandi viku. Þetta eyðir öllu stressi sem kann að myndist korter í fimm, rétt áður en vinnutíma lýkur og maður áttar sig á að burðir til að skipuleggja matarplön eru engir. Allir búnir á því og svangir.
Þetta fyrirkomulag kemur líka í veg fyrir margar Take-Away reddingar og hefur því einnig góð áhrif á budduna.

Önnur vika ársins snéri að skrifum og markmiðið hæfilegt, eitt blogg og eitt ljóð. Það kláraði ég innan þess tímaramma sem um var samið (við sjálfa mig). Þriðju vikuna var markmiðið tvær hálftíma tarnir af söngæfingum. Þar kom sér vel að Aldís bað mig að taka bakraddir á tónleikum hjá sér 4. febrúar nk. og hélt æfingu. Þar var fyrri hálftíminn kominn og sá seinni var tekinn á besta stað í heimi með ágætu sándi, í sturtunni.
Fjórðu vikuna hét ég því að drekka amk. 1 líter af vatni á dag. Fyrir flesta er það kannski ekki mikið mál, en ég þarf virkilega að einbeita mér til að ná svo miklu magni og því tilvalið að setja það sem markmið. Það gekk mjög vel, alla daga nema laugardaginn tókst þetta en því miður hefur þessi vani ekki náð að festast nægilega vel.  Næst ætlaði ég að setja markmiðið í 2 lítra. Sjáum til með það.

Síðustu vikuna ákvað ég síðan að gleðja tvo vini með litlum en skemmtilegum og fallegum gjöfum. Fanney, vinkona mín, átti afmæli á mánudaginn en ég ákvað að telja afmælisgjöfina hennar ekki með því það myndi auðvelda málið um helming. Í staðinn keypti ég lítinn pakka handa vinkonu sem stödd er erlendis tímabundið vegna vinnu sinnar en ég vil ekki segja hver gjöfin er því líklega er hún ekki komin til hennar. Ég nýtti síðan tækifærið og fór að þeim gamla sið að mæta með eitthvað í matarboð sem mér var boðið til í gær. Ég fór í Kraum og fann þar gullfallegar fjólubláar Et, drekk og ver glaðr servíettur eftir Kristínu Þóru. Þegar ég vel svona smágjafir reyni ég að hafa að leiðarljósi að gefa eitthvað sem maður tímir kannski ekki að láta eftir sér sjálfur dagsdaglega, þó það sé ekki svo dýrt.

Stóra janúar áskorunin mín var tengd hreyfingu en henni er ekki lokið. Ég tók ákvörðun um að klára hana þrátt fyrir að ná því ekki innan setts tímaramma og mun blasta henni hér þegar það hefur tekist með viðeigandi tölfræðiupplýsingum.

Stóra febrúar áskorunin er tengd þessu bloggi og byrjar með þessari fínu sjálfsmynd af mér heima, uppí sófa, á náttfötunu... á deitkvöldi Frk. Veiku og Hr. Þunna (en Þunni þurfti að senda einn tölvupóst)!


Vonandi var janúar ykkur góður kæru vinir. Febrúar er miklu styttri - og því um að gera að flýta sér ennþá meira að gera hlutina því hann verður búinn áður en við vitum af! Besta ráð í heimi? Mögulega ekki.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli