mánudagur, 24. febrúar 2014

Hressandi kvikmyndagrátur

Ég tárast oft yfir kvikmyndum, ég man ekki til þess að hafa nokkurntíma farið að háskæla, en ég tárast oft. Stundum þarf ekki mikið til en stundum þarf mjög mikið til, allt eftir því hvernig ég er stemmd. Við erum eins misjöfn og við erum mörg hvað þetta varðar. Sumir ná engri tilfinningalegri tengingu við kvikmyndir, sumir ná of miklum tilfinningalegri tengingu og allt þar á milli. Ég þekki til dæmis til einnar stúlku sem grætur yfirleitt ekki yfir kvikmyndum en þegar hún er þunn grætur hún yfir hvaða kvikmynd sem er. Ég þekki aðra sem er kvikmyndin á meðan á henni stendur, finnur allt og reynir jafnvel að bjarga aðalpersónunum með því að segja þeim til. Ég þekki líka enn aðra sem veit sennilega aldrei hvaða kvikmynd við vorum að horfa á því hún eyðir allri myndinni í að spjalla á milli þess sem hún gagnrýnir leikarana, fötin þeirra, tónlistina og söguþráðinn.

Ég þekki líka eina sem fór einu sinni með mér í bíó árið 1998 og bjargaði mér svo sannarlega frá tárum í það skiptið. Saman mættum við tvær, 12 ára, ég og Antonía að sjá Titanic í bíóinu í Valaskjálf. Ég hafði keypt fyrir okkur miðana í forsölu í Rafeind, verslun sem nú er ekki lengur til - en var rekin af sömu bræðrum og bíóið.

Ég var fáránlega spennt. Ég, eins og nokkrar aðrar 12 ára stelpur, elskaði Leonardo DiCaprio og átti plaggöt af honum í tugatali. Myndin var löng en hvorug okkar fann mikið fyrir því enda gífurleg spenna í gangi. 

Síðan kom að því, skipið var sokkið og Jack Dawson búinn að koma Rose upp á flekann meðan fólk dó allt í kringum þau. Maður sá að Jack hafði það ekki svo gott, hann var við það að gefast upp. Kökkurinn í hálsinum stækkaði og augun við það að fyllast að tárum. Ég starði á skjáinn, gjörsamlega miður mín, þegar Antonía byrjaði að hlæja. 
Ég leit á hana mjög hissa og hún horfir á mig "æ, sorrý... " og tekur fyrir munninn á sér.
Ég sökkvi mér aftur í myndina, eða reyni það, en Antonía heldur áfram. Ég reyni að taka ekki eftir því þar til hún hallar sér að mér "Silla... Silla. Sorrý... bara konan fyrir aftan okkur grenjar svo asnalega".




Ég sagði öllum í skólanum frá þessu, fannst þetta sjúklega fyndið þó ég hafi ekki alveg viljað gúddera hegðun Antoníu á meðan á henni stóð. Ég fékk Titanic special edition videospólu með part úr filmu, plaggati og myndum í afmælisgjöf þetta árið. Ég man ekki hvort ég náði að gráta eitthvað yfir þessu atriði seinna meir, en þykir það mjög ósennilegt þar sem þetta atvik poppar alltaf upp í huga mínum þegar ég sé þetta atriði. Nú til dags poppar það reyndar alltaf upp þegar minnst er á Titanic og mér þykir það mjög skemmtilegt. 


Engin ummæli:

Skrifa ummæli