mánudagur, 24. mars 2014

Fyrstu fimm af tónleikum

Ég hélt 27 ára afmælistónleika á Rósenberg í september síðastliðnum. Smám saman hef ég verið að reyna að koma þessum tónleikum á Youtube - lag fyrir lag.
Loksins get ég sagt að fyrstu fimm lögin séu komin.

1. Brand New me



Ég opnaði tónleikana á þessu lagi. Ég kynntist því almennilega í söngtíma síðastliðið sumar og tengdi svona líka vel við það. Eins og hefur komið fram margoft á þessari síðu hefur farið fram mikil andleg vakning og síðan vinnsla hjá mér síðasta eitt og hálfa árið svo tengingin við þennan texta var mikil. Upphaflega sá ég fyrir mér að ég myndi labba inn á sviðið í geðveikum glimmerkjól á meðan forspilið væri í gangi. Þetta væri svona Extreme Makeover í byrjun tónleika. En svo fann ég engan kjól, og hafði ekki tíma til að gera neitt við hárið á mér auk þess sem stressið bar mig alla leið í þessu lagi... smá skjálfti, smá textaruglingur, smá glott... lærir sem lifir, ég byrja aldrei aftur á því lagi sem ég vil hafa best.

2. Leikur þinn leik (Videogames) - texti eftir Sindra Þór



Sindri kom með þennan texta til mín fyrir löngu síðan. Hafði dundað við að setja hann saman með stemningu úr upprunalegu útgáfunni til hliðsjónar, án þess þó að ætla sér að beinþýða. Fyrir einhvern eins og mig, sem elska tónlist og dreymir um að umgangast hana og skapa mun meira en ég geri, þá eru einstaklingar eins og Sindri Þór svolítið óþolandi. Í engri æfingu sest hann niður einu sinni á ári og setur saman texta sem oftar en ekki innihalda orð sem ég hef aldrei á ævi minni heyrt, þó tel ég mig ekki fáfróða eða almennt með lélegan orðaforða miðað við aðra af minni kynslóð.
Þrátt fyrir örlitla öfundsýki býr aðdáun á þessum eiginleika hans innra og mér þykir ekki leiðinlegt að púsla saman melódíum við ljóð eftir hann.
Það sem mér fannst erfitt við þetta lag var hvernig ég ætlaði að gera þetta, ég hef ekki mjúka rödd eins og Lana Del Rey né vanið mig á að gefa lofti svo mikið vægi í söngstílnum mínum. Mig langaði ekki að reyna að leika eftir það sem hún gerði, en samt vildi ég reyna að ná einhverjum drunga í lagið. Karókíútgáfur af laginu innihéldu allar þetta fallega, ljúfa undirspil sem mér fannst hreinlega ekki virka við röddina mína.
Á einni æfingunni fyrir tónleikana kom Hjalti Jón með lausnina, bassa útsetning yrði það. Ég er svo hoppandi kát með þessa útsetningu að ég gæti vart verið sáttari.

3. Þegar sólin rís - frumsamið og frumflutt



Það er flókið að hætta saman eftir rúm 5 ár, sérstaklega þegar maður vill það helst ekki. Það er líka erfitt að vera einn, læra allt upp á nýtt, reyna að vera vinir.... og oftast vildi ég bara gleyma því að þetta væri staðan, það var einhvernveginn svo miklu auðveldara að halda bara áfram í sama farinu.
Já, krakkar mínir, loksins var ég "heartbroken" aftur - í fyrsta sinn í 6 ár og úr varð fyrsta lagið sem samið hefði verið í 7 ár.
Eins og flest önnur lög var þetta samið eina andvökunótt þegar ég hefði þurft að vera löngu sofnuð en hugurinn hætti bara ekki að setja þetta saman. Á endanum greip ég símann minn og dagbókina - druslaði þessu niður og raulaði inn á símann í þeim tilgangi einum saman að fá frið til að sofna. Fyndið.
Hljómarnir komu síðastir og reyndar kláraði ég ekki alveg fyrr en í hléinu á þessum tónleikum. Þetta var fyrsta lag eftir hlé.
Ég svitna gífurlega í höndunum þegar ég verð stressuð. Það aftraði mér ekkert í söngnum - eða lítið allavega. Það er verra með gítarinn. Hef verið að reyna að taka hann meira með mér þegar ég kem fram, koma mér út fyrir þægindarammann í þeirri von að þetta jafni sig... eða ég verði gífurlega klár að spila þrátt fyrir sveittar hendur.
Þetta er sennilega það einlægasta sem þið fáið af þessum tónleikum - tilfinningarnar og hjartslátturinn verður ekki mikið meira ekta hjá mér.

4. Titanium



Ég er með píanóspils-blæti. Það getur orðið svolítið mikið af því góða en tengist sennilega því hvað ég vildi óska þess að ég hefði verið duglegri að rækta hæfileika mína á píanó. En það gerði ég ekki - ég vildi verða gítarleikari eins og fyrirmyndirnar í fjölskyldunni.
Björn er klár, ég er rosalega fegin að hann nennti þessum tónleikum með mér, eins og reyndar öll þessi frábæra hljómsveit. Ég hugsa reyndar að tónleikarnir hefðu mögulega ekki orðið án Katrínar, því ekki er hún bara hæfileikarík og klár, heldur hugsaði hún dálítið fyrir mig í kringum þá - ég hefði sennilega gleymt höfðinu á mér ef það hefði ekki verið fast á mér.


5. Love Hurts



Ó, já... þetta lag hefur verið eitt af mínum uppáhalds í mörg ár. Þetta hefur eitthvað að gera með aumingjas niðurbrotna berskjaldaða rokkarann sem á svo erfitt. Hann er sennilega með dökkt úfið hár líka - þið skiljið hvert ég er að fara með þetta. Þetta er í sömu tóntegund og hjá The Nazareth - er það vandræðalegt?


Ég elskaði þetta kvöld - þetta er sennilega eitt það skemmtilegasta sem ég hef á ævi minni gert. Reyndar ekki bara eitt það skemmtilegasta, heldur líka það sem hefur gefið mér hvað mest. 
Þrátt fyrir að ég tali mikið þegar ég er stressuð, segi of oft brandara sem eru ekki fyndnir og eigi það til að missa mál - og setningafræði kunnáttu þá kemur minn karakter hvergi betur fram. Vandræðalega, símalandi ég. Ég kann ágætlega við hana. 

Og það sem var best.... var að sjá bros á andlitum áhorfendanna. Sumir eru nefnilega til í að hlæja að vandræðalegheitum og lélegum bröndurum. Svoleiðis fólk er í miklu uppáhaldi hjá mér. 


sunnudagur, 23. mars 2014

Fimm uppáhalds bloggin

Ég verð að viðurkenna að ég gef mér alltof sjaldan tíma til að lesa blogg, eins og mér finnst það skemmtilegt. Oftar verður það niðurstaðan að hanga á pinterest og skoða alls konar - rata þaðan inn á hitt og þetta blogg - og leggja þau ekki á minnið.
Til dæmis skoða ég mjög oft erlend skemmtileg matarblogg en gleymi um leið hvað þau hétu. 

Alltof þegar ég rekst á áhugavert blogg sem er með facebook-síðu, þá smelli ég like-i á hana í þeirri von að fá upplýsingar í News feedið mitt sem leiða mig aftur þangað. Afleiðingar af því er fjöldinn allur af tilkynningum á News feedinu, sem ég smelli stundum á til frekari lesningar.

Það er því erfitt að velja 5 uppáhalds, en þessi fimm koma sterklega til greina:



Matur, bjór og viskí. 
Stundum uppskriftir frá mér - þegar ég er dugleg.


Matur með persónulegum sögum inn á milli.



Allskonar um allskonar. 
Fjórir bloggarar. 
Stíll, kökur, heimili, DIY, tíska... 


Hreyfing, hollusta, uppskriftir og pepp.
Hollt að lesa þegar maður heldur að maður  a) geti ekki eitthvað, b) eigi nógu góða afsökun, c) eigi einn við massífa leti að stríða.



10 ólíkir bloggarar.
Ég les helst: Karen Lind, Reykjavík fashion Journal, Svart á hvítu og Helga Ómars.


Sunnudagar eru frábærir í að sveima um á netinu með tebolla eeeeða Pepsi max.

Gleðilegan sunnudag!




fimmtudagur, 20. mars 2014

Að borga það áfram

Ég fékk Google Translate til að þýða fyrir mig "Pay it forward". Besta og eina tillagan var "að borga það áfram".  Þessi þýðing skiptir í raun engu máli, var eingöngu léleg tilraun til að finna semi-sniðugt nafn á þessa færslu, sem að sjálfsögðu snýst um góðverk.

Það er ekki bara hollt fyrir sálina öðru hverju að gefa eitthvað af sér umfram það sem ætlast er til af manni, heldur eru ótrúlegustu hlutir innan heimilisins sem maður álítur rusl en gætu hjálpað einhversstaðar. Mín góðverk þessa vikuna munu felast í nákvæmlega þeirri staðreynd. Í fyrsta lagi ætla ég að gefa DVD spilara og gamalli myndavél nýtt heimili. Það er starfsemi út um allan bæ sem vinnur með börnum, unglinum, heimilislausum og veikum sem geta nýtt hluti eins og DVD spilara. Ég hvet ykkur til að leita eftir slíkum stöðum í stað þess að henda hlutum sem eru í lagi, þó meðalmaðurinn myndi ekki kaupa þá á Bland. 
Í öðru lagi er það blessað lesefnið. Ég geng út frá því að mörg ykkar hafið tekið eftir því við heimsóknir á sjúkrastofnunum hversu ömurlegt lesefni er oft að finna þar. Ef lesefnið er eitthvað er það oftar en ekki 5-6 ára gamalt. Hvernig væri að taka til í blaðahillunni og færa einhverri slíkri stofnun nokkur eintök af Vikunni, Séð og heyrt, Elle, Alt for damerne eða hvað það er sem þið eigið til. Ég hef valið mér einn slíkan stað til að fara með mín blöð, sjúkrastofnun þar sem fólk dvelst vikum og mánuðum saman. Þá er nauðsynlegt að sjá eitthvað nýtt við og við.  Að sjálfsögðu eru bækur ekki verri í þessu samhengi. 

Hér að neðan má finna nokkrar hugmyndir af því hvernig við getum einfaldað hvort öðru lífið. Gert góðverk eða einfaldlega glatt. Hugmyndirnar eru misstórar en allir ættu að finna eitthvað sem þeir ráða við. 
  1. Opna hurðina fyrir einhverjum.
  2. Kaupa kaffi handa ókunnugum sem stendur í kaffiröðinni (er það kannski krípí á Íslandi?)
  3. Gefa bækur/tímarit á sjúkrastofnanir, leikskóla, aðsetur fyrir heimilislausa eða til einhverra sem þú veist að gæti nýtt það.
  4. Bjóða fram vinnu, aðstoð eða sérþekkingu þína ókeypis til einhvers sem þarf á því að halda.
  5. Gefa ókunnugum á leið í strætó eitt stykki strætómiða.
  6. Svo er að sjálfsögðu hægt að halda Tombólu og safna fyrir góðu málefni, en mér sýnist svosem engin vöntun á því í Vesturbænum.
  7. Taktu extra vel á móti nýja vinnufélaganum sem er enn svolítið óöruggur. Til dæmis getur þú boðið honum að setjast hjá þér í hádeginu eða koma með þér þangað sem þú ferð. Leiddu hann inn í samræður með því að beina spurningum öðru hverju til hans í hópsamræðum.
  8. Gefðu blóð. Hér á heimasíðu Blóðbankans getur þú séð borða sem sýnir hvernig staðan er á hverjum blóðflokki. 
  9. Farðu í gegnum fataskápinn og grisjaðu. Þau föt sem þú ert hætt að nota má gefa öðrum sem þurfa á þeim að halda, eða gefa þau til góðgerðarmála. Sjálf nýti ég rauða kross kassana sem finna má út um allt land. Það er líka alltaf einhver að auglýsa eftir fötum á barnalandi ef maður vill fara þá leið.
  10. Láttu vita ef þú ert ánægð/ur. Til dæmis ef þú ert sérstaklega ánægður með einhvern veitingastað, segðu frá því. Nóg er nú til af miðlum, þú getur gefið review á TripAdvisor ef það á við, sagt frá á Facebooksíðu þinni eða fyrirtækisins, Twitter, Instagram, bloggi eða jafnvel skilið eftir falleg orð á servíettunni á staðnum.
  11. Vertu frábær og hleyptu fram fyrir þig ef einhver stendur með fáa hluti fyrir aftan þig í matvöruverslun. Ég elska þegar einhver gerir þetta fyrir mig!
  12. Deildu jákvæðum fréttum og sögum.
  13. Keyptu tombólumiða, miða á styrktartónleika, nælu, penna eða hvað sem býðst, svo lengi sem málefnið sem safna á fyrir höfðar til þín.
  14. Taktu þig til og fylltu prentarann í vinnunni af blöðum þegar þú hefur notað hann, eða settu nýja klósettrúllu á haldarann... svona aðeins til að auðvelda næstu einstaklingum í röðinni lífið.
  15. Farðu og gramsaðu aðeins í Rauða Kross búðinni eða Hjálpræðishernum. Ótrúlegt hvað hægt er að finna þar á fínu verði... og styrkja í leiðinni gott málefni.
  16. Komdu vini eða fjölskyldu á óvart með að færa honum uppáhalds máltíðina hans þegar hann á síst von á. Þetta getur að sjálfsögðu líka verið nammi eða hvað sem er.
  17. Færðu veikum vini eitthvað sem gleður hann. Hint: Nammi virkar oft.
  18. Vertu skemmtilegri ökumaður en margur annar. Hleyptu fólki inn á akreinina þína þegar þú sérð það stefnir þangað. Hjálpaðu mér svo að koma upp tannhjólareglu á Íslandi þegar umferðin er mikil. Þá verðum við allavega tvö/tvær í þessu.
  19. Vertu til staðar og hlustaðu. Stundum á fólk vandamál og viðrar þau við þig. Hjálpaðu vini þínum að leysa vandann... eða ekki, ef allt sem hann vill gera er pústa.
  20. Áttu klink? Smelltu nokkrum tíköllum í stöðumæli sem þú sérð að er útrunninn eða að renna út. 
  21. Ef þú nýtir ekki allan tímann í stöðumæli, gefðu þá miðann þinn áfram til einhvers sem þú sérð að ætlar sér að greiða þegar þú ert að fara.
  22. Faðmaðu þá sem þér þykir vænt um. Ekki verra að segja eitthvað fallegt líka.
  23. Komdu með veislu- eða kökuafganga í vinnuna - það gleður alltaf. Það er heldur ekki bannað að baka sérstaklega fyrir vinnuna ef maður vill. 
  24. Góð bók má berast lengra. Ef þú átt góða bók sem þú hefur lokið við að lesa, gefðu hana áfram til vinar sem þú heldur að njóti hennar.
  25. Skokkaðu út og týndu smá rusl. Ég hef hugsað um þetta milljón sinnum síðan um áramót - en hef ekki komið mér í þetta ennþá.
  26. Sendu bréf eða litla gjöf - jafnvel bara email. Almennt er fólk ekki duglegt við þetta í dag. Það eitt og sér er leiðinlegt en gerir það líka að verkum að hvert skipti verður mjög einstakt. 
  27. Hjálpum ferðamönnunum. Bjóðumst til að taka af þeim myndir ef við sjáum þá reyna við milljónasta selfie-ið í ferðinni. Reynum líka að benda þeim rétta leið þó við skiljum ekki alveg kortið þeirra.... og mælum með því sem er gott og gaman.
  28. Smellum smá mat fyrir dýrin í körfuna okkar og gefum til góðgerðarfélaga sem að þeim snúa, t.d. Kattholts og Dýrahjálpar. Og ekki gleyma fuglunum á veturna.
  29. Hrósum þeim sem okkur finnst eiga það skilið. Íslendingar eru aldrei hvattir of mikið til þess. 
  30. Láttu í þér heyra. Hjálpaðu þeim málstað sem þér finnst eiga það skilið og notaðu röddina. Segðu frá og verðu málstaðinn.
  31. Taktu þér tíma til að kenna áhugasömum eitthvað sem þú kannt. Til dæmis ef þú kannt góðan spilagaldur hefur verið vöntun á slíkum síðustu ár. 
  32. Biddu þann sem skuldar þér pening að leggja frekar inn á gott málefni í stað þess að borga það til baka.
  33. Brostu til kassastarfsmannsins. Það eitt og sér gerir mikið - og þeir lenda sjaldnar í því en maður myndi halda.
  34. Ef þú skreppur á Subway, pantaðu þá stóran þó þú borðir lítinn og láttu pakka honum í sitthvorn pappírinn. Færðu svo einhverjum svöngum hinn helminginn. Það má oft finna nokkra svanga á Austurvelli ef þig vantar hugmyndir.
  35. Næst þegar þú kemur heim frá útlöndum, komdu þá klinkinu þínu vel fyrir hjá heimamanni áður en þú ferð. Hann kemur mjög líklega til með að nota það... töluvert fyrr heldur en þú.
  36. Taktu sjálfboðaliðastarf í smá stund. 
  37. Leyfðu fólki stundum að njóta vafans. Stundum er óþarfi að taka málin lengra.
  38. Skelltu þér á Crowdfunding síðu eins og Indiegogo eða Karolinafund, taktu góða stund í að skoða áhugaverð verkefni og styrktu það/þau sem vekja áhuga.
  39. Ef þú færð klink til baka úr sjálfsala, skildu það eftir og gerðu þann sem kemur á eftir þér hissa og glaðan.
  40. Settu af stað söfnunarátak fyrir gott málefni. Hér er engin ein uppskrift, sjáum bara hvað hægt var að gera með einni bjóráskorun og facebook. 

Fyrir áhugasama mæli ég með að smella á like við síðu ýmissa fyrirtækja og aðila sem vinna með fólki í erfiðleikum. Þar má oft finna upplýsingar um hvað vantar hverju sinni hvort sem um er að ræða gallabuxur, mat, jólagjafir eða raftæki. Hér eru nokkur:

Vinakot - úrræði ætluð börnum á aldrinum 12-18 ára sem glíma við fjölþættan hegðunarvanda.
Vinir Dagsetursins - Staður fyrir heimilislausa og fólk í vímuefnavanda yfir daginn.

Og til að fá hvatningu góðverkin má like-a þessa síðu.



Það er svo auðvelt að létta lífið smá. 
Gefum af okkur... og með okkur.


miðvikudagur, 19. mars 2014

Uppáhalds barnabókin (færsla fyrir bugaða móður austur á landi)

Ég elska að lesa. Ég hef alltaf elskað að lesa. Ég les samt rosalega lítið og hef alltaf gert. Ástæðan er einföld, á klukkutíma næ ég að lesa að meðaltali 19-20 blaðsíður í hinni týpísku kiljustærð.... og já, á íslensku. 
Þar sem ég er líka óþolinmóð að eðlisfari (sérstaklega þegar kemur að afköstum mínum) næ ég sjaldan þeim slaka sem þarf til að njóta þess að sitja og lesa. Oft tók ég þó ákvörðun á unglingsárum að lesa ALLT dagblaðið (eða moggann), hverja einustu grein... sem er frekar fáránleg hugmynd þar sem helmingurinn höfðar engan vegin til manns. Það tókst heldur aldrei.
Í dag er ég byrjuð á þremur bókum og vinn mig að því að klára þær korter í svefn á kvöldin. 

Þegar ég var yngri voru ákveðnar bækur sem aldrei mátti lesa fyrir mig, allavega ekki fyrir svefninn. Ég kunni samt báðar sögurnar utan af en það voru atriði og myndir í bókunum sem hræddu mig. Þetta átti einkum við um tvær bækur, Skilaboðaskjóðuna og Búkollu.
Í Skilaboðaskjóðunni er ákveðin blaðsíða sem sýnir óhugnarlegar fætur Nátttröllsins í skóginum. Þessi mynd gat þýtt andvöku"nætur".


Þetta var aðeins flóknara með Búkollu. Þó ég skildi söguna og áttaði mig á aðstæðunum í henni bendist hræðsla mín að hetjunni, Búkollu. Þessi hræðsla gekk svo langt að á næturnar þegar ég vaknaði til að fá mér honey nut cheerios (ég veit - óþolandi óvani) og mamma bað mig að redda mér sjálf gat ég engan veginn stigið inn í ógnvænlegt myrkrið í eldhúsinu. Ástæðan? Jú, það gæti verið Búkolla undir borðinu.


Ég man ekki til þess að á þessum árum hafi ég átt uppáhaldsbók. Þegar ég var hins vegar 9 ára gáfu amma og afi í Sæbergi mér bókina "Litlu greyin" eftir Guðrúnu Helgadóttur. Það fannst mér frábær bók og ég sagði öllum frá henni sem vildu eitthvað um hana heyra. Ég man ekki hvort það var síðan amma sjálf eða Gugga, þáverandi mágkona mín, sem las fyrir mig bókina. En hvort heldur sem var grunar mig að mér hafi ekki þótt hún verri fyrir vikið... enda best að hlæja þegar einhver hlær með manni. 


Ég man lítið eftir bókinni að öðru leyti en því hvað mér fannst hún fyndin. Yngsta systkinið í sögunni fannst mér samt fyndnast, enda gert í því að láta það bulla í sögunni. Í aðalatriðum fjallar bókin um fjölskyldu, mamman og pabbinn eru að skilja og mamman fer með börnin upp í bústað til að finna sjálfa sig. Strákurinn í sögunni finnur í einum af sínum gönutúrum bústað þar sem fangi hefur komið sér vel fyrir - og í endanum á sögunni (spoiler) er fanganum boðið í mat. Amma kemur í heimsókn og týnist - en á eftir henni kemur síðan pabbinn að hjálpa til við leitina. 

Ég er ekki frá því að ég lesi hana aftur einhvern daginn - samkvæmt fortíðar-mér er hún allavega þvílíkt skemmtileg og rituð niður sem uppáhaldsbókin í ófáar vinabækurnar.


sunnudagur, 2. mars 2014

Janúar áskorun

Nú get ég loksins sagt, kannski ekki með stolti, að ég er búin með janúaráskorunina mína.
Ég tók 30 daga áskorun og framkvæmdi hana á 60 dögum.

Mér til varna vil ég meina að svona hvíldardagar í áskorunum séu ekki af hiu góða þar sem ég lenti í því að gleyma mér í 3 daga einu sinni þegar ég átti að taka hvíldardag.

Ég tók þá ákvörðun 1. febrúar um að klára áskorununa þrátt fyrir að vera fallin á tíma.



Niðurstaðan er því 2.045 Crunch kviðæfingar á 60 dögum.

Ég náði heldur ekki febrúar blogg áskoruninni minni á réttum tíma. En ég stefni á að klára hana á minna en 60 dögum. Mögulega verð ég farin að geta haldið mig á réttum tíma í svona áskorunum í lok árs :)

Í janúar setti ég líka niður vikumarkmið - sem gengu töluvert betur en þetta.

Vika 1- Skipuleggja 5 máltíðir fyrir næstu viku. 
Gekk vel, sjá blogg um þetta hér
Ég hef haldið í þetta og skipulegg alltaf komandi viku um helgar. Það hefur svo sannarlega létt mér lífið.

Vika 2- Semja eitt ljóð og skrifa eitt blogg
Stóðst.

Vika 3 - Æfa söng tvisvar sinnum yfir vikuna, 30 mín í senn.
Stóðst.

Vika 4 - Drekka amk. 1 líter af vatni á dag.
Stóðst. Ég er hræðileg með þetta og drekk alltof lítið yfir höfuð. 

Vika 5 - Senda tveimur vinkonum glaðning.
Stóðst.


Draumasvefnherbergið

10 atriði til að uppfylla kröfur um draumasvefnherbergi:

1. Aldrei ryk (en ég þurfi samt ekki alltaf að eltast við að fjarlægja ryk)
2. Alltaf passlegt hitastig
3. Alltaf tandurhrein rúmföt með útilykt (en ég þyrfti ekki að skipta um á hverjum degi)
4. Inngang beint á sér baðherbergi með baðkeri
5. Fataherbergi inn af svefnherberginu
6. Fallega rúmgrind
7. Góða dýnu svo maður degi ekki í bakinu
8. Pláss til að hvorugur aðilinn þurfi að sofa upp við vegg.
9. Tvö náttborð með sitthvorri vekjaraklukkunni
10. Fallegar myrkragardínur






Ég er að segja það, maður á ekki að lista upp svona draumahlutum.... nægjusemin hverfur út um gluggann þegar maður byrjar :)