miðvikudagur, 8. janúar 2014

Ellefti dagur jóla, og smá sá þrettándi...

Ég fæ óneitanlega dálitla útþrá þegar ég horfi á eftir tveimur af vinkonum mínum skella sér erlendis í þriggja mánaðar ferðir, önnur til að ferðast um eins mörg lönd og hún getur á þeim tíma, hin til að vinna tímabundið í öðru landi. Ég fæ líka útþrá að hugsa til þeirrar þriðju sem er á leið í sólarfrí í næstu viku.
Útþráin gerir þó sitt gagn að því leitinu til að ég man að halda vel utan um aurana mína.

Á laugardaginn var góður dagur og ellefti dagur jóla. Ég byrjaði daginn í fyrsta sinn í rúma 2 mánuði á hafragraut og það með kanil og rúsínum. Til að passa þó að halda upp á jólin fékk ég einn lakkrístopp og eina Johan Bülow lakkríssmáköku í eftirrétt. Ómögulegt að vaða alveg yfir í hollustuna fyrir þrettándann.





Það er alltaf huggulegt að horfa útum gluggann á Fálkagötunni þegar sést í örlitla birtu. 

Um kvöldið skellti ég mér síðan í tímamótapartý hjá vinkonu minni sem bæði átti merkisafmæli þann dag og var að flytja tímabundið erlendis daginn eftir. Þá skvísar maður sig upp og tekur fram eitthvað sem manni þykir fallegt. 

Ég er ekki mikil make-up kona, þ.e.a.s. ég á ekki mikið af snyrtivörum, tími ekki að eyða miklum pening í þær og er föst í sama farinu. Þessi hlutir eru í hvers-dagslegu snyrtibuddunni minni og út fyrir hana fer ég sjaldan - nema þá helst í leit að varalit. Meik, sólarpúður, maskari, brúnn augnblýantur (svartur ef það er kvöld), augnhárabrettir og smá augnskuggastifti. That's all I need.


Svo smellti maður á sig Loverdose ilmnum frá Diesel og einum fallegum Gosh varalit. 



Ég á dálítið af fallegum skartgripum, aðallega íslenskri hönnun... en dagsdaglega verð ég að hafa tekið þá til daginn áður ef ég ætla að bera þá því iðulega vaknar Sigurlaug Jónsdóttir alltof seint og hefur engan tíma til að velta slíku fyrir sér. Þessi hringur er nefndur Mastershringurinn af nokkrum vinkonum mínum á Bifröst þar sem við höfum tekið okkur saman og gefið hvor annarri svona hring þegar við útskrifumst með mastersgráðu. Hann er ótrúlega stór og flottur, hannaður af Inga í Sign.


Þetta fallega hálsmen fékk ég í gjöf frá Siggu tengdamömmu minni í sumar. Það myndar semsagt nafnið mitt (sést kannski ekki nægilega vel á myndinni þar sem menið snýr öfugt) og er skemmtilegt twist á hinu hefðbundnu nafnahálsmeni sem Carrie Bradshaw gerði svo geysivinsælt í Sex and the city. Menið er hannað af Krista design.



Þessar gullfallegu sokkabuxur frá Kron by Kronkron fékk ég í jólagjöf frá Sindra. Þessa fallegu skó frá Kron by Kronkron fékk ég hins vegar í verðlaun frá sjálfri mér eftir að hafa náð settu markmiði fyrir rúmum tveimur árum síðan. Elska þá ekkert síður í dag.

Á þrettándanum kvaddi ég jólin - sálin vildi meiri jól en líkaminn var kominn með meira en nóg. 






Engin ummæli:

Skrifa ummæli