mánudagur, 28. apríl 2014

Í smáatriðum: 26. apríl 2014

10:00 - Vekjaraklukkan hringir. Ég man aldrei þess vegna hvers vegna það er verið að vekja mig. Er ekki sammála því að það skipti máli samt - þannig að ég stilli klukkuna aftur, kúri og skrópa í fyrsta tímanum í Workshopinu sem ég átti að mæta á 10:45. 
11: 15 - Vakna smá - en snooza.
11:30 - Vakna alveg en kúri smá áfram. Kveiki á símanum og skelli mér á facebook. 
11:40 - Fer fram úr, klæði mig, tannbursta, teygja í hárið. Næsti tími byrjar kl. 12.... en ég á ekkert í morgunmat.
11:50 - Fer út heiman frá mér, niður stigann og út í bíl. Reimin sem ég er ekki búin að láta skipta um í bílnum mínum býr til hávaða... eins og alltaf þegar ég starta honum. 
12:00 - Kaupi banana og hámark í 10-11. Borða það á leiðinni í bílnum.
12:15 - Mætt í Zumba í Polesport. Eftir ca. 10 skref er snúðurinn hruninn úr hárinu á mér. Ég geri mjög bjánalega tilraun til að hoppa og skoppa en reyna að laga snúðinn til í leiðinni. Það gengur... en heldur hægt þó.
12:55 - Zumba tími klárast og ég þurrka svitann í bolinn minn, sem verður sífellt geðslegri með deginum.
13:00 - Byrja í Flex tíma í Pole Sport. Bakfettur, splitt, spíkat og double æfingar, eins og til dæmis hin stórskemmtilega flugvél sem allir elska.
14:10 - Klára Flex tíma. Geggjað veður. Labba í Nóatún og kaupi mér salatbar (túnfiskur, egg, smá pasta, kotasæla, paprika, gulrætur, nokkrir fetakubbar og nokkrir brauðtengingar). Borða það á labbinu upp í Pole Sport með Freyju sem drepur sig næstum því þegar hún ætlar að hlaupa yfir á rauðu gangbrautarljósi (þið skilið boðskapinn hér).
14:30 - Fyrsti ballettími á ævi minni. Gengur vel til að byrja með þó ég geti ekki endurtekið eitt einasta heiti sem kennarinn sagði okkur um æfingarnar. Staða 1 og staða 5 mikið æfð, hopp, snúningar og annað tilheyrandi - auk þess að æfa spott, sem var örlítið erfiðara en yfir sal sem er fullur af súlum.
15:30 - Ballettinu lýkur og Handstand tækni byrjar. Vinsamlegast beðin um að gleyma öllu um þá tækni sem ég lærði í fimleikum um handstöður og byrja að læra upp á nýtt, með aðferð sem notuð er í Parkour. Það gekk ekkert svo vel. Dreif ekki upp. Held samt áfram að reyna heima þar til þetta tekst.
16:00 - Sting af úr handstöðutíma í fýlu. Djók. Sting samt af.
16:15 - Sturta, syng í sturtunni. Black Roses og I Can't Help Falling in Love with You. Vel mér kjól og skelli mér í hann.
16: 50 - Ármann mætir og við byrjum að æfa fyrir brúðkaup sem við erum að fara að spila í kl. 19. Þú og I Can't Help Falling in Love with You æft í allskonar tóntegundum. 
18:00 - Klæði mig upp á nýtt þar sem það var blettur í kjólnum sem ég valdi, mála mig og borða smá melónu. 
18:50 - Mætt fyrir utan safnaðarheimili í Kópavogi. 
19:00 - Tengjum græjurnar og spilum lögin. Gekk vel. Allir sáttir. 
19:20 - Ármann skutlar mér til Aldísar, sem ætlar að borða með mér. 
20:00 - Við Aldís mætum í kjólum á Hamborgarafabrikkuna og pöntum okkur Morthens, einn með venjulegum frönskum og einn með sætkartöflufrönskum. Tvær bernaise sósur á kantinn. Þjónninn okkar var hress unglingsstrákur sem bauð okkur "eitthvað sætt fyrir sætar dömur" þegar hann kom að tékka á eftirréttinum. Það áttu 2 afmæli og völdu lög, einn 12 ára strákur og einn útlendingur. Útlendingurinn valdi DJ MuscleBoy... ég varð fyrir smá vonbriðgum með hann. 
21:00 - Café Paris að hitta tvær aðrar dömur. Aðallega í þeim tilgangi að heyra dónasögur - en skelltum á okkur sitthvoru hvítvínsglasinu þó. Vín mánaðarins, sætt, fínt.. en man ekkert hvað það heitir.
22:30 - Nóg komið af dónasögum! Aldís skutlar mér heim, ég búin að tékka á helstu stuðpíum Íslands en enginn á leiðinni út svo ég fer bara heim. 
22:45 - Kem mér fyrir með rest af ostapoppi, bita af páskaeggi og downloada Hart of Dixie (sem eru orðið ansi þunnir þættir). Þegar ég er að byrja að horfa kemur Sindri heim úr dómarastörfum í bruggkeppni Fágun, sem betur fer með aðeins betra súkkulaðinammi en til var hér (ef ég hefði stigið á vigtina í gærmorgun en ekki í morgun hefði þetta aldrei átt sér stað). Hann hlammar sér á sófann og horfir á eitthvað annað.
23:30 - Skoða aðeins Netflix sem er að breyta lífi mínu. Horfi á fyrsta þáttinn í fyrstu seríunni af Mad man. Missi nokkrum sinnum andlitið yfir stöðu kvenna  og ritvélum sem menn náðu að skapa þannig að meira að segja konur ættu auðvelt með að nota þær. Þrælgóðir þættir. Hef aldrei horft almennilega á þá, svo nú er komið að því. 
00:30 - Ákveð að skella mér í rúmið. Sindri gerir það líka. Á meðan ég bíð eftir að hann klári inn á baði les ég einn kafla í Hemma Gunn - Sonur þjóðar, sem ég er alveg að verða búin með. 
01:00 - Ljósin slökkt - og sennilega tók það mig svona 6 mínútur að sofna. 


sunnudagur, 27. apríl 2014

Fimm brúðkaupslög

Ég hef aldrei haft sérstaklega mótaða hugmynd um hvernig ég myndi vilja hafa mitt eigið brúðkaup en eitt af þeim störfum sem heillaði mig þegar ég var yngri var “wedding planner”. Eftir á að hyggja hugsa ég að það hafi þó ekkert haft með brúðkaupin sem slík að gera heldur almenna viðburðarstjórnun og skipulagsfíkn.
Seinna áttaði ég mig líka á því að markaðurinn fyrir þetta starf var ekki til á Íslandi.

Eftir því sem ég eldist og fleiri í kringum mig fara að velta fyrir sér eigin brúðkaupsdegi, hef ég einnig velt þessu fyrir mér. Við Sindri höfum líka oft látið hugann reika um hvað væri skemmtilegt að gera og hvað megi gjörsamlega missa sín okkar vegna. Sem betur fer erum við frekar samstíga í því.

Fyrir mér hefur reyndar eitt verið algjört aðalatriði og reyndar eini þátturinn sem ég hef byggt upp óskir í kringum. Það mun jú vera tónlistin. Til að byrja með eru það tvö lög sem ég myndi vilja að pabbi minn myndi flytja. Það fyrra er “Ég er komin heim” en hann hefur endað flest böll sem hann hefur spilað á með því lagi frá því á áttunda áratugnum.



Seinna lagið er Þú sem hann samdi til okkar systkinanna (aðallega strákanna held ég) fyrir mörgum árum og kom út á plötunni Frá báðum hliðum með Nefndinni.  Ástæðan er auðskiljanleg:

Svo stutt er síðan varstu barnið blítt
Til baka leitar stundum hugur minn
Er þú vafðir örmum þínum undurþýtt
þétt um háls og lagðir kinn við kinn
Hvíslaðir svo ofurblítt í eyra mér
hvað þér finndist ósköp vænt um mig
Labbaðir svo burtu til að leika þér
Líf mitt snérist aðeins kringum þig.
Þú varst sólargeisli lífs míns, ljúfur, hlýr
Lokkandi og fallegt ævintýr.

  Mér finnst tíminn hafa tifað alltof ótt.
Örstutt síðan kúrðir þú hjá mér.
Nú ég horf’ á þig þú hefur vaxið fljótt
heillastjarna alltaf fylgi þér.
Hamingjuna finnir þú á þinni leið,
þú skalt rækta hlýju, von og ást.
Stundum þegar gatan virðist ekki greið
gakktu áfram, takmarkið mun nást.
Þó að höf og álfur heilli hjarta þitt,
hjá mér ertu alltaf barnið mitt.
Já, þú verður alltaf, alltaf  barnið mitt.

Þriðja lagið sem yrði að flytja væri lagið Viltu þá elska mig?, allavega ef ég væri að giftast Sindra (hehehe) en þetta er það sem kemst næst því að vera okkar lag. Ekki væri verra ef Bjartmar sjálfur myndi sjá um það.



ABBA-dísirnar yrðu að sjálfsögðu að leika sama leik og í brúðkaupi Hjördísar og mæta með Going to the chapel – það hlýtur bara að verða hefð.


Fimmta lagið myndi ég vilja tileinka Sindra (ef ég væri að giftast honum allavega). Ég fann það einhverntíma, hlustaði á það milljón sinnum… og hlusta enn á það. Textinn í því er frábær og á vel við.

Þó að útaf bregði, þú ert hjá mér enn
ég get verið meistari og kjáni í senn
þú gefur allt til bakaog svo miklu meira til
ó, hvílíkt frelsi að elska þig.



Síðan yrði að sjálfsögðu krafa um að aðrir færir fjölskyldumeðlimir og vinir kæmu fram – og helst Moses Hightower og Árstíðir líka (svona ef maður vissi ekkert hvað maður gæti gert við alla peningana sína).


Hvað varðar kjóla, útlit og annað þá veit ég ekki meir. Ég veit hvað ég vil ekki – og það er bara fjári góð byrjun, svona fyrst maður er ekki einu sinni með það á planinu að gifta sig á næstunni. Nema enginn annar nenni að halda partý.