miðvikudagur, 5. febrúar 2014

Ofurhetjukraftar

Spurt er: Ef þú gætir haft hvaða ofurhetjukrafta sem er, hvað myndir þú velja og hvernig myndir þú fyrst nýta þá?

Ég hef af og til verið að velta þessu fyrir mér í dag án þess að það bóli nokkuð á svari við þessari pælingu. Ákvarðanafælni spilar þar líka stóra rullu, hvað eitt myndir þú velja þér af allur heimurinn er undir?

Ég hugsaði um að lesa hugsanir, hugsaði um þann eiginleika að geta stjórnað sjón- og bragðhverfingum sem myndu gera það að verkum að maður borðaði sellerí en upplifði súkkulaði til dæmis. Ég spurði líka Sindra hvaða ofurhetjukrafta ég myndi mögulega vera með. Hann nefndi það að ég gæti gert mig svo litla að ég kæmist allt óséð.

Nú hef ég velt fyrir mér öllum þessum möguleikum, hvernig þeir gætu nýst mér og hvort þeir séu það sem ég myndi velja ef valið væri óendanlegt. Svarið er líklega nei.

Þar sem þetta er áskorun og ég hef sett mér markmið um að svara þessari spurningu í dag varð ég að minnka pressuna og hugsa út frá deginum í dag. Meira að segja þrengdi ég þetta enn meira, ég hugsa bara út frá kvöldinu í kvöld.

Staðan er þessi; vikudagarnir líða of hratt, ég þarf að klára fleiri verkefni en raunhæft er fyrir föstudaginn, kvöldið er planað í vinnu frá kl. 21-23, ég hef sofið max 6 klukkustundir á nóttu alla þessa vinnuviku og er satt best að segja dálítið lúin.
Hvers konar ofurhetjukrafta vil ég í þessum aðstæðum? 
Geta stoppað tímann.

Ég myndi stoppa tímann og leggja mig. Svo myndi ég vakna, setja upp nokkur plön, senda út nokkra tölvupósta, setja bjánaleg höfuðföt á alla sem yrðu á vegi mínum og kveikja síðan aftur á tímanum ferskari sem aldrei fyrr!

Hver veit nema ég geti stoppað tímann um helgina. Aldrei að segja aldrei...






Engin ummæli:

Skrifa ummæli