mánudagur, 28. janúar 2013

Fimm góðar uppskriftir

Stundum tek ég mig til og elda. Aðallega þegar Sindri er upptekinn samt. Ég er ekkert svo góð í því að elda án þess að fara NÁKVÆMLEGA eftir uppskriftinni, sérstaklega þar sem skynjun mín á krydd í mat virðist vera eitthvað undarleg stundum. Bragðið sem ég næ að þróa meðan maturinn er að eldast er ekkert endilega bragðið sem ég finn síðan þegar ég sest niður og borða hann. Þá hef ég komist að því að það að setja tvö góð krydd saman er ekki endilega uppskrift að góðu bragði. 
Ég er ekki alveg jafn léleg að baka og treysti mér töluvert betur til þess að leika mér með bakstursuppskriftir. Vegna þess hef ég stundum boðist til þess að setja inn uppskriftir á Matviss.com af bakstursárangrinum mínum. Hér fyrir neðan má finna þær 5 uppskriftir sem ég hef skrifað fyrir Matviss, fjórar þeirra eru bakstur en ein þeirra voðalega gott humarsalat.

1. Sumarkaka


Mesta uppáhaldið af þessum 5 uppskriftum, en ekki fengin úr mínum hugarheimi. Þetta er kaka sem Elsa amma mín í Sæbergi bakaði alltaf og óhætt að nefna "uppáhald barnabarnanna". Hún smakkast samt einhvernveginn alltaf betur í eldhúsinu í Sæbergi, en slær sérstaklega í gegn hjá börnum. Þá ber að nefna að mikilvægasta innihaldsefnið í uppskriftinni að mínu mati, er skrautsykurinn. Hann má ekki vanta eða skipta út fyrir eitthvað annað.

2. Surtsbrauð

Klárlega sú uppskrift sem ég er stoltust af, enda ekki hönnun einhvers annars... þó ég hafi fengið smá hjálp frá Sindra. Þetta er líka nýjasta uppskriftin af þessum fimm og mér til mikillar gleði á ég ennþá slatta í frystinum. Þetta var aðalatriðið í bóndadagsmorgunverði ársins.

3. Humarsalat og hvítlauksbrauð 


Þetta er klárlega uppáhaldssalatið mitt. Sindri kenndi mér að útbúa svona salat fyrir nokkrum árum síðan og þrátt fyrir að það sé ákaflega sumarlegt þykir mér alls ekki verra að fá það í janúar, rétt eftir jólin. Hvítlauksbrauðið þykir mér líka mjög gott og ég nota það við hin ýmsu tækifæri og nota brauðafganga úr frystinum til þess. Til dæmis ætla ég að útbúa svona með fiski í kvöld.

4. Belgískar vöfflur

Í síðustu viku bjó ég til belgískar vöfflur í morgunsárið. Þar sem ég átti ekki vöfflujárn fékk ég það bara lánað, bakaði úr öllu deiginu og frysti þær vöfflur sem ekki voru borðaðar. Þá er ekkert mál að taka þær úr frysti og skella í brauðrist. Tilvalið þegar það mæta gestir með litlum fyrirvara. Ég setti súkkulaði í deigið og reyndar rúsínur í hluta af því. Bar það síðan fram með ávöxtum, súkkulaði, hunangshnetum, sultu og sírópi. Dálítið heavy og engin nauðsyn að hafa þetta allt.

5. Dutch baby (German pancake)

Í byrjun janúar stakk ég uppá því við Sindra að einn morgun í viku myndi ég fara fyrr á fætur og útbúa handa okkur morgunmat. Hugmyndin kviknaði meðal annars vegna þess að mig langaði að hafa eitthvað skemmtilegt fyrir stafni þegar ég færi á fætur en var einnig liður í því að reyna að njóta þessa tíma sem ég er heima við, á meðan ég þarf þess. Ég byrjaði á að prufa að útbúa Dutch-baby eða German pancake en þessi máltíð gengur undir báðum þessum nöfnum í Bandaríkjunum. Ég ákvað að útbúa útgáfu með ferskum berjum, því þau toppa alltaf allt! Mjög áhugaverð og skemmtileg máltíð.... eina sem er nauðsynlegt að eiga er panna sem má fara í ofn, eða einhverskonar form sem getur komið í staðinn.

Þangað til næst!





sunnudagur, 20. janúar 2013

Bastkarfa fær nýtt líf

Ég verð að segja að ég stend mig ótrúlega vel í blogginu þessar fyrstu vikur ársins, en það getur svosem vel verið að það taki ekki að fagna þeim framförum alveg strax. Í framhaldi af síðasta bloggi þar sem ég málaði umbúðir til að nýta sem gjafaöskjur þá vil ég henda hér inn einu öðru dundi sem ég var að klára.
Við eigum eina bastkörfu hér á Fálkagötunni sem fylgdi Sindra og hann hefur nefnt það svo oft að henda henni því hún passi í fyrsta lagi ekki hér inn og sé ljót. Við höfum notað hana undir blöð sem við viljum eiga og ég hafði lengi verið að líta í kringum mig að fallegum blaðarekka eða fallegri blaðakörfu til að leysa þessa af hólmi. Einn daginn kviknaði hins vegar ljós, við áttum hvíta veggmálningu niðri í geymslu frá því í haust og ég skaust út og fjárfesti í einum pensli.

Ég fór tvær umferðir yfir körfuna og leyfði málningunni að þorna vel á milli (reyndar í rosalega marga daga í mínu tilfelli, en það er algjör óþarfi). Hér má sjá fyrir og eftir myndir af körfunni góðu, þess má geta að við nýttum tækifærið og tókum líka til í blaðabunkanum... enda mikilvægt að gera allt sem maður getur til að "eftir" myndirnar líti extra vel út :)


Fyrir - og full af drasli
Í málningarferlinu

Komin á sinn stað, með aðeins minna af drasli

Þetta er alveg ferlega sniðugt - sérstaklega ef þið eigið einhversstaðar afgangs veggmálningu. Annars er sniðugt að kaupa svona "prufudósir". Þær innihalda yfirleitt alveg nóg af málningu fyrir svona dund verkefni.

mánudagur, 14. janúar 2013

Gjafaöskjur



Ég rölti á Borgarbókasafnið í liðinni viku til að ná mér í hljóðbók. Sindri benti mér nefnilega á þann möguleika eftir að ég hafði tekið fýlukast hér heima og fundið allar mögulegar leiðir til að útskýra hvers vegna mér finndist flest í heiminum leiðinlegt. Hann tók því með mikilli ró og sagði mér að prófa að byrja alla morgna á göngutúr á meðan enn væri bjart. Sú hugmynd var að sjálfsögðu fyrst ómöguleg þar sem ég væri orðin þreytt á allri tónlist á ipodinum mínum og ég veit ekki hvað og hvað... þá benti hann mér á hljóðbækurnar. Já, stundum er gott að eiga góða og þolinmóða að.
Fyrir valinu varð Eat. Pray. Love. og þrátt fyrir að vera bara komin á kafla 16 af 119 þá elska ég þessa bók. Ég hef ekki séð myndina og ætla mér ekki að gera það fyrr en þessari hlustun er lokið, og ég hef sett mér þá reglu að hlusta bara á meðan ég er á hreyfingu... það lokkar mig til að hreyfa mig örlítið lengur í hvert skipti.
Á leiðinni út af safninu rakst ég á föndurbókahornið og kippti með mér heim tveimur bókum. Út frá hugmynd í annarri þeirra varð til hugmynd af því að útbúa gjafaöskjur úr kössum utan af hinum ýmsu hlutum. Allt sem þarf eru kassar, föndurmálning (ég notaði akryl) og stenslar (allavega fyrir þá sem eru ekki málningasnillingar).

Svo ég prófaði að taka þessa kassa...

  
Kassar utan af allkonar :)


Og málaða þá í mismunandi litum (eins margar umferðir og þarf, leyfði þeim að þorna á milli)...

Búið að mála


Kíkti síðan á internetið eftir myndum til að klippa í stensla og „stimplaði“ á kassana.
Krummi

Aðeins misheppnað blóm

Prinsessan og froskurinn

Sjaldséður hvítur hrafn...

...og annar á flugi :)



Ágætis nýting á kössum – og hinar ágætis gjafaumbúðir.

mánudagur, 7. janúar 2013

Áramótaveisla nr. 1



Það má með sanni segja að ég hafi farið inn í árið gerandi eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Við Sindri héldum í fyrsta sinn áramót heima hjá okkur. Kvöldið innihélt allt sem þurfti fyrir góð áramót, góða gesti, góðan mat, afruglara svo hægt væri að ná RÚV þar sem loftnetið er í ólagi og ekta kampavín. Við tókum ákvörðun um það standandi í Vínbúðinni að nýtt ár ætti skilið alvöru kampavín þar sem þess er óskað að það verði töluvert mikið betra en hið blessaða ár 2012.

Við (ásamt nánast helmingi borgarbúa) ákváðum að skreppa í Hagkaup á gamlársdag til að ná í það sem upp á vantaði. Ég hugsa að tíminn sem við eyddum í röð hafi verið jafn langur og sá sem fór í innkaup.Við náðum að kaupa smá skraut til að hafa á borðinu um kvöldið; gyllta skrautsteina, rauðar perlur með borða og innisprengjur (sem reyndar standa hér enn ónotaðar) :)

Gylltir skrautsteinar, innisprengjur og perluborði úr Hagkaup
 
Við ákváðum að nota síðan servíettur sem við fengum í aðventuglaðning frá Óðinsvé, en það er ólík mynd á öllum hliðum þeirra og ýmist snéru hreindýrarassar eða andlit að matargestum. Diskarnir voru stórir svartir keramikdiskar sem Sindri fann á útsölu í EGG einhverntíma og hnífapörin frá ömmu hans. Nýju fínu Ittalla glösin okkar, sem við fengum að hluta til í jólagjöf, voru síðan að sjálfsögðu á borðum.
Snilldar servíettur frá Danmörku

Hreindýrarassar

Hvítvínsglas, rauðvínsglas og vatnsglas

Matseðillinn var ekki af verri endanum:

Forréttur:
Heimagerð hreindýraliframousse á grófu brauði með salati og sultuðum kirsuberjum frá Selleberg á Fjóni.
Rauðvín: Jam jar 2009
Sá sem ekki borðar kjöt fékk ofnrétt úr barbapabba graskeri J

Aðalréttur:
Humar eldaður í ofni með hvítlauk og steinselju
Kúskús
Salat
Hvítvín: Gewurtztraminer frá Pfaffenheim

Veisluborð fyrir 7 tilbúið

Ákveðið var að sleppa eftirrétti (man ekkert af hverju) og leggja þeim mun meira í snarlið sem borðað var yfir og fram að Skaupi. Þar má telja upp grafna gæs sem við keyptum á bændamarkaði fyrir jólin, grafið ærkjöt frá Bjarteyjarsandi, heimareykta gæsabringu, danskan kúmenost og hollenskan Gouda. Þetta var síðan borið fram með grófu brauðu, kexi, birkisírópi úr Hallormsstað, heimagerðri íslenskri berjasultu og hunangi frá Selleberg. Nóa konfektið var að sjálfsögðu á sínum stað ásamt döðlunammi, heimagerðu lakkrískonfekti og unaðslega góða jólalakkrísnum frá Johan Bülow sem Sindri fékk í afmælisgjöf.


Útsýnið af öðrum svölunum


Á miðnætti var síðan gripið í glas af Veuve Clicquot og fagnað nýju ári! 2013 verður gott ár!

fimmtudagur, 3. janúar 2013

Sama gamla tuggan...

Þá hef ég kvatt árið 2012, ekki með miklum söknuði þó. Ég er bjartsýn á nýja árið og hef að sjálfsögðu sett mér áramótaheit.... ég strengdi þau þó ekki fyrr en rétt í þessu þar sem ég var of löt í fríinu fyrir austan til að taka nokkrar ákvarðanir.
Ég varð að sjálfsögðu líka að líta til þeirra markmiða sem ég setti mér fyrir árið 2012 og bíta í það súra epli að ég náði ENGU þeirra! Hins vegar neita ég að gefast upp og held í trúnna um það að með örlítið meiri excel æfingum takist mér að gera sjálfri mér grein fyrir hversu mikið það er sem ég þarf að leggja á mig til að ná þessum markmiðum í ár, til dæmis með að búta þau frekar niður í excel og nota niðurtalningakerfi á vikur ársins. ÞAÐ MÁ ALLTAF REYNA!

Það verður þó ekki sagt að sum áramótaheitin hafi ekki hvatt mig til athafna þó ég hafi ekki alveg náð þeim. Ég setti mér það markmið að lesa 5 bækur á árinu og náði að lesa 3. Það er 2,5 meira en árið 2011 (ef skólabækur eru ekki taldar með). Þannig kláraði ég skáldsöguna Good in bed (átti hálfa bókina eftir um síðustu áramót), las bók Evu Hauksdóttur Ekki lita út fyrir (sjálfshjálparbók með verkefnum ;)), bókina Ómunatíð - saga af geðveiki eftir Styrmi Gunnarsson sem fjallar um rúmlega 40 ára baráttu konu hans við geðhvarfasýki og er hálfnuð með skáldsöguna Heimsins heimskasti pabbi eftir Mikael Torfa. Þetta áramótaheit virkaði því hvetjandi á mig þó því hafi ekki verið náð.

Hvað varðar þau 6 lög og 7 ljóð sem ég ætlaði að semja á árinu varð árangurinn 0! Ég hef því ákveðið að flytja lagamarkmiðið áfram óbreytt en hækka fjölda ljóða á milli ára (því 7 ljóð er ekki neitt - kannski ekki nógu háleitt markmið bara... ég ætla að trúa því að þess vegna hafi það klikkað).

Hvað varðar kílóin þá var ég 400 gr. léttari 31. des 2012 heldur en ég var þann 2. janúar. Það er ekki merkilegt... en miðað við öll skrefin sem fóru í ranga átt hvað þetta varðar í vor og sumar er ég fegin að hafa allavega ekki verið þyngri en ég var í janúar.

Áramótaheit ársins 2013, sett upp í excel og með mjög mikilli sundurliðun!

Svo við skulum bara enda þetta á, gangi mér vel í þetta sinn! 
Þetta er í þriðja sinn sem ég strengi áramótaheit og allt er þegar þrennt er!