fimmtudagur, 4. október 2012

Meistaramánuður... ?

Af því ég er alltaf svo gífurlega fljót að fatta þá áttaði ég mig á því þann 1. október að þessi svokallaði meistaramánuður væri að hefjast þegar Facebookið mitt fylltist af allskonar statusum og myndum af plönum fólks fyrir mánuðinn. Ég var að sjálfsögðu svolitla stund að velta fyrir mér hversu tilgangslaust það væri fyrir mig að taka þátt í einhverju svona, ég set mér nú þegar vikuleg markmið og áramótaheit... og stenst yfirleitt ekki neitt af þessu. Mér fannst þetta þess vegna bara eitt enn tækifærið til að sanna fyrir sjálfri mér hvað ég væri góð í að ofplana tíma minn. Sem efasemdamanneskja að eðlisfari varð þetta dágóð barátta sem ég þurfti að etja við sjálfa mig en að kvöldi dags 1. október ákvað ég að hætta þessari þrjósku og láta á þetta reyna.
Þarna sá ég leik á borði til að reyna að ýta undir það að klára þau áramótaheit sem ég hafði sett mér síðastliðin áramót og hef lítið sem ekkert unnið í síðan.
Ég setti dæmið að sjálfsögðu upp í excel, og reiknaði hversu mikið ég þyrfti að gera á viku til þess að ná áramótaheitunum mínum. Þetta hafði ég reyndar sett upp um miðjan september en ekki séð mikinn hvata í því að standa við þetta. Ég ákvað því að nýta hópsálina í mér og taka þátt í meistaramánuðinum og auka þannig líkurnar á að ná einu sinni áramótaheitunum.

Excelskjalið góða miðað við þessa viku



Ég bætti síðan við fleiri þáttum í markmiðin mín sem enduðu svona:

  1. Bækur: Klára að lesa Ekki lita út fyrir eftir Evu Hauks, markmiðið er að klára hana núna um helgina. Velja aðra bók og klára í þessum mánuði.
  2. Atvinnumál. 
  3. Matarræði: Borða 5-6 sinnum á dag, litla skammta. Leyfa sér lítið af sætindum og reyna að missa 2 kg í þessum mánuði. Mér hefur gengið mjög vel í vikunni en sjáum til hvað stendur eftir þegar sumarbústaðarferðinni sem ég er að fara í lýkur á sunnudaginn.
  4. Hreyfing: Æfa Pole fit minnst þrisvar í viku og önnur hreyfing minnst tvisvar í viku.
  5. Söngur: Var að byrja á söngnámskeiði í síðustu viku sem krefst heimaæfinga. Stefni á að æfa mig heima í 3 klst á viku, mæta í alla söngtíma og það á RÉTTUM tíma :)
  6. Sköpun: Semja 1 lag í mánuðinum, 1 ljóð og blogga einu sinnum í viku.
  7. Útlit: Sinna sjálfri mér vel með litun, plokkun, vaxi, líkamsskrúbb, maski og fleira sem gerir mann glaðann í sálinni. Ég er líka að prófa að fara í Trimmform í Trimmformi Berglindar. Fór í prufutímann í morgun og það var mjög athyglisvert. Aulanum í mér þótti mjög fyndið þegar að ein blaðkan var sett á fótinn þannig að hún hitti á einhverja taug sem gerði það að verkum að í hvert sinn sem straumurinn kom skaust fóturinn upp í loftið. Núna er ég bara rosa þreytt í rasskinnunum og efst á kviðnum.

Hingað til hef ég staðist öll plön sem ég hef gert þessa 4 daga, þrátt fyrir að dagarnir hafi verið svolítið pakkaðir :) Þetta er ótrúlega gaman og gefur manni mikið að standast eigin plön og markmið.

To be continued....