fimmtudagur, 27. október 2011

Vikur 27-30 2011: Júlí uppgjör

Það gerist nú ekki oft þessa dagana að húsið fyllist af gestum. Það er hins vegar svoleiðis núna, en þar sem báðir gestirnir tilheyra Sindra, annar þeirra er í Fifa 12 og hinn að fylla flakkarann sinn af efni, þá er um að gera að blogga. Það er kannski heldur ekki seinna vænna þegar maður er kominn 3 mánuði á eftir áætlun í bloggi.
Júlí var fínn, einkenndist af tveimur góðum austurferðum þar sem mestum tíma var eytt á Borgarfirði eystri.

1. Vigtin
27. vika: -400 gr.
28. vika: +200 gr.
29. vika: N/A
30. vika: +500 gr.

Þetta gekk semsagt allt í öfuga átt í júlí og ég þyngdist um 300 gr. yfir mánuðinn. Eins og sést gengur þetta allt saman mjög hratt og örugglega :)

2. Sparnaður - eftir áætlun

3. Dáið

4. Nýtt mánaðarins

Vika 27:
Sumarfrí. Í fyrsta skipti á ævinni átti ég inni fullt sumarfrí og fór í rúmar 2 vikur í langþráð frí. Það átti að fara í það að skrifa mastersritgerð en það varð því miður ekki raunin, þá væri ég kannski búin að skila henni núna :)

Vika 28:
Gæsunarfundur. Þar sem fyrsta vinkonubrúðkaupið sem ég hef farið í var í sumar þá þurfti að sjálfsögðu líka að gæsa vinkonu í fyrsta skipti. Það átti hins vegar eftir að gerast seinna í mánuðinum. Í þessari viku fó rég hins vegar í fyrsta skipti á gæsunarfund þar sem ákveðið var hver fyrstu skrefin yrðu í að útbúa góða gæsun fyrir Hjördísi Mörtu.

Hárið í Hörpunni. Við Sindri skelltum okkur á Hárið í Hörpunni sem var vægast sagt æðislegt. Þrátt fyrir að hafa séð þennan söngleik ansi oft og veit nákvæmlega hvað gerist í honum þarf ég alltaf að berjast við tárin í lokasenunum. Það var líka unaður að hlusta á svona marga góða söngvara flytja lögin. En það er víst erfitt að mæla með þessu núna.


Vika 29: 

Ég í klippileik. Sindri plataði mig í að klippa sig. Ég ætlaði nú aldrei að þora því enda ávallt átt erfitt með að teikna tvær jafnar línur hvað þá meira. En ég dembi mér í þetta verkefni á endanum eftir að hann sagði að við gætum bara rakað allt hárið af ef ég myndi klúðra þessu. Þetta varð árangurinn.

Gæsun. Þá var komið að því að gæsa Hjördísi Mörtu. Dagurinn byrjaði á því að hún hélt hún væri að fara í afmælismat með Katrínu Huld á Nielsen en hún átti afmæli þennan dag. Áður en hún náði hins vegar að panta kom maður með ógeðslega grímu, rétti henni poka með búning, langloku og gosflösku ásamt miða þar sem henni var skipað að klæða sig í búninginn og koma með manninum. Gæsinni leist nú ekki sérlega vel á það. Hann teymdi hana síðan á hesti frá Nielsen að sundlauginni á Egilsstöðum þar sem restin af okkur stelpunum beið. Þar var kynnt fyrir henni stigakeppni dagsins en hún gat náð stigum á margan hátt, allt skv. masterplan excel skjali sem ég hafði útbúið með litaþema og prentað út í svarthvítu :) Hún gat einnig fengið refsistig, m.a. fyrir að prumpa. Seinni partinn var síðan farið út í Fljótsbakka þar sem við grilluðum, gáfum gæsinni hentugar gjafir fyrir hjónabandið, borðuðum typpaköku og drukkum vín.



Tjald og úlpa. Við Sindri skruppum líka í Ellingsen fyrir Bræðsluna sem var hjá þessa vikuna og fjárfestum í góðu tjaldi. Ég var reyndar svo heppinn að hitta líka á svaka útsölu á úlpum og fjárfesti í einni fyrir veturinn. Ég hins vegar notaði hana lítið á Bræðslunni þar sem ég vildi ekki stinga í stúf innan um allar lopapeysurnar. 
Aldís á Álfaborginni

Silla á Álfaborginni

Sindri Þór og Skírnir Garpur í útilegu

Sólsetrið á Borgarfirði eftir tónleikana

Sindri að taka viðtal við Sigtrygg eftir tónleikana
 Vika 30:
Hundapössun. Við Sindri upplifðum mjög villta verslunarmannahelgi þetta árið þegar við tókum að okkur að vera í Hveragerði og passa þá Hrekk og Móra á meðan tengdó skelltu sér til Danmerkur.

Hótel Örk. Þar sem Arna og pabbi höfðu stungið að okkur gjafabréfi sem þau höfðu unnið fyrir með skemmtun fyrir eldri borgara á Hótel Örk var tilvalið að nýta það á meðan á hundapössun stóð. Við fórum því þangað eitt kvöldið í þriggja rétta kvöldverð og þurftum einungis að borga fyrir gosið okkar. Það var verulega huggulegt, og alveg nýtt fyrir mér þar sem ég hef ekki borðað þar áður.

Lifið heil! Ágúst er á leiðinni!