miðvikudagur, 8. janúar 2014

Ellefti dagur jóla, og smá sá þrettándi...

Ég fæ óneitanlega dálitla útþrá þegar ég horfi á eftir tveimur af vinkonum mínum skella sér erlendis í þriggja mánaðar ferðir, önnur til að ferðast um eins mörg lönd og hún getur á þeim tíma, hin til að vinna tímabundið í öðru landi. Ég fæ líka útþrá að hugsa til þeirrar þriðju sem er á leið í sólarfrí í næstu viku.
Útþráin gerir þó sitt gagn að því leitinu til að ég man að halda vel utan um aurana mína.

Á laugardaginn var góður dagur og ellefti dagur jóla. Ég byrjaði daginn í fyrsta sinn í rúma 2 mánuði á hafragraut og það með kanil og rúsínum. Til að passa þó að halda upp á jólin fékk ég einn lakkrístopp og eina Johan Bülow lakkríssmáköku í eftirrétt. Ómögulegt að vaða alveg yfir í hollustuna fyrir þrettándann.





Það er alltaf huggulegt að horfa útum gluggann á Fálkagötunni þegar sést í örlitla birtu. 

Um kvöldið skellti ég mér síðan í tímamótapartý hjá vinkonu minni sem bæði átti merkisafmæli þann dag og var að flytja tímabundið erlendis daginn eftir. Þá skvísar maður sig upp og tekur fram eitthvað sem manni þykir fallegt. 

Ég er ekki mikil make-up kona, þ.e.a.s. ég á ekki mikið af snyrtivörum, tími ekki að eyða miklum pening í þær og er föst í sama farinu. Þessi hlutir eru í hvers-dagslegu snyrtibuddunni minni og út fyrir hana fer ég sjaldan - nema þá helst í leit að varalit. Meik, sólarpúður, maskari, brúnn augnblýantur (svartur ef það er kvöld), augnhárabrettir og smá augnskuggastifti. That's all I need.


Svo smellti maður á sig Loverdose ilmnum frá Diesel og einum fallegum Gosh varalit. 



Ég á dálítið af fallegum skartgripum, aðallega íslenskri hönnun... en dagsdaglega verð ég að hafa tekið þá til daginn áður ef ég ætla að bera þá því iðulega vaknar Sigurlaug Jónsdóttir alltof seint og hefur engan tíma til að velta slíku fyrir sér. Þessi hringur er nefndur Mastershringurinn af nokkrum vinkonum mínum á Bifröst þar sem við höfum tekið okkur saman og gefið hvor annarri svona hring þegar við útskrifumst með mastersgráðu. Hann er ótrúlega stór og flottur, hannaður af Inga í Sign.


Þetta fallega hálsmen fékk ég í gjöf frá Siggu tengdamömmu minni í sumar. Það myndar semsagt nafnið mitt (sést kannski ekki nægilega vel á myndinni þar sem menið snýr öfugt) og er skemmtilegt twist á hinu hefðbundnu nafnahálsmeni sem Carrie Bradshaw gerði svo geysivinsælt í Sex and the city. Menið er hannað af Krista design.



Þessar gullfallegu sokkabuxur frá Kron by Kronkron fékk ég í jólagjöf frá Sindra. Þessa fallegu skó frá Kron by Kronkron fékk ég hins vegar í verðlaun frá sjálfri mér eftir að hafa náð settu markmiði fyrir rúmum tveimur árum síðan. Elska þá ekkert síður í dag.

Á þrettándanum kvaddi ég jólin - sálin vildi meiri jól en líkaminn var kominn með meira en nóg. 






laugardagur, 4. janúar 2014

Tíundi dagur jóla

Það eru ennþá jól og mjög mikilvægt að halda áfram að gera vel við sig. Kannski ekki mjög mikilvægt, en engu að síður gott fyrir sálina.
Í gær bauð ég góðri vinkonu sem ég hitti alltof sjaldan í mat til mín og við áttum ákaflega huggulegt kvöld enda frá nógu að segja eftir langan tíma.

Að sjálfsögðu var öllu til skartað, enda jólin.


Ég vildi elda eitthvað girnilegt sem við gætum sötrað hvítvín með. Það þurfti einnig að vera mjög einfalt því ég hafði bara rétt um hálftíma til að elda. Klassísk ítölsk pizza varð því fyrir valinu, reyndar með fínum botni þar sem gróft var ekki í boði í Melabúðinni í þetta sinn. Að sjálfsögðu var hún borin fram með heimagerðri hvítlauksolíu... og étin upp til agna.


Með pizzunni drukkum við síðan sætasta hvítvín sem ég hef smakkað úr fallegu spariglösunum frá Ittala. 




Síðast en ekki síst dró ég fram jólaservíetturnar mínar frá Reykjavík Letterpress. Þær fann ég í Kokku fyrir rúmu ári síðan þegar ég fór þangað að skipta einni jólagjöf. Tók þessar servíettur í staðinn og pakkaði strax niður með jólaskrautinu. Það gladdi mig síðan alveg ótrúlega mikið í byrjun desember þegar ég mundi eftir því að ég ætti þær. Í einum pakka eru 20 servíettur, engin eins og allar prýða þær setningu úr frægum jólalögum.

Þegar kjaftakvöldinu lauk ákvað ég að hafa smá dekurstund. Naglalakkaði mig, bæði fingur og tær, auk þess að bera á mig fótakrem og handáburð sem ég fékk frá mágkonu minni og hennar manni í jólagjöf. Hún er snyrtifræðingur og því treysti ég því fullkomlega að hér sé um gæðavöru að ræða þó ég sé langt frá því að hafa vit á því. 


Nýja L'oreal naglalakkið mitt. Það er aðeins meira út í appeslínugult heldur en sést á þessari mynd. Liturinn á myndinni fyrir neðan er nær því að vera réttur. 


Kremin góðu.

Í kvöld fer ég síðan í tímamótapartý hjá annari góðri vinkonu, sú verður þrítug og flytur tímabundið til London á morgun vegna vinnu. Nú er því tækifæri til þess að skvísa sig aðeins upp og súpa á nokkrum kokteilum. Njótið helgarinnar! 





föstudagur, 3. janúar 2014

Vika 1: Sparnaðar áskorun - fimm kvöldverðir

Í hverri viku árið 2014 mæti ég einni lítilli áskorun. Áskoranirnar skiptast milli 5 atriða: skrifa, tónlistar, kærleika, sparnaðar og heilsu. Hér kemur ein þeirra.

Það hefði legið beinast við að hafa fyrsti áskorun ársins tengda heilsu svona í janúarbyrjun þegar allir hlaupa sig upp úr skónum fyrstu vikuna í nýjum íþróttagöllum. Ég hins vegar ákvað að snúa þessu við enda hefur það aldrei gengið neitt sérlega vel fyrir mig að hendast af stað í heilsueflingu í byrjun janúar.

Fyrsta áskoruns ársins tengist sparnaði: Setja niður matseðil fyrir virka daga í næstu viku og setja inn á bland húsgögn og borðbúnað sem ekki er í notkun. 

Þetta gerir þrennt að verkum - maður borðar heima (sem yfirleitt er ódýrara ef maður nýtir hráefnið vel), maður spáir í hlutum eins og að samnýta hráefni og síðast en ekki síst skoðar maður hvað maður á í eldhússkápunum.

Það getur verið að þessi matseðill líti dýrt út - en mikið er til og þarf að nýta fyrr en seinna. Ég ákvað þó að skella ekki þremur hamborgarhryggjum sem til eru hér á seðilinn. Þeir fá að bíða betri tíma. Annað er að hann innihaldur svo sannarlega ekki bara salat, kjúklingabringu og brokkolí... en þá reynir maður bara að borða minni skammta í staðinn ;)








Þá hef ég lokið áskorun nr. 1 - tjékk!

fimmtudagur, 2. janúar 2014

Krefjandi og gefandi

Árið 2013 reyndist mér vel, þrátt fyrir allskonar erfiðleika og stórar ákvarðanir situr ekki vottur af depurð í mér eftir þetta ár. Ég óskaði þess fyrir nákvæmlega ári síðan að finna vinnu sem ég kynni að meta, finna styrk til að þróa mín áhugamál og kjark til að taka þau lengra.

Á þessu ári hef ég heldur betur bætt mig í söng, samið lag í fyrsta sinn í 7 ár, byggt upp sjálfstraust, haldið tvenna tónleika, efast minna, liðið betur og síðast en ekki síst orðið partur af stórskemmtilegu vinnuumhverfi, fyrst með uppbyggingu Silent frá febrúar til ágúst og síðan hjá PIPAR/TBWA frá 1. september.

Ég fór á Bræðslu, Þjóðhátíð, til New York og Danmerkur. Heillaðist af mörgum nýjum hlutum og lærði örlítið betur á sjálfa mig. Árinu hef ég að mestu leyti eytt á þönum og þegar frítími manns minnkar verður hann verðmætari fyrir vikið að mínu mati. Hjá mér gerðist það að ég fór virkilega að velta fyrir mér hvað af þeim hlutum sem ég eyddi tíma mínum í gæfu mér eitthvað, hvað léti mér líða vel og hver af mínum áhugamálum væru í raun eingöngu skemmtun. Ég fór einnig að velta þessu fyrir mér vegna þess hversu oft ég lendi í því að mæta á einhvern viðburð eða sjá eitthvað sem öðrum finnst dásamlegt og finna ekki fyrir neinum áhrifum af því. Það þarf ekki að vera að mér leiðist sá tími fyrir því en hann skilur heldur ekkert eftir sig.

Einhverntíma á mínum menntaskólaárum varpaði ég fram þeirri hugmynd í kennslustund hvort það gæti verið fylgni milli þess hversu krefjandi hlutirnir eru og hversu gefandi þeir reynast fyrir mann. Það er skemmst frá því að segja að þessi hugmynd fékk enga styðjendur í þeim hópi, raunar var ég gjörsamlega kjöftuð í kaf vegna þess. Það vill þó þannig til að margur heldur mig sig og þannig virðast hlutirnir svolítið virka hjá mér. Það sem ýtir mér út fyrir comfort zone-ið eða krefst þess að ég virkilega einbeiti mér að því, það gleður mig mest.

Eins og áður hef ég sett mér áramótaheit. Í þetta sinn ákvað ég að setja ekki með það markmið að verða mjó, þó augljóslega myndi ég ekki slá hendinni á móti því. Ég vil bara ekki að það eigi hug minn allan lengur. Ég setti þess í stað niður 5 atriði sem ég ætla að einblína á þetta árið, öll færa þau mér gleði og hafa mikla þýðingu fyrir það hver ég tel mig vera. Sjötta atriðið er ekki talið með en það er gleðin sem því fylgir að ná einhverjum markmiðum - öll þessi atriði hafa skráð markmið í excelskjalinu "áramótaheit 2014" og ef þetta excel skjal virkar ekki þetta árið, þá verð ég að skipta um vinnsluforrit á næsta ári.

1. Skrifin mín - bloggin, ljóðin og sögurnar
Ég elska að skrifa. Ég fæ ákveðna útrás við það, sérstaklega í ljósi þess að ég er oft heilu dagana með blogghugmyndir í höfðinu, búinn að baka þær - en þær líta aldrei dagsins ljós því eitthvað minna merkilegt tekur yfir.

2. Tónlistin mín - söngur, gítarleikur og sköpun tónlistar
Þetta er aftur í farvegi og vil ég ekki fyrir mitt litla líf missa það. Einn söngtími er nánast eins og sálfræðitími þegar maður hefur lagt sitt að mörkum og tekst loks að framkvæma það. Eitt lag sem maður getur verið stoltur af er ein besta næring sem ég hef upplifað.

3. Heilsa - hreyfing og matarræði
Ég vil verða betri í Pole fitness, ég vil einbeita mér að því frekar heldur en að missa ákveðinn kílóafjölda því það að bæta mig þar veitir mér gleði eitt og sér. Varðandi matarræðið þá þykir mér gaman að elda þó niðurstaðan sé ekki alltaf framúrskarandi, ég er með viðkvæman maga og því skiptir þetta atriði máli til að hægt sé að njóta lífsins til fulls. Maður gerir minna af því með krampaköst.

4. Gefa af mér - rækta vináttu og sýna náungakærleik
Ég hringi aldrei, ég er alltaf að flýta mér, svara stundum ekki og ekkert af þessu er hollt fyrir mig. Ég er raunverulega ótrúlega fegin því að ekki allir hafi gefist upp á því að hringja í mig. Í ár ætla ég að rækta mín sambönd og gefa af mér til þeirra sem eiga minna, til dæmis með því að koma í not hlutum sem ég hef enga þörf fyrir.

5. Spara - fyrir öllum draumum mínum.
Þetta er boring áramótaheit og veitir mér enga sérstaka gleði - nema þegar markmiðunum er náð og ég get leyft mér að framkvæma eitthvað af því sem mig dreymir um. Maður kemst aldrei neitt ef allur aurinn fer í hádegismat og stöðumæli í miðbænum.

Hver mánuður á sitt þema með sinni áskorun, allar tengdar einhverju af þessu.
Hver vika á sinn fókus-punkt, minni áskorun að einblína á.

Hver þau eru mun vonandi, ef ég loksins stend mig, koma fram hér á blogginu.


Gleðilegt ár kæru vinir - þetta ár verður nákvæmlega það sem þið gerið úr því! :)