fimmtudagur, 20. febrúar 2014

Uppáhalds baksturinn

Þegar ég var krakki var það tvennt sem kom til greina að skella í ofninn þegar mér datt í hug að baka. Annars vegar voru það jógúrtkökur í muffinsformum, búnar til úr kaffijógúrti og deigið eitthvað það besta kökudeig sem ég fæ. Hins vegar var það sultukaka sem Óli bróðir bakaði oft á tímabili þegar ég var krakki. Uppbygging sultukökunnar var 2 brúnir botnar (ekki of sætir, ekki of þurrir) og sulta á milli.
Þetta tvennt á það sameiginlegt að vera ekki svo sætt að maður klári sig af sykri við neyslu á einni sneið eða einu stykki, þess vegna er þetta ekta bakkelsi í kaffitímanum þegar maður er búinn að vera á fullu að leika sér yfir daginn... og maður torgar meiru af þessu en heavy súkkulaðiköku.

Það er á stefnuskránni að finna uppskriftirnar fyrir þetta tvennt, ég veit þær eiga að vera til einhversstaðar í bleiku heimilisfræðimöppunni minni. :)

Í staðinn vil ég deila með ykkur uppáhalds bollakökuuppskriftinni minni, lakkrísbollakökur frá Johan Bülow. Þið getið notað íslenskan lakkrís í staðinn fyrir lakkríssíróp, sterka mola í staðinn fyrir lakkrísduft eða gert þetta allt alvöru og keypt lakkríssíróp og hrálakkrísduft frá kappanum í Epal.
Áður en ég prófaði þessar hafði ég bakað lakkrísbollakökurnar hennar Rikku, þær eru rosalega góðar en einmitt algjörar bombur. Fyrir mína parta dugir hálf slík kaka og þá er ég komin með nóg. Þessar eru ekki eins sætar, sem hentar mér mun betur - og botninn er ljós til að vega upp á móti öllum lakkríssætindunum.

Ef þið eigið eftir að prófa þessar er helgin hárréttur tími fyrir það. Uppskriftina finnið þið hér.




Engin ummæli:

Skrifa ummæli