mánudagur, 9. desember 2013

Þegar allt kemur til alls...

Þetta litla ljóð fann ég í tölvunni minni frá því í sumar. Ágætis áminning um að nýta tímann heiðarlega og vel. Held ég hafi skrifað það til framtíðar-mín.

-----------

Þegar allt kemur til alls
eru endalokin nærri
og gleðistundir færri
en við áttum okkur á

Þegar allt kemur til alls
vega orð manns ekki mikið
er á undan hefur svikið
allt sem áður sagði frá

Þegar allt kemur til alls
man ég aðeins fáa daga
þó margra ára ævisaga
sé að baki hér og nú

Þegar allt kemur til alls
skiptir engu hvað við heitum
eða eftir hverju leitum
ef að sönn er okkar trú

Þegar allt kemur til alls
vil ég gleðistundir telja,
engin tækifæri selja
freistni þeirr’ er mætir mér

Þegar allt kemur til alls
munu draumar allir rætast
munu sorg og gleði mætast
og mynda lífs míns veg með þér.

miðvikudagur, 9. október 2013

Tvær ódýrar og skemmtilegar deithugmyndir

Fljótlega eftir að við Sindri fluttum til Reykjavíkur ákváðum við að hafa föst Deitkvöld einu sinni í viku. Það hafa yfirleitt verið þriðjudagar, bæði vegna þess að þeir henta vel við vikulega rútínu okkar og eins vegna þess að mánudaga til miðvikudaga er oft hægt að nýta sér allskonar góð tilboð á veitingastöðum. Til dæmis erum við bæði í Arion Banka og eigum því Einkaklúbbskort en því fylgja mörg góð tilboð sem hægt er að nýta sér, mörg hver einmitt fyrri part vikunnar. Auk þess höfum við verið dugleg að nýta 2fyrir1.is og Nova tilboð mánaðarins.

Þrátt fyrir að þetta séu allt saman góð tilboð þá kosta þau að sjálfsögðu eitthvað. Í byrjun meistaramánaðar hét ég því að spara eins og ég mögulega gæti eftir frekar VISA-freka New York ferð í ágúst og þá var ekki í boði að fara út að borða í hverri viku þrátt fyrir tilboðin. Auk þessa langaði okkur frekar að prófa að gera fleira skemmtilegt saman heldur en fara alltaf út að borða og skiptumst nú alltaf á að skipuleggja deitin.

Í síðustu viku bauð Sindri mér á heimatilbúið deit sem rennur mér seint úr minni. Þannig er að uppáhaldsmaturinn minn heima hjá pabba er kjöt í karrý... ég segi heima hjá pabba vegna þess að sé karrýsósan ekki góð er rétturinn ónýtur og fáir gera hana jafn góða og pabbi. Í gegnum árin hefur Sindri ekki verið mjög spenntur fyrir þessum mat og við höfum t.d. aldrei eldað hann síðan við byrjuðum saman árið 2007. Það gladdi mig því ólýsanlega mikið þegar ég kem heim til hans síðasta þriðjudag og eftir mér bíður kjöt í karrý. Algjör draumabyrjun á deiti. Karrýsósan var mjög góð en ekkert lík pabba, svo nú á ég tvo uppáhalds kjöt í karrý-rétti.

Kjöt í karrý
Hann hafði fundið súpukjöt á góðum afslætti sem hjálpaði til við budgetið. Eftir matinn hafði hann síðan bjórsmakk fyrir mig þar sem bjórarnir voru Giljagaur, Surtur og Júdas sem hafa verið í þroskun í kjallaranum. Hann fræddi mig um muninn á þessum týpum auk og við veltum þessu fyrir okkur í sameiningu. Alveg bannað að hafa kveikt á sjónvarpinu eða slíku á meðan. Athyglin á öll að vera á smakkið. Þetta fannst mér verulega skemmtilegt þar sem hann kynnti mig fyrir einu af sínum áhugamálum með því að fræða mig og gera mig part af því.

Í gær var síðan komið að mér að bjóða honum á deit. Ég hugsaði mikið um að geta gert eitthvað skemmtilegt sem við höfðum ekki gert áður án þess að það kostaði mig mikinn pening. Þema-nördið ég þurfti þó að sjálfsögðu að búa mér til þema yfir deitið í huganum og þá kom upp hugmyndin Fingur. Þeir sem vilja hugsa dónalega um það þema er það velkomið :) Það var þó ekki meiningin með þemanu.
Ég fór og keypti hamborgara úr 100% nautakjöti í Kjötbúðinni, Grensásvegi. Það hentaði líka mjög vel því þar gat ég keypt 200 gr. hamborgara fyrir Sindra og 140 gr. fyrir mig. Það var samt mjög stórt fyrir mig. Ég fór síðan og splæsti í einn ost, valhnetur og hunang auk þess að kaupa FINGERS til að narta á, að sjálfsögðu.
Borgarinn ásamt frönskum sem til voru í frystinum, osti sem til var í kælinum, sinnepi, tómatsósu og majonesi var allt borðað með fingrunum. Eða það var allavega hugmyndin þangað til ég gafst upp.

Ég hafði líka farið í A4 og keypt eitt stórt karton í dröppuðum lit og fingramálningu. Eftir matinn var komið að því að leika sér með það. Ég minntist þess ekki að hafa nokkurn tíma fengið að mála með tánum á æfinni og aldrei búið til mót af fætinum á mér. Þess vegna þótti mér tilvalið að setja handa - og fótaför okkar beggja á kartonið og hafa um leið verulega gaman af. Sem það að sjálfsögðu varð því Sindri gat ekki stillt sig um að klína allt andlitið á mér út í málningu þegar hann hafði klárað að merkja kartonið.

Fætur eftir listaverkagerð

Listaverk. Fæst á 15.000 kr. :) 
Kostnaðurinn við þetta deit var 1000 kr. fyrir karton+málningu, 1000 kr. fyrir hamborgara, 1500 kr. fyrir möns. Stundum getur nefnilega verið sniðugt að líta sér nær, nýta það sem maður á til og nota hugmyndaflugið þegar kemur að afþreyingu svo maður lendi ekki eina ferðina enn upp í sófa að horfa á mynd. Það er gott og gaman... en þarf ekki að gerast á deitkvöldi.

Það er líka eitthvað svo ótrúlega upplífgandi við það að sjá einhvern hugsa út fyrir rammann í þeim eina tilgangi að gleðja mann. Þarf ekki að vera dýrt eða langt prógramm. Ekki einu sinni það frumlegt... bara pínulítið annað en sama gamla rútínan.

Hann fékk að gjalda fyrir árásina. Verra að ná þessu úr skeggi.

fimmtudagur, 3. október 2013

Meistari mánaðarins

Þá er október runninn upp og í annað sinn hef ég sett af stað markmið fyrir meistaramánuðinn.
Eitthvað kannast ég þó við markmið þessa mánaðar í ár, lítur út fyrir að ég sé ávallt með þau sömu. Ég stóla á það að ég verði orðin svo leið á þeim að ég drífi mig í að klára þau í eitt skipti fyrir öll núna. Þá get ég líka farið í skemmtilegri markmið eins og að dansa meira eða baka meira á næsta ári. 

Í ár setti ég niður eftirfarandi atriði:

Matarræði:

  • Minna af stkri
  • Meira prótein
  • Morgunmat á hverjum degi
Hreyfing:
  • Hreyfa mig 24 klst í október.
Sparnaður:
  • Taka með nesti í vinnuna minnst þrisvar í viku
  • Leggja ekki í stöðumælastæði, frekar labba lengra
  • Taka út ráðstöfunartekjurnar og skipta niður á vikur mánaðarins. Auka þannig neysluvitund.
Lestur:
  • Er að lesa ævisögu Magga Eiríks, Reyndu aftur, og ætla að klára hana í mánuðinum.
Tónlist:
  • Semja 1 lag
  • Finna 1 nýtt lag fyrir hvern söngtíma
Skrif:
  • 5 ljóð
  • 5 blogg
Október!
Hingað til hefur þetta gengið ágætlega fyrir utan hreyfingarþáttinn þar sem ég ætlaði að hreyfa mig í dag en ligg þess í stað heima í pest. Ég finn hins vegar á mér að ég verð mjög fljót að hrista það af mér og mun ná þessum markmiðum þrátt fyrir þessa litlu hindrun.

Fall er fararheill, þetta er klárlega minn meistaramánuður!

miðvikudagur, 11. september 2013

Fótgangandi með hjartað í buxunum

Ég átti leið fótgangandi frá einum hluta vesturbæjar yfir Hringbraut í kvöld. Ég ætlaði aldrei að hafa mig af stað, allt vann á móti mér. Bíllinn bilaður á allt öðrum stað á höfuðborgarsvæðinu, ipodinn rafmagnslaus og það sama mátti segja um símann minn.

Ég gekk af stað með regnhlífina sem ég hafði keypt í New York og tekið með mér heim þrátt fyrir yfirlýsingar um að regnhlífar á Íslandi væru gjörsamlega tilgangslausar. Fyrstu skrefin voru ánægjuleg, mikil rigning og umhverfishljóðin nokkuð sem ég hafði ekki lengi hlustað eftir.

Ég var nokkuð ánægð með mig og regnhlífina mína þar til ég beygði inn í fáfarnari götu hér í Vesturbænum. Allt í einu fannst mér myrkrið meira og fór sífellt að líta aftur fyrir mig eins og ég hafði ítrekað gert á kvöldin þegar ég var krakki. Útfrá því fór ég að velta fyrir mér hver hefði plantað í mig þessa fáránlegu myrkfælni og þessa hræðslu við skugga í myrkrinu... sem var samt minn eiginn og regnhlífarinnar. Hver hafði forritað í mig þann faktor að halda inni í mér andanum þegar ég gengi fram hjá eina bílnum í þröngri götunni sem kveikt var á. Alltaf hafði ég haldið að þessi viðbrögð væru eitthvað sem yxi af manni en ég var alveg jafn hrædd og þegar ég var 11 ára á sprettinum milli húsa í Fellabænum á kvöldin. Hægði ekki á mér fyrr en ég snerti hurðarhúninn, en þolið í dag leyfir það ekki... auk þess sem stoltið er stærra.

Næst kom ég að kirkjugarði og ekki skánaði það nú. Ég velti fyrir mér hvernig væri að búa þar á móti og var viss um að ef ég byggi þar myndi ég alltaf spretta úr bílnum mínum á kvöldin.

Þegar yfir Hringbrautina var komið og ég rölti fram hjá Hótel Sögu áttaði ég mig á að yfirlýsingar mínar um að regnhlífar á Íslandi gerðu ekkert gagn voru orðnar að veruleika. Ég ríghélt í regnhlífina svo hún myndi ekki spennast í öfuga átt á meðan ég rennblotnaði af láréttri rigningunni. Jæja, hún hefði þó dugað hálfa leið.

Á svipuðum tímapunkti velti ég fyrir mér hvort ég gæti bloggað um þennan göngutúr. En ég hélt nú ekki. Hvernig myndi ég svosem byrja það? Jú ég gæti byrjað á "Ég átti leið fótgangandi frá einum....". Þessu velti ég fyrir mér en ákvað að lokum að þegar ég yrði loks komin aftur heim myndi ég líklega aldrei nenna að skrifa þennan pistil. Ég myndi beila á því eins og alltaf.

Á áfangastað stoppaði ég örlitlar 20 mínútur, rétt nægilega lengi til að fara að finna fyrir hroll í blautum fötunum. Ég var svo heppin að eiga á þessum stað reiðhjól svo ég ákvað að renna mér á því til baka.

Á leiðinni heim hjólaði ég í alla polla sem ég sá og hafði gaman af á milli þess sem ég hlustaði á sjálfa mig verða móðari og móðari. Líklega hef ég ekki flýtt mér eins mikið á hjóli síðan ég var krakki í kappi við annan krakka (eða Sigga bróður sem var á móti mér á bíl... það kapp endaði með því að ég hjólaði á ljósastaur).
Á þessum stutta tíma á leiðinni heim náði ég þó að velta örlítið fyrir mér samskiptamynstri fólks og komst að því að það er langt síðan ég hef verið í svona slæmu líkamlegu formi.

Stundum er nefnilega ágætt að iPodinn manns sé rafmagnslaus.

laugardagur, 20. apríl 2013

Ég er svo grææææn, því ég át svo mikið grænmeti...


Ég var í mörg ár forfallið Söngkeppni framhaldsskólanna nörd. Ég átti allar keppnirnar á video spólu, skrifaði niður textana og söng með eins og brjálæðingur með öllum keppnunum frá seinni hluta keppninnar 1996 (fyrri partur ekki tekinn upp þar sem Magni var í þeim seinni en þá var þetta sýnt í tveimur pörtum) og til 2003. Minn draumur frá 10 ára aldri var að standa í þessari keppni og sá draumur rættist árið 2004 en það er síðasta keppnin sem ég á til á videospólu. Titillinn á þessari færslu eru einmitt fyrstu orðin í laginu sem vann það ár þar sem Mr. Silla var annar af tveimur flytjendum og við vorum í kjólum úr eins efni. TILVILJUN!

Mig langaði í tilefni dagsins að rifja upp nokkur eftirminnileg atriði. Þau eru þó eftirminnileg af ólíkum ástæðum og eru ekki talin upp í sérstakri röð. Þau eru ekki endilega mín uppáhalds, bara þau sem koma upp fyrst í huga mér. Ég man ekkert endilega hvaða ár hvaða atriði voru eða hvaða skóli flutti þau og er því miður ekki með video-spólurnar með mér hér í Reykjavík til að fara í heimildaöflun en læt þetta fjúka hér:

Still loving you – Scorpions
Árið 2003 var mjög öflugt ár í Söngkeppni framhaldsskólanna. Keppnin var haldin á Akureyri og ég var á staðnum sem gerði keppninni mun eftirminnilegri. VMA stóð þó algjörlega upp úr að mínu mati og margra annarra, þar sem Stebbi Jak (söngvari Dimmu) tók lagið Still loving you. Þetta var eina lagið þetta kvöld sem meirihluti áhorfenda í salnum stóðu upp og fögnuðu frammistöðunni. Þessi frammistaða er líka á iPodinum mínum svo hún minnir reglulega á sig.

Muscle Museum – Muse
Sama ár mætti FSU á staðinn með metnaðarfullt atriði við lag Muse, Muscle Museum, með íslenskum texta Þorsteins Eggertssonar. „Ég hef spilað á mörg klósett, mitt sálarlíf er sjósett...“ Söngvarinn mætti í svörtum kufl sem hann síðan reif af sér og skartaði rauðum búningi og eldrauðu hári. Hann tók með sér eigin gítarleikara fyrir sjóvið og eitt stykki gjallarhorn. Mig minnir líka að það hafi verið „sprengjur“ í atriðinu en það gæti verið hugur minn að leika brellur því þetta er svo geðveikt atriði í minningunni. Ég virðist ekki vera ein á þeirri skoðun því reglulega hitti ég einhvern sem rifjar þetta atriði upp, síðast um síðustu helgi

Burning down the house – Cardigans og Tom Jones
Okey! Það er hægt að væla og skæla yfir þeirri reglu að nauðsynlegt sé að texti laganna sé á íslensku. Þrátt fyrir það verður því ekki neitað að skemmtanagildi þessarar keppni er töluvert meira á meðan þessari reglu er haldið lofti. Þessar aðstæður bjóða nefnilega bæði upp á hryllilega textasmíð og frumlega textasmíð. Ég kann einstaklega vel við þá sjálfsbjargarviðleitni sem átti sér stað hjá flytjendum Burning down the house sem tóku textann ekki of alvarlega og sungu lagið undir heitinu Börnin orðin hás. Þennan texta skrifaði ég ekki niður og ég hef ekki horft svo oft á þennan flutning en man samt alltaf eftir honum. Hann er skemmtilega skrifaður og virkilega vel upp settur.  Þetta er kannski ekki akkúrat en mjög nálægt því að vera brot úr honum allavega:
„ Hey þú! Hvar ertu bún‘að vera?
Karlpungur!
Og ekkert bún‘að gera.
Og svo þegar ég loks er komin heim 
Börnin orðin hás“
Þetta verður ekki mikið skemmtilegra.

Never ever – All Saints
Að öllu gamni slepptu þá er þetta sennilega uppáhalds atriðið mitt í sögu söngkeppninnar. Þetta er ekki það best sungna, textinn er hræðilegur og dansmúvin stundum svolítið vandræðaleg en það þræææælvirkar fyrir mig. Hér var um að ræða 4 stelpur, 2 í hvítum kjólum og tvær í svörtum kjólum árið 1999 (minnir mig, frekar en 1998). Fyrir aftan þær standa 4 karlmenn að baka sem allt í einu mæta berir að ofan í svuntum til að dansa svolítið við þær. Þetta getur bara ekki klikkað! Viðlagið var á þessa leið og alltaf gat ég brosað jafn mikið yfir þessu atriði:
„Aldrei aftur mun ég nokkurn tíma baka
Ég er viss‘um að þetta verður myndarkaka
Aldrei áður hef ég verið svona lúin 
Öll eggin eru löngu, löngu búin
Aldrei áður hef ég stundað þetta
Eldhúsið er orðin alveg eins sletta .......“
For the longest time – Billy Joel (Barber kvartett útgáfa + 1)
Brooklyn Fæv komu, sáu og sigruðu keppnina 1998 fyrir hönd MH. Þetta atriði er sennilega eftirminnilegt fyrir alla þá sem horfðu á keppnina. Davíð Olgeirs fór þar fremstur í flokki með laglínu lagsins. Þeir hafa síðar gefið út meira efni, t.d. jólalagið „Á sleða“ sem heyrist reglulega í desembermánuði ár hvert. Lagið hét Óralanga leið í þeirra flutningi.


When you believe – Mariah Carey og Whitney Houston
Ó já! Þetta verður að vera með! MH hefur oftar en ekki farið frumlegar leiðir með sín atriði í keppninni og unnið hana oftar en ég kæri mig um að muna. Í þetta sinn var þó ekki um sigurframmistöðu að ræða, ég leyfi mér að segja að það hafi verið langt frá því. Að mínu viti var hér um að ræða stórkostlega grínútgáfu af laginu þar sem dans, búningar og almennt attitude á sviðinu töluðu algjörlega því máli. Dansararnir litu helst út eins og á höfuð þeirra hafi verið troðið hvítum sokkabuxum og þeir blökuðu vængjunum eins og þeir ættu að tákna fugla. Söngkonurnar tóku slaufur forvera sinna á nýtt plan í þessu atriði sem gleymist seint úr manna minnum. Til að setja punktinn yfir beinþýddu þær texta lagsins yfir á íslensku óháð því hvort atkvæðafjöldi passaði endilega í línurnar.

Komdu til baka (frumsamið Tears in Heaven) – Kristmundur Axel og Júlí Heiðar
Nú er ég ekki að reyna að vera leiðinleg. Það eftirminnilegasta við hans atriði í keppninni frá minni upplifun var það að við hlið mér sátu 5 einstaklingar komnir yfir tvítugt sem allir voru vissir á því að þetta lag væri grín. Þannig að fyrst brostu allir, svo hlógu þeir (sérstaklega við flutning setningarinnar: „Jesú! Geturu látið pabba verða edrú!) en um miðbik lagsins byrjuðu allir að líta á hvern annan frekar undrandi á svipinn þegar að einn stamaði upp úr sér „nei, krakkar... ég held hann sé ekkert að grínast“. Eftir sigurinn vorum við viss um að ekki hafi verið um grín að ræða. Í millitíðinni youtube-uðum við samt Júlí Heiðar og hlustuðum á Blautt dansgólf. Það var ekki að hjálpa okkur í því að komast að niðurstöðu. Kannski ekki falleg saga, kannski óþarfi að segja frá þessu en mörkin á milli góðs gríns og alvarleika eru bara oft alls ekki svo skýr.

Always – Bon Jovi
Sverrir Begmann mætti og tókst á einni nóttu að breyta laginu um harða rokkarann í ástarsorg í heldur betur væmið kassagítarlag sem síðan hefur verið sungið í ÖLLUM gítarpartýum landsins. Eftirminnilegast í þessu lagi voru jakkafötin hans Sverris auk skeiðarinnar sem hann ætlaði að nota til að skera hjartað sitt úr. Þessi skeið fékk heldur betur stærra hlutverk í laginu í flutningi okkar vinkvennanna sem höfðum algjört dálæti af því að bæta henni í enda hverrar línu í laginu. Það fannst ekki öllum skemmtilegt... en okkur fannst það. Öll rútuferðalög, sleep over og tónlistarskólabreik voru nýtt í það að troða þessari skeið að. „Ég skæri mér hjartað úr með skeið, því ég gæt‘ ekki elskað þig með skeið, núna græt ég með skeið, ó, komdu með skeið! Því ég sakna þín skeið“. Sjúklega fyndið, right?


Ég á mikið af ættingjum, vinkonum og vinum sem hafa tekið þátt í þessari keppni. Ég man þeirra atriði að sjálfsögðu utan af öll sömul, svo það sé á hreinu. Hugmyndin var að grafa aðeins dýpra og skrifa niður nokkur atriði sem standa uppúr þrátt fyrir að innihalda engan sem ég þekki persónulega.

Gleðilega hátíð!

föstudagur, 19. apríl 2013

Braxton, spóla og árin


 Það er tvennt í lífi okkar sem er öruggt, við fæðumst og við deyjum. Þessa áminningu hef ég heyrt allnokkrum sinnum á ævinni og þó þetta séu alls engin geimflaugavísindi má ætla að flestir reikni fastlega með því að ná þessum tölfræðilega meðalaldri.
Þegar ég var 11-13 ára gömul flýtti ég mér ansi hratt að fullorðnast. Ég man eftir morgnum í 6. bekk þegar að ég gekk í skólann og hugsaði með sjálfri mér að nú yrði ég að einbeita mér að því að gera ekkert barnalegt, haga mér eins og unglingur. Þetta kann að hljóma undarlega og óheilbrigt en skrefið að fara úr barnaleikjum, eltingaleikjum er erfitt en mjög nauðsynlegt þegar að maður er skotinn í strák í 9. bekk.

Þegar ég varð 15 ára snérist dæmið algjörlega við, mér fannst tíminn líða of hratt og fann þá fyrir því að ég var ekki tilbúin að fullorðnast alveg strax. Menntaskólinn var handan við hornið og mér loksins farið að finnast gaman í grunnskólanum, auk þess sem ég var skotin í strák sem var ári yngri en ég. Ég upplifði 19 ára afmælið mitt eins og ég ímynda mér að flestir upplifi 30 ára afmælið sitt. Ég fékk áfall yfir því að markaðsett “bestu ár lífs míns” yrðu senn á enda og langaði helst að stöðva tímann.

Eftir það hef ég ekki mikið velt mér uppúr þessu, mér hefur tekist ágætlega að halda afneitun minni með hjálp eldra fólks á Heilsuhælinu í Hveragerði sem rökræðir aldur minn í hvert sinn sem ég mæti á svæðið og þá eru tölur milli 15 ára og 20 ára í umræðunni. Það fyndna er að mér finnst það bara jafn skrítið og mér fannst það þegar sömu umræður með sömu ágiskunum voru í gangi fyrir 7 árum síðan, ekki skrítnara.

Um helgar í miðbæ Reykjavíkur uppúr kl. 4 fara einhverjir gæjar að fikra sig nær, snúa manni í hringi og hella óvart bjór á mann í leiðinni, eitursvalir. Halla sér að manni og segja eitthvað á þessu leið “ógissleg’ ertu sæt” (fyrir utan þennan einstaka sem ég hitti í 10-11 og sagði mér að hann hafi alltaf langað til að eignast systir… ég sagði “mér líka svo þetta er bara góður díll fyrir þig”). Rétt eftir því mómenti segi ég “hvað ertu gamall?” Svörin verða síundarlegri með árunum og algengast  þessa dagana eru 1991 eða 1992.  Það undarlega er að ef þeir tækju ekki fram fæðingarárið heldur segðust vera 21 eða 22 finndist mér þeir sjálfsagt mun nær mér í aldri.

Það sem fékk mig til að velta þessu aldursmáli fyrir mér er að síðustu mánuði hef ég æ oftar lent í því að tala við fólk um tvítugt og byrja setningarnar á “hah! Veistu ekki hver …… er?”, lít síðan í kringum mig og átta mig á því að það er enginn annar að hneykslast á því og flestir með svona þú-ert-ekki-með-hlutina-á-hreinu-gamla lúkk.

Líkan svip fékk ég um daginn þegar ég lenti á spjalli við stúlku sem hefur mikið verið að syngja en hafði aldrei heyrt Toni Braxton nefnda á nafn. Sama stúlka ber nafn Mariuh Carey töluvert öðruvísi fram en stúlkur á mínum aldri. Þegar ég var 15 ára töluðu Íslendingar um Maríu Karei en í dag, með aukinni hnattvæðingu býst ég við, heitir hún orðið Meræha Kerí. Fyrir utan það að hún er að verða gömul...  og Brad Pitt, Jennifer Aniston, Johnny Depp, Stebbi Hilmars og Björn Jörundur líka. 

Annað dæmi um slíkan svip mátti sjá á litlu frænkum mínum sem grettu sig ægilega þegar ég gekk inn í herbergi til þeirra og spurði hvort þær væru að horfa á spólu. Eftir grettunni kom síðan hönd á mjöðm og “Hvað er eiginlega spóla?”

Það er kannski skrítið og jafnvel örlítið hlægilegt en sorglegu kallarnir á barnum, sem við bentum á og fussuðum við þegar ég var tvítug voru ekki nema kannski 3 árum eldri en ég í dag. Ég veit ekki hvort almennt sé viðhorfið annað í dag og þess vegna finnist mér þeir ekki eins sorglegir, eða hvort ég sé orðin sorglega gella í afneitun. Ég allavega harðneita að stunda Thorvaldsen fyrr en eftir 15 ár í fyrsta lagi!

Fyrstu fartölvuna mina fékk ég í fermingargjöf árið 2000, hún var keypt notuð af lögfræðingi. Til þess að ná nettengingu á hana þurfti ég að sitja í símastólnum heima, hringja inn á internetið til að ná í efni gegnum Napster og hanga á ircinu. Börnin sem fermdust í ár hafa aldrei verið án internets.

Þróunin er gífurlega hröð. Ég er ekki orðin þrítug og ég er samt farin að tala um hvernig þetta var hér “áður fyrr”. Þetta stefnir ekki í gott hjá mér.

mánudagur, 25. febrúar 2013

Einu ári síðar


Í dag er nákvæmleg eitt ár frá því að ég útskrifaðist úr meistaranáminu mínu. Það er undarleg tilfinning, sérstaklega í ljósi þess að líf mitt er allt öðruvísi en ég hafði ímyndað mér það yrði á nákvæmlega þessum tímapunkti. 

Þennan dag sem ég útskrifaðist eftir margra mánaða stanslausa vinnu í ritgerðinni minni og alltof lítil félagsleg tengsl við umheiminn, var ég ekkert þreytt. Ég var stolt af mínu verki og nánast tilbúin að hefja næstu ritgerðarskrif. Ég var í raun á svo mikilli ferð í þessu öllu saman að ég hefði vel getað þotið af stað í næsta rannsóknarverkefni án umhugsunar. Það var þó ekki svo að álagið hefði ekki náð mér, ég vissi það bara ekki enn.

Á síðustu metrum ritgerðarinnar var ég komin með lista yfir hluti sem ég ætlaði að leyfa mér að gera þegar henni væri lokið. Þetta voru ekki stórir draumar né merkilegir en engu að síður var þeirra sárt saknað úr lífi mínu. Ég ætlaði að plokka og lita á mér augabrúnirnar, setja á mig brúnkukrem, spila á gítar, syngja, semja ljóð, blogga, skrappa, hreyfa mig meira og hitta vini mína. Svo nokkrum mánuðum síðar þegar ég yrði komin í góða og skemmtilega vinnu tengda náminu mínu myndi ég skrá mig á alls kyns skemmtileg námskeið, söngnámskeið til dæmis og jafnvel skrá mig aftur í gítarnám.

Tveimur mánuðum eftir skilin á ritgerðinni vaknaði ég upp við það að ég hafði ekki gert einn af þeim hlutum sem ég hafði viljað brjótast út úr ritgerðarvirkinu til að framkvæma. Nema plokka og lita á mér augabrúnirnar. Þá fyrst áttaði ég mig á því að þetta hafði vissulega tekið sinn toll og ekki var að bæta ástandið að það gekk hægt að koma sér í starf sem tengdist náminu. Starfið sem ég var í höfðaði ekki til mín þó dagarnir liðu hratt því það var mikið að gera og skemmtilegir vinnufélagar í kringum mig. Ég hugsaði samt sem áður oft yfir daginn hvað ég hlakkaði til að koma heim og gera eitthvað af því sem ég hafði vanrækt svo lengi en yfirleitt liðu dagarnir hjá með áhugamálin ósnert.

Útskriftardagurinn minn var upphafið af mjög erfiðum tíma í mínu lífi og það má með sanni segja að 2012 fari ekki ofarlega á vinsældarlistann yfir uppáhaldsárin mín. Það er margt við það að verða fullorðinn og standa á krossgötum sem verður ekki kennt, í fyrsta sinn upplifir maður mögulega eftirsjá og árin sem maður eyddi á skólabekk fara að vísa manni í einhverjar áttir... og þá er spurning hvort maður vilji fara þangað. Önnur spurning er hvort gáttin sé yfir höfuð opinn þrátt fyrir að maður hafi gert sig fullkomlega tilbúinn bara fyrir hana og lagt sig 100% fram fyrir hana.

Árið 2012 kemur guðsblessunarlega aldrei aftur en þroskastökk mitt það árið er engu að þakka nema öllum þeim brostnu væntingum og hindrunum sem ég mætti. Æðruleysi er eitt það fallegasta sem ég get hugsað mér en sjálf hef ég aldrei getað státað mig af því. Ég byrjaði hins vegar árið 2013 skrefinu nær því að geta viðurkennt að ég hef ekki sjálf vald yfir öllum þáttum lífs míns.

Að lokum má setja upp smá jákvæðan samanburð sem staðfestir í mínum huga að árið 2013 verður mitt!

25.02.2012
Vinna: bakvinnsla í útibúi Arion banka
Síðasta ljóð samið: júlí 2008
Eftirsjá: stanslaus
Kg: 69,4

25.02.2013
Vinna: Verkefnastjóri hjá Silent Company ehf (silent.is)
Síðasta ljóð samið: 24. Janúar 2013
Eftirsjá: Engin
Kg: 66,6


Allt í áttina krakkar, allt í áttina...

föstudagur, 1. febrúar 2013

Ég og vinur minn, Vinnumálastofnun


Ég hef verið atvinnulaus frá 1. desember síðastliðnum. Ég hef ekki áður verið á atvinnuleysisbótum og er því nýgræðingur í þessum efnum. Ég hef þó alltaf talið það skipta miklu máli að vera heiðarlegur og kurteis því það muni skila manni mestu... að lokum. Á svipuðum nótum byrjar maður oft nýja vináttu, maður gefur af sér og fær það sama til baka. Þannig fór ég inn í vinnumálastofnun fyrsta daginn minn, með það hugafar að láta ekki sögusagnir um þessa erfiðu stofnun flækjast fyrir mér. Í huga mér var þetta allt saman spurning um að koma vel fyrir og vera heiðarlegur, þá fengi maður til baka hlýju.. tjah, eða allavega kurteisi. Í dag komst ég að því að þessi atriði skipta mann ekki mjög miklu máli þegar maður stendur frammi fyrir því að geta hvorki borgað leigu né reikninga sökum þess hve ósveigjanlegt, hægt og á tímum fornaldarlegt kerfið er.
Til að útskýra betur mál mitt set ég það hér upp í tímaröð til dagsins í dag
18. desember 2012:
Ég mæti á kynningarfund hjá vinnumálastofnun þar sem kynning fer fram á því helsta sem þarft er að vita þegar að maður er atvinnulaus. Ítrekað kemur fram að vinnumálastofnun hvetji mann til þess að taka alla þá vinnu sem býðst. Eftir fundinn ræði ég við fyrirlesarann og segi honum af mögulegri verktakavinnu sem mér gæti boðist, hvort það sé eitthvað vesen. Hann segir mér að það komi betur út fyrir mig að vera í hlutastarfi sé það í boði en hann myndi samt hvetja mig til að taka alla vinnu sem ég gæti, slíkt myndi frekar gera mig eftirsóknarverða í vinnu. Hann bendir mér hins vegar á að þá daga sem ég vinni sem verktaki fái ég ekki bætur, sama hversu lítil vinnan er og ég þurfi að tilkynna verktakavinnuna. Gott og vel... svolítið kjánalegar reglur þótti mér en engu að síður gott að vita þetta fyrirfram.

15. Janúar 2013:
Mér býðst að taka að mér verktakaverkefni þann 18. janúar (föstudagur), 7 klst verk hjá Silent viðburðum (frábært fyrirtæki, krakkar;) ). Ég reikna það út að ég komi um það bil út á sléttu með að taka verkinu eða vera á bótum þennan daginn en vegna reynslunnar (og skemmtunarinnar) ákveð ég að taka verkið.

16. janúar 2013:
Ég hringi í vinnumálastofnun til þess að spyrja um hvað það sé sem ég þurfi að gera gagnvart þeim vegna verktakaverkefnisins. Í símtalinu kemur fram að ég hafi verið á skrá frá 3. des og hafi aldrei gert þetta áður. Ráðgjafinn gaf mér þær upplýsingar að ég þyrfti bara að hringja aftur daginn eftir og láta vita af verkefninu, þá yrði ég skráð af bótum á föstudeginum en síðan þyrfti ég að koma með afrit af reikningnum sem ég gæfi út næsta virka dag og þá yrði ég skráð aftur í kerfið.

17. janúar 2013:
Ég hringi í vinnumálastofnun og tilkynni að ég ætli að taka að mér verkefnið daginn eftir, þetta sé einungis einn dagur og ég muni mæta með afrit af reikningnum til þeirra á mánudeginum.

18. janúar 2013:
Skráð af bótum. Skelli mér í þetta stórskemmtilega verkefni og allt gengur vel.

20. janúar 2013:
Ég fer inn á „mínar síður“ á vinnumalastofnun.is til að staðfesta atvinnuleit en get það ekki vegna þess að ég er ekki skráð í bótakerfið vegna verkefnisins á föstudeginum. Allt í góðu með það, en þar var ég allavega komin með staðfestingu á því að ég hefði verið skráð af bótum.

21. janúar 2013:
Mæti með afrit af reikningi í Vinnumálastofnun, bið konu í afgreiðslunni um að skrá mig aftur í kerfi og segi henni að þetta hafi bara verið þessi dagur. Hún gerir það.
Um kvöldið fer ég aftur inn á „mínar síður“ á vinnumalastofnun.is og staðfesti atvinnuleit.

25.janúar 2013:
Mér berst bréf heim til mín dagsett 24.01.2013 þess efnis að fjallað hafi verið um rétt minn til atvinnuleysistrygginga en samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum starfi ég við verktakavinnu. Afgreiðslu máls hafi verið frestað og óskað eftir því að ég leggi fram yfirlýsingu um að ég muni ekki starfa við rekstur á eigin kennitölu/taka að mér verktakavinnu án undanfarandi tilkynningar til vinnumálastofnunar og afskráningar á meðan verkefni standi. Svo kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum uppfylli ég ekki skilyrði um atvinnuleysistryggingar þar sem ég starfi við eigin rekstur. Mér er síðar í bréfinu gefinn kostur á að koma til skila skýringum á þessum atriðum og yfirlýsingu þess efnis að ég muni ekki taka að mér verktakavinnu á meðan ég þiggi greiðslur atvinnuleysistrygginga, án undanfarandi tilkynningar til Vinnumálastofnunar. Til þess hef ég 7 virka daga.
Ég tek bréfið upp kl. 15:30 á þessum föstudegi, hálftíma eftir að vinnumálastofnun lokar. Að mínu áliti ætti þetta erindi að koma fram á „mínar síður“, þá vissi maður af þessu fyrr, en skiptir ekki máli. Nú er ég eins og áður segir nýgræðingur í þessum efnum og gat ekki skilið bréfið öðruvísi en svo að verið væri að saka mig um að hafa tekið að mér verktakavinnu án þess að láta vinnumálastofnun vita áður. Ég las bréfið nokkrum sinnum yfir og hafði komist að þeirri niðurstöðu að um einhver mistök væri að ræða, það hefði ekki skilað sér í kerfi að ég væri í þessari vinnu á föstudeginum áður eða eitthvað slíkt. Það eina sem mér fannst undarlegt við það var sú staðreynd að ég hafði verið afskráð yfir helgina á undan. En ég þurfti að bíða fram á mánudag til að komast að því rétta.

28. Janúar 2013:
Ég hringi enn og aftur í vinnumálastofnun, tilbúin að verja mig með kjafti og klóm þar sem ég hafði reynt mitt ýtrasta að standa rétt að öllum málum. Konan í símanum hafði ekki eins miklar áhyggjur af þessu og ég, sagði bara að þetta væri yfirlýsing sem allir sem tækju að sér verktakavinnu öðru hverju þyrftu að skila inn. Ég benti henni á að bréfið væri að mínu mati orðið svolítið eins og maður hefði gert eitthvað rangt en var fegin því að það væri þrátt fyrir allt ekki málið.
Seinni partinn fer ég í Vinnumálastofnun með undirritaða yfirlýsingu þess efnis að ég myndi ekki taka að mér verktakavinnu án þess að láta þau vita áður en vinnan myndi hefjast. Þar sem greiðslustofa Vinnumálastofnunar er á Skagaströnd flýtti ég mér með þetta samdægurs, því ég taldi einhverra hluta vegna mikilvægt að þetta kæmi til þeirra fyrir mánaðarmót.

01.02.2013:  Blaðran springur!
Ég ákveð að hringja í vinnumálastofnun til að sjá hvort ég fengi ekki greitt í dag. Ég var að stússast við að reikna saman leigu og önnur gjöld komandi mánaðar. Ég hringi beint í greiðslustofu Vinnumálastofnunar á Skagaströnd. Þar segir mér kona að ég fá ekki greitt því það sé ekki enn búið að taka fyrir umsóknina mína og þeim hafi ekki enn borist verktakayfirlýsingin.
Ég lýsi undrun minni yfir því þar sem ég hafi skilað henni inn á mánudag.
 „Á miðvikudag“ leiðréttir konan mig og ég segi henni að það sé aldeilis ekki rétt. Ég hafi hringt í þau á mánudag og skilað inn yfirlýsingunni samdægurs!
 Hún segir það svosem ekki skipta öllu en það standi 30. Janúar í kerfinu hjá henni, þetta sé allavega ekki komið til þeirra og það sé ekki hægt að taka erindið fyrir fyrr en yfirlýsingin hafi borist.
Ég spyr hvort þau sem vinna innan vinnumálastofnunar geti ekki treyst hvort öðru með það að frumritinu hafi verið skilað inn ef það sé skannað rafrænt á milli.
Hún segir að auðvitað geti þau treyst hvort öðru en þau geti bara ekkert gert án frumritsins, það þurfi að taka þetta fyrir á fundi.
Ég spyr hvenær ég fái þá eiginlega greitt.
Hún segir það séu fleiri greiðsludagar í mánuðinum og ég fái þetta MÖGULEGA þá. Ég geti hringt á miðvikudaginn í næstu viku og séð hvernig málin standa.
Mér stendur svo innilega ekki á sama. Ég spyr hana hvernig þau reikni með að fólk borgi leiguna sína og reikningana sem lendir í svona.
Hún segir mér að félagsmálastofnun hafi verið að aðstoða fólk með svona sem væri ekki að fá greitt frá Vinnumálastofnun.
Ég endurtek og spyr hana hvort hún sé virkilega að benda mér á að fá borgina til að lána mér pening þangað til þau greiði mér út bæturnar mínar?
Hún segir „þau hafa verið að gera það“. Sem ég fæ síðan seinna að vita að er ekki rétt. Þetta á einungis við fólk sem á ekki bótarétt, sem ég á og ég varla byrjuð að nýta mér.
Ég minni hana á að ég hafi hringt tvisvar sinnum áður en ég tók að mér verktakaverkið til að spyrjast fyrir um hvernig ég bæri mig að og komið einu sinni með afrit af reikningi til þeirra en aldrei hafi neinn svo mikið sem minnst á að ég þyrfti að skila inn undirritaðri verktakayfirlýsingu.
Hún sagðist ekki geta svarað fyrir hina hvers vegna þeir gerðu það ekki.
Ég sagðist skilja það, en hún ynni á stofnuninni en ekki ég sem setti hana í töluvert betra færi að koma þessari óánægju áleiðis.
Hún sagðist ekki geta hjálpað mér meira með þetta, ég yrði bara að hringja í næstu viku.

Það er letjandi að reyna að vinna samhliða bótum. Það er óþægilegt að láta koma fram við mann eins og maður sé alltaf að gera eitthvað af sér. En verst er þó að upplifa það óverðskuldað, það er eftir að maður hefur reynt eftir bestu getu að fara réttar leiðir. Það kostar í dag miklu meiri orku að vera heiðarlegur á atvinnuleysisbótum en óheiðarlegur.

Ég var heppin. Ég átti orlofið mitt síðan í Arion banka á sparireikning og gat þess vegna borgað leiguna mína í dag. Ég veit það hins vegar sem aðili með 3 ára bankareynslu að atvinnulaus einstaklingur gengur ekki inn í banka og fær yfirdrátt eins og ekkert sé... bara svona rétt á meðan. Það er að segja, nema hann eigi ljúfan þjónusturáðgjafa að og engar aðrar skuldir.

Ég verð ekki oft reið, en í dag líður mér örlítið eins og ég hafi verið send í skammarkrókinn daginn sem ég, með leiðbeiningum leikskólakennaranna, útbjó stillt í sætinu mínu fallegustu myndina úr þurru pasta sem gerð hefur verið...
...Og mér finnst það óréttlátt.

mánudagur, 28. janúar 2013

Fimm góðar uppskriftir

Stundum tek ég mig til og elda. Aðallega þegar Sindri er upptekinn samt. Ég er ekkert svo góð í því að elda án þess að fara NÁKVÆMLEGA eftir uppskriftinni, sérstaklega þar sem skynjun mín á krydd í mat virðist vera eitthvað undarleg stundum. Bragðið sem ég næ að þróa meðan maturinn er að eldast er ekkert endilega bragðið sem ég finn síðan þegar ég sest niður og borða hann. Þá hef ég komist að því að það að setja tvö góð krydd saman er ekki endilega uppskrift að góðu bragði. 
Ég er ekki alveg jafn léleg að baka og treysti mér töluvert betur til þess að leika mér með bakstursuppskriftir. Vegna þess hef ég stundum boðist til þess að setja inn uppskriftir á Matviss.com af bakstursárangrinum mínum. Hér fyrir neðan má finna þær 5 uppskriftir sem ég hef skrifað fyrir Matviss, fjórar þeirra eru bakstur en ein þeirra voðalega gott humarsalat.

1. Sumarkaka


Mesta uppáhaldið af þessum 5 uppskriftum, en ekki fengin úr mínum hugarheimi. Þetta er kaka sem Elsa amma mín í Sæbergi bakaði alltaf og óhætt að nefna "uppáhald barnabarnanna". Hún smakkast samt einhvernveginn alltaf betur í eldhúsinu í Sæbergi, en slær sérstaklega í gegn hjá börnum. Þá ber að nefna að mikilvægasta innihaldsefnið í uppskriftinni að mínu mati, er skrautsykurinn. Hann má ekki vanta eða skipta út fyrir eitthvað annað.

2. Surtsbrauð

Klárlega sú uppskrift sem ég er stoltust af, enda ekki hönnun einhvers annars... þó ég hafi fengið smá hjálp frá Sindra. Þetta er líka nýjasta uppskriftin af þessum fimm og mér til mikillar gleði á ég ennþá slatta í frystinum. Þetta var aðalatriðið í bóndadagsmorgunverði ársins.

3. Humarsalat og hvítlauksbrauð 


Þetta er klárlega uppáhaldssalatið mitt. Sindri kenndi mér að útbúa svona salat fyrir nokkrum árum síðan og þrátt fyrir að það sé ákaflega sumarlegt þykir mér alls ekki verra að fá það í janúar, rétt eftir jólin. Hvítlauksbrauðið þykir mér líka mjög gott og ég nota það við hin ýmsu tækifæri og nota brauðafganga úr frystinum til þess. Til dæmis ætla ég að útbúa svona með fiski í kvöld.

4. Belgískar vöfflur

Í síðustu viku bjó ég til belgískar vöfflur í morgunsárið. Þar sem ég átti ekki vöfflujárn fékk ég það bara lánað, bakaði úr öllu deiginu og frysti þær vöfflur sem ekki voru borðaðar. Þá er ekkert mál að taka þær úr frysti og skella í brauðrist. Tilvalið þegar það mæta gestir með litlum fyrirvara. Ég setti súkkulaði í deigið og reyndar rúsínur í hluta af því. Bar það síðan fram með ávöxtum, súkkulaði, hunangshnetum, sultu og sírópi. Dálítið heavy og engin nauðsyn að hafa þetta allt.

5. Dutch baby (German pancake)

Í byrjun janúar stakk ég uppá því við Sindra að einn morgun í viku myndi ég fara fyrr á fætur og útbúa handa okkur morgunmat. Hugmyndin kviknaði meðal annars vegna þess að mig langaði að hafa eitthvað skemmtilegt fyrir stafni þegar ég færi á fætur en var einnig liður í því að reyna að njóta þessa tíma sem ég er heima við, á meðan ég þarf þess. Ég byrjaði á að prufa að útbúa Dutch-baby eða German pancake en þessi máltíð gengur undir báðum þessum nöfnum í Bandaríkjunum. Ég ákvað að útbúa útgáfu með ferskum berjum, því þau toppa alltaf allt! Mjög áhugaverð og skemmtileg máltíð.... eina sem er nauðsynlegt að eiga er panna sem má fara í ofn, eða einhverskonar form sem getur komið í staðinn.

Þangað til næst!





sunnudagur, 20. janúar 2013

Bastkarfa fær nýtt líf

Ég verð að segja að ég stend mig ótrúlega vel í blogginu þessar fyrstu vikur ársins, en það getur svosem vel verið að það taki ekki að fagna þeim framförum alveg strax. Í framhaldi af síðasta bloggi þar sem ég málaði umbúðir til að nýta sem gjafaöskjur þá vil ég henda hér inn einu öðru dundi sem ég var að klára.
Við eigum eina bastkörfu hér á Fálkagötunni sem fylgdi Sindra og hann hefur nefnt það svo oft að henda henni því hún passi í fyrsta lagi ekki hér inn og sé ljót. Við höfum notað hana undir blöð sem við viljum eiga og ég hafði lengi verið að líta í kringum mig að fallegum blaðarekka eða fallegri blaðakörfu til að leysa þessa af hólmi. Einn daginn kviknaði hins vegar ljós, við áttum hvíta veggmálningu niðri í geymslu frá því í haust og ég skaust út og fjárfesti í einum pensli.

Ég fór tvær umferðir yfir körfuna og leyfði málningunni að þorna vel á milli (reyndar í rosalega marga daga í mínu tilfelli, en það er algjör óþarfi). Hér má sjá fyrir og eftir myndir af körfunni góðu, þess má geta að við nýttum tækifærið og tókum líka til í blaðabunkanum... enda mikilvægt að gera allt sem maður getur til að "eftir" myndirnar líti extra vel út :)


Fyrir - og full af drasli
Í málningarferlinu

Komin á sinn stað, með aðeins minna af drasli

Þetta er alveg ferlega sniðugt - sérstaklega ef þið eigið einhversstaðar afgangs veggmálningu. Annars er sniðugt að kaupa svona "prufudósir". Þær innihalda yfirleitt alveg nóg af málningu fyrir svona dund verkefni.

mánudagur, 14. janúar 2013

Gjafaöskjur



Ég rölti á Borgarbókasafnið í liðinni viku til að ná mér í hljóðbók. Sindri benti mér nefnilega á þann möguleika eftir að ég hafði tekið fýlukast hér heima og fundið allar mögulegar leiðir til að útskýra hvers vegna mér finndist flest í heiminum leiðinlegt. Hann tók því með mikilli ró og sagði mér að prófa að byrja alla morgna á göngutúr á meðan enn væri bjart. Sú hugmynd var að sjálfsögðu fyrst ómöguleg þar sem ég væri orðin þreytt á allri tónlist á ipodinum mínum og ég veit ekki hvað og hvað... þá benti hann mér á hljóðbækurnar. Já, stundum er gott að eiga góða og þolinmóða að.
Fyrir valinu varð Eat. Pray. Love. og þrátt fyrir að vera bara komin á kafla 16 af 119 þá elska ég þessa bók. Ég hef ekki séð myndina og ætla mér ekki að gera það fyrr en þessari hlustun er lokið, og ég hef sett mér þá reglu að hlusta bara á meðan ég er á hreyfingu... það lokkar mig til að hreyfa mig örlítið lengur í hvert skipti.
Á leiðinni út af safninu rakst ég á föndurbókahornið og kippti með mér heim tveimur bókum. Út frá hugmynd í annarri þeirra varð til hugmynd af því að útbúa gjafaöskjur úr kössum utan af hinum ýmsu hlutum. Allt sem þarf eru kassar, föndurmálning (ég notaði akryl) og stenslar (allavega fyrir þá sem eru ekki málningasnillingar).

Svo ég prófaði að taka þessa kassa...

  
Kassar utan af allkonar :)


Og málaða þá í mismunandi litum (eins margar umferðir og þarf, leyfði þeim að þorna á milli)...

Búið að mála


Kíkti síðan á internetið eftir myndum til að klippa í stensla og „stimplaði“ á kassana.
Krummi

Aðeins misheppnað blóm

Prinsessan og froskurinn

Sjaldséður hvítur hrafn...

...og annar á flugi :)



Ágætis nýting á kössum – og hinar ágætis gjafaumbúðir.

mánudagur, 7. janúar 2013

Áramótaveisla nr. 1



Það má með sanni segja að ég hafi farið inn í árið gerandi eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Við Sindri héldum í fyrsta sinn áramót heima hjá okkur. Kvöldið innihélt allt sem þurfti fyrir góð áramót, góða gesti, góðan mat, afruglara svo hægt væri að ná RÚV þar sem loftnetið er í ólagi og ekta kampavín. Við tókum ákvörðun um það standandi í Vínbúðinni að nýtt ár ætti skilið alvöru kampavín þar sem þess er óskað að það verði töluvert mikið betra en hið blessaða ár 2012.

Við (ásamt nánast helmingi borgarbúa) ákváðum að skreppa í Hagkaup á gamlársdag til að ná í það sem upp á vantaði. Ég hugsa að tíminn sem við eyddum í röð hafi verið jafn langur og sá sem fór í innkaup.Við náðum að kaupa smá skraut til að hafa á borðinu um kvöldið; gyllta skrautsteina, rauðar perlur með borða og innisprengjur (sem reyndar standa hér enn ónotaðar) :)

Gylltir skrautsteinar, innisprengjur og perluborði úr Hagkaup
 
Við ákváðum að nota síðan servíettur sem við fengum í aðventuglaðning frá Óðinsvé, en það er ólík mynd á öllum hliðum þeirra og ýmist snéru hreindýrarassar eða andlit að matargestum. Diskarnir voru stórir svartir keramikdiskar sem Sindri fann á útsölu í EGG einhverntíma og hnífapörin frá ömmu hans. Nýju fínu Ittalla glösin okkar, sem við fengum að hluta til í jólagjöf, voru síðan að sjálfsögðu á borðum.
Snilldar servíettur frá Danmörku

Hreindýrarassar

Hvítvínsglas, rauðvínsglas og vatnsglas

Matseðillinn var ekki af verri endanum:

Forréttur:
Heimagerð hreindýraliframousse á grófu brauði með salati og sultuðum kirsuberjum frá Selleberg á Fjóni.
Rauðvín: Jam jar 2009
Sá sem ekki borðar kjöt fékk ofnrétt úr barbapabba graskeri J

Aðalréttur:
Humar eldaður í ofni með hvítlauk og steinselju
Kúskús
Salat
Hvítvín: Gewurtztraminer frá Pfaffenheim

Veisluborð fyrir 7 tilbúið

Ákveðið var að sleppa eftirrétti (man ekkert af hverju) og leggja þeim mun meira í snarlið sem borðað var yfir og fram að Skaupi. Þar má telja upp grafna gæs sem við keyptum á bændamarkaði fyrir jólin, grafið ærkjöt frá Bjarteyjarsandi, heimareykta gæsabringu, danskan kúmenost og hollenskan Gouda. Þetta var síðan borið fram með grófu brauðu, kexi, birkisírópi úr Hallormsstað, heimagerðri íslenskri berjasultu og hunangi frá Selleberg. Nóa konfektið var að sjálfsögðu á sínum stað ásamt döðlunammi, heimagerðu lakkrískonfekti og unaðslega góða jólalakkrísnum frá Johan Bülow sem Sindri fékk í afmælisgjöf.


Útsýnið af öðrum svölunum


Á miðnætti var síðan gripið í glas af Veuve Clicquot og fagnað nýju ári! 2013 verður gott ár!