mánudagur, 28. maí 2012

Fimm þemadagar

Í síðustu viku var ákveðið að lífga örlítið uppá tilveruna á svarthvíta vinnustaðnum mínum vegna hækkandi sólar og Eurovision. Svo margar góðar hugmyndir að þemadegi höfðu borist skemmtinefndinni á vinnustaðnumað ákveðið var að henda af stað heilli þemaviku þar sem hver dagur var tengdur við þema. Silla ofurþemanörd lét ekki segja sér tvisvar að hún mætti mæta í einhverju öðru en niðurdrepandi svörtu fötunum sínum og var í raun alveg slétt sama hvort aðrir í kring væru að taka þátt í herlegheitunum. Þemapartý og þemadagar gleðja mig fáránlega mikið og hafa alltaf gert.... líka þegar ég er ekki sjálf að stjórna þeim :)
Mér datt í hug að henda hérna inn myndum af dressunum sem ég mætti í þessa 5 daga en myndirnar eru mjög misgóðar þar sem ég gleymdi að sjálfsögðu að spá í þær nema bara fyrsta daginn. 


Mánudagur - bleikur og fjólublár dagur



Mætti í þessum bleika Ginu Tricot kjól sem ég fékk í afmælisgjöf frá Fanneyju, fjólubláum leggings, svörtum hælum og elsku VILA hálf-leðurjakkanum mínum.


Þriðjudagur - binda og slæðudagur



Þar sem mér fannst skemmtilegri hugmynd að mæta með bindi heldur en slæðu þá fékk ég lánað gullfallegt bindi hjá Sindra sem hann keypti fyrir brúðkaup hjá Söndru systur sinni árið 2009, það er kremað með blómamynstri. Myndin af þessu dressi er hræðileg þar sem speglamynd varð að duga því ég vildi bæði ná bindinu og fínu skónum. Ég var í svartri gervi"silki"skyrtu úr Zöru, navy bláum jakka, svörtum nýjum buxum úr vera moda sem ég elska og síðast en alls ekki síst fínu KronbyKronkron skónum mínum sem eru svartir, hvítir og navy bláir með handpressuðu leðri á platforminu. Hugmyndin þessa dagana er nefnilega að reyna að nýta þennan dýra skófatnað meira því hann er svo fallegur :)

Miðvikudagur - doppótt, röndótt og blóma



Ég á að sjálfsögðu doppátta kjóla, röndótta kjóla og blómakjóla í skápnum mínum svo þessi dagur olli örlitlum valkvíða. Ég ákvað þó að lokum að fara í blómakjól þar sem doppótti kjóllinn og röndótti kjóllinn eru báðir svartir og hvítir en ég vildi vera í lit á meðan tækifæri gæfist. Ég fór því í hvítar sokkabuxur sem ég keypti út í H&M árið 2006 og skil ekki af hverju eru ekki löngu ónýtar, blómakjól sem ég keypti í Hagkaup í fyrra og hefur nýst mér ótrúlega vel og jakka úr Vila sem ég keypti í fyrravor til að lýsa örlítið upp vinnufötin.

fimmtudagur - gulur, grænn og blár  

 

Ég var mjög spennt fyrir þessum degi þar sem ég er nýbúin að kaupa mér gular buxur í Vero Moda. Ég mætti því í þeim, grænum bol úr Zöru sem ég keypti fyrir GayPride í fyrra, svartri stutterma gollu úr H&M og hinum KronbyKronkron skónum mínum sem eru einmitt með bæði gulu og grænu í :) Ég er að verða búin að eiga þessi tvenn skópör í ár en er ennþá að dáðst að þeim. 

föstudagur - EUROVISION  


Upprunalega hugmyndin var að mæta sem Silvía Nótt.... en það er erfitt að bankavæða hana Silvíu, auk þess sem ég fór með strætó í vinnuna alla vikuna og veit ekki hvort ég hefði viljað þá athygli sem ég hefði líklegast fengið í þeirri múnderingu í strætó. Ég ákvað því að draga bara upp gamla góða pallíettukjólinn sem ég keypti í KISS í hitteðfyrra og láta gott heita. Sirra sæta mætti í appelsínugulu gullfallegu skónum sínum sem var mjög nauðsynlegt að yrðu með á þessari mynd :)

Annars tapaði ég Eurovision veðmálunum sem ég tók í vegna óvenjulegrar bjartsýni sem hefur ekki verið til staðar hjá mér síðustu ár. Ég sný því líklega aftur til fyrri svartsýni á næsta ári. :) Það kostar mann svo margar vínflöskur að vera svona bjartsýnn.

fimmtudagur, 10. maí 2012

Kolaportið: víðari sýn á samfélagið

Síðastliðinn laugardag stóð ég vaktina með Kristrúnu vinkonu minni í Kolaportinu. Hún hafði verið að flytja og þurfti því að losa sig við ýmislegt sem ekki þótti nógu gott til að fylgja henni. Þar sem ég er örlítið skyld föður mínu og á erfitt með að henda hlutum hefur mér tekist á tæpum tveimur árum að yfirfylla geymslu hér á Fálkagötunni sem við áttum ekkert til að geyma inn í þegar við fluttum hingað. Ég sló því til og ákvað að fara með henni. Við áttum vel saman í þessu verkefni þar sem báðar höfðum við áður reynt að selja í Kolaportinu en komið verulega illa útúr þeim viðskiptum, raun svo illa að helgin borgaði sig enganvegin. Við vorum því fljótar að verða sammála um að leigja einungis einn bás saman og annan dag helgarinnar. Básinn fyrir daginn kostar 7.200 kr. en auk þess þarf að leigja slá og borð svo allt í allt voru þetta 9.200 kr. Á þessum eina laugardegi, 6 klukkustundum seldum við samtals fyrir rúmar 50.000 krónur samanlagt þrátt fyrir að flest hefðum við selt á 500 og 200 kr. 

Að standa einn dag í Kolaportinu er samt svo miklu meira en sú hagsýni sem fylgir því að fá smotterí fyrir veraldlega hluti sem skipta þig litlu máli. Þarna sérðu og áttar þig vel á þeirri alþjóðavæðingu sem átt hefur sér stað á Íslandi. Raunar eru það fáir aðrir staðir en Kolaportið og sportbarir miðbæjarins á meistaradeildar-kvöldum sem sýna jafn góðan þverskurð af þjóðerni íbúa Íslands. 
Í Kolaportinu má einnig finna verulega skemmtilegar týpur, alvöru týpur. Áður en opnað er koma þeir sem eiga fasta vikulega bása og renna yfir dótið þitt til að sjá hvort þú eigir eitthvað sem þeim vanti til sölu á sinn bás. Má þar helsta nefna lopakonuna, leðurjakkakonuna, snyrtivörukonuna og síðast en alls ekki síst geisladiskamanninn sem reyndist mér ákaflega vel og keypti 25 diska af mér fyrir opnun. 
Við opnun mæta síðan með miklum látum hagsýnu, oftast asískar, húsmæðurnar sem ætla sér að gera sem best kaup með því að mæta sem fyrst á staðinn. Á hæla þeirra fylgja síðan gramsararnir, en þeir telja sig hafa tapað miklilvægum leik ef hinir atvinnugramsararnir hafa náð að sortera allt hið besta úr áður en þeir mæta á svæðið. Þetta á aðallega við um geisladiska og tölvuleiki. 
Þá eru það atvinnuprúttaranir sem vilja sífellt fá vöruna á sínu verði og þykjast oft ætla að hætta við þar til þeir endurtaka nokkrum sinnum fyrir þig að þeir eigi ekki meiri pening en þeir séu að bjóða. Þegar síðan kemur að því að borga rífa þeir upp peningabúntið og finna ekki 500 kallinn sem þeir buðu fyrir öllum 5000 króna seðlunum í búntinu. Við þá er ekki hægt að vera pirraður, svona viðskiptahætti verður að virða. 
Seinni part dags skríða fram úr rúminu appelsínugulu unglingsstúlkurnar sem mættar eru í Kolaportið til að veiða allt sem á stendur Victoria's secret, Pink, Adidas eða því um líkt. Í kreppu þarf að finna nýjar leiðir til að halda í merkjavöruna. Þær stoppa verulega stutt hjá geisladiskagæjanum og hafa aldrei tekið eftir því að það eru seldar bækur í Kolaportinu. 

Þegar búllunni hefur verið lokað og allir gengið af göflunum í að lækka hjá sér verðið tekur fólkið með föstu básana aftur hringinn til að sjá hvort ekki sé eitthvað sem ófaglærðir Kolaports-sölumenn hafi gefist upp og séu tilbúnir að lækka verulega verðið hjá sér. Þarna er trixið að leyfa sér að vera lengi að ganga frá til að ná sem flestum svona gestum.
 Í lokin til að sýna fram á þann gífurlega fjölbreytileika fólks sem finna má í Kolaportinu má nefna dyggan stuðningsmann Ástþórs Magnússonar sem gekk á milli bása að safna undirskriftum með hárri, skræktri röddu sinni. Kannski ekki hin týpíska Kolaports-týpa en má ekki gleymast.

Af Kolaportinu á ég sjálf margar minningar. Þegar ég var barn hlakkaði ég mest til þess að kaupa þar lukkupakka sem finna mátti víða fyrir 50 eða 100 kr. Aðeins eldri fór ég að sjá hluti þar sem mig langaði verulega í og til að mynda voru keypt þar handa mér hin týpísku hermannastígvél árið 1996 (þegar ég var 10 ára) en þau varð ég að eignast því Óli bróðir átti ein sem hann fór varla úr. Á sama tíma fékk ég mömmu til að raka undir hárið hjá mér og gekk mikið í köflóttum skyrtum og gallabuxum með röndum á hliðinni sem mamma átti sveimér þá held ég rúllu af. Í Kolaportinu gerði ég líka bestu kaup lífs míns, að mér fannst á þeim tíma allavega, þegar ég keypti Chicago Bulls bol á engan pening. Ég mætti mjög oft í honum í íþróttir og skipti það mig engu að á honum miðjum væri sígarettugat. Þar keypti ég líka Liverpool bolinn minn sem var þó meira eins og kjóll á mig, er enn í dag of stór þrátt fyrir að liðin séu ein 15 ár. 
Seinna meir þegar ég bjó í Reykjavík með Margréti minni lögðum við það í vana okkar að kíkja stundum á sunnudögum í Kolaportið. Þá var markmiðið oft einungis að skoða bækur og kaupa Völu-buff. Þar keypti ég einmitt biblíuna mína sem gefin er út um 1950 og kápan úr leðri. Þetta ár keypti ég einnig nokkra kjóla þar sem ýmist voru ætlaðir í góð þemapartý eða bíða enn tækifæris til að láta ljós sitt skína. Þar keypti ég líka handa Sigríði Svandísi rauðan gullfallegan Kína-kjól.



Kolaportið hefur alla tíð, frá því ég man eftir mér, verið í mínum huga heillandi partur af Reykjavík. Þetta er staðurinn sem þú flýrð inn á þegar gluggaveðrið leiddi þig í kuldann niðri í miðbæ, kíkir á til að kaupa bestu kartöflurnar í bænum eða skoða öðruvísi mannlíf en fyrirfinnst í Kringlunni. Það kom mér því verulega á óvart hversu margir sem ég hef kynnst eru á öðru máli og þá ekki síður innfæddir Reykvíkingar sem jafnvel hafa ekki komið þangað í mörg herrans ár.

Ég elska ólíka menningu, ég elska að þekkja fólk sem er ekki eins og ég, hugsar öðruvísi, hefur önnur gildi og hegðar sér stundum undarlega að mínu mati. Í Kolaportinu fæ ég örlítinn snefil af slíkri tilfinningu....

Ég ætla klárlega þangað aftur bráðlega.... þó ekki sé nema til að kaupa mér völubuff.

miðvikudagur, 9. maí 2012

Sushi og vín

Ég hef aldrei kunnað að drekka vín með neinu og alltaf metið gæðin útfrá hversu svalandi það er að drekka þau ein og sér. Ótal sinnum hef ég þó drukkið rauðvín með kjöti og hvítvín með kjúklingi og fiski en hingað til aðeins dæmt vínið af því hversu lítið vont er að nota það til að bleyta upp í bitanum sem ég er að tyggja.

Ég hef heldur aldrei lært að drekka neitt annað en vatn með sushi. Sushi er eitthvað það albesta sem ég fæ og hingað til hefur mér þótt drykkir eyðileggja bragðið af bitunum, sérstaklega þar sem ég hef verið að nota drykkina til að bleyta upp í bitunum eins og með annan mat. Að þessu öllu sögðu drekk ég líka fáránlega lítinn vökva almennt með mat. Betra að drekka bara hratt á eftir.

Þann 25. apríl síðastliðinn fór ég á fyrsta vínsmökkunarnámskeiðið mitt ásamt Sindra en ég ákvað að skella mér eftir að hafa séð það auglýst á innrivef vinnustaðar míns. Þar sem sushi er í miklu uppáhaldi hjá okkur báðum var ekki verra að byrja sinn vínsmökkunarferil á námskeiðinu "sushi og vín". Námskeiðið var haldið í ostabúðinni á Skólavörðustíg og var á vegum vínskólans og SuZushii (Kringlan). Kennari kvöldsins var Dominique en á hana er hægt að hlusta endalaust tala um vín svo mikil er þekking hennar á þeim efnum. Hún hefur einnig verið fararstjóri í ferðum Vínskólans.

Á rúmlega tveimur tímum fræddumst við um þrúgur, lönd og sushi ásamt því að smakka á 5 tegundum af víni með 5 ólíkum sushi bitum.

stolin mynd fundin á google:)

Fyrst fengum við lítinn gúrku maki bita með Santero Prosecco Craze freyðivíni frá Ítalíu. Freyðivínið og bitann hafði ég smakkað áður, en ekki saman. Þarna við fyrstu smökkun kvöldsins áttaði ég mig á villunni sem fólst í því að drekka vínið ofan í matinn. Þess í stað gerði ég eins og kennarinn sagði mér, lyktaði, sullaði, tók sopa og smakkaði. Síðan setti ég sushi bitann upp í mig og áttaði mig í fyrsta sinn á því hvað vín gæti gert fyrir mat. Þetta var skemmtileg blanda, en langt frá því að vera mín uppáhalds þetta kvöldið.

Í annari umferð fengum við laxa nigiri (kodda) með Willm Riesling víni frá Alsace. Vínið eitt og sér fannst mér örlítið sérstakt en gott. Þetta var hins vegar að mínu mati besta samsetningin sem við fengum þetta kvöld. Vínið vinnur sérstaklega vel með feitum fiski.

Í þriðju umferð fengum við California rúllu með Rapitala Cataratto-Chard frá Sikiley. Sushibitinn var rosalega góður enda sushimeistari SuZushii lærður úti í Japan og allt. Vínið var þéttara, gulara og mýkra en það sem við höfðum smakkað í fyrri umferðum.

Í fjórðu umferð fengum við manhattan maki rúllu sem ég hafði ekki smakkað áður. Fyllingin þar er ommeletta, reykt bleikja og kál. Vínið með henni var Altano (Paul Symington) frá Portúgal, þurrt ávaxtavín. Ég var ekkert sérstaklega hrifin af þessari samsetningu.

Fimmti og síðasti bitinn sem við fengum var nauta teriyaki nigiri (koddi) með Pinot Gris Kientz. Ég hlakkaði mikið til að smakka þennan sushi bita þar sem ég hafði aldrei smakkað neitt þessu líkt áður. Hann var mjög góður og það var vínið líka. Að mínu mati var þetta besta vínið á námskeiðinu til þess að drekka eitt og sér en samsetningin var ekki eins góð og sú sem við fengum í annari umferðinni. Vínið er mjög ferskt og má einnig drekka með kjöti sem er ekki alveg rautt en ekki ljóst eins og kjúklingur, til dæmis önd. Eins benti Dominique á að þetta vín væri gott að bera fram með léttreyktur hamborgarhrygg.

Ég mæli með því að fólk prófi að mæta á vínsmökkunarnámskeið hjá vínskólanum, það er ekki svo dýrt og getur orðið mjög skemmtileg kvöldstund :) Við Sindri enduðum síðan kvöldið á Bæjarins bestu þar sem námskeiðið var haldið á kvöldmatartíma og í boði voru 5 sushibitar eða einn fyrir hverja umferð. Það var ekki alveg nógu mikill matur fyrir okkur svo við bættum við smá eftirrétt. 

Ég mæli líka með því að fólk kíki inn á nýju síðuna sem Sindri var að opna matviss.blog.com en þar má finna uppskriftir, fræðslu og umræðu um mat. Hann startaði síðunni bara í gær og er búinn að setja nokkrar skemmtilegar færslur inn nú þegar. Getið líka farið á http://www.facebook.com/Matviss og smellt einu like-i til að fylgjast betur með því sem fer þangað inn. 

fimmtudagur, 3. maí 2012

Að hlakka til..

Stundum er ekki allt eins og maður vill það sé. Stundum áttar maður sig á því of oft í viku að maður hélt fyrir nokkrum árum síðan að lífið eftir háskólaútskrift yrði allt öðruvísi en það er í dag. Stundum á maður þá til að smám saman fyllast svartsýni, draga sig inn í vel byggðan þægindahring sinn, hætta að ögra sjálfum sér og nánast því sætta sig við að svona verði þetta bara. Svo allt í einu vaknar maður upp af þessum væra svefni, oft á dögum eins og í dag þar sem sumarið flýtti sér í mark, og leitar leiða til að sjá út... Þegar það hefur tekist grípur maður í listina "að hlakka til". Það er nákvæmlega það sem ég er að gera núna... hlakka til og að neðan eru nokkrar vel valdar ástæður fyrir því.

  • Í maí mánuði eru enn eftir 2 auka rauðir dagar, uppstigningardagur og annar í hvítasunnu
  • Á laugardaginn er ég að fara í Kolaportið að selja (vonandi) helling af dóti sem ég er hætt að nota
  • Í dag seldi ég þriðju meistararitgerðina mína og hlakka til að hafa þær fleiri.
  • Í sumar er ég að fara að skrifa grein uppúr meistararitgerðinni minni og kynna á Þjóðarspeglinum í haust
  • Eftir 41 dag flýg ég til Danmerkur í heimsókn til Fanneyjar, Alexar, Söndru og Odds.
  • Í enda júlí og byrjun ágúst verð ég í sumarfríi.
  • Við Sindri stefnum á að leika okkur örlítið í studio-i á næstunni með texta eftir hann.
  • Ég er búin að sækja um að komast á söngnámskeið í haust
  • Sólin fer að skína og þá fer meikið mitt aftur að passa mér, maður er sjaldan hvítari en í apríl.
  • Í næstu viku ætla ég að byrja að hjóla á Pole-fit æfingar í Skipholtið
  • Haustið 2013 fer ég til NY með algjörum skvísum en við leggjum inn á reikning mánaðarlega til að minnka líkur á beili.
Þetta hefur myndað örlitla tilhlökkunartilfinningu hjá mér. Ég hugsa að ég hiti mér bara te, horfi á America's Next Top Model og lesi Nude Magazine til að klára daginn!

Hver er víst sinnar gæfu smiður, svo það er eins gott að hífa sig upp af rassgatinu með hækkandi sólu....