þriðjudagur, 25. febrúar 2014

Tónlist

Ég blogga eiginlega aldrei um tónlist. Stór partur af þeirri ákvörðun byggir á því að ég treysti ekki eigin skoðunum á tónlist. Ef mér finnst eitthvað leiðinlegt er ég alltaf þess fullviss að ég skilji bara ekki stefnuna/lagið/textann... og mögulega muni afstaða mín breytast við frekari hlustun.

Þetta skilar ótrúlegum óþægindum þegar hin klassíska spurning um uppáhalds tónlistarstefnu er dregin upp. RISA stórum parti af mér langar að segja "ég er alæta" en það er bæði hallærislegt, mjög líklega ekki satt og sannarlega barns síns tíma. Þegar ég les þetta svar frá einhverjum öðrum dreg ég alltaf þá ályktun að viðkomandi hlusti í raun ekki mikið á tónlist, þ.e.a.s. ekki sjálfur eftir eigin smekk.

Síðan finn ég þessa bloggáskorun - og að sjálfsögðu þarf hún að innihalda pistil um uppáhalds tónlistarstefnu. Heppnin er með mér.

Með árunum hef ég komist að niðurstöðu um að ákveðin einkenni í tónlist geri það að verkum að mér líkar vel. Þó hef ég einnig komist að því að ekkert þeirra er nauðsynlegt en hjálpar yfirleitt til.


  1. Góð melódía. Ég vel melódíu fram yfir takt allan daginn, alla daga. Þó taktur sé stundum töff.
  2. Raddanir - flottar raddanir geta gefið mér gæsahúð, og því miður gefur mér ekkert svo margt gæsahúð. Árstíðar strákarnir náðu mér á hálfu lagi í Egilsstaðakirkju árið 2009 og haldið mér sem verulega dyggum aðdáanda síðan. Moses Hightower útfæra raddir líka á ótrúlega skemmtilegan hátt, enda einnig í miklu uppáhaldi. Annars kemur kántrí líka sterkt inn í þennan punkt.
  3. Einlægni. Fyrir mig er það oft "Less is more" - ég elska reyndar að horfa á tónleikashow en þegar kemur að tónlistinni sjálfri finnst mér fjöldinn allur af hljóðfærum ekki geta komið í stað einlægni.
  4. Saga. Ég er sökker fyrir góðum textum. Ég er líka sökker fyrir textum sem ég tengi við - þó þeir séu ekki góðir. :)
  5. Góðir söngvarar. Það eru góðir söngvarar í öllum stefnum. Góðir söngvarar syngja líka stundum léleg lög. Þrátt fyrir það er líklegra að sæmileg lög nái mér ef þau innihalda söngvara sem hefur getað leikið sér mér laglínuna og skilað þessu "extra something".
  6. Rokk ballöður. Holy hell hve margar rokkballöður hafa hreyft við mig. Jafnvel fengið mig til að grenja við réttu aðstæðurnar. 
Almennt virðist, eins og í svo mörgu öðru, skapið síðan geta haft gífurleg áhrif á hvers konar tónlist ég hlusta. Stundum vill maður bara föstudagsfiðring með "We are young" og "Cheers (drink to that)" en stundum vill maður ekkert nema "She's gone" og "Bed of roses". Það kemur líka fyrir að maður vill Bjartmar og Megas og mikið af þeim. Enn annan tíma vill maður bara setja Árstíðir á tækið, gleyma að það sé til hversdagsleiki og finna tónlistina þeirra fylla mann ánægju. Jafnvel á mínum verstu dögum finn ég fyrir einhverskonar neista þegar ég hlusta á Árstíðir. 

Þetta var pistill um tónlist... ég trúi því varla sjálf.


mánudagur, 24. febrúar 2014

Hressandi kvikmyndagrátur

Ég tárast oft yfir kvikmyndum, ég man ekki til þess að hafa nokkurntíma farið að háskæla, en ég tárast oft. Stundum þarf ekki mikið til en stundum þarf mjög mikið til, allt eftir því hvernig ég er stemmd. Við erum eins misjöfn og við erum mörg hvað þetta varðar. Sumir ná engri tilfinningalegri tengingu við kvikmyndir, sumir ná of miklum tilfinningalegri tengingu og allt þar á milli. Ég þekki til dæmis til einnar stúlku sem grætur yfirleitt ekki yfir kvikmyndum en þegar hún er þunn grætur hún yfir hvaða kvikmynd sem er. Ég þekki aðra sem er kvikmyndin á meðan á henni stendur, finnur allt og reynir jafnvel að bjarga aðalpersónunum með því að segja þeim til. Ég þekki líka enn aðra sem veit sennilega aldrei hvaða kvikmynd við vorum að horfa á því hún eyðir allri myndinni í að spjalla á milli þess sem hún gagnrýnir leikarana, fötin þeirra, tónlistina og söguþráðinn.

Ég þekki líka eina sem fór einu sinni með mér í bíó árið 1998 og bjargaði mér svo sannarlega frá tárum í það skiptið. Saman mættum við tvær, 12 ára, ég og Antonía að sjá Titanic í bíóinu í Valaskjálf. Ég hafði keypt fyrir okkur miðana í forsölu í Rafeind, verslun sem nú er ekki lengur til - en var rekin af sömu bræðrum og bíóið.

Ég var fáránlega spennt. Ég, eins og nokkrar aðrar 12 ára stelpur, elskaði Leonardo DiCaprio og átti plaggöt af honum í tugatali. Myndin var löng en hvorug okkar fann mikið fyrir því enda gífurleg spenna í gangi. 

Síðan kom að því, skipið var sokkið og Jack Dawson búinn að koma Rose upp á flekann meðan fólk dó allt í kringum þau. Maður sá að Jack hafði það ekki svo gott, hann var við það að gefast upp. Kökkurinn í hálsinum stækkaði og augun við það að fyllast að tárum. Ég starði á skjáinn, gjörsamlega miður mín, þegar Antonía byrjaði að hlæja. 
Ég leit á hana mjög hissa og hún horfir á mig "æ, sorrý... " og tekur fyrir munninn á sér.
Ég sökkvi mér aftur í myndina, eða reyni það, en Antonía heldur áfram. Ég reyni að taka ekki eftir því þar til hún hallar sér að mér "Silla... Silla. Sorrý... bara konan fyrir aftan okkur grenjar svo asnalega".




Ég sagði öllum í skólanum frá þessu, fannst þetta sjúklega fyndið þó ég hafi ekki alveg viljað gúddera hegðun Antoníu á meðan á henni stóð. Ég fékk Titanic special edition videospólu með part úr filmu, plaggati og myndum í afmælisgjöf þetta árið. Ég man ekki hvort ég náði að gráta eitthvað yfir þessu atriði seinna meir, en þykir það mjög ósennilegt þar sem þetta atvik poppar alltaf upp í huga mínum þegar ég sé þetta atriði. Nú til dags poppar það reyndar alltaf upp þegar minnst er á Titanic og mér þykir það mjög skemmtilegt. 


sunnudagur, 23. febrúar 2014

Af kókoshjarta

Næsta verkefni í bloggáskoruninni minni var að taka mynd af hjarta og birta hér á blogginu. 
Ég sá að þessa áskorun gæti ég svo sannarlega klárað á augabragði, dró upp símann og festi á (reyndar ekki) filmu þessa mynd. 


Samkvæmt áskoruninni þurfti ekkert að tjá sig frekar um hjartað en mig langar samt að taka fram nokkrar hugmyndir að notkun - hef heyrt margar til viðbóta, en svona notum við hana hér á Fálkagötunni:
  • Í skeggið (þ.e.a.s. Sindri - ég ber ekkert í mitt skegg)
  • Fínasta nuddolía - og hef heyrt þetta sé mögulega rosa fínt fyrir húðina í leiðinni.
  • Sem steikingarolía.
  • Poppa popp - mér finnst það voða gott.
  • Hrökkbrauð, kokosolía og epli - winner!
<3


föstudagur, 21. febrúar 2014

Í snyrtitöskunni minni...

Ég er ein af þessum konum sem fann út hvernig mér líkaði best við sjálfa mig, keypti þær vörur sem á þurfti að halda í snyrtitöskunni og hef nánast ekki breytt til síðan.

Það sem breytist frá því yfir hábjartan daginn þangað til ég fer á djammið er mögulega að augnblýanturinn fer úr brúnu yfir í svart, og varirnar fá oftar varalit á kvöldin heldur en daginn.
Stöku sinnum dríf ég mig í að setja einhverjar skyggingar á augnlokin, en það heyrir til undantekninga.
Á sérstökum tillidögum (lesist áramót og Eurovision) set ég yfirleitt glimmer á augnlokin.

Veit þetta kemur kannski á óvart, en á sumum sviðum get ég verið ákaflega einföld.


2x svartur blautur eyeliner (sem ég nota nánast aldrei)
Glimmer maskari og blautur eyeliner
Plokkari
Baugahyljari
Varablýantur
Naglaklippur
4x augnblýantur. 2 brúnir, grænn og svartur 
3 x burstar
Yddari
Augnhárabrettir
Sólarpúður
Meik
Bóluhyljari
Augnskuggastifti
Maskari

Svona er ég ready í allt!

fimmtudagur, 20. febrúar 2014

Uppáhalds baksturinn

Þegar ég var krakki var það tvennt sem kom til greina að skella í ofninn þegar mér datt í hug að baka. Annars vegar voru það jógúrtkökur í muffinsformum, búnar til úr kaffijógúrti og deigið eitthvað það besta kökudeig sem ég fæ. Hins vegar var það sultukaka sem Óli bróðir bakaði oft á tímabili þegar ég var krakki. Uppbygging sultukökunnar var 2 brúnir botnar (ekki of sætir, ekki of þurrir) og sulta á milli.
Þetta tvennt á það sameiginlegt að vera ekki svo sætt að maður klári sig af sykri við neyslu á einni sneið eða einu stykki, þess vegna er þetta ekta bakkelsi í kaffitímanum þegar maður er búinn að vera á fullu að leika sér yfir daginn... og maður torgar meiru af þessu en heavy súkkulaðiköku.

Það er á stefnuskránni að finna uppskriftirnar fyrir þetta tvennt, ég veit þær eiga að vera til einhversstaðar í bleiku heimilisfræðimöppunni minni. :)

Í staðinn vil ég deila með ykkur uppáhalds bollakökuuppskriftinni minni, lakkrísbollakökur frá Johan Bülow. Þið getið notað íslenskan lakkrís í staðinn fyrir lakkríssíróp, sterka mola í staðinn fyrir lakkrísduft eða gert þetta allt alvöru og keypt lakkríssíróp og hrálakkrísduft frá kappanum í Epal.
Áður en ég prófaði þessar hafði ég bakað lakkrísbollakökurnar hennar Rikku, þær eru rosalega góðar en einmitt algjörar bombur. Fyrir mína parta dugir hálf slík kaka og þá er ég komin með nóg. Þessar eru ekki eins sætar, sem hentar mér mun betur - og botninn er ljós til að vega upp á móti öllum lakkríssætindunum.

Ef þið eigið eftir að prófa þessar er helgin hárréttur tími fyrir það. Uppskriftina finnið þið hér.




miðvikudagur, 19. febrúar 2014

Síðasta máltíðin

Næsta áskorun situr svo í mér að ég hef ekki bloggað í 5 daga. Spurningin er, ef þú gætir valið síðustu máltíðina þína á lífi, hver yrði hún?

Í fimm daga hef ég öðru hvoru velt þessari spurningu og held alltaf að ég sé með svarið við henni á hverjum degi. Daginn eftir er ég aldrei sammála niðurstöðunni sem ég hef komist að daginn áður.
Löngunin fer eftir skapi, aðstæðum, hvað ég borðaði síðast og hvaða tími dagsins er.

Ég hef því komist að þeirri niðurstöðu að ef ég get ekki fengið allt sem mér finnst gott í síðustu máltíðinni minni þá væri alveg eins gott að prófa eitthvað nýtt í síðasta sinn. Allavega í forrétt. Líklega líka í aðalrétt. Eftirrétturinn mætti hins vegar vera úr súkkulaði og með ís til hliðar. Það toppar ekkert góðan ís og góða franska súkkulaðiköku.

Einnig hefur mig alltaf langað til að halda "öfugt matarboð", þar sem eftirrétturinn er borðaður fyrstur og forrétturinn síðastur. Ef ég verð ekki búin að framkvæma þá hugmynd þegar kemur að síðustu máltíðinni minni væri ég mjög til í að fá allt í öfugri röð. Það er bara eitthvað svo skemmtilegt við það!

Ég ætla að slíta þessari færslu til að smakka alveg nýjan rétt frá Sindra. Korter í æfingu. Ekki góð hugmynd kannski - en maður verður að nærast.

fimmtudagur, 13. febrúar 2014

Mynd af grænu

Eyddi deginum í fjósi á suðurlandi. Það var frábær tilbreyting frá 101-105-107 Reykjavík sem geymir mig flestar stundir.
Þessir nýju, skemmtilegu félagar mínir fengu að fylgja með í grænu myndinni. Þeit eru allir töluvert yngri en ég og einn reyndar bókstaflega fæddur í gær.

miðvikudagur, 12. febrúar 2014

Don´t dream it, be it...

Þegar ég valdi nafn á bloggið mitt vildi ég að það gæti náð yfir öll mín skrif, segði eitthvað um mig og hefði þýðingu.

Don´t dream it, be it gæti vel átt við blogg um lífið sjálft og í heildina hvernig maður þroskast í áttina að því sem maður vill vera. 

Don´t dream it, be it er líka setning úr uppáhalds söngleiknum mínum, The Rocky Horror Picture Show, sem ég sá m.a. 4 sinnum í uppsetningu Menntaskólans á Egilsstöðum. 

Don't dream it, be it er líka kvót og ég er algjör sökker í kvót. Áður átti ég blogg með nafnið "And those dreams that you dare to dream really do come true" sem er textabrot úr laginu "Over the Rainbow" úr galdrakarlinum í Oz. 

Kvót sem snúa að draumum manns í lífinu hafa alltaf höfðað mikið til mín og ég á auðvelt með að láta þau hafa áhrif á mér. Það sem hins vegar gerir það að verkum að "Don't dream it, be it" höfðar svo vel til mín er hvar valdið liggur. Í mörgum kvótum er talað um að ef maður óski sér nógu mikið verði draumur manns að veruleika, í öðrum þá á maður ekki að gefa upp vonina því mögulega detti draumurinn upp í hendurnar á manni einn daginn. "Don't dream it, be it" setur alla ábyrgðina yfir á þann sem á lífið. Í mínum huga hefur þetta hvetjandi merkingu, segir mér að í stað þess að eyða tímanum í dagdrauma skuli ég eyða honum í eitthvað sem kemur mér í átt að þeim.

Þegar ég stofnaði þetta blogg var það aðallega til að blogga um áskoranir, áramótaheit og framfarir. Það hefur hins vegar einnig rúmast pláss á því fyrir afturför, brostnar vonir og mistök.
Eitt af því sem ég vil vera er heiðarleg, svo allir þessir þættir eiga vel heima á bloggi nefndu "Don't dream it, be it".


mánudagur, 10. febrúar 2014

Bleika handtaskan

Konur geyma svo margt í handtöskunum sínum að það jaðrar við að vera fáránlegt. Eftir því sem maður á stærri tösku, þeim mun meira drasl telur maður sig þurfa að hafa meðferðis.
Ég á eina í stærri kantinum sem ég er með nánast á hverjum degi og treð tölvunni í hana á leiðinni heim, allavega þangað til ég kaupa mér eitthvað fínt utan um hana.

Þetta er taskan mín...


Og hér er það sem í henni finnst:


Peningaveski sem er raunverulega ekki í notkun undir peninga - heldur allskonar svona kort sem maður notar ekki dagsdaglega. Það er líka til taks ef ég eignast óvart pening eða klink.


Prjónavettlingar sem mamma prjónaði, það er reyndar alltaf gott að hafa þá ef manni yrði kalt.


Grip fyrir súluna. Ætti raunar að vera í íþróttatöskunni eða bara í bílnum. Ég tek þessa tösku allavega mjög sjaldan með mér á æfingu.


Þessi á rétt á sér í töskunni, en tekur hins vegar gífurlega lítið pláss miðað við stærð töskunnar.


Minnisbók sem ég man aldrei eftir.


Handáburður sem ég nota aldrei. Okey, aldrei eru ýkjur... svona þriðja hvern mánuð.


Plastpoki sem ég vissi ekki að væri þarna fyrr en ég fór að gramsa í töskunni fyrir þetta blogg.


Hengilásinn sem ég nota í World Class, ætti líka að vera í íþróttatöskunni minni. Hefur verið þarna síðan á bóndadaginn þegar við skruppum í Laugar Spa.

Penni - kemur sér stundum mjög vel.

Varasalvi sem ég nota aldrei. 

Millistykkið fyrir tölvuna mína. Það á nú vel heima þarna, gott að vita að það sé alltaf til taks. Verra þegar ég gleymi samt sjálfu hleðslutækinu í vinnunni.

Ein króna - sem ég vissi ekki af! Alltaf að græða. Og af hverju er hún þá ekki í veskinu?

Niðurstaða - pennann, krónuna, millistykkið og varalitinn væri sennilega hægt að koma fyrir í kápuvasanum mínum.

En þessi taska er aaaaalveg ómissandi samt!




laugardagur, 8. febrúar 2014

Uppáhalds mynd af bestu vinum

Hér ætti ég að birta uppáhalds myndina mína af mér og bestu vinum mínum. Ein kemur upp í huga mér, fermingarmyndartakan af mér og Hjördísi Mörtu. Hjördís 2 höfðum hærri en ég, við báðar í upphlut og ég með hendina á öxlinni á henni. Þetta er priceless mynd en þið verðið bara að taka orð mín trúanleg þar sem ég hef aldrei skannað þá mynd og á hana því ekki á rafrænu formi.

Í staðinn ætla ég að setja hér inn mynd sem vekur alltaf bros þegar ég rekst á hana. Hún er af mér, Hjördísi og Fanneyju. í góðum gír fyrir nokkrum árum þegar Fanney kíkti í heimsókn til Ísland og við kíktum á lífið í miðbænum. 



Einnig ætla ég að bæta inn einni mynd sem við í vinkonuhópnum höfum notað sem hópmyndina okkar, því hingað til höfum við aldrei náð okkur öllum saman á mynd. Þar verður engin breyting á næstu helgi þegar þessi hópur hittist í matarboði heima hjá mér, þar sem Agla stakk af til allra hinna landanna í heiminum akkúrat á sama tíma og áætlað matarboð. 
Ég legg því fram ósk hér og nú um að næst þegar við hittumst allar 6 verði smellt af!

Ekki það að ég elska þessa mynd af okkur...;)


Hér á Fálkagötunni stendur annars yfir skipulagning á þorrablóti sem við ætlum að vera með hér heima í kvöld. Ég er samt ekki ennþá búin að klæða mig. Þetta kemur allt með uppstúfnum og hangikjötinu.


10 möguleg matarboð

Ef ég mætti sitja 10 mismunandi matarboð með 10 mismunandi manneskjum, lifandi eða dánum, þá yrðu það eftirfarandi. Ég svindlaði reyndar aðeins með því að nefna tvo hópa en reglur eru bara til að sveigja þær aðeins. Meðfylgjandi er þriggja rétta matseðill fyrir hvert matarboð.






Amma í Sæbergi (best væri náttúrulega að hafa afa með líka)

Forréttur: Sumarkaka
Aðalréttur: Fiskibollur
Eftirréttur: Marengskaka

Það var oft erfitt að gera sér grein fyrir því um hvaða máltíð var að ræða í Sæbergi þar sem maður var rétt lagstur upp í sófa að leggja sig eftir kaffi þegar það var kominn kvöldmatur. Það útskýrir kannski forréttinn örlítið.




Pabbi

Forréttur: Síld. Hún er góð. 
Aðalréttur: Bleikar bollur eða kjöt í karrý
Eftirréttur: Ávextir, rjómi og súkkulaðispænir





Bifrastarhópurinn 

Forréttur: Súkkulaðirúsínur, hægt að narta í til að hita upp magann á meðan það er eldað
Aðalréttur: Kjúklinganúðlur
Eftirréttur: Frönsk súkkulaðikaka með pippkremi





Fellabeibsurnar

Forréttur: Brauðstangir úr söluskálanum
Aðalréttur: Vetrarsúpan hennar Katrínar
Eftirréttur: Skyrkakan sem Agla bjó til en var full af súkkulaði

Eftirpartýréttur: Samloka í samlokugrilli heima hjá Grétu og Fúsa. Ostar heiman frá mér.




Nigella

Hún mætti bara sjá um að elda og koma mér á óvart. Ég myndi alveg treysta henni til þess :)




Aldís

Forréttur: Mojito. Er það ekki réttur? Humar myndi líka hitta í mark.
Aðalréttur: Lamb úr Brekkubæ eða heilsteiktur kjúklingur ef hitt er ekki í boði.
Eftirréttur: Nóg af nammi og snakki myndi sennilega ganga best hér bara. Röndótti ísinn í Danmörku var líka ágætur. 




Jay Cutler
Maðurinn borðar 10 máltíðir á dag og ein máltíð getur stundum náð yfir dagskammtinn sem ég þarf að hitaeiningum svo þetta ætti að verða mjög fróðlegur kvöldmatur. Væri gaman að sjá hversu langan tíma það tæki mig að æla. Ég færi allavega ekki í kappát við þennan gæja.

Forréttur: Sushi (las á mörgum stöðum að honum þætti það gott)
Aðalréttur: T.d. 285 g kjúklingur og 840 g hrísgrjón
Eftirréttur: Próteinduft? Eggjahvítur? allskonar?




Sigga 
Það er alltaf gott að fara í mat til hennar Siggu tengdamömmu minnar. 

Forréttur: Humar með kús kús og salati
Aðalréttur: Kalkúnn með geggjað góðu fyllingunni
Eftirréttur: Toblerone eða rommkúluís




Margrét Dögg
Oh, við Margrét áttum svo margar góðar máltíðir saman. 

Forréttur: Hálf beygla með túnfisksalati
Aðalréttur: Kjötbúðingur eða fiskbúðingur með tómatsósu
Eftirréttur: Smákaka af Subway





Sindri
Ég elska svo margt sem Sindri eldar, það kemur eiginlega aldrei fyrir að mér finnist maturinn hans ekki góður. Reyndar finnst mér eitt af því skemmtilega við hans matargerð að hann man ekkert endilega hvað hann gerði síðast... svo hann prófar oft eitthvað nýtt. Hann þarf engar uppskriftir frekar en hann vill og veit upp á hár hvernig á að bjarga hlutunum þegar mér finnst ég vera að klúðra þeim.
Ég ætla að setja upp 2 matseðla, annarsvegar það sem ég myndi elda fyrir hann - og hins vegar það sem ég myndi vilja að hann myndi elda.

Ég myndi elda fyrir hann (að því gefnu að ég væri nógu fær til þess):

Forréttur: Bláskel í bjórsoði
Aðalréttur: Nautasteik, og velja svo gott kjöt að það þyrfti ekki sósu með. Mögulega bara viskíglas til hliðar. Ég myndi hafa til hliðar fyrir hann kartöflubáta til að narta í.
Eftirréttur: Fullkomin frönsk súkkulaðikaka með ferskum berjum og rjóma.

Óskalistinn minn frá honum:

Forréttur: Avacado, jarðaberja salat eða humar
Aðalréttur: Heilsteiktur kjúklingur eða svínarif með tilbúinni BBQ sósu sem hann gerir fáránlega vel.
Eftirréttur: Smores kaka. Ég elska hana. 


Gott ég var allavega södd að skrifa þetta blogg.... nýkomin heim af deiti þar sem ég borðaði yfir mig á sjávarréttahlaðborði í boði Sindra.

Góða helgi!

fimmtudagur, 6. febrúar 2014

Uppáhalds vörumerkin mín

Uppáhalds fatamerkin mín eru uppáhalds vegna þess að mér finnst þau töff, þau eru á viðráðanlegu verði og tvö þeirra kemst ég sjaldan í.
Mér finnst óþarfi að taka sérstaklega fram að ég elska íslenska hönnun og reyni að versla eina og eina flík þegar ég hef efni á því. Það er þó ekki svo að það sé einkennandi fyrir minn fataskáp ennþá... þó vonandi verði það þannig einhverntíma.

Hér heima kíki ég oft í Vero Moda og Vila, vörurnar sem ég laðast mest að þar inni eru OBJECT vörurnar. Þær vörur sem ég hef látið eftir mér að kaupa frá þeim hafa yfirleitt átt langt líf í fataskápnum mínum.











Í Danmörku er það síðan Gina Tricot sem fær mestan pening frá mér í árlegum ferðum mínum þangað. Ég verð samt að viðurkenna að mér hefur oft fundist línurnar þeirra meira spennandi en akkúrat núna.







Forever 21 eru síðan alveg klikkaðar verslanir. Þar er svo rosalega mikið af fötum og mér líkar ekki við nema mögulega 1/6 þar inni. Það sem mér líkar við nær mér hins vegar algjörlega. Í haust keypti ég 70% af öllum fötunum sem ég verslaði í Bandaríkjunum einmitt þar. Alltaf eitthvað skemmtilegt að finna þar.










Það er skemmst frá því að segja að löngun mín í ný föt hefur virkilega aukist við þessa færslu. Best að fara þá bara að sofa áður en maður framkvæmir einhverja vitleysu á internetinu.