sunnudagur, 2. febrúar 2014

Þrjár góðar bernskuminningar

Ég man mikið frá barnæsku minni. Reyndar hélt ég að allir gerðu það en með árunum hef ég rekið mig á að svo er alls ekki. Margir eiga ekki minningu fyrr en eftir að þeir byrja í grunnskóla á meðan aðrir eiga minningu frá fyrstu árum lífs síns. 
Áskorun dagsins snýr að umræddum minningum en hér fylgja þrjár slíkar.


1. Leikskóli, söngur og sippubönd
Ég söng mikið sem barn. Það þurfti engar sérstakar ástæður til þess og oftar en ekki var mér alveg sama hvort einhver væri að hlusta. Ég gekk um og söng, lék mér í rennibraut og söng, lék við brúðurnar mínar og söng. Ég veit ekki hvers vegna en greinilega hefur þetta gert eitthvað fyrir sálartetrið. Margir leikir sem ég fór í tengdust tónlist. Til dæmis danskeppnir í Brekkubæ með Aldísi þolinmóðu stóru frænku, tónlistarmyndbandaupptaka með Eyrúnu Hrefnu í Réttarholti (þar sem Jesus Christ Superstar og María Björk kom sterkt inn) og þykjast skrifa upp texta á gul blöð við plötuspilarann heima eins og pabbi án þess að kunna að skrifa. Seinna meir einkenndust leikirnir meira af textaskrifum og að syngja á kafi í djúpu lauginni. Þessa tvo leiki áttum við Hjördís Marta saman en ég býst við að sá seinni hafi verið vinsæll hjá mörgum. Sá fyrri virkaði hins vegar þannig að við skrifuðum báðar niður marga "titla" á textum (ekki titla sem voru til), brutum miðana saman og settum í glas. Við drógum síðan titil og völdum númer, en númerið táknaði blaðsíðutal í Stóru gítarbókinni. Við lagið sem prýddi blaðsíðuna þurftum við síðan að semja nýjan texta sem bar þann titil sem við höfðum dregið. Þarna komu fram góðir textar á borð við "Gulleggið hans Andra".

En aftur að leikskólanum. Fyrsta minningin sem hér um ræðir gerist í gamla kastalanum á Hádegishöfða og fyrir framan gamla leikfangaskúrinn. Ég man vel eftir því að hafa hlaupið í hringi um kastalann syngjandi Mýrdalssand á orginu á leikskólatíma. Eitt uppáhaldslagið mitt þá og stefið úr því það allra fyrsta sem ég lærði á píanó. Í hinni minningunni vorum við tvær, ég man ekki hver var með mér, en við notuðum trépall sem var á svæðinu sem svið, sitthvorn endann af sippuböndum sem míkrófóna og sungum af heilum hug Draum um Nínu. Ég man heldur ekki hvort ég var Stebbi eða Eyfi, enda hefur það alla tíð verið algjört aukaatriði fyrir mér. 


2. Svefngengill
Við hliðina á mér í Fellabæ bjuggu lengi vel tveir af mínum bestu vinum, systkinin Berglind og Bjarnþór. Þau voru bæði mjög góðir vinir mínir en Bjarnþór var nær mér í aldri svo framan af brallaði ég meira með honum. Það skipti mig þó svo litlu máli hvort þeirra ég léki mér við að fyrsta setningin þegar komið var til dyra heima hjá þeim var ávallt "Er Berglind eða Bjarnþór heima?". Yfirleitt var annað þeirra laust en stundum bæði og ekki veit ég hvernig við leystum þá það mál, ég man nefnilega ekki til þess að við höfum mikið leikið okkur öll saman. 
Leikirnir með Berglindi voru töluvert öðruvísi en leikirnir með Bjarnþóri. Með Berglindi klæddum við Hnoðra, köttinn þeirra, í dúkkuföt og höfðu hann sem aðal propsið í mömmó, byggðum upp völundarhús eða þrautabrautir úr lego og bókum fyrir hamsturinn hennar eða fundum þriðju stelpuna með okkur og að lokum var einhver skilinn útundan. Með Bjarnþóri snérist þetta meira um að byggja upp hjólabraut í grunninum, "mála" nýja bíla með vatni og drullu, búa til ryðgaða hluti því við vorum að safna og nenntum ekki að bíða eftir að þeir ryðguðu upp á eigin spýtur og lakka leikfangabíla með naglalakki. 
Ég hef 2 á ævi minni gengið í svefni, að mér vitandi. Annað skiptið vaknaði ég í stígvélum uppí sófa, hitt skiptið, sem hér frá segir, vaknaði ég og hélt mig hefði dreymt allt sem gerst hafði. Sumt mundi ég sem draum, sumt mundi ég alls ekki. Ég hef verið á bilinu 9-10 ára og átti herbergi í kjallara. Í svefni tókst mér að ganga upp stigann, inn í forstofu, stinga mér í stígvélin og fara út á náttkjólnum. Eina sem ekki var eðlilegt við þetta ferli var að ég skildi útidyrnar eftir opnar. 
Ég geng yfir til Berglindar og Bjarnþórs þar sem pabbi þeirra (Elli) var enn á fótum, horfandi á sjónvarpið. Ég banka og hann kemur til dyra.

Ég: Hæ. Er Berglind eða Bjarnþór heima?
Hann: (verulega hissa) Já... en þau eru löngu farin að sofa.
Ég: (ekki að skilja)
Löng þögn
Hann: Silla mín... átt þú ekki að vera löngu komin heim?
Ég: Hvað er klukkan?
Hann: Hún er orðin tvö.
Ég: Já, neinei... ég á ekki að koma heim fyrr en klukkan tíu.

Þetta var parturinn sem ég mundi eftir sem draum. Í skólanum daginn eftir fékk ég síðan að heyra frá þeim syskinum að ég hefði einnig reynt að fá snjósleða pabba þeirra að láni og gaf litlar skýringar á því hvað ég ætlaði mér með hann. Ella tókst að sannfæra mig um að fara heim og fylgdi mér yfir hálft bílaplanið en á móti mér tók pabbi á nærbuxunum að undra sig á aðstæðunum. 
Daginn eftir vakna ég, haldandi að allt hafi verið draumur, geng upp stigann og það fyrsta sem pabbi spyr er hvort ég hafi verið að heimsækja Berglindi og Bjarnþór um nóttina. Þetta þótti mér vægast sagt heldur óþægilegt og brá verulega að hann vissi um mína drauma. 


3. Ásgeir
Þegar ég var smábarn átti ég engan bangsa sem ég tengdi við. Ég átti hins vegar dúkku sem heitir Jóa og er nefnd eftir konu föðurbróður míns, en sú var mikið með mig og kom fram við mig eins og hin börnin sín. Dúkkan var gjöf frá henni til mín þegar ég var mjög lítil en í minningunni er hún keypt í Kaupfélaginu á Borgarfirði eysta. Þessi dúkka dröslaðist með mér flest og fékk stundum slæma útreið, ekki alltaf viljandi. Til að mynda var ég einhverntíma svo reið við mömmu að hafa látið klippa hárið mitt stutt (ég borðaði það í tíma og ótíma) að hún sá sig tilneydda til að tilkynna mér að hárið yxi aftur. Með þetta að leiðarljósi sótti ég Jóu og byrjaði að klippa hana þar til misskilningur minn var leiðréttur og ég gerði mér grein fyrir því að hennar hár yxi aldrei aftur. Jóa er því með broddaklipptan topp. 
Þó Jóa sé yndisleg og mamma hafi komið fram við hana eins og alvöru barnabarn og til dæmis saumað á hana jólakjól í stíl við minn, þá er hún ansi óþægileg að kúra með þar sem stór partur af henni er úr plasti. 
Um jólin 1995 (frekar en 1996) gáfu Jóa og Aldís mér bangsa. Ég þurfti ekki lengi að veltast með nafnið á honum því Ásgeir, bróðir pabba, var jú maðurinn hennar Jóu og því nefndi ég bangsann eftir honum. Jólin sem ég fékk Ásgeir keyrðum við á Borgarfjörð í jólaboð eins og venjan var. Og eins og venjan var þá varð ég bílveik á leiðinni. Þetta sinn minnir mig að ekki hafi þurft að stoppa svo ég gæti ælt, en það fór nú ekki betur en svo að þegar komið var á Borgarfjörð gusaðist út úr mér æla - og partur af henni lenti beint á bossann á nýja Ásgeiri. Þetta var mikil sorg og Ásgeir strax tekinn í rassaþvott. 
Eftir þvottinn þótti mér þó ennþá ælulykt af honum og brá Aldís þá á það ráð að spreyja á hann ilmvatni. Nítján árum seinna get ég enn ímyndað mér ilmvatnslyktina þegar ég hugsa um Ásgeir. 
í dag býr Ásgeir í gamla herberginu mínu í Fellabæ. Við reynum að nýta tímann vel þegar við hittumst.







Engin ummæli:

Skrifa ummæli