miðvikudagur, 11. september 2013

Fótgangandi með hjartað í buxunum

Ég átti leið fótgangandi frá einum hluta vesturbæjar yfir Hringbraut í kvöld. Ég ætlaði aldrei að hafa mig af stað, allt vann á móti mér. Bíllinn bilaður á allt öðrum stað á höfuðborgarsvæðinu, ipodinn rafmagnslaus og það sama mátti segja um símann minn.

Ég gekk af stað með regnhlífina sem ég hafði keypt í New York og tekið með mér heim þrátt fyrir yfirlýsingar um að regnhlífar á Íslandi væru gjörsamlega tilgangslausar. Fyrstu skrefin voru ánægjuleg, mikil rigning og umhverfishljóðin nokkuð sem ég hafði ekki lengi hlustað eftir.

Ég var nokkuð ánægð með mig og regnhlífina mína þar til ég beygði inn í fáfarnari götu hér í Vesturbænum. Allt í einu fannst mér myrkrið meira og fór sífellt að líta aftur fyrir mig eins og ég hafði ítrekað gert á kvöldin þegar ég var krakki. Útfrá því fór ég að velta fyrir mér hver hefði plantað í mig þessa fáránlegu myrkfælni og þessa hræðslu við skugga í myrkrinu... sem var samt minn eiginn og regnhlífarinnar. Hver hafði forritað í mig þann faktor að halda inni í mér andanum þegar ég gengi fram hjá eina bílnum í þröngri götunni sem kveikt var á. Alltaf hafði ég haldið að þessi viðbrögð væru eitthvað sem yxi af manni en ég var alveg jafn hrædd og þegar ég var 11 ára á sprettinum milli húsa í Fellabænum á kvöldin. Hægði ekki á mér fyrr en ég snerti hurðarhúninn, en þolið í dag leyfir það ekki... auk þess sem stoltið er stærra.

Næst kom ég að kirkjugarði og ekki skánaði það nú. Ég velti fyrir mér hvernig væri að búa þar á móti og var viss um að ef ég byggi þar myndi ég alltaf spretta úr bílnum mínum á kvöldin.

Þegar yfir Hringbrautina var komið og ég rölti fram hjá Hótel Sögu áttaði ég mig á að yfirlýsingar mínar um að regnhlífar á Íslandi gerðu ekkert gagn voru orðnar að veruleika. Ég ríghélt í regnhlífina svo hún myndi ekki spennast í öfuga átt á meðan ég rennblotnaði af láréttri rigningunni. Jæja, hún hefði þó dugað hálfa leið.

Á svipuðum tímapunkti velti ég fyrir mér hvort ég gæti bloggað um þennan göngutúr. En ég hélt nú ekki. Hvernig myndi ég svosem byrja það? Jú ég gæti byrjað á "Ég átti leið fótgangandi frá einum....". Þessu velti ég fyrir mér en ákvað að lokum að þegar ég yrði loks komin aftur heim myndi ég líklega aldrei nenna að skrifa þennan pistil. Ég myndi beila á því eins og alltaf.

Á áfangastað stoppaði ég örlitlar 20 mínútur, rétt nægilega lengi til að fara að finna fyrir hroll í blautum fötunum. Ég var svo heppin að eiga á þessum stað reiðhjól svo ég ákvað að renna mér á því til baka.

Á leiðinni heim hjólaði ég í alla polla sem ég sá og hafði gaman af á milli þess sem ég hlustaði á sjálfa mig verða móðari og móðari. Líklega hef ég ekki flýtt mér eins mikið á hjóli síðan ég var krakki í kappi við annan krakka (eða Sigga bróður sem var á móti mér á bíl... það kapp endaði með því að ég hjólaði á ljósastaur).
Á þessum stutta tíma á leiðinni heim náði ég þó að velta örlítið fyrir mér samskiptamynstri fólks og komst að því að það er langt síðan ég hef verið í svona slæmu líkamlegu formi.

Stundum er nefnilega ágætt að iPodinn manns sé rafmagnslaus.