þriðjudagur, 29. júlí 2014

"Ég eftir fimmtán ár" - eftir eitt ár

Ég kom heim í gær eftir frábæra dvöl heima á austurlandinu síðustu vikuna. Við keyrðum norðurleiðina á leiðinni austur og ákváðum þess vegna að klára hringinn með suðurleiðinni heim. Það voru kannski örlítil mistök þar sem þoka og rigning einkenndi þá ferð heldur mikið fyrir minn smekk. Það sem bjargaði þeirri ferð var humarpizzan sem ég keypti mér á Pakkhúsinu á Höfn í Hornafirði en þetta var í fyrsta sinn sem ég borðaði þar.

Eins og yfirleitt þegar ég á leið austur eyddi ég parti af síðasta kvöldinu mínu í allskonar grams í gömlu dóti í herberginu mínu sem enn fær að standa óbreytt. Það er einn af kostunum sem fylgja því að vera yngsta barn.
Í þetta sinn fann ég ritgerðirnar mínar, sögur, ræður og ljóð í gegnum árin. Ein ritgerðin var skrifuð haustið 2000 og bar titilinn "Ég eftir 15 ár". Ég man mjög vel eftir óánægju minni með þetta ritgerðarverkefni. Varkára, raunsæja, leiðinlega-mikið-niðrá-jörðinni 14 ára ég vildi ekki byggja einhverja skýjaborg. Ég vissi ekkert hvernig lífið yrði, hvað mig langaði að gera, hvort mig myndi ennþá langa það eftir 10 ár og alls ekki gat ég vitað í hvaða stöðu ég yrði.
Eina leiðin til að klára þetta verkefni var að setja þetta upp í söguform, það var hin eina leið til að fá mig til að leyfa mér að dreyma. Ég var þó áfram meðvituð um að smella varnagla í enda ritgerðarinnar, svona til að hugga framtíðar-mig ef ekki allt gengi eftir. Ég ætla að leyfa þessari ritgerð eftir 14 ára mig, sem mér þykir mjög vænt um í dag, að birtast hér að neðan.

Ég geng inn í íbúðina mína eftir langan vinnudag hjá tímaritinu Vikunni. Það er föstudagur og jólaseríurnar gera íbúðina fallega og jólalega. Ég lít útum gluggan og get ekki annað en hugsað til þeirra daga þegar ég var að skrifa ritgerð sem fer ekki úr huga mér, innihald ritgerðarinnar var það sem ég hafði vonað og haldið um framtíðina. Ritgerðin, "Ég eftir 15 ár", ég komst ekki hjá því að hugsa um það hvort þetta væri lífið sem ég hafði skrifað um í þessari ritgerð sem ég hafði skrifað fyrir 15 árum. Lífið var kannski ekki alveg þannig. 
Jú, ég var 29 ára, og jújú, það voru að koma jól. En hitt, allar þessar vonir og allt þetta fjöruga líf. Hvar var það? Ég er nýskriðin úr háskóla þar sem ég hef lært mikið um ritvinnslu og tjáningu og er að reyna að klára að gerast poppari í FÍH. Ég og unnusti minn erum að byggja draumhúsið okkar og er því nánast lokið. Við eigum einn 3 ára son og lífið brosir við okkur. Unglingsárin eru flogin á burt, þrátt fyrir að innra með mér langi mig mest til að fara út á djammið og finna mér einhverja gaura. En lífið og sóminn leyfir það ekki. Ég rölti inn í svefnherbergi og skipti um föt, ég hlakka til þess að fá nýja fataskápinn, herbergið, í nýja húsinu. Ég fer yfirleitt í World Class á daginn til að fá útrás en í dag stend ég bara við glugann og hugsa. Ég keyri yfirleitt niður eftir í World Class og fæ útrás í tækjunum, og boxa mig sveitta. Mig langar til að gera eitthvað sjálf, mig langar til að flytja út á land, en þar eru litlir möguleikar fyrir unga og óreynda konu eins og mig. Unnusti minn er lögfræðingur en spilar líka fótboltu á fullu þrátt fyrir meiðsli. Hurðinni er skellt harkalega og kallað: "Silla, við erum komin, og hérna er ein lítil vera sem langar að sjá þig".
En ég heyri ekki, ég held áfram að hugsa. Nýja fyrirtækið mitt, sem á að fara af stað í febrúar, er kannski ekki góð hugmynd en mér finnst það þess virði að reyna. Þetta fyrirtæki sér um útgáfu nýss tímarits og einning ætla ég að gefa út bækurnar mínar þar. Ég er að vinna í að klára þá fyrstu, en það er erfitt að vita ekki hvernig fólk mun taka við skrifunum. Fyrsta bókin er unglingabók, ég þykist vita að ég höfði best til þeirra. Allt í einu er togað í pilsið mitt, ég sný mér við og lít niður, þarna stendur þá litla kraftaverkið mitt. 
"Mamma, komdu" ég geng á eftir englinum mínum, barninu sem gaf mér svo mikið með því að koma í heiminn. Hann töltir inn í eldhús og ég í humátt á eftir.
"Mamma sjáðu" segir hann og brosir. Á borðið er búið að leggja diska og hnífapör og ilmurinn af kínamatnum er yndisleg. Ástin í lífi mínu snýr sér við frá ísskápnum með kókflösku í hendinni. "Nei hæ, ég hélt þú hefðir farið í ræktina, því ég heyrði ekkert í þér áðan".
Ég geng að honum og faðma hann að mér, hann tekur því ekki illa og faðmar á móti. Litla kraftaverkið okkar kemur hlaupandi og vill vera með. Og þarna stöndum við og föðmumst þangað til unnustinn segir "við verðum að borða áður en maturinn kólnar, er það ekki?"
Og nú fer ég að hugsa á ný, þetta er kannski ekki það líf sem ég vonaði að eignast fyrir 15 árum, en þetta líf er mitt líf og af því vildi ég ekki missa fyrir vonur og drauma fortíðarinnar.
Rennandi yfir þennan texta er augljóst að ég mun ekki standa í þessum sporum eftir ár. Nokkrir punktar:

  • Ef ég ætla að eiga 3 ára barn eftir rúmt ár verð ég heldur betur að drífa mig - hvorki meðganga né ættleiðingarkerfið virkar svona hratt svo þetta er líklega ekki að fara að gerast.
  • Ég vinn kannski ekki hjá Vikunni - en það kemur fyrir að ég sendi auglýsingar þangað.
  • Vikan er þó svo að segja staðkvæmdarblað fyrir Cosmopolitan, Seventeen, Elle og fleiri sem búa til helling af allskonar skemmtilegum "How to" greinum sem ná vel til unglingsstelpna... og reyndar oft kvenna. Ég hafði horft á svolítið margar bíómyndir sem enduðum á hjartnæmum greinum í tímaritum þar sem aðalsöguhetjurnar afhjúpa sig. 
  • Ég hef bara einu sinni reynt að skrifa unglingabók - og þá var ég unglingur. Sennilega á sama tíma og þessi ritgerð er skrifuð.
  • Ég hafði horft svolítið mikið á Sex and the City og Ally McBeal.. og vissi þar af leiðandi að upptekið framafólk borðaði mikinn kínamat. 
  • Ekki séns að unnustinn héldi á kóki - ef þetta væri skrifað í dag væri það Pepsi Max. 
  • Þrátt fyrir alla lögfræðinemana á Bifröst var ég ekkert að leitast eftir að kela við þá - enda hélt ég á þessum tíma að lögfræðingar ynnu við kreatífa og fáránlega ræðusköpun eins og fyrirmyndirnar í Ally McBeal.
  • Ég hef farið í World Class. Oft. Ekki enn mætt í box þó. Ég var sem betur fer ekki að velta fyrir mér súlunni til að halda mér í formi á þessum tíma - ég segi sem betur fer, því þá vissi ég ekki um neitt sem heitir Pole Fitness.
  • Ég er ekki að fara að byggja hús á næsta ári. Nema ég vinni í lottó. Endurskoðum þetta... verði ein með fyrsta sæti í Víkingalottó mögulega. Myndi samt örugglega ekki eyða því í að byggja hús. Gleymum þeim hluta.  Líkar samt vel við að 14 ára ég hafi ákveðið að 29 ára ég vildi fataherbergi.
  • Þetta með FÍH... Complete Vocal, er það ekki eitthvað? Annars gengur mér ekki sérlega vel að verða poppari. 

Að lokum - takk 14 ára ég fyrir að hughreysta 29 ára mig (á næsta ári) og láta vita að það sé í lagi að hafa ekki uppfyllt neina af þínum væntingum. Nema hafa farið í World Class öðru hverju.

Skrítið þetta líf.