mánudagur, 19. maí 2014

Diners, Drive-Ins and Dives og Ingólfstorg

Í ágúst 2013 fór ég til New York með fimm góðum vinkonum þar sem við dvöldum í sex daga. Ferðin var frábær og mun seint renna úr minni mínu, hver dagur hafðu upp á eitthvað glænýtt að bjóða. Þetta var fyrsta ferðin mín út fyrir Evrópu og vonandi alls ekki sú síðasta.

Í New York fór ég á Broadway og drakk mjög stórt hvítvínsglas þar, fékk mér kokteila á roof top bar, keypti mér beyglu og muffins í morgunmat, pizzu í Little Italy, sushi og algjörlega glataða steik.
Eftir að ég kom heim fór ég að hafa mjög oft kveikt á Food Network þegar ég var að dunda mér heima við, hvort sem ég var í tölvunni eða að elda. Við erum svo heppin hér á Íslandi að algengasti sjónvarpstíminn okkar er að megninu til á sama tíma og endursýndir Diners, Drive-Ins and Dives þættir. Nokkrir... margir í röð.
Í Diners, Drive-Ins and Dives er mjög mikið um subbulegan, sveitta og verulega subbulegan mat. Svona mat sem maður verður að fá að smakka en hefur á tilfinningunni að maður endi samt með kransæðastíflu korteri eftir síðasta bitann.
Einn af mjög vinsælum réttum á þessari annars ágætu stöð eru pylsa með chilihakki - og almenn barátta um hver bjóði upp á bestu slíku pylsunum.
Áður en ég fór til Bandaríkjanna hafði ég ekki hugmynd um að þetta væri vinsæll réttur þar og veit í sannleika sagt ekki hvernig það fór framhjá mér miðað við alla umræðuna um pylsur á Food Network.

Fyrir nokkrum vikum var ég síðan að ganga framhjá Ingólfstorgi og tók þá eftir breytingum í ísbúðinni við hliðina á Hlöllabátum. Á matseðlinum utan á húsinu sjá ég hvar var verið að bjóða upp á Bratwurst pylsu í stóru pylsubrauði með chilihakki, relish og ostasósu. Á því augnabliki vissi ég að ég yrði að prófa þetta einhvern daginn en í hverju hádegi missti ég kjarkinn, hafði ekki samvisku í þetta.

Það sem vantaði var einhvern partner in crime og ég vissi alveg að aðeins einn aðili kæmi til greina í þetta með mér, Sindri. Í síðustu viku nýtti ég því tækifærið þegar við vorum bæði stödd niðri í bæ og stakk upp á máltíð á Ingólfstorgi.

Við pöntuðum okkur bæði áðurnefndan rétt en þar er einnig hægt að fá Franska pylsu, hina klassísku íslensku SS pylsu og Beikon pylsu með rauðkáli, steiktum lauk og fleira gúmmelaði.
Alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og fyrst ég á ekki leið til Bandaríkjanna aftur alveg í bráð var ekki verra að finna amerískan subbumat í anda Diners, Drive-Ins and Dives í 1 kílómetra fjarlægð frá heimilinu.

Tékkið á þessu! ....en kannski bara á nammidegi.... eða borðið ekkert meira þann daginn... eða eitthvað, þið finnið útúr þessu!


Gamlir sunnudagar... og dagurinn í dag.

Stundum get ég orðið verulega þreytt á sjálfri mér. Ástæðan er einföld, stundum verð ég bara svo uppáþrengjandi. Það gerist samt aðallega á sunnudögum. Sunnudagar eru í senn síðasti séns til að framkvæma það sem þú ætlaðir að gera í vikunni, síðasti séns til að framkvæma það sem þú ætlaðir að klára um helgina, tími til að vita ekki hvar þú átt að byrja á öllum þessum verkefnum þar sem þú veist í raun að tíminn er ekki nægur og síðast en ekki síst tími til að skella sér þá almennt í volæði og taka svartsýnis- og kvíðakast varðandi þau verkefni sem bíða þín í komandi viku. 
Ég geri mér grein fyrir því að sunnudagar eru kannski ekki alla jafna á þessa leið hjá fólki sem er ástæðan fyrir fyrstu setningu þessa pistils. 

Málið er nefnilega frekar einfalt. Ég verð mjög auðveldlega fyrir andlegum áhrifum af allskonar í kringum mig, hvort sem það er tónlist, bíómyndir, bækur eða aðrir einstaklingar. Við erum þá ekkert endilega að tala um vandaða tónlist, bíómyndir, bækur eða einstaklinga... almennt er bara verulega auðvelt að veita mér innblástur. Þegar því er lokið svíf ég - enda korteri frá því að sigra heiminn. Eins og heilsteyptum einstaklingi sæmir geri ég mér grein fyrir því að maður sigrar ekki heiminn tilviljanakennt, það þarf að útbúa plan. 

Ég er góð í að útbúa plön. Ég set þau upp í excel, skipti þeim í langtíma- og skammtímaplön og reikna jafnvel niður á vikur eða daga hversu mikið þarf að gera á hverjum tíma svo planinu sé náð. Almennt eru þau raunsæ, allavega fyrir þá sem eru einbeittir. Þegar plönun er lokið sofna ég yfirleitt gríðarlega sátt og fullviss um árangur. Það sem síðan gerist er vondi kaflinn í þessu öllu saman. Smám saman geri ég mér grein fyrir því að þó ég sleppi því að aðhafast í 1-2 daga, viku, jafnvel mánuð - þá gæti ég nú alveg unnið þetta upp og náð að halda plani. Frestunaráráttan bítur mig í rassinn og kannski gleymdi ég aðeins að gera ráð fyrir því að 4 kvöld vikunnar er ég með plön til kl. 21.... eða kannski ákveð ég í viku að þetta sé nú ekki eins mikilvægt og ég vildi vera láta í byrjun. 

Allt þetta endar svo með sunnudegi, einhverjum frábærum sunnudegi - þar sem allt er farið til fjandans og engar líkur á því að ég nái að klára allt sem ég ætlaði mér. Meiri aumingjaskapurinn - óánægjan hellist yfir mig og hjálpar mér ekki neitt að takast á við þetta. Þvert á móti er hún frekar letjandi eins og flestir geta væntanlega ímyndað sér. 

Í dag átti ég ekki svona sunnudag. Ég svaf frameftir, vaknaði og ætlaði að fara að skammast í sjálfri mér yfir því að hafa sofið svo lengi. Á nokkrum sekúndum snéri ég þessu við í hausnum á mér og ákvað að nýta þann tíma sem ég hefði vel. Ég skreið fram úr og bakaði pönnukökur, fór í gegnum fataskápinn minn og tók til föt í Rauða Krossinn (í staðinn fyrir þessi sem ég keypti í gær), moppaði gólfin, eldaði kvöldmat, hugleiddi, bloggaði, braut saman þvott, fór í stuttan göngutúr, hékk á netinu og fór í bíó. 
Í þessari viku get ég tikkað í öll boxin á TO DO listanum... nema panta mér tíma í vax, það virðist bara vera mánaðar verk í mínu tilfelli. 

Þetta hljómar kannski ekki merkilegt... en þetta er stór persónulegur áfangi. Með hverri vikunni sem líður af þessu ári fækkar tárum, fjölgar brosum, er styttra í hlátur og lengra í vanlíðan. Núið er staðurinn og tíminn er stutt frá því að verða vinur minn. 

Stundum er nefnilega fínt að verða bara svolítið þreyttur á sjálfum sér. Í mínu tilfelli fólust í því tækifæri til að hætta að verja sjálfa mig fyrir þeirri staðreynd að hlutirnir eru ekki bara svona eða hinsegin... það er engin ástæða til að sætta sig við eitthvað annað en bestu útgáfuna af sjálfum sér. Og guð minn góður hvað ég á mikið inni þar. 

Gleðilega nýja viku! Fulla af nýjum og skemmtilegum To Do kössum til að tikka í!

sunnudagur, 18. maí 2014

"Gamlar vörur daglega"

Haustönnina 2005 var ég í lýðháskóla á Fjóni í Danmörku. Í skólanum mínum voru 4 þemapartý yfir önnina og slíkt getur valdið örlitlum höfuðverk fyrir erlenda nemendur sem hafa afar takmarkað af fatnaði meðferðis. Undir nákvæmlega slíkum kringumstæðum kynntist ég fyrst Rauða kross fatabúðunum í Danmörku. Þangað gátum við farið og fatað okkur algjörlega upp fyrir þemapartýin fyrir 1000-2000 íslenskar krónur.
Þegar ég kom heim kíkti ég nokkrum sinnum í Rauða kross búðina hér heima og þótti hún heldur dýr í samanburðinum svo gaf ég henni einhverra hluta vegna aldrei aftur séns.

Í morgun ákváðum við Sindri síðan að kíkja þangað af hans frumkvæði. Ég endaði á að versla þar fyrir 7.200 kr. - fjórar vörur sem kostuðu 1.800 kr. hver. Í dag finnst mér það ekki mikill peningur fyrir þessar vörur og ekki er verra að leggja góðu málefni lið um leið og maður sækir sér eitthvað "nýtt" í fataskápinn.



Mig hefur lengi langað að eiga einhvern lítinn loðkraga til að smella á mig, sérstaklega yfir veturinn. Þeir sem ég hef fundið og litist á hafa yfirleitt kostað of mikið. Ég var því mjög ánægð að finna þennan fyrir 1800 kr.





Annað fallegt um hálsinn var þessi klútur. Ég er almennt ekki mikið fyrir klúta og kaupi þá mjög sjaldan. Held ég hafi keypt 5 um ævina.... og notað 2 af einhverri alvöru. Þessi hentar mér mjög vel, víður og hringlaga með fallegu skrauti.




Ég fann þessa rauðu, fínu skó... konan í búðinni sagðist vera svo glöð að loksins væri einhver kominn sem passaði í þá. Þetta var pínulítið eins og í Öskubusku. Reyndar ekkert svo líkt því en samt smá. Skórnir eru samt ekki úr gleri.




Síðast en þó ekki síst fann ég þessa stórskemmtilegu myntugrænu og hvítu peysu. Hún er frekar mikið þung og maður lítur pínulítið út eins og snjóbolti í henni en fyrst og fremst er hún sjúklega kósý.



Sindri fann sér sólgleraugu, skyrtur og peysu svo það má segja að þetta litla innlit hafi orðið að alvöru verslunarferð. Eitt er allavega víst, Rauða kross fatabúðin hefur fengið annan séns hjá mér. Ég hlakka strax til að sjá hvað bíður mín næst þegar ég rek nefið þar inn, enda um að ræða "gamlar vörur daglega" þar á bæ. :)