fimmtudagur, 12. júní 2014

Pole Fitness: Eitthvað nýtt, eitthvað skemmtilegt, eitthvað spennandi...

Fyrir rúmum 4 árum síðan flutti ég til Reykjavíkur frá Bifröst, komin með passlega nóg af hlaupabretti og handlóðum en langaði að finna mér einhverja nýja hreyfingu til að iðka.
Eitthvert kvöldið sat ég fyrir framan sjónvarpið og rak þá augun í þátt þar sem verið var að kynna Pole fitness í Magadanshúsinu. Af eintómri forvitni ákvað ég að google og fann námskeið í Heilsuakademíunni. Ég sendi póst og spurði hvenær næsta byrjendanámskeið byrjaði en þá var um að ræða 12 vikna námskeið. Fljótlega fékk ég svör um að ég skyldi bara koma inn í það námskeið sem væri byrjað en þá voru 4 vikur búnar af því.

Fyrstu 2 vikurnar voru geggjaðar svo fóru trikkin að vera heldur erfið fyrir mig og eftir 5 vikur fannst mér framfarirnar engar. Ég þrjóskaðist þó áfram og fyrr en varði var ég aftur farin að geta nýja og nýja hluti á hverri æfingu.

Early days - 2010
Hobbýmyndatökutími - 2011

Gay Pride 2011


Árið 2012 færði ég mig yfir í Pole Sport og hef verið þar síðan. Eftir rúm 4 ár af súluhangsi er ég hvergi nærri leið auk þess sem ég hef verið að æfa með sumum stelpunum í hópnum mínum í rúm þrjú ár.
Ég hef einu sinni tekið mér hlé í 2 mánuði en skellti mér í staðinn á Lyra lofthringjanámskeið á sama stað - sem er líka verulega gaman. Hér má sjá smá brot af tveggja manna Lyra æfingum:



Síðastliðna 6 mánuði hef ég verið að aðstoðarþjálfa hjá Pole Sport en eftir rúma viku tek ég skrefið inn í þjálfarastarfið og tek við mínum eigin tímum. Ég er mjög spennt fyrir þessu! Í ágúst klára ég síðan réttindin mín og get hengt upp tvö stykki af réttindum á vegginn í Pole Sport, sem býr nú þegar yfir svo mörgum öflugum þjálfurum með allskonar réttindi (yoga, Fit pilates, Lyra, Pole fitness, Einkaþjálfara, zumba og fleira og fleira).

Í Pole Fit hef ég kynnst gífurlega ólíkum persónuleikum með gífurlega ólíka styrkleika. Pole Fitness líkist fimleikum að mörgu leyti og ekki síst vegna þess að hér er um að ræða alhliða líkamsþjálfun. Við erum með æfingar sem krefjast liðleika, jafnvægi, dans og styrkleika. Fæstir hafa þetta allt í byrjun - og sumir ekki neitt... með tímanum kemur þetta allt saman en það er hætt við því að þau trikk sem manni þykja auðveldari verði uppáhalds. Ég er örlítill api þegar kemur að því að uppáhaldið mitt eru yfirleitt styrkleikaæfingar og grófari hreyfingar. Enda smá brussa að eðlisfari kannski.
Halloween 2012

Þegar ég segi fólki frá því að ég æfi Pole Fitness fæ ég mjög oft að heyra "já, mig hefur alltaf langað að prófa það... en ég gæti það aldrei, er þetta ekki ógeðslega erfitt?". Það er enginn að mæta í fyrsta tíma og henda sér á hvolf inn í hvert trikkið á fætur öðru... öll byrjum við einhversstaðar, alveg eins og á fyrstu fótboltaæfingunni þar sem við vorum ekki látin gera hjólhestaspyrnu, fyrstu fimleikaæfingunni sem byrjaði ekki með heljarstökki á trampólíni eða fyrstu boxæfingunni þar sem við vorum ekki send í bardaga. Þetta byrjar allt á sama stað og í danstíma hjá Loga í gamla daga.... með einu góðu hliðar saman hliðar. Hræðslan við að mæta og geta ekki er algjörlega óþörf, byrjendanámskeið eru til þess að taka á móti byrjendum... fólki sem ákvað að skella sér og veit ekkert útí hvað það er að fara. Fyrsti tíminn er ekki eins vandræðalegur og flestir sjá fyrir sér.

Myndataka hjá Aldísi nóvember 2011


Fyrir áhugasama eru skráningar í gangi fyrir næsta námskeið sem byrjar 23. júní á polesport.is. Fyrir áhugasama og aðra unnendur íþróttarinnar þá er innanhúskeppni á laugardaginn næstkomandi, 14. júní, þar sem iðkendur alveg frá byrjendum og upp í þjálfaraflokk hafa sjálfir sett saman rútínur og keppa innbyrðis. Þessar keppnir eru alltaf stórglæsilegar og nemendur leggja allt sitt í að gera sitt atriði glæsilegt. Keppnin byrjar kl. 17 (húsið opnar kl. 16:30) og aðgangur er ókeypis. Ég mæli með því að skella sér - þið verðið ekki svikin. Hér kemur eitt atriði frá síðustu jólasýningu:



Fyrir mig eru æfingar hjá Pole Sport ekki síður félagslegs eðlis. Ég hef, eins og áður segir, æft lengi með mörgum úr hópnum mínum og með hverju árinu verður skemmtilegt að taka þátt í viðburðum með þeim... enda alltaf að kynnast betur. Innanhúskeppnir, Workshop, uppskeruhátíðir, sýningar, Gay pride, Menningarnótt og svo framvegis - þetta eru atriðin sem gera þetta allt saman svo skemmtilegt... og öðruvísi.

Uppskeruhátíð 2013 - Fimm stjörnu hópurinn


Þessi færsla hefur gert nákvæmlega það sem henni var ætlað - sparka í rassinn á mér! Metnaðurinn er í hámarki núna!

Sjáumst í Pole Sport, smiðjuvegi 72!

fimmtudagur, 5. júní 2014

Sagan á bakvið myndina: Á Spáni sem Silvía Nótt

Ég er búin að sitja fyrir framan tölvuna í rúman hálftíma að reyna að finna út hvað ég ætli að skrifa hér. Allt sem mér dettur í hug krefst meiri tíma en ég hef fram að nætursvefni.
Gafst upp á þessum pælingum - "blogga bara á morgun" hugsaði ég... því á morgun segir sá hressi er vinsælt orðatiltæki á þessum bæ. Rímar ágætlega við markmið um síminnkandi niðurrifsstarfsemi.
Henti mér inn á myndaalbúmin mín á facebook og rakst þar á þessa mynd. Ákvað að segja ykkur stuttlega frá sögunni bakvið hana. 


Þessi mynd er tekin á Salou á Spáni vorið 2006. Þá var komin tími til að skella sér í útskriftarferð með útskriftarhópnum úr Menntaskólanum á Egilsstöðum. Þessi ferð mun líklega aldrei hverfa neinu okkar úr minni, af misjöfnum ástæðum þó. Við vorum 40 manna hópur og eignuðust fljótt uppáhaldsskemmtistað, Bus Stop, þar sem við gátum nánast bókað að við myndum hitta hvort annað á einhverjum tímapunkti á kvöldin. Þar hittum við líka Helga Björns, sælla minninga... 
Silvía Nótt átti þetta ár með húð og hári heima á Íslandi, nýkomin heim úr Eurovision, á milli tannanna á öllum - margir komnir með upp í kok af hennar framkomu en engu að síður stóðu Silvíu-Nætur þemapartýin sem hæst. Við ákváðum að halda eitt slíkt í útskriftarferðinni. 
Yfir daginn röltum við um og keyptum okkur varaliti, eyrnalokka, "perlufestar", naglalökk og allskonar drasl á örfáar evrur (sem þá voru líka næstum því ókeypis) til að búa okkur undir fjörið. Við skiptumst á fötum og settum þau eins ósmekklega saman og við gátum - þó með divu-stílinn á hreinu.
Að lokum smelltum við allar á okkur stjörnum og settumst við borðið í íbúðinni okkar í drykkjuleik.

Á leið okkar í bæinn vorum við hinar kátustu - töluðum eins og Silvía Nótt með ógissla og skiluru inn í hverri setningu og hlógum eins og vitleysingar hver af annari. Fólk sem við mættum leit varla á okkur og fannst við klárlega ekki jafn sniðugar og við upplifðum. Fljótlega ákváðum við að það væri greinilega enginn í þessum ferðamannabæ sem hafði fylgst með Eurovision. 

Við stöðvuðum á gangabraut á rauðu ljósi. Breskt par stóð á hinum enda götunnar og maðurinn setti upp einkennilegan svip þegar hann sá okkur. Svolítið eins og við ættum að skammast okkar. 
Þegar við mættum þeim síðan á miðri gangbrautinni heyrist í kauða segja töluvert hátt við konu sína "fucking disgusting whores". Við þögnuðum allar og litum á hvor aðra - það var mjög greinilegt að engri okkar hefði dottið í hug að þessi klæðnaður myndi vekja upp þessar grunsemdir hjá fólki. 
Okkur fannst þetta fyrst ömurlegt - svo urðum við hneykslaðar - næst brjálaðar - en síðan hlóum við okkur máttlausar og héldum áfram á næturklúbbinn meðvitaðar um hvað mögulega gæti beðið okkar. 

Þegar ég kom heim um kvöldið ætlaði ég í fótabað. En endaði í sturtu í fötunum... en það er allt önnur saga og allt önnur mynd.