mánudagur, 13. október 2014

Meistaramánuður - manstu?

Nú er að detta í miðjan október og má því reikna með að margir hverjir hafi nú þegar gefist upp á markmiðum sem settir voru fyrir meistaramánuðinn.
Ég hef tekið þátt með markmiðasetningu í meistaramánuði síðustu tvo ár og séð örlitlar framfarir milli ára, þ.e.a.s. í því að halda mig við dagskrána.
Fyrra árið gafst ég upp í kringum 12. október - var þá farin að skulda svo marga liði að ég hefði aldrei náð að klára dæmið. Í seinna skiptið dreif ég yfir miðjan mánuðinn en datt svo hressilega á andlitið eftir það.

Nú er þrettándi og ég er bara nokkuð vel stödd. Skulda orðið 2 blogg og 2 ljóð - en ekkert sem ekki er hægt að redda með aukinni innspýtingu yfir eitt kvöld eða svo.



Í ár ákvað ég að ætla mér ekki að breyta alveg öllu lífi mínu - heldur halda mig við tvö meginþemu; húð og orð.  Ég ákvað að nýta tækifærið til að reyna að koma inn í mína rútínu venjum sem mér finnst skipta máli en hef aldrei vanið mig á að passa upp á. Eftirfarandi reglur voru settar:

1. Lesa meira
2. Skrifa meira
3. Hugsa vel um húðina:

  • Alltaf fjarlægja farða áður en farið er að sofa
  • Alltaf bera á mig rakakrem á morgnanna
  • Alltaf setja á mig krem eftir sturtu
Það erfiðasta er þetta með farðann - var til dæmis eitthvað slöpp á föstudaginn, ofétin og þreytt eftir vinnu. Skreið inn í rúm í þeim tilgangi að leggjast aðeins niður og mögulega sofna. Vaknaði síðan um kl. 3 um nóttina, druslaðist fram á bað og tók farðann framan úr mér svo ég gæti nú staðið við markmiðið. 
Ég vildi líka að ég gæti sagt ég finni gífurlegan mun á húðinni - en það geri ég ekki. Allavega ekki til betri vegar. Nú má finna í andlitinu á mér allskonar óvelkomnar bólur sem ég nenni ekki að lifa í samlyndi við. Einhverntíma heyrði ég að þetta væru viðbrögð húðarinnar þegar hún væri að hreinsa sig - en ef svo er finnst mér hún ekki mjög hvetjandi. 
Það auðveldasta er svo lesturinn - ég hef gaman af honum, en sofna reyndar stundum ofan í bókina. Ég hef nú þegar náð að klára næstum 2 bækur sem ég hafði hálflesnar á náttborðinu hjá mér. Það versta er að ég man yfirleitt ekki stundinni lengur þær upplýsingar sem ég les, þ.e.a.s. ekki þannig að ég gæti sagt frá þeim í smáatriðum. 

Ég held að mitt aðalmarkmið verði að klára mánuðinn með því að geta tékkað í öll boxin - það yrði í fyrsta sinn og ég mun líklega springa úr stolti þegar þeim áfanga er náð, fagna og setja mér síðan næsta markmið... fara fram úr sjálfri mér og hafa það óyfirstíganlegt. Það er jú partur af því að vera þessi ég. 

Vonandi eruð þið ennþá með og hafið ekki gefist upp á óraunhæfum markmiðum ykkar... það er algjört lágmark að ná til 15. október. 

þriðjudagur, 29. júlí 2014

"Ég eftir fimmtán ár" - eftir eitt ár

Ég kom heim í gær eftir frábæra dvöl heima á austurlandinu síðustu vikuna. Við keyrðum norðurleiðina á leiðinni austur og ákváðum þess vegna að klára hringinn með suðurleiðinni heim. Það voru kannski örlítil mistök þar sem þoka og rigning einkenndi þá ferð heldur mikið fyrir minn smekk. Það sem bjargaði þeirri ferð var humarpizzan sem ég keypti mér á Pakkhúsinu á Höfn í Hornafirði en þetta var í fyrsta sinn sem ég borðaði þar.

Eins og yfirleitt þegar ég á leið austur eyddi ég parti af síðasta kvöldinu mínu í allskonar grams í gömlu dóti í herberginu mínu sem enn fær að standa óbreytt. Það er einn af kostunum sem fylgja því að vera yngsta barn.
Í þetta sinn fann ég ritgerðirnar mínar, sögur, ræður og ljóð í gegnum árin. Ein ritgerðin var skrifuð haustið 2000 og bar titilinn "Ég eftir 15 ár". Ég man mjög vel eftir óánægju minni með þetta ritgerðarverkefni. Varkára, raunsæja, leiðinlega-mikið-niðrá-jörðinni 14 ára ég vildi ekki byggja einhverja skýjaborg. Ég vissi ekkert hvernig lífið yrði, hvað mig langaði að gera, hvort mig myndi ennþá langa það eftir 10 ár og alls ekki gat ég vitað í hvaða stöðu ég yrði.
Eina leiðin til að klára þetta verkefni var að setja þetta upp í söguform, það var hin eina leið til að fá mig til að leyfa mér að dreyma. Ég var þó áfram meðvituð um að smella varnagla í enda ritgerðarinnar, svona til að hugga framtíðar-mig ef ekki allt gengi eftir. Ég ætla að leyfa þessari ritgerð eftir 14 ára mig, sem mér þykir mjög vænt um í dag, að birtast hér að neðan.

Ég geng inn í íbúðina mína eftir langan vinnudag hjá tímaritinu Vikunni. Það er föstudagur og jólaseríurnar gera íbúðina fallega og jólalega. Ég lít útum gluggan og get ekki annað en hugsað til þeirra daga þegar ég var að skrifa ritgerð sem fer ekki úr huga mér, innihald ritgerðarinnar var það sem ég hafði vonað og haldið um framtíðina. Ritgerðin, "Ég eftir 15 ár", ég komst ekki hjá því að hugsa um það hvort þetta væri lífið sem ég hafði skrifað um í þessari ritgerð sem ég hafði skrifað fyrir 15 árum. Lífið var kannski ekki alveg þannig. 
Jú, ég var 29 ára, og jújú, það voru að koma jól. En hitt, allar þessar vonir og allt þetta fjöruga líf. Hvar var það? Ég er nýskriðin úr háskóla þar sem ég hef lært mikið um ritvinnslu og tjáningu og er að reyna að klára að gerast poppari í FÍH. Ég og unnusti minn erum að byggja draumhúsið okkar og er því nánast lokið. Við eigum einn 3 ára son og lífið brosir við okkur. Unglingsárin eru flogin á burt, þrátt fyrir að innra með mér langi mig mest til að fara út á djammið og finna mér einhverja gaura. En lífið og sóminn leyfir það ekki. Ég rölti inn í svefnherbergi og skipti um föt, ég hlakka til þess að fá nýja fataskápinn, herbergið, í nýja húsinu. Ég fer yfirleitt í World Class á daginn til að fá útrás en í dag stend ég bara við glugann og hugsa. Ég keyri yfirleitt niður eftir í World Class og fæ útrás í tækjunum, og boxa mig sveitta. Mig langar til að gera eitthvað sjálf, mig langar til að flytja út á land, en þar eru litlir möguleikar fyrir unga og óreynda konu eins og mig. Unnusti minn er lögfræðingur en spilar líka fótboltu á fullu þrátt fyrir meiðsli. Hurðinni er skellt harkalega og kallað: "Silla, við erum komin, og hérna er ein lítil vera sem langar að sjá þig".
En ég heyri ekki, ég held áfram að hugsa. Nýja fyrirtækið mitt, sem á að fara af stað í febrúar, er kannski ekki góð hugmynd en mér finnst það þess virði að reyna. Þetta fyrirtæki sér um útgáfu nýss tímarits og einning ætla ég að gefa út bækurnar mínar þar. Ég er að vinna í að klára þá fyrstu, en það er erfitt að vita ekki hvernig fólk mun taka við skrifunum. Fyrsta bókin er unglingabók, ég þykist vita að ég höfði best til þeirra. Allt í einu er togað í pilsið mitt, ég sný mér við og lít niður, þarna stendur þá litla kraftaverkið mitt. 
"Mamma, komdu" ég geng á eftir englinum mínum, barninu sem gaf mér svo mikið með því að koma í heiminn. Hann töltir inn í eldhús og ég í humátt á eftir.
"Mamma sjáðu" segir hann og brosir. Á borðið er búið að leggja diska og hnífapör og ilmurinn af kínamatnum er yndisleg. Ástin í lífi mínu snýr sér við frá ísskápnum með kókflösku í hendinni. "Nei hæ, ég hélt þú hefðir farið í ræktina, því ég heyrði ekkert í þér áðan".
Ég geng að honum og faðma hann að mér, hann tekur því ekki illa og faðmar á móti. Litla kraftaverkið okkar kemur hlaupandi og vill vera með. Og þarna stöndum við og föðmumst þangað til unnustinn segir "við verðum að borða áður en maturinn kólnar, er það ekki?"
Og nú fer ég að hugsa á ný, þetta er kannski ekki það líf sem ég vonaði að eignast fyrir 15 árum, en þetta líf er mitt líf og af því vildi ég ekki missa fyrir vonur og drauma fortíðarinnar.
Rennandi yfir þennan texta er augljóst að ég mun ekki standa í þessum sporum eftir ár. Nokkrir punktar:

  • Ef ég ætla að eiga 3 ára barn eftir rúmt ár verð ég heldur betur að drífa mig - hvorki meðganga né ættleiðingarkerfið virkar svona hratt svo þetta er líklega ekki að fara að gerast.
  • Ég vinn kannski ekki hjá Vikunni - en það kemur fyrir að ég sendi auglýsingar þangað.
  • Vikan er þó svo að segja staðkvæmdarblað fyrir Cosmopolitan, Seventeen, Elle og fleiri sem búa til helling af allskonar skemmtilegum "How to" greinum sem ná vel til unglingsstelpna... og reyndar oft kvenna. Ég hafði horft á svolítið margar bíómyndir sem enduðum á hjartnæmum greinum í tímaritum þar sem aðalsöguhetjurnar afhjúpa sig. 
  • Ég hef bara einu sinni reynt að skrifa unglingabók - og þá var ég unglingur. Sennilega á sama tíma og þessi ritgerð er skrifuð.
  • Ég hafði horft svolítið mikið á Sex and the City og Ally McBeal.. og vissi þar af leiðandi að upptekið framafólk borðaði mikinn kínamat. 
  • Ekki séns að unnustinn héldi á kóki - ef þetta væri skrifað í dag væri það Pepsi Max. 
  • Þrátt fyrir alla lögfræðinemana á Bifröst var ég ekkert að leitast eftir að kela við þá - enda hélt ég á þessum tíma að lögfræðingar ynnu við kreatífa og fáránlega ræðusköpun eins og fyrirmyndirnar í Ally McBeal.
  • Ég hef farið í World Class. Oft. Ekki enn mætt í box þó. Ég var sem betur fer ekki að velta fyrir mér súlunni til að halda mér í formi á þessum tíma - ég segi sem betur fer, því þá vissi ég ekki um neitt sem heitir Pole Fitness.
  • Ég er ekki að fara að byggja hús á næsta ári. Nema ég vinni í lottó. Endurskoðum þetta... verði ein með fyrsta sæti í Víkingalottó mögulega. Myndi samt örugglega ekki eyða því í að byggja hús. Gleymum þeim hluta.  Líkar samt vel við að 14 ára ég hafi ákveðið að 29 ára ég vildi fataherbergi.
  • Þetta með FÍH... Complete Vocal, er það ekki eitthvað? Annars gengur mér ekki sérlega vel að verða poppari. 

Að lokum - takk 14 ára ég fyrir að hughreysta 29 ára mig (á næsta ári) og láta vita að það sé í lagi að hafa ekki uppfyllt neina af þínum væntingum. Nema hafa farið í World Class öðru hverju.

Skrítið þetta líf. 

fimmtudagur, 12. júní 2014

Pole Fitness: Eitthvað nýtt, eitthvað skemmtilegt, eitthvað spennandi...

Fyrir rúmum 4 árum síðan flutti ég til Reykjavíkur frá Bifröst, komin með passlega nóg af hlaupabretti og handlóðum en langaði að finna mér einhverja nýja hreyfingu til að iðka.
Eitthvert kvöldið sat ég fyrir framan sjónvarpið og rak þá augun í þátt þar sem verið var að kynna Pole fitness í Magadanshúsinu. Af eintómri forvitni ákvað ég að google og fann námskeið í Heilsuakademíunni. Ég sendi póst og spurði hvenær næsta byrjendanámskeið byrjaði en þá var um að ræða 12 vikna námskeið. Fljótlega fékk ég svör um að ég skyldi bara koma inn í það námskeið sem væri byrjað en þá voru 4 vikur búnar af því.

Fyrstu 2 vikurnar voru geggjaðar svo fóru trikkin að vera heldur erfið fyrir mig og eftir 5 vikur fannst mér framfarirnar engar. Ég þrjóskaðist þó áfram og fyrr en varði var ég aftur farin að geta nýja og nýja hluti á hverri æfingu.

Early days - 2010
Hobbýmyndatökutími - 2011

Gay Pride 2011


Árið 2012 færði ég mig yfir í Pole Sport og hef verið þar síðan. Eftir rúm 4 ár af súluhangsi er ég hvergi nærri leið auk þess sem ég hef verið að æfa með sumum stelpunum í hópnum mínum í rúm þrjú ár.
Ég hef einu sinni tekið mér hlé í 2 mánuði en skellti mér í staðinn á Lyra lofthringjanámskeið á sama stað - sem er líka verulega gaman. Hér má sjá smá brot af tveggja manna Lyra æfingum:



Síðastliðna 6 mánuði hef ég verið að aðstoðarþjálfa hjá Pole Sport en eftir rúma viku tek ég skrefið inn í þjálfarastarfið og tek við mínum eigin tímum. Ég er mjög spennt fyrir þessu! Í ágúst klára ég síðan réttindin mín og get hengt upp tvö stykki af réttindum á vegginn í Pole Sport, sem býr nú þegar yfir svo mörgum öflugum þjálfurum með allskonar réttindi (yoga, Fit pilates, Lyra, Pole fitness, Einkaþjálfara, zumba og fleira og fleira).

Í Pole Fit hef ég kynnst gífurlega ólíkum persónuleikum með gífurlega ólíka styrkleika. Pole Fitness líkist fimleikum að mörgu leyti og ekki síst vegna þess að hér er um að ræða alhliða líkamsþjálfun. Við erum með æfingar sem krefjast liðleika, jafnvægi, dans og styrkleika. Fæstir hafa þetta allt í byrjun - og sumir ekki neitt... með tímanum kemur þetta allt saman en það er hætt við því að þau trikk sem manni þykja auðveldari verði uppáhalds. Ég er örlítill api þegar kemur að því að uppáhaldið mitt eru yfirleitt styrkleikaæfingar og grófari hreyfingar. Enda smá brussa að eðlisfari kannski.
Halloween 2012

Þegar ég segi fólki frá því að ég æfi Pole Fitness fæ ég mjög oft að heyra "já, mig hefur alltaf langað að prófa það... en ég gæti það aldrei, er þetta ekki ógeðslega erfitt?". Það er enginn að mæta í fyrsta tíma og henda sér á hvolf inn í hvert trikkið á fætur öðru... öll byrjum við einhversstaðar, alveg eins og á fyrstu fótboltaæfingunni þar sem við vorum ekki látin gera hjólhestaspyrnu, fyrstu fimleikaæfingunni sem byrjaði ekki með heljarstökki á trampólíni eða fyrstu boxæfingunni þar sem við vorum ekki send í bardaga. Þetta byrjar allt á sama stað og í danstíma hjá Loga í gamla daga.... með einu góðu hliðar saman hliðar. Hræðslan við að mæta og geta ekki er algjörlega óþörf, byrjendanámskeið eru til þess að taka á móti byrjendum... fólki sem ákvað að skella sér og veit ekkert útí hvað það er að fara. Fyrsti tíminn er ekki eins vandræðalegur og flestir sjá fyrir sér.

Myndataka hjá Aldísi nóvember 2011


Fyrir áhugasama eru skráningar í gangi fyrir næsta námskeið sem byrjar 23. júní á polesport.is. Fyrir áhugasama og aðra unnendur íþróttarinnar þá er innanhúskeppni á laugardaginn næstkomandi, 14. júní, þar sem iðkendur alveg frá byrjendum og upp í þjálfaraflokk hafa sjálfir sett saman rútínur og keppa innbyrðis. Þessar keppnir eru alltaf stórglæsilegar og nemendur leggja allt sitt í að gera sitt atriði glæsilegt. Keppnin byrjar kl. 17 (húsið opnar kl. 16:30) og aðgangur er ókeypis. Ég mæli með því að skella sér - þið verðið ekki svikin. Hér kemur eitt atriði frá síðustu jólasýningu:



Fyrir mig eru æfingar hjá Pole Sport ekki síður félagslegs eðlis. Ég hef, eins og áður segir, æft lengi með mörgum úr hópnum mínum og með hverju árinu verður skemmtilegt að taka þátt í viðburðum með þeim... enda alltaf að kynnast betur. Innanhúskeppnir, Workshop, uppskeruhátíðir, sýningar, Gay pride, Menningarnótt og svo framvegis - þetta eru atriðin sem gera þetta allt saman svo skemmtilegt... og öðruvísi.

Uppskeruhátíð 2013 - Fimm stjörnu hópurinn


Þessi færsla hefur gert nákvæmlega það sem henni var ætlað - sparka í rassinn á mér! Metnaðurinn er í hámarki núna!

Sjáumst í Pole Sport, smiðjuvegi 72!

fimmtudagur, 5. júní 2014

Sagan á bakvið myndina: Á Spáni sem Silvía Nótt

Ég er búin að sitja fyrir framan tölvuna í rúman hálftíma að reyna að finna út hvað ég ætli að skrifa hér. Allt sem mér dettur í hug krefst meiri tíma en ég hef fram að nætursvefni.
Gafst upp á þessum pælingum - "blogga bara á morgun" hugsaði ég... því á morgun segir sá hressi er vinsælt orðatiltæki á þessum bæ. Rímar ágætlega við markmið um síminnkandi niðurrifsstarfsemi.
Henti mér inn á myndaalbúmin mín á facebook og rakst þar á þessa mynd. Ákvað að segja ykkur stuttlega frá sögunni bakvið hana. 


Þessi mynd er tekin á Salou á Spáni vorið 2006. Þá var komin tími til að skella sér í útskriftarferð með útskriftarhópnum úr Menntaskólanum á Egilsstöðum. Þessi ferð mun líklega aldrei hverfa neinu okkar úr minni, af misjöfnum ástæðum þó. Við vorum 40 manna hópur og eignuðust fljótt uppáhaldsskemmtistað, Bus Stop, þar sem við gátum nánast bókað að við myndum hitta hvort annað á einhverjum tímapunkti á kvöldin. Þar hittum við líka Helga Björns, sælla minninga... 
Silvía Nótt átti þetta ár með húð og hári heima á Íslandi, nýkomin heim úr Eurovision, á milli tannanna á öllum - margir komnir með upp í kok af hennar framkomu en engu að síður stóðu Silvíu-Nætur þemapartýin sem hæst. Við ákváðum að halda eitt slíkt í útskriftarferðinni. 
Yfir daginn röltum við um og keyptum okkur varaliti, eyrnalokka, "perlufestar", naglalökk og allskonar drasl á örfáar evrur (sem þá voru líka næstum því ókeypis) til að búa okkur undir fjörið. Við skiptumst á fötum og settum þau eins ósmekklega saman og við gátum - þó með divu-stílinn á hreinu.
Að lokum smelltum við allar á okkur stjörnum og settumst við borðið í íbúðinni okkar í drykkjuleik.

Á leið okkar í bæinn vorum við hinar kátustu - töluðum eins og Silvía Nótt með ógissla og skiluru inn í hverri setningu og hlógum eins og vitleysingar hver af annari. Fólk sem við mættum leit varla á okkur og fannst við klárlega ekki jafn sniðugar og við upplifðum. Fljótlega ákváðum við að það væri greinilega enginn í þessum ferðamannabæ sem hafði fylgst með Eurovision. 

Við stöðvuðum á gangabraut á rauðu ljósi. Breskt par stóð á hinum enda götunnar og maðurinn setti upp einkennilegan svip þegar hann sá okkur. Svolítið eins og við ættum að skammast okkar. 
Þegar við mættum þeim síðan á miðri gangbrautinni heyrist í kauða segja töluvert hátt við konu sína "fucking disgusting whores". Við þögnuðum allar og litum á hvor aðra - það var mjög greinilegt að engri okkar hefði dottið í hug að þessi klæðnaður myndi vekja upp þessar grunsemdir hjá fólki. 
Okkur fannst þetta fyrst ömurlegt - svo urðum við hneykslaðar - næst brjálaðar - en síðan hlóum við okkur máttlausar og héldum áfram á næturklúbbinn meðvitaðar um hvað mögulega gæti beðið okkar. 

Þegar ég kom heim um kvöldið ætlaði ég í fótabað. En endaði í sturtu í fötunum... en það er allt önnur saga og allt önnur mynd. 

mánudagur, 19. maí 2014

Diners, Drive-Ins and Dives og Ingólfstorg

Í ágúst 2013 fór ég til New York með fimm góðum vinkonum þar sem við dvöldum í sex daga. Ferðin var frábær og mun seint renna úr minni mínu, hver dagur hafðu upp á eitthvað glænýtt að bjóða. Þetta var fyrsta ferðin mín út fyrir Evrópu og vonandi alls ekki sú síðasta.

Í New York fór ég á Broadway og drakk mjög stórt hvítvínsglas þar, fékk mér kokteila á roof top bar, keypti mér beyglu og muffins í morgunmat, pizzu í Little Italy, sushi og algjörlega glataða steik.
Eftir að ég kom heim fór ég að hafa mjög oft kveikt á Food Network þegar ég var að dunda mér heima við, hvort sem ég var í tölvunni eða að elda. Við erum svo heppin hér á Íslandi að algengasti sjónvarpstíminn okkar er að megninu til á sama tíma og endursýndir Diners, Drive-Ins and Dives þættir. Nokkrir... margir í röð.
Í Diners, Drive-Ins and Dives er mjög mikið um subbulegan, sveitta og verulega subbulegan mat. Svona mat sem maður verður að fá að smakka en hefur á tilfinningunni að maður endi samt með kransæðastíflu korteri eftir síðasta bitann.
Einn af mjög vinsælum réttum á þessari annars ágætu stöð eru pylsa með chilihakki - og almenn barátta um hver bjóði upp á bestu slíku pylsunum.
Áður en ég fór til Bandaríkjanna hafði ég ekki hugmynd um að þetta væri vinsæll réttur þar og veit í sannleika sagt ekki hvernig það fór framhjá mér miðað við alla umræðuna um pylsur á Food Network.

Fyrir nokkrum vikum var ég síðan að ganga framhjá Ingólfstorgi og tók þá eftir breytingum í ísbúðinni við hliðina á Hlöllabátum. Á matseðlinum utan á húsinu sjá ég hvar var verið að bjóða upp á Bratwurst pylsu í stóru pylsubrauði með chilihakki, relish og ostasósu. Á því augnabliki vissi ég að ég yrði að prófa þetta einhvern daginn en í hverju hádegi missti ég kjarkinn, hafði ekki samvisku í þetta.

Það sem vantaði var einhvern partner in crime og ég vissi alveg að aðeins einn aðili kæmi til greina í þetta með mér, Sindri. Í síðustu viku nýtti ég því tækifærið þegar við vorum bæði stödd niðri í bæ og stakk upp á máltíð á Ingólfstorgi.

Við pöntuðum okkur bæði áðurnefndan rétt en þar er einnig hægt að fá Franska pylsu, hina klassísku íslensku SS pylsu og Beikon pylsu með rauðkáli, steiktum lauk og fleira gúmmelaði.
Alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og fyrst ég á ekki leið til Bandaríkjanna aftur alveg í bráð var ekki verra að finna amerískan subbumat í anda Diners, Drive-Ins and Dives í 1 kílómetra fjarlægð frá heimilinu.

Tékkið á þessu! ....en kannski bara á nammidegi.... eða borðið ekkert meira þann daginn... eða eitthvað, þið finnið útúr þessu!


Gamlir sunnudagar... og dagurinn í dag.

Stundum get ég orðið verulega þreytt á sjálfri mér. Ástæðan er einföld, stundum verð ég bara svo uppáþrengjandi. Það gerist samt aðallega á sunnudögum. Sunnudagar eru í senn síðasti séns til að framkvæma það sem þú ætlaðir að gera í vikunni, síðasti séns til að framkvæma það sem þú ætlaðir að klára um helgina, tími til að vita ekki hvar þú átt að byrja á öllum þessum verkefnum þar sem þú veist í raun að tíminn er ekki nægur og síðast en ekki síst tími til að skella sér þá almennt í volæði og taka svartsýnis- og kvíðakast varðandi þau verkefni sem bíða þín í komandi viku. 
Ég geri mér grein fyrir því að sunnudagar eru kannski ekki alla jafna á þessa leið hjá fólki sem er ástæðan fyrir fyrstu setningu þessa pistils. 

Málið er nefnilega frekar einfalt. Ég verð mjög auðveldlega fyrir andlegum áhrifum af allskonar í kringum mig, hvort sem það er tónlist, bíómyndir, bækur eða aðrir einstaklingar. Við erum þá ekkert endilega að tala um vandaða tónlist, bíómyndir, bækur eða einstaklinga... almennt er bara verulega auðvelt að veita mér innblástur. Þegar því er lokið svíf ég - enda korteri frá því að sigra heiminn. Eins og heilsteyptum einstaklingi sæmir geri ég mér grein fyrir því að maður sigrar ekki heiminn tilviljanakennt, það þarf að útbúa plan. 

Ég er góð í að útbúa plön. Ég set þau upp í excel, skipti þeim í langtíma- og skammtímaplön og reikna jafnvel niður á vikur eða daga hversu mikið þarf að gera á hverjum tíma svo planinu sé náð. Almennt eru þau raunsæ, allavega fyrir þá sem eru einbeittir. Þegar plönun er lokið sofna ég yfirleitt gríðarlega sátt og fullviss um árangur. Það sem síðan gerist er vondi kaflinn í þessu öllu saman. Smám saman geri ég mér grein fyrir því að þó ég sleppi því að aðhafast í 1-2 daga, viku, jafnvel mánuð - þá gæti ég nú alveg unnið þetta upp og náð að halda plani. Frestunaráráttan bítur mig í rassinn og kannski gleymdi ég aðeins að gera ráð fyrir því að 4 kvöld vikunnar er ég með plön til kl. 21.... eða kannski ákveð ég í viku að þetta sé nú ekki eins mikilvægt og ég vildi vera láta í byrjun. 

Allt þetta endar svo með sunnudegi, einhverjum frábærum sunnudegi - þar sem allt er farið til fjandans og engar líkur á því að ég nái að klára allt sem ég ætlaði mér. Meiri aumingjaskapurinn - óánægjan hellist yfir mig og hjálpar mér ekki neitt að takast á við þetta. Þvert á móti er hún frekar letjandi eins og flestir geta væntanlega ímyndað sér. 

Í dag átti ég ekki svona sunnudag. Ég svaf frameftir, vaknaði og ætlaði að fara að skammast í sjálfri mér yfir því að hafa sofið svo lengi. Á nokkrum sekúndum snéri ég þessu við í hausnum á mér og ákvað að nýta þann tíma sem ég hefði vel. Ég skreið fram úr og bakaði pönnukökur, fór í gegnum fataskápinn minn og tók til föt í Rauða Krossinn (í staðinn fyrir þessi sem ég keypti í gær), moppaði gólfin, eldaði kvöldmat, hugleiddi, bloggaði, braut saman þvott, fór í stuttan göngutúr, hékk á netinu og fór í bíó. 
Í þessari viku get ég tikkað í öll boxin á TO DO listanum... nema panta mér tíma í vax, það virðist bara vera mánaðar verk í mínu tilfelli. 

Þetta hljómar kannski ekki merkilegt... en þetta er stór persónulegur áfangi. Með hverri vikunni sem líður af þessu ári fækkar tárum, fjölgar brosum, er styttra í hlátur og lengra í vanlíðan. Núið er staðurinn og tíminn er stutt frá því að verða vinur minn. 

Stundum er nefnilega fínt að verða bara svolítið þreyttur á sjálfum sér. Í mínu tilfelli fólust í því tækifæri til að hætta að verja sjálfa mig fyrir þeirri staðreynd að hlutirnir eru ekki bara svona eða hinsegin... það er engin ástæða til að sætta sig við eitthvað annað en bestu útgáfuna af sjálfum sér. Og guð minn góður hvað ég á mikið inni þar. 

Gleðilega nýja viku! Fulla af nýjum og skemmtilegum To Do kössum til að tikka í!

sunnudagur, 18. maí 2014

"Gamlar vörur daglega"

Haustönnina 2005 var ég í lýðháskóla á Fjóni í Danmörku. Í skólanum mínum voru 4 þemapartý yfir önnina og slíkt getur valdið örlitlum höfuðverk fyrir erlenda nemendur sem hafa afar takmarkað af fatnaði meðferðis. Undir nákvæmlega slíkum kringumstæðum kynntist ég fyrst Rauða kross fatabúðunum í Danmörku. Þangað gátum við farið og fatað okkur algjörlega upp fyrir þemapartýin fyrir 1000-2000 íslenskar krónur.
Þegar ég kom heim kíkti ég nokkrum sinnum í Rauða kross búðina hér heima og þótti hún heldur dýr í samanburðinum svo gaf ég henni einhverra hluta vegna aldrei aftur séns.

Í morgun ákváðum við Sindri síðan að kíkja þangað af hans frumkvæði. Ég endaði á að versla þar fyrir 7.200 kr. - fjórar vörur sem kostuðu 1.800 kr. hver. Í dag finnst mér það ekki mikill peningur fyrir þessar vörur og ekki er verra að leggja góðu málefni lið um leið og maður sækir sér eitthvað "nýtt" í fataskápinn.



Mig hefur lengi langað að eiga einhvern lítinn loðkraga til að smella á mig, sérstaklega yfir veturinn. Þeir sem ég hef fundið og litist á hafa yfirleitt kostað of mikið. Ég var því mjög ánægð að finna þennan fyrir 1800 kr.





Annað fallegt um hálsinn var þessi klútur. Ég er almennt ekki mikið fyrir klúta og kaupi þá mjög sjaldan. Held ég hafi keypt 5 um ævina.... og notað 2 af einhverri alvöru. Þessi hentar mér mjög vel, víður og hringlaga með fallegu skrauti.




Ég fann þessa rauðu, fínu skó... konan í búðinni sagðist vera svo glöð að loksins væri einhver kominn sem passaði í þá. Þetta var pínulítið eins og í Öskubusku. Reyndar ekkert svo líkt því en samt smá. Skórnir eru samt ekki úr gleri.




Síðast en þó ekki síst fann ég þessa stórskemmtilegu myntugrænu og hvítu peysu. Hún er frekar mikið þung og maður lítur pínulítið út eins og snjóbolti í henni en fyrst og fremst er hún sjúklega kósý.



Sindri fann sér sólgleraugu, skyrtur og peysu svo það má segja að þetta litla innlit hafi orðið að alvöru verslunarferð. Eitt er allavega víst, Rauða kross fatabúðin hefur fengið annan séns hjá mér. Ég hlakka strax til að sjá hvað bíður mín næst þegar ég rek nefið þar inn, enda um að ræða "gamlar vörur daglega" þar á bæ. :)

mánudagur, 28. apríl 2014

Í smáatriðum: 26. apríl 2014

10:00 - Vekjaraklukkan hringir. Ég man aldrei þess vegna hvers vegna það er verið að vekja mig. Er ekki sammála því að það skipti máli samt - þannig að ég stilli klukkuna aftur, kúri og skrópa í fyrsta tímanum í Workshopinu sem ég átti að mæta á 10:45. 
11: 15 - Vakna smá - en snooza.
11:30 - Vakna alveg en kúri smá áfram. Kveiki á símanum og skelli mér á facebook. 
11:40 - Fer fram úr, klæði mig, tannbursta, teygja í hárið. Næsti tími byrjar kl. 12.... en ég á ekkert í morgunmat.
11:50 - Fer út heiman frá mér, niður stigann og út í bíl. Reimin sem ég er ekki búin að láta skipta um í bílnum mínum býr til hávaða... eins og alltaf þegar ég starta honum. 
12:00 - Kaupi banana og hámark í 10-11. Borða það á leiðinni í bílnum.
12:15 - Mætt í Zumba í Polesport. Eftir ca. 10 skref er snúðurinn hruninn úr hárinu á mér. Ég geri mjög bjánalega tilraun til að hoppa og skoppa en reyna að laga snúðinn til í leiðinni. Það gengur... en heldur hægt þó.
12:55 - Zumba tími klárast og ég þurrka svitann í bolinn minn, sem verður sífellt geðslegri með deginum.
13:00 - Byrja í Flex tíma í Pole Sport. Bakfettur, splitt, spíkat og double æfingar, eins og til dæmis hin stórskemmtilega flugvél sem allir elska.
14:10 - Klára Flex tíma. Geggjað veður. Labba í Nóatún og kaupi mér salatbar (túnfiskur, egg, smá pasta, kotasæla, paprika, gulrætur, nokkrir fetakubbar og nokkrir brauðtengingar). Borða það á labbinu upp í Pole Sport með Freyju sem drepur sig næstum því þegar hún ætlar að hlaupa yfir á rauðu gangbrautarljósi (þið skilið boðskapinn hér).
14:30 - Fyrsti ballettími á ævi minni. Gengur vel til að byrja með þó ég geti ekki endurtekið eitt einasta heiti sem kennarinn sagði okkur um æfingarnar. Staða 1 og staða 5 mikið æfð, hopp, snúningar og annað tilheyrandi - auk þess að æfa spott, sem var örlítið erfiðara en yfir sal sem er fullur af súlum.
15:30 - Ballettinu lýkur og Handstand tækni byrjar. Vinsamlegast beðin um að gleyma öllu um þá tækni sem ég lærði í fimleikum um handstöður og byrja að læra upp á nýtt, með aðferð sem notuð er í Parkour. Það gekk ekkert svo vel. Dreif ekki upp. Held samt áfram að reyna heima þar til þetta tekst.
16:00 - Sting af úr handstöðutíma í fýlu. Djók. Sting samt af.
16:15 - Sturta, syng í sturtunni. Black Roses og I Can't Help Falling in Love with You. Vel mér kjól og skelli mér í hann.
16: 50 - Ármann mætir og við byrjum að æfa fyrir brúðkaup sem við erum að fara að spila í kl. 19. Þú og I Can't Help Falling in Love with You æft í allskonar tóntegundum. 
18:00 - Klæði mig upp á nýtt þar sem það var blettur í kjólnum sem ég valdi, mála mig og borða smá melónu. 
18:50 - Mætt fyrir utan safnaðarheimili í Kópavogi. 
19:00 - Tengjum græjurnar og spilum lögin. Gekk vel. Allir sáttir. 
19:20 - Ármann skutlar mér til Aldísar, sem ætlar að borða með mér. 
20:00 - Við Aldís mætum í kjólum á Hamborgarafabrikkuna og pöntum okkur Morthens, einn með venjulegum frönskum og einn með sætkartöflufrönskum. Tvær bernaise sósur á kantinn. Þjónninn okkar var hress unglingsstrákur sem bauð okkur "eitthvað sætt fyrir sætar dömur" þegar hann kom að tékka á eftirréttinum. Það áttu 2 afmæli og völdu lög, einn 12 ára strákur og einn útlendingur. Útlendingurinn valdi DJ MuscleBoy... ég varð fyrir smá vonbriðgum með hann. 
21:00 - Café Paris að hitta tvær aðrar dömur. Aðallega í þeim tilgangi að heyra dónasögur - en skelltum á okkur sitthvoru hvítvínsglasinu þó. Vín mánaðarins, sætt, fínt.. en man ekkert hvað það heitir.
22:30 - Nóg komið af dónasögum! Aldís skutlar mér heim, ég búin að tékka á helstu stuðpíum Íslands en enginn á leiðinni út svo ég fer bara heim. 
22:45 - Kem mér fyrir með rest af ostapoppi, bita af páskaeggi og downloada Hart of Dixie (sem eru orðið ansi þunnir þættir). Þegar ég er að byrja að horfa kemur Sindri heim úr dómarastörfum í bruggkeppni Fágun, sem betur fer með aðeins betra súkkulaðinammi en til var hér (ef ég hefði stigið á vigtina í gærmorgun en ekki í morgun hefði þetta aldrei átt sér stað). Hann hlammar sér á sófann og horfir á eitthvað annað.
23:30 - Skoða aðeins Netflix sem er að breyta lífi mínu. Horfi á fyrsta þáttinn í fyrstu seríunni af Mad man. Missi nokkrum sinnum andlitið yfir stöðu kvenna  og ritvélum sem menn náðu að skapa þannig að meira að segja konur ættu auðvelt með að nota þær. Þrælgóðir þættir. Hef aldrei horft almennilega á þá, svo nú er komið að því. 
00:30 - Ákveð að skella mér í rúmið. Sindri gerir það líka. Á meðan ég bíð eftir að hann klári inn á baði les ég einn kafla í Hemma Gunn - Sonur þjóðar, sem ég er alveg að verða búin með. 
01:00 - Ljósin slökkt - og sennilega tók það mig svona 6 mínútur að sofna. 


sunnudagur, 27. apríl 2014

Fimm brúðkaupslög

Ég hef aldrei haft sérstaklega mótaða hugmynd um hvernig ég myndi vilja hafa mitt eigið brúðkaup en eitt af þeim störfum sem heillaði mig þegar ég var yngri var “wedding planner”. Eftir á að hyggja hugsa ég að það hafi þó ekkert haft með brúðkaupin sem slík að gera heldur almenna viðburðarstjórnun og skipulagsfíkn.
Seinna áttaði ég mig líka á því að markaðurinn fyrir þetta starf var ekki til á Íslandi.

Eftir því sem ég eldist og fleiri í kringum mig fara að velta fyrir sér eigin brúðkaupsdegi, hef ég einnig velt þessu fyrir mér. Við Sindri höfum líka oft látið hugann reika um hvað væri skemmtilegt að gera og hvað megi gjörsamlega missa sín okkar vegna. Sem betur fer erum við frekar samstíga í því.

Fyrir mér hefur reyndar eitt verið algjört aðalatriði og reyndar eini þátturinn sem ég hef byggt upp óskir í kringum. Það mun jú vera tónlistin. Til að byrja með eru það tvö lög sem ég myndi vilja að pabbi minn myndi flytja. Það fyrra er “Ég er komin heim” en hann hefur endað flest böll sem hann hefur spilað á með því lagi frá því á áttunda áratugnum.



Seinna lagið er Þú sem hann samdi til okkar systkinanna (aðallega strákanna held ég) fyrir mörgum árum og kom út á plötunni Frá báðum hliðum með Nefndinni.  Ástæðan er auðskiljanleg:

Svo stutt er síðan varstu barnið blítt
Til baka leitar stundum hugur minn
Er þú vafðir örmum þínum undurþýtt
þétt um háls og lagðir kinn við kinn
Hvíslaðir svo ofurblítt í eyra mér
hvað þér finndist ósköp vænt um mig
Labbaðir svo burtu til að leika þér
Líf mitt snérist aðeins kringum þig.
Þú varst sólargeisli lífs míns, ljúfur, hlýr
Lokkandi og fallegt ævintýr.

  Mér finnst tíminn hafa tifað alltof ótt.
Örstutt síðan kúrðir þú hjá mér.
Nú ég horf’ á þig þú hefur vaxið fljótt
heillastjarna alltaf fylgi þér.
Hamingjuna finnir þú á þinni leið,
þú skalt rækta hlýju, von og ást.
Stundum þegar gatan virðist ekki greið
gakktu áfram, takmarkið mun nást.
Þó að höf og álfur heilli hjarta þitt,
hjá mér ertu alltaf barnið mitt.
Já, þú verður alltaf, alltaf  barnið mitt.

Þriðja lagið sem yrði að flytja væri lagið Viltu þá elska mig?, allavega ef ég væri að giftast Sindra (hehehe) en þetta er það sem kemst næst því að vera okkar lag. Ekki væri verra ef Bjartmar sjálfur myndi sjá um það.



ABBA-dísirnar yrðu að sjálfsögðu að leika sama leik og í brúðkaupi Hjördísar og mæta með Going to the chapel – það hlýtur bara að verða hefð.


Fimmta lagið myndi ég vilja tileinka Sindra (ef ég væri að giftast honum allavega). Ég fann það einhverntíma, hlustaði á það milljón sinnum… og hlusta enn á það. Textinn í því er frábær og á vel við.

Þó að útaf bregði, þú ert hjá mér enn
ég get verið meistari og kjáni í senn
þú gefur allt til bakaog svo miklu meira til
ó, hvílíkt frelsi að elska þig.



Síðan yrði að sjálfsögðu krafa um að aðrir færir fjölskyldumeðlimir og vinir kæmu fram – og helst Moses Hightower og Árstíðir líka (svona ef maður vissi ekkert hvað maður gæti gert við alla peningana sína).


Hvað varðar kjóla, útlit og annað þá veit ég ekki meir. Ég veit hvað ég vil ekki – og það er bara fjári góð byrjun, svona fyrst maður er ekki einu sinni með það á planinu að gifta sig á næstunni. Nema enginn annar nenni að halda partý.


mánudagur, 24. mars 2014

Fyrstu fimm af tónleikum

Ég hélt 27 ára afmælistónleika á Rósenberg í september síðastliðnum. Smám saman hef ég verið að reyna að koma þessum tónleikum á Youtube - lag fyrir lag.
Loksins get ég sagt að fyrstu fimm lögin séu komin.

1. Brand New me



Ég opnaði tónleikana á þessu lagi. Ég kynntist því almennilega í söngtíma síðastliðið sumar og tengdi svona líka vel við það. Eins og hefur komið fram margoft á þessari síðu hefur farið fram mikil andleg vakning og síðan vinnsla hjá mér síðasta eitt og hálfa árið svo tengingin við þennan texta var mikil. Upphaflega sá ég fyrir mér að ég myndi labba inn á sviðið í geðveikum glimmerkjól á meðan forspilið væri í gangi. Þetta væri svona Extreme Makeover í byrjun tónleika. En svo fann ég engan kjól, og hafði ekki tíma til að gera neitt við hárið á mér auk þess sem stressið bar mig alla leið í þessu lagi... smá skjálfti, smá textaruglingur, smá glott... lærir sem lifir, ég byrja aldrei aftur á því lagi sem ég vil hafa best.

2. Leikur þinn leik (Videogames) - texti eftir Sindra Þór



Sindri kom með þennan texta til mín fyrir löngu síðan. Hafði dundað við að setja hann saman með stemningu úr upprunalegu útgáfunni til hliðsjónar, án þess þó að ætla sér að beinþýða. Fyrir einhvern eins og mig, sem elska tónlist og dreymir um að umgangast hana og skapa mun meira en ég geri, þá eru einstaklingar eins og Sindri Þór svolítið óþolandi. Í engri æfingu sest hann niður einu sinni á ári og setur saman texta sem oftar en ekki innihalda orð sem ég hef aldrei á ævi minni heyrt, þó tel ég mig ekki fáfróða eða almennt með lélegan orðaforða miðað við aðra af minni kynslóð.
Þrátt fyrir örlitla öfundsýki býr aðdáun á þessum eiginleika hans innra og mér þykir ekki leiðinlegt að púsla saman melódíum við ljóð eftir hann.
Það sem mér fannst erfitt við þetta lag var hvernig ég ætlaði að gera þetta, ég hef ekki mjúka rödd eins og Lana Del Rey né vanið mig á að gefa lofti svo mikið vægi í söngstílnum mínum. Mig langaði ekki að reyna að leika eftir það sem hún gerði, en samt vildi ég reyna að ná einhverjum drunga í lagið. Karókíútgáfur af laginu innihéldu allar þetta fallega, ljúfa undirspil sem mér fannst hreinlega ekki virka við röddina mína.
Á einni æfingunni fyrir tónleikana kom Hjalti Jón með lausnina, bassa útsetning yrði það. Ég er svo hoppandi kát með þessa útsetningu að ég gæti vart verið sáttari.

3. Þegar sólin rís - frumsamið og frumflutt



Það er flókið að hætta saman eftir rúm 5 ár, sérstaklega þegar maður vill það helst ekki. Það er líka erfitt að vera einn, læra allt upp á nýtt, reyna að vera vinir.... og oftast vildi ég bara gleyma því að þetta væri staðan, það var einhvernveginn svo miklu auðveldara að halda bara áfram í sama farinu.
Já, krakkar mínir, loksins var ég "heartbroken" aftur - í fyrsta sinn í 6 ár og úr varð fyrsta lagið sem samið hefði verið í 7 ár.
Eins og flest önnur lög var þetta samið eina andvökunótt þegar ég hefði þurft að vera löngu sofnuð en hugurinn hætti bara ekki að setja þetta saman. Á endanum greip ég símann minn og dagbókina - druslaði þessu niður og raulaði inn á símann í þeim tilgangi einum saman að fá frið til að sofna. Fyndið.
Hljómarnir komu síðastir og reyndar kláraði ég ekki alveg fyrr en í hléinu á þessum tónleikum. Þetta var fyrsta lag eftir hlé.
Ég svitna gífurlega í höndunum þegar ég verð stressuð. Það aftraði mér ekkert í söngnum - eða lítið allavega. Það er verra með gítarinn. Hef verið að reyna að taka hann meira með mér þegar ég kem fram, koma mér út fyrir þægindarammann í þeirri von að þetta jafni sig... eða ég verði gífurlega klár að spila þrátt fyrir sveittar hendur.
Þetta er sennilega það einlægasta sem þið fáið af þessum tónleikum - tilfinningarnar og hjartslátturinn verður ekki mikið meira ekta hjá mér.

4. Titanium



Ég er með píanóspils-blæti. Það getur orðið svolítið mikið af því góða en tengist sennilega því hvað ég vildi óska þess að ég hefði verið duglegri að rækta hæfileika mína á píanó. En það gerði ég ekki - ég vildi verða gítarleikari eins og fyrirmyndirnar í fjölskyldunni.
Björn er klár, ég er rosalega fegin að hann nennti þessum tónleikum með mér, eins og reyndar öll þessi frábæra hljómsveit. Ég hugsa reyndar að tónleikarnir hefðu mögulega ekki orðið án Katrínar, því ekki er hún bara hæfileikarík og klár, heldur hugsaði hún dálítið fyrir mig í kringum þá - ég hefði sennilega gleymt höfðinu á mér ef það hefði ekki verið fast á mér.


5. Love Hurts



Ó, já... þetta lag hefur verið eitt af mínum uppáhalds í mörg ár. Þetta hefur eitthvað að gera með aumingjas niðurbrotna berskjaldaða rokkarann sem á svo erfitt. Hann er sennilega með dökkt úfið hár líka - þið skiljið hvert ég er að fara með þetta. Þetta er í sömu tóntegund og hjá The Nazareth - er það vandræðalegt?


Ég elskaði þetta kvöld - þetta er sennilega eitt það skemmtilegasta sem ég hef á ævi minni gert. Reyndar ekki bara eitt það skemmtilegasta, heldur líka það sem hefur gefið mér hvað mest. 
Þrátt fyrir að ég tali mikið þegar ég er stressuð, segi of oft brandara sem eru ekki fyndnir og eigi það til að missa mál - og setningafræði kunnáttu þá kemur minn karakter hvergi betur fram. Vandræðalega, símalandi ég. Ég kann ágætlega við hana. 

Og það sem var best.... var að sjá bros á andlitum áhorfendanna. Sumir eru nefnilega til í að hlæja að vandræðalegheitum og lélegum bröndurum. Svoleiðis fólk er í miklu uppáhaldi hjá mér. 


sunnudagur, 23. mars 2014

Fimm uppáhalds bloggin

Ég verð að viðurkenna að ég gef mér alltof sjaldan tíma til að lesa blogg, eins og mér finnst það skemmtilegt. Oftar verður það niðurstaðan að hanga á pinterest og skoða alls konar - rata þaðan inn á hitt og þetta blogg - og leggja þau ekki á minnið.
Til dæmis skoða ég mjög oft erlend skemmtileg matarblogg en gleymi um leið hvað þau hétu. 

Alltof þegar ég rekst á áhugavert blogg sem er með facebook-síðu, þá smelli ég like-i á hana í þeirri von að fá upplýsingar í News feedið mitt sem leiða mig aftur þangað. Afleiðingar af því er fjöldinn allur af tilkynningum á News feedinu, sem ég smelli stundum á til frekari lesningar.

Það er því erfitt að velja 5 uppáhalds, en þessi fimm koma sterklega til greina:



Matur, bjór og viskí. 
Stundum uppskriftir frá mér - þegar ég er dugleg.


Matur með persónulegum sögum inn á milli.



Allskonar um allskonar. 
Fjórir bloggarar. 
Stíll, kökur, heimili, DIY, tíska... 


Hreyfing, hollusta, uppskriftir og pepp.
Hollt að lesa þegar maður heldur að maður  a) geti ekki eitthvað, b) eigi nógu góða afsökun, c) eigi einn við massífa leti að stríða.



10 ólíkir bloggarar.
Ég les helst: Karen Lind, Reykjavík fashion Journal, Svart á hvítu og Helga Ómars.


Sunnudagar eru frábærir í að sveima um á netinu með tebolla eeeeða Pepsi max.

Gleðilegan sunnudag!




fimmtudagur, 20. mars 2014

Að borga það áfram

Ég fékk Google Translate til að þýða fyrir mig "Pay it forward". Besta og eina tillagan var "að borga það áfram".  Þessi þýðing skiptir í raun engu máli, var eingöngu léleg tilraun til að finna semi-sniðugt nafn á þessa færslu, sem að sjálfsögðu snýst um góðverk.

Það er ekki bara hollt fyrir sálina öðru hverju að gefa eitthvað af sér umfram það sem ætlast er til af manni, heldur eru ótrúlegustu hlutir innan heimilisins sem maður álítur rusl en gætu hjálpað einhversstaðar. Mín góðverk þessa vikuna munu felast í nákvæmlega þeirri staðreynd. Í fyrsta lagi ætla ég að gefa DVD spilara og gamalli myndavél nýtt heimili. Það er starfsemi út um allan bæ sem vinnur með börnum, unglinum, heimilislausum og veikum sem geta nýtt hluti eins og DVD spilara. Ég hvet ykkur til að leita eftir slíkum stöðum í stað þess að henda hlutum sem eru í lagi, þó meðalmaðurinn myndi ekki kaupa þá á Bland. 
Í öðru lagi er það blessað lesefnið. Ég geng út frá því að mörg ykkar hafið tekið eftir því við heimsóknir á sjúkrastofnunum hversu ömurlegt lesefni er oft að finna þar. Ef lesefnið er eitthvað er það oftar en ekki 5-6 ára gamalt. Hvernig væri að taka til í blaðahillunni og færa einhverri slíkri stofnun nokkur eintök af Vikunni, Séð og heyrt, Elle, Alt for damerne eða hvað það er sem þið eigið til. Ég hef valið mér einn slíkan stað til að fara með mín blöð, sjúkrastofnun þar sem fólk dvelst vikum og mánuðum saman. Þá er nauðsynlegt að sjá eitthvað nýtt við og við.  Að sjálfsögðu eru bækur ekki verri í þessu samhengi. 

Hér að neðan má finna nokkrar hugmyndir af því hvernig við getum einfaldað hvort öðru lífið. Gert góðverk eða einfaldlega glatt. Hugmyndirnar eru misstórar en allir ættu að finna eitthvað sem þeir ráða við. 
  1. Opna hurðina fyrir einhverjum.
  2. Kaupa kaffi handa ókunnugum sem stendur í kaffiröðinni (er það kannski krípí á Íslandi?)
  3. Gefa bækur/tímarit á sjúkrastofnanir, leikskóla, aðsetur fyrir heimilislausa eða til einhverra sem þú veist að gæti nýtt það.
  4. Bjóða fram vinnu, aðstoð eða sérþekkingu þína ókeypis til einhvers sem þarf á því að halda.
  5. Gefa ókunnugum á leið í strætó eitt stykki strætómiða.
  6. Svo er að sjálfsögðu hægt að halda Tombólu og safna fyrir góðu málefni, en mér sýnist svosem engin vöntun á því í Vesturbænum.
  7. Taktu extra vel á móti nýja vinnufélaganum sem er enn svolítið óöruggur. Til dæmis getur þú boðið honum að setjast hjá þér í hádeginu eða koma með þér þangað sem þú ferð. Leiddu hann inn í samræður með því að beina spurningum öðru hverju til hans í hópsamræðum.
  8. Gefðu blóð. Hér á heimasíðu Blóðbankans getur þú séð borða sem sýnir hvernig staðan er á hverjum blóðflokki. 
  9. Farðu í gegnum fataskápinn og grisjaðu. Þau föt sem þú ert hætt að nota má gefa öðrum sem þurfa á þeim að halda, eða gefa þau til góðgerðarmála. Sjálf nýti ég rauða kross kassana sem finna má út um allt land. Það er líka alltaf einhver að auglýsa eftir fötum á barnalandi ef maður vill fara þá leið.
  10. Láttu vita ef þú ert ánægð/ur. Til dæmis ef þú ert sérstaklega ánægður með einhvern veitingastað, segðu frá því. Nóg er nú til af miðlum, þú getur gefið review á TripAdvisor ef það á við, sagt frá á Facebooksíðu þinni eða fyrirtækisins, Twitter, Instagram, bloggi eða jafnvel skilið eftir falleg orð á servíettunni á staðnum.
  11. Vertu frábær og hleyptu fram fyrir þig ef einhver stendur með fáa hluti fyrir aftan þig í matvöruverslun. Ég elska þegar einhver gerir þetta fyrir mig!
  12. Deildu jákvæðum fréttum og sögum.
  13. Keyptu tombólumiða, miða á styrktartónleika, nælu, penna eða hvað sem býðst, svo lengi sem málefnið sem safna á fyrir höfðar til þín.
  14. Taktu þig til og fylltu prentarann í vinnunni af blöðum þegar þú hefur notað hann, eða settu nýja klósettrúllu á haldarann... svona aðeins til að auðvelda næstu einstaklingum í röðinni lífið.
  15. Farðu og gramsaðu aðeins í Rauða Kross búðinni eða Hjálpræðishernum. Ótrúlegt hvað hægt er að finna þar á fínu verði... og styrkja í leiðinni gott málefni.
  16. Komdu vini eða fjölskyldu á óvart með að færa honum uppáhalds máltíðina hans þegar hann á síst von á. Þetta getur að sjálfsögðu líka verið nammi eða hvað sem er.
  17. Færðu veikum vini eitthvað sem gleður hann. Hint: Nammi virkar oft.
  18. Vertu skemmtilegri ökumaður en margur annar. Hleyptu fólki inn á akreinina þína þegar þú sérð það stefnir þangað. Hjálpaðu mér svo að koma upp tannhjólareglu á Íslandi þegar umferðin er mikil. Þá verðum við allavega tvö/tvær í þessu.
  19. Vertu til staðar og hlustaðu. Stundum á fólk vandamál og viðrar þau við þig. Hjálpaðu vini þínum að leysa vandann... eða ekki, ef allt sem hann vill gera er pústa.
  20. Áttu klink? Smelltu nokkrum tíköllum í stöðumæli sem þú sérð að er útrunninn eða að renna út. 
  21. Ef þú nýtir ekki allan tímann í stöðumæli, gefðu þá miðann þinn áfram til einhvers sem þú sérð að ætlar sér að greiða þegar þú ert að fara.
  22. Faðmaðu þá sem þér þykir vænt um. Ekki verra að segja eitthvað fallegt líka.
  23. Komdu með veislu- eða kökuafganga í vinnuna - það gleður alltaf. Það er heldur ekki bannað að baka sérstaklega fyrir vinnuna ef maður vill. 
  24. Góð bók má berast lengra. Ef þú átt góða bók sem þú hefur lokið við að lesa, gefðu hana áfram til vinar sem þú heldur að njóti hennar.
  25. Skokkaðu út og týndu smá rusl. Ég hef hugsað um þetta milljón sinnum síðan um áramót - en hef ekki komið mér í þetta ennþá.
  26. Sendu bréf eða litla gjöf - jafnvel bara email. Almennt er fólk ekki duglegt við þetta í dag. Það eitt og sér er leiðinlegt en gerir það líka að verkum að hvert skipti verður mjög einstakt. 
  27. Hjálpum ferðamönnunum. Bjóðumst til að taka af þeim myndir ef við sjáum þá reyna við milljónasta selfie-ið í ferðinni. Reynum líka að benda þeim rétta leið þó við skiljum ekki alveg kortið þeirra.... og mælum með því sem er gott og gaman.
  28. Smellum smá mat fyrir dýrin í körfuna okkar og gefum til góðgerðarfélaga sem að þeim snúa, t.d. Kattholts og Dýrahjálpar. Og ekki gleyma fuglunum á veturna.
  29. Hrósum þeim sem okkur finnst eiga það skilið. Íslendingar eru aldrei hvattir of mikið til þess. 
  30. Láttu í þér heyra. Hjálpaðu þeim málstað sem þér finnst eiga það skilið og notaðu röddina. Segðu frá og verðu málstaðinn.
  31. Taktu þér tíma til að kenna áhugasömum eitthvað sem þú kannt. Til dæmis ef þú kannt góðan spilagaldur hefur verið vöntun á slíkum síðustu ár. 
  32. Biddu þann sem skuldar þér pening að leggja frekar inn á gott málefni í stað þess að borga það til baka.
  33. Brostu til kassastarfsmannsins. Það eitt og sér gerir mikið - og þeir lenda sjaldnar í því en maður myndi halda.
  34. Ef þú skreppur á Subway, pantaðu þá stóran þó þú borðir lítinn og láttu pakka honum í sitthvorn pappírinn. Færðu svo einhverjum svöngum hinn helminginn. Það má oft finna nokkra svanga á Austurvelli ef þig vantar hugmyndir.
  35. Næst þegar þú kemur heim frá útlöndum, komdu þá klinkinu þínu vel fyrir hjá heimamanni áður en þú ferð. Hann kemur mjög líklega til með að nota það... töluvert fyrr heldur en þú.
  36. Taktu sjálfboðaliðastarf í smá stund. 
  37. Leyfðu fólki stundum að njóta vafans. Stundum er óþarfi að taka málin lengra.
  38. Skelltu þér á Crowdfunding síðu eins og Indiegogo eða Karolinafund, taktu góða stund í að skoða áhugaverð verkefni og styrktu það/þau sem vekja áhuga.
  39. Ef þú færð klink til baka úr sjálfsala, skildu það eftir og gerðu þann sem kemur á eftir þér hissa og glaðan.
  40. Settu af stað söfnunarátak fyrir gott málefni. Hér er engin ein uppskrift, sjáum bara hvað hægt var að gera með einni bjóráskorun og facebook. 

Fyrir áhugasama mæli ég með að smella á like við síðu ýmissa fyrirtækja og aðila sem vinna með fólki í erfiðleikum. Þar má oft finna upplýsingar um hvað vantar hverju sinni hvort sem um er að ræða gallabuxur, mat, jólagjafir eða raftæki. Hér eru nokkur:

Vinakot - úrræði ætluð börnum á aldrinum 12-18 ára sem glíma við fjölþættan hegðunarvanda.
Vinir Dagsetursins - Staður fyrir heimilislausa og fólk í vímuefnavanda yfir daginn.

Og til að fá hvatningu góðverkin má like-a þessa síðu.



Það er svo auðvelt að létta lífið smá. 
Gefum af okkur... og með okkur.