fimmtudagur, 14. júlí 2011

Sönn austfirsk sakamál

Það gerist margt á austurlandi, þó margir vilji eflaust ekki trúa því. Pabbi minn var á dögunum gripinn fyrir ólöglegan akstur fram og til baka í Háafellinu af 4 ungum og skörpum drengjum sem voru í pössun hjá Grétu frænku sinni í næsta húsi. Þeir vönduðu mjög til verka og þegar "bófinn" hann pabbi stakk þá af með því að ganga hinu megin við húsið þegar þeir biðu spenntir eftir honum með byssurnar tilbúnar varð þeim að nægja að skrifa skýrslu um atburðinn. Gréta bauð mér síðan yfir í ís um kvöldið, sérstaklega til að afhenta mér skýrsluna sem ég kom að sjálfsögðu áleiðis til pabba.

Pabba gamla brá nú örlítið þegar ég sagðist hafa meðferðis til hans sekt vegna ólöglegs aksturs sem hann virtist ekki kannast við. Þegar ég hafði lesið upp fyrir hann skýrsluna varð hann hins vegar svo ánægður með þann aldur sem settur var á hann í skýrslunni svo hann ákvað að greiða sektina, 100 kr. á haus. Með 400 kr. fórum við Fanney aftur yfir í Háafellið og afhentum drengjunum sektina með þeim skilaboðum að pabbi yrði þó að fá kvittun vegna greiðslunnar. Þeir kláruðu það að sjálfsögðu með sóma drengirnir og sendu okkur sendiboðana til baka með eftirfarandi kvittun.

Drengirnir voru þó nokkuð undrandi á því að bófinn vildi borga þeim sektina og litu á mig spyrjandi augum:
"Af hverju vill pabbi þinn eiginlega borga sektina? Við vorum bara að grínast!"

Boðskapur sögunnar er að á austurlandi getur grín og leikur breyst í alvöru á augabragði :)

föstudagur, 8. júlí 2011

Í kjallaranum (tjútjúa)....

Þegar maður kemur heim í Lagarfellið og skoðar sig um í gamla herberginu í kjallaranum, þá rekst maður oftar en ekki á fortíðardrauga. Ég hef alla ævi verið mikill safnari og haldið upp á hin ýmsu listaverk sem urðu til á grunnskólaárunum, einhver sagði mér nefnilega að þetta væru hlutir sem ég myndi í framtíðinni hafa gaman af því að eiga. Sá hinn sami verður hér með stimplaður "vitur" þar sem það er svo sannarlega rétt og satt!!

Ég staldraði stutt við í herberginu mínu áðan innan um allar minningarnar og fann þar í einni skrifborðsskúffunni minni ljóðahefti sem ég gerði í ritlistartíma í Fellaskóla þegar ég var í 9. bekk, fallega skreytt með tippex penna.


Þessa tíma kenndi Jarþrúður okkur og verkefnin voru ýmist að prufa að yrkja mismunandi form ljóða eða semja ljóð við myndir sem hún hafði ljósritað. Eitt verkefnið sem ég tókst á við var að semja ljóð þar sem öll endaorð rímuðu við hvort annað. Þegar ég las yfir það ljóð áðan varð ég nokkuð hrifin þar sem um 10 rímorð er hér að ræða í 10 línum. Ég held því fram hér að ef ég semdi ljóð í dag yrði það allavega ekkert skárra. Leyfi því hér að fylgja með. Ljóðið er því ort veturinn 2000-2001.

Vinur minn
Vin minn, þig vil ég ei græta
og mistök mín þér upp vil bæta
því nú finnst mér vont þér að mæta
en bros þitt var vant mig að kæta.
Ég veit samt þú ert mín að gæta.
Ég vild' heldur sár við þig þræta,
en hvert einasta kvöld augun væta,
þú mitt hjarta ert búinn að tæta
og að ég sleppi þér er ekki glæta.
Þú ert ljós mitt á milli stræta.

Fortíðin er svo skemmtileg.... sérstaklega þegar maður hættir að skammast sín fyrir hana :)

mánudagur, 4. júlí 2011

Vika 22-2011: NÝ!

Þar sem allt verður miklu betra þegar maður skiptir um bloggkerfi (allavega svona fyrstu dagana) er lítið annað hægt í stöðunni en sýna smá lit. Ég er komin mánuð á eftir í bloggfærslum og er núna að skrifa um vikuna 30. maí -5. júní. Ég myndi segja meira frá henni hér, ef minni mitt væri örlítið betra. Áramótaheitin voru þó að sjálfsögðu rituð niður svo þeim yrði ekki gleymt svo auðveldlega.

1. Þyngdin: Hún fór niður um heil 100 gr. á milli vikna en það gerðist allt frekar hægt (með öðrum orðum ekki neitt) á þessum tíma. Þarna var ég þó 900 gr. frá því að fá verðlaun frá sjálfri mér (sem virkar skrambi vel) en ég hef ákveðið að verðlauna mig með Kron skóm þegar þeim árangri er náð. Hefur lengi dreymt um slíka dýrð og sá þarna kjörið tækifæri til að drífa mig áfram í heilsueflingunni og setja þá inn í verðlaunakerfið :)

 

2. Sparnaður: Ég lagði inn á reikning 10 þús krónur til að safna áfram fyrir útlöndum. Þetta fer allt að styttast - áramótin koma von bráðar.
3. Erlendur diskur maí mánaðar: Lady Gaga - Born this way
 

Fyrri diskur Lady Gaga fannst mér fínn. Slagararnir þó nokkuð margir og almennt hafði ég gaman af henni. Ég ákvað því að hlusta á nýja diskinn í heild og sjá hvort ég finndi þar einhverja tengingu. Ég get sagt það út, og það blátt áfram, að svo var ekki. Það er nákvæmlega ekkert nýtt að gerast á þessum disk og eftir nokkur lög var ég orðin samdauna honum, hætt að taka eftir honum og farin að velta fyrir mér hvað það væri sem væri að pirra mig. Öðru hverju tók ég síðan kipp, gladdist örlítið og fannst ég hafa fundið poppsmell þegar ég áttaði mig á því að það var vegna þess hversu lík lögin voru Poker Face og Bad Romance. Well, well, well... kannski ég gefi henni séns aftur síðar.

4. Nýtt vikunnar var annars vegar ný tegund hreyfingar og hins vegar 2 ný föt.

Freestyle step
 
Freestyle step eru pallatímar í flóknara lagi sem eru kenndir kl. 17:20 í World Class á Seltjarnarnesi. 
Ég var búin að vera að velta fyrir mér hvernig ég gæti bætt brennslu inn í prógrammið mitt með þeim 3 æfingum í Pole fitness sem ég stunda á viku. Ég var orðin þreytt á hlaupabretti og sannfærði sjálfa mig um að ég þyrfti bara að prófa einhvern nýjan svona hóptíma með sporum. Ég safnaði því kjarki og mætti í Freestyle Step tíma hjá Mána í World Class. Ég kem mér fyrir lengst úti í horni aftarlega (sem voru mistök, sé það eftir á) og er að koma mér fyrir þegar kennarinn kemur inn í tímann lítur yfir hópinn, bendir á mig og segir síðan yfir hópinn "þú ert ný!". "Já" muldra ég frekar ósátt við að vera nú orðin "nýja stelpan". Hann lætur mig vita af því að ég sé hér mætt í frekar flókinn pallatíma en mér sé velkomið að vera með og svo sé alltaf hægt að auðvelda rútínurnar. Ég viðurkenni það fúslega að ég hugsaði "hversu flókinn getur pallatími orðið" og hafði ákaflega litlar áhyggjur af þessu í byrjun. Síðan kenndi hann okkur rútínu nr. 1, ég náði fyrri partinum af henni þangað til hann breytti miðjunni... eftir það náði ég bara alveg byrjuninni. Rútína nr. 2 boðaði gott þar til hann fór að kalla orð eins og "mango chacha" og eitthvað álíka sem gerði það að verkum að allir breyttu grunnsporunum sem við höfðum lært nema ég. Rútínu 3 náði ég aldrei.
Staðsetningin kom sér ákaflega illa þar sem ég lenti alltaf í því að vera "fremst" á einhverjum tímapunkti í hverri rútínu þar sem þær eru dansaðar í hring. Sá sem kann ekki neitt ætti því að vera í miðjunni. Annað vandræðalegt var að öðru hverju horfði hann á mig og sagði síðan í hljóðnemann setningar á borð við "já, þú ert alveg að ná þessu"... eða "bara aðeins meira svona". Öðru hverju horfði hann líka bara á mig gera rútínuna og sagði svo í hljóðnemann "eru allir til í að gera rútínuna einu sinni enn, og núna rosalega hægt". Af hverju ætli það hafi þurft? 
Eftir tímann bauð hann öllum sem vildu að koma til sín og spyrja sig út í einstaka skref. Mér fannst ekki alveg taka því.... ég væri sennilega þar enn.

2 nýir kjólar
Ég keypti mér líka 2 nýja kjóla í 3 smárum þessa vikuna. Öðrum skartaði ég í útskrifarveislu hjá Ásu Kristínu og hann sést hér að neðan. Hinn er svartur og er á milli þess að vera bolur og kjóll, víður og þægilegur og hentur við öll tækifæri. Er búin að fara í honum í vinnuna og á djammið, einstaklega hentugur.



Þá er búið að starta þessari síðu.... og ekki eftir neinu að bíða nema næsta bloggi. Ég verð heldur betur að spýta í ef ég ætla að ná að blogga um nútímann einhverntíma aftur.