mánudagur, 25. febrúar 2013

Einu ári síðar


Í dag er nákvæmleg eitt ár frá því að ég útskrifaðist úr meistaranáminu mínu. Það er undarleg tilfinning, sérstaklega í ljósi þess að líf mitt er allt öðruvísi en ég hafði ímyndað mér það yrði á nákvæmlega þessum tímapunkti. 

Þennan dag sem ég útskrifaðist eftir margra mánaða stanslausa vinnu í ritgerðinni minni og alltof lítil félagsleg tengsl við umheiminn, var ég ekkert þreytt. Ég var stolt af mínu verki og nánast tilbúin að hefja næstu ritgerðarskrif. Ég var í raun á svo mikilli ferð í þessu öllu saman að ég hefði vel getað þotið af stað í næsta rannsóknarverkefni án umhugsunar. Það var þó ekki svo að álagið hefði ekki náð mér, ég vissi það bara ekki enn.

Á síðustu metrum ritgerðarinnar var ég komin með lista yfir hluti sem ég ætlaði að leyfa mér að gera þegar henni væri lokið. Þetta voru ekki stórir draumar né merkilegir en engu að síður var þeirra sárt saknað úr lífi mínu. Ég ætlaði að plokka og lita á mér augabrúnirnar, setja á mig brúnkukrem, spila á gítar, syngja, semja ljóð, blogga, skrappa, hreyfa mig meira og hitta vini mína. Svo nokkrum mánuðum síðar þegar ég yrði komin í góða og skemmtilega vinnu tengda náminu mínu myndi ég skrá mig á alls kyns skemmtileg námskeið, söngnámskeið til dæmis og jafnvel skrá mig aftur í gítarnám.

Tveimur mánuðum eftir skilin á ritgerðinni vaknaði ég upp við það að ég hafði ekki gert einn af þeim hlutum sem ég hafði viljað brjótast út úr ritgerðarvirkinu til að framkvæma. Nema plokka og lita á mér augabrúnirnar. Þá fyrst áttaði ég mig á því að þetta hafði vissulega tekið sinn toll og ekki var að bæta ástandið að það gekk hægt að koma sér í starf sem tengdist náminu. Starfið sem ég var í höfðaði ekki til mín þó dagarnir liðu hratt því það var mikið að gera og skemmtilegir vinnufélagar í kringum mig. Ég hugsaði samt sem áður oft yfir daginn hvað ég hlakkaði til að koma heim og gera eitthvað af því sem ég hafði vanrækt svo lengi en yfirleitt liðu dagarnir hjá með áhugamálin ósnert.

Útskriftardagurinn minn var upphafið af mjög erfiðum tíma í mínu lífi og það má með sanni segja að 2012 fari ekki ofarlega á vinsældarlistann yfir uppáhaldsárin mín. Það er margt við það að verða fullorðinn og standa á krossgötum sem verður ekki kennt, í fyrsta sinn upplifir maður mögulega eftirsjá og árin sem maður eyddi á skólabekk fara að vísa manni í einhverjar áttir... og þá er spurning hvort maður vilji fara þangað. Önnur spurning er hvort gáttin sé yfir höfuð opinn þrátt fyrir að maður hafi gert sig fullkomlega tilbúinn bara fyrir hana og lagt sig 100% fram fyrir hana.

Árið 2012 kemur guðsblessunarlega aldrei aftur en þroskastökk mitt það árið er engu að þakka nema öllum þeim brostnu væntingum og hindrunum sem ég mætti. Æðruleysi er eitt það fallegasta sem ég get hugsað mér en sjálf hef ég aldrei getað státað mig af því. Ég byrjaði hins vegar árið 2013 skrefinu nær því að geta viðurkennt að ég hef ekki sjálf vald yfir öllum þáttum lífs míns.

Að lokum má setja upp smá jákvæðan samanburð sem staðfestir í mínum huga að árið 2013 verður mitt!

25.02.2012
Vinna: bakvinnsla í útibúi Arion banka
Síðasta ljóð samið: júlí 2008
Eftirsjá: stanslaus
Kg: 69,4

25.02.2013
Vinna: Verkefnastjóri hjá Silent Company ehf (silent.is)
Síðasta ljóð samið: 24. Janúar 2013
Eftirsjá: Engin
Kg: 66,6


Allt í áttina krakkar, allt í áttina...

föstudagur, 1. febrúar 2013

Ég og vinur minn, Vinnumálastofnun


Ég hef verið atvinnulaus frá 1. desember síðastliðnum. Ég hef ekki áður verið á atvinnuleysisbótum og er því nýgræðingur í þessum efnum. Ég hef þó alltaf talið það skipta miklu máli að vera heiðarlegur og kurteis því það muni skila manni mestu... að lokum. Á svipuðum nótum byrjar maður oft nýja vináttu, maður gefur af sér og fær það sama til baka. Þannig fór ég inn í vinnumálastofnun fyrsta daginn minn, með það hugafar að láta ekki sögusagnir um þessa erfiðu stofnun flækjast fyrir mér. Í huga mér var þetta allt saman spurning um að koma vel fyrir og vera heiðarlegur, þá fengi maður til baka hlýju.. tjah, eða allavega kurteisi. Í dag komst ég að því að þessi atriði skipta mann ekki mjög miklu máli þegar maður stendur frammi fyrir því að geta hvorki borgað leigu né reikninga sökum þess hve ósveigjanlegt, hægt og á tímum fornaldarlegt kerfið er.
Til að útskýra betur mál mitt set ég það hér upp í tímaröð til dagsins í dag
18. desember 2012:
Ég mæti á kynningarfund hjá vinnumálastofnun þar sem kynning fer fram á því helsta sem þarft er að vita þegar að maður er atvinnulaus. Ítrekað kemur fram að vinnumálastofnun hvetji mann til þess að taka alla þá vinnu sem býðst. Eftir fundinn ræði ég við fyrirlesarann og segi honum af mögulegri verktakavinnu sem mér gæti boðist, hvort það sé eitthvað vesen. Hann segir mér að það komi betur út fyrir mig að vera í hlutastarfi sé það í boði en hann myndi samt hvetja mig til að taka alla vinnu sem ég gæti, slíkt myndi frekar gera mig eftirsóknarverða í vinnu. Hann bendir mér hins vegar á að þá daga sem ég vinni sem verktaki fái ég ekki bætur, sama hversu lítil vinnan er og ég þurfi að tilkynna verktakavinnuna. Gott og vel... svolítið kjánalegar reglur þótti mér en engu að síður gott að vita þetta fyrirfram.

15. Janúar 2013:
Mér býðst að taka að mér verktakaverkefni þann 18. janúar (föstudagur), 7 klst verk hjá Silent viðburðum (frábært fyrirtæki, krakkar;) ). Ég reikna það út að ég komi um það bil út á sléttu með að taka verkinu eða vera á bótum þennan daginn en vegna reynslunnar (og skemmtunarinnar) ákveð ég að taka verkið.

16. janúar 2013:
Ég hringi í vinnumálastofnun til þess að spyrja um hvað það sé sem ég þurfi að gera gagnvart þeim vegna verktakaverkefnisins. Í símtalinu kemur fram að ég hafi verið á skrá frá 3. des og hafi aldrei gert þetta áður. Ráðgjafinn gaf mér þær upplýsingar að ég þyrfti bara að hringja aftur daginn eftir og láta vita af verkefninu, þá yrði ég skráð af bótum á föstudeginum en síðan þyrfti ég að koma með afrit af reikningnum sem ég gæfi út næsta virka dag og þá yrði ég skráð aftur í kerfið.

17. janúar 2013:
Ég hringi í vinnumálastofnun og tilkynni að ég ætli að taka að mér verkefnið daginn eftir, þetta sé einungis einn dagur og ég muni mæta með afrit af reikningnum til þeirra á mánudeginum.

18. janúar 2013:
Skráð af bótum. Skelli mér í þetta stórskemmtilega verkefni og allt gengur vel.

20. janúar 2013:
Ég fer inn á „mínar síður“ á vinnumalastofnun.is til að staðfesta atvinnuleit en get það ekki vegna þess að ég er ekki skráð í bótakerfið vegna verkefnisins á föstudeginum. Allt í góðu með það, en þar var ég allavega komin með staðfestingu á því að ég hefði verið skráð af bótum.

21. janúar 2013:
Mæti með afrit af reikningi í Vinnumálastofnun, bið konu í afgreiðslunni um að skrá mig aftur í kerfi og segi henni að þetta hafi bara verið þessi dagur. Hún gerir það.
Um kvöldið fer ég aftur inn á „mínar síður“ á vinnumalastofnun.is og staðfesti atvinnuleit.

25.janúar 2013:
Mér berst bréf heim til mín dagsett 24.01.2013 þess efnis að fjallað hafi verið um rétt minn til atvinnuleysistrygginga en samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum starfi ég við verktakavinnu. Afgreiðslu máls hafi verið frestað og óskað eftir því að ég leggi fram yfirlýsingu um að ég muni ekki starfa við rekstur á eigin kennitölu/taka að mér verktakavinnu án undanfarandi tilkynningar til vinnumálastofnunar og afskráningar á meðan verkefni standi. Svo kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum uppfylli ég ekki skilyrði um atvinnuleysistryggingar þar sem ég starfi við eigin rekstur. Mér er síðar í bréfinu gefinn kostur á að koma til skila skýringum á þessum atriðum og yfirlýsingu þess efnis að ég muni ekki taka að mér verktakavinnu á meðan ég þiggi greiðslur atvinnuleysistrygginga, án undanfarandi tilkynningar til Vinnumálastofnunar. Til þess hef ég 7 virka daga.
Ég tek bréfið upp kl. 15:30 á þessum föstudegi, hálftíma eftir að vinnumálastofnun lokar. Að mínu áliti ætti þetta erindi að koma fram á „mínar síður“, þá vissi maður af þessu fyrr, en skiptir ekki máli. Nú er ég eins og áður segir nýgræðingur í þessum efnum og gat ekki skilið bréfið öðruvísi en svo að verið væri að saka mig um að hafa tekið að mér verktakavinnu án þess að láta vinnumálastofnun vita áður. Ég las bréfið nokkrum sinnum yfir og hafði komist að þeirri niðurstöðu að um einhver mistök væri að ræða, það hefði ekki skilað sér í kerfi að ég væri í þessari vinnu á föstudeginum áður eða eitthvað slíkt. Það eina sem mér fannst undarlegt við það var sú staðreynd að ég hafði verið afskráð yfir helgina á undan. En ég þurfti að bíða fram á mánudag til að komast að því rétta.

28. Janúar 2013:
Ég hringi enn og aftur í vinnumálastofnun, tilbúin að verja mig með kjafti og klóm þar sem ég hafði reynt mitt ýtrasta að standa rétt að öllum málum. Konan í símanum hafði ekki eins miklar áhyggjur af þessu og ég, sagði bara að þetta væri yfirlýsing sem allir sem tækju að sér verktakavinnu öðru hverju þyrftu að skila inn. Ég benti henni á að bréfið væri að mínu mati orðið svolítið eins og maður hefði gert eitthvað rangt en var fegin því að það væri þrátt fyrir allt ekki málið.
Seinni partinn fer ég í Vinnumálastofnun með undirritaða yfirlýsingu þess efnis að ég myndi ekki taka að mér verktakavinnu án þess að láta þau vita áður en vinnan myndi hefjast. Þar sem greiðslustofa Vinnumálastofnunar er á Skagaströnd flýtti ég mér með þetta samdægurs, því ég taldi einhverra hluta vegna mikilvægt að þetta kæmi til þeirra fyrir mánaðarmót.

01.02.2013:  Blaðran springur!
Ég ákveð að hringja í vinnumálastofnun til að sjá hvort ég fengi ekki greitt í dag. Ég var að stússast við að reikna saman leigu og önnur gjöld komandi mánaðar. Ég hringi beint í greiðslustofu Vinnumálastofnunar á Skagaströnd. Þar segir mér kona að ég fá ekki greitt því það sé ekki enn búið að taka fyrir umsóknina mína og þeim hafi ekki enn borist verktakayfirlýsingin.
Ég lýsi undrun minni yfir því þar sem ég hafi skilað henni inn á mánudag.
 „Á miðvikudag“ leiðréttir konan mig og ég segi henni að það sé aldeilis ekki rétt. Ég hafi hringt í þau á mánudag og skilað inn yfirlýsingunni samdægurs!
 Hún segir það svosem ekki skipta öllu en það standi 30. Janúar í kerfinu hjá henni, þetta sé allavega ekki komið til þeirra og það sé ekki hægt að taka erindið fyrir fyrr en yfirlýsingin hafi borist.
Ég spyr hvort þau sem vinna innan vinnumálastofnunar geti ekki treyst hvort öðru með það að frumritinu hafi verið skilað inn ef það sé skannað rafrænt á milli.
Hún segir að auðvitað geti þau treyst hvort öðru en þau geti bara ekkert gert án frumritsins, það þurfi að taka þetta fyrir á fundi.
Ég spyr hvenær ég fái þá eiginlega greitt.
Hún segir það séu fleiri greiðsludagar í mánuðinum og ég fái þetta MÖGULEGA þá. Ég geti hringt á miðvikudaginn í næstu viku og séð hvernig málin standa.
Mér stendur svo innilega ekki á sama. Ég spyr hana hvernig þau reikni með að fólk borgi leiguna sína og reikningana sem lendir í svona.
Hún segir mér að félagsmálastofnun hafi verið að aðstoða fólk með svona sem væri ekki að fá greitt frá Vinnumálastofnun.
Ég endurtek og spyr hana hvort hún sé virkilega að benda mér á að fá borgina til að lána mér pening þangað til þau greiði mér út bæturnar mínar?
Hún segir „þau hafa verið að gera það“. Sem ég fæ síðan seinna að vita að er ekki rétt. Þetta á einungis við fólk sem á ekki bótarétt, sem ég á og ég varla byrjuð að nýta mér.
Ég minni hana á að ég hafi hringt tvisvar sinnum áður en ég tók að mér verktakaverkið til að spyrjast fyrir um hvernig ég bæri mig að og komið einu sinni með afrit af reikningi til þeirra en aldrei hafi neinn svo mikið sem minnst á að ég þyrfti að skila inn undirritaðri verktakayfirlýsingu.
Hún sagðist ekki geta svarað fyrir hina hvers vegna þeir gerðu það ekki.
Ég sagðist skilja það, en hún ynni á stofnuninni en ekki ég sem setti hana í töluvert betra færi að koma þessari óánægju áleiðis.
Hún sagðist ekki geta hjálpað mér meira með þetta, ég yrði bara að hringja í næstu viku.

Það er letjandi að reyna að vinna samhliða bótum. Það er óþægilegt að láta koma fram við mann eins og maður sé alltaf að gera eitthvað af sér. En verst er þó að upplifa það óverðskuldað, það er eftir að maður hefur reynt eftir bestu getu að fara réttar leiðir. Það kostar í dag miklu meiri orku að vera heiðarlegur á atvinnuleysisbótum en óheiðarlegur.

Ég var heppin. Ég átti orlofið mitt síðan í Arion banka á sparireikning og gat þess vegna borgað leiguna mína í dag. Ég veit það hins vegar sem aðili með 3 ára bankareynslu að atvinnulaus einstaklingur gengur ekki inn í banka og fær yfirdrátt eins og ekkert sé... bara svona rétt á meðan. Það er að segja, nema hann eigi ljúfan þjónusturáðgjafa að og engar aðrar skuldir.

Ég verð ekki oft reið, en í dag líður mér örlítið eins og ég hafi verið send í skammarkrókinn daginn sem ég, með leiðbeiningum leikskólakennaranna, útbjó stillt í sætinu mínu fallegustu myndina úr þurru pasta sem gerð hefur verið...
...Og mér finnst það óréttlátt.