fimmtudagur, 5. nóvember 2015

30 fyrir 30

Síðustu áramót setti ég saman lista með 100 atriðum sem ég stefndi á að klára árið 2015. Þrátt fyrir að nú sé það alveg ljóst að ég nái ekki að klára öll þessi atriði finnst mér þetta samt sem áður hafa gengið vonum framar. Í dag er ég búin með 42 atriði af þessum 100 og að vinna stöðugt í 10 þeirra. Þá hefur það runnið upp fyrir mér að nokkur atriði - 10 eða svo - verða ekki að veruleika en þau eru öll tengd peningum eða líkamlegum áskorunum. Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir því við gerð listans hvaða áhrif meðganga, fæðing og greiðslur fæðingarorlofssjóðs hefðu á þessi atriði.

Atriði nr. 1 á listanum var að gera annan lista. Auðvitað, en ekki hvað. Sá listi er með annað deadline, 15. september 2016. Þann dag verð ég nefnilega þrítug. 
Ég hef velt þessu lengi fyrir mér - mig langar að hafa hann raunhæfan miðað við aðstæður en líka krefjandi. Hér kemur loka niðurstaðan.



  1. Fara á óperu og/eða ballett
  2. Fara í reiðtúr
  3. Fara á skíði/bretti
  4. Fá mér nýtt tattoo
  5. Fara á dansnámskeið
  6. Prófa sjósund
  7. Læra nýtt tungumál
  8. Senda lag í spilun út í kosmósinn
  9. Fara ein í bíó/leikhús
  10. Klára krossgátu
  11. Læra á nýtt hljóðfæri
  12. Sauma flík
  13. Setja upp sparnað
  14. Halda dagbók (amk. 100 daga)
  15. Segja oftar "já"
  16. Skrifa flöskuskeyti
  17. Koma mér í besta líkamlega form fullorðinsáranna (minna challenge en það hljómar)
  18. Segja hrósin upphátt - og skila þeim þangað sem þau eiga heima
  19. Taka mynd með Celeb-i (verulega út fyrir mitt comfort zone)
  20. Blogga amk. 50 færslur
  21. Ferðast á amk. einn nýjan stað
  22. Gerast sjálfboðaliði fyrir gott málefni
  23. Halda fyrirlestur... telst ekki með að halda hann fyrir Hafstein. 
  24. Læra rapplag frá byrjun til enda (ég er svoooooo léleg í þessu að það er grátlegt)
  25. Lesa amk. 10 bækur
  26. Smakka eitthvað alveg nýtt
  27. Gista á hóteli sem ég hef ekki gist á áður
  28. Læra nýtt töfrabragð
  29. Skrifa bréf til 40 ára mín
  30. Halda eitt gott 30 ára ÞEMApartý

Ég er mjög skotin í þessum lista. Hellingur af skemmtun og nokkrar góðar áskoranir.
Tíu og hálfur mánuður til stefnu - já, og 2 mánuðir til stefnu fyrir þessi 58 atriði sem eftir eru á 100 atriða listanum mínum. Ég er spennt að sjá hversu langt ég kemst með hann fyrir áramótin og hvað þarf að færa yfir á næsta ár.
Ég iða í skinninu af spenning. Þvílíkt stuð. 

1. Klára listann 30 fyrir 30

sunnudagur, 18. janúar 2015

Þrír mánuðir

Þrír mánuðir. Ársfjórðungur. 90 dagar. 13 vikur. 

Í gær voru þrír mánuðir í settan dag og því þriðji og síðasti leikhluti meðgöngunnar hafinn. 

Ég hef þónokkrum sinnum verið spurð hvort það sé allt tilbúið og fannst aldrei neitt liggja á. Í gær hljóp ég upp til handa og fóta, skoðaði samfellurnar sem við höfum eignast á strákinn aftur (já, það er það eina sem við eigum fyrir utan plastskeiðar sem eiga að vera betri en venjulegar plastskeiðar), fór á bland.is og skoðaði allskyns barnadót, sjova.is og las mér til um barnabílstóla.... og ákvað síðan aftur að mér finndist ennþá ekkert liggja á. 

Fyrsti hluti meðgöngunnar fannst mér líða mjög hægt - sérstaklega parturinn þar sem fáir vissu af henni og mér leið sem verst. Ég var orkulaus, leið illa í vinnunni sem bitnaði á framlagi mínu þar og ég vissi ekki hvernig ég myndi höndla níu mánuði af þessari líðan. Sem betur fer, eins og í flestum tilfellum, gekk það yfir og hægt og rólega fékk ég matarlystina, orkuna og metnaðinn til baka. 

Núna finnst mér tíminn hins vegar líða mjög hratt og sveiflast á milli þess að vilja að hann hraði enn frekar á sér eða hægi gífurlega. Suma daga óska ég þess að hafa lengri tíma fyrir sjálfa mig, njóta þess að hafa hlutina einfalda og hugsa bara um mig, en aðra daga myndi ég helst kjósa að ljúka þessu öllu af og fá drenginn í hendurnar strax. 

Þrátt fyrir þessar sveiflur er markmiðið að njóta síðustu metranna til fulls - njóta þess að vera bara tvö, sofa út um helgar og lifa í núinu. Halda áfram að taka til í sálinni og samhliða þessu, hægt og rólega, safna að sér nauðsynlegum hlutum áður en frumburðurinn mætir. 

Framundan er fæðingarnámskeið, skoðanir, sykurþolspróf og allskonar stuð tengt komu barnsins í þennan heim, fyrir utan mikilvægar heita potts ferðir, meðgöngujóga og gönguferðir sem Sindri hefur verið duglegur að draga mig í. Ég er ekki alltaf í stuði fyrir þær en hef vanið mig á að segja samt alltaf já. Hingað til hef ég verið voðalega ánægð með það eftir á.
Já, þetta eru merkilegir tímar fyrir litlu mig og oft hræða þessar tilvonandi breytingar mig gífurlega, sérstaklega ef ég leyfi áhyggjuhluta heilans að leika sér. Vísvitandi hef ég þó reynt að fanga leiki hans og eyðileggja fyrir honum því vissulega hjálpar það lítið að taka þátt í leiknum. 

90 dagar. 13 vikur. Ársfjórðungur. 3 mánuðir. 

Ekkert stress krakkar. Ekkert stress. 

þriðjudagur, 13. janúar 2015

Nr. 54 - Sultukaka a la pabbi

Eins og áður segir hef ég sett mér upp 100 atriða to-do lista til að haka við árið 2015. Í kvöld lauk ég atriði nr. 54 (er samt ekki búin með 54 atriði á þessum tveimur vikum, svo það sé á hreinu).


54. Baka sultuköku a la pabbi
Ég hef áður minnst á þessa sultuköku hér á blogginu í færslu um uppáhaldsbaksturinn minn. Þar minntist ég á að þurfa að grafa upp þessa uppskrift einhverntíma og deila með ykkur. 
Sultukaka var ein af fáum kökum sem mér fannst rosalega góð sem krakki. Um er að ræða tvo brúna botna með rabarbarasultu á milli. Ekki of heavy - passlega þannig að ég gat borðað endalaust af henni. Það sem einnig var sérstakt við þessa ágætu sultuköku var að með henni drakk ég yfirleitt mjólk en ég hef aldrei verið hrifin af mjólk yfir höfuð og lenti oft inn á skrifstofu hjá Gunnu á leikskólanum mínum Hádegishöfða fyrir það að vilja ekki drekka hana. Þar sat ég og danglaði löppunum og vældi síðan í mömmu þegar hún kom að sækja mig og bað hana að segja fóstrunum (þær voru víst fóstrur í den tid) að ég drykki ekki mjólk og alls ekki nýmjólk. 
Þessi kaka hefur því sennilega komið ofan í mig fleiri mjólkurglösum en nokkur annar einstakur réttur, eða mögulega fæðuflokkur. 

Þegar Óli bróðir var unglingur tók hann sig til og bakaði þessa köku stundum um helgar - þegar hann kom heim frá Eiðum, þar sem hann var á heimavist. Mér þótti það alls ekki leiðinlegt og yfirleitt kláraðist hún á mettíma, enda hægt að borða stórar sneiðar. 

Nóg af fortíðinni og hér kemur athyglisverða saga kvöldsins. Eftir matinn fór ég upp í hæstu hæðir svefnherbergisskápsins að sækja gömlu, bleiku uppskriftarmöppuna mína en hana hef ég átt síðan ég var 6 ára. Þar var ég viss um að ég hefði skrifað niður uppskriftina af sultukökunni einhverntíma fyrir löngu síðan. Pabbi hafði einhverntíma þulið hana upp fyrir mig í síma eftir minni en efast síðan um að hún væri alveg rétt hjá honum seinna meir - en það var of seint, sú útgáfa var orðin að klassík. 
Ég fór þrisvar sinnum í gegnum hvert eitt og einasta blað í möppunni og skoðaði hvert einasta krot sem mögulega gæti verið vísir af umræddri uppskrift en fann ekkert. 
Á þeim tímapunkti voru farnar að grípa mig hugsanir eins og 

"Djöfull er þetta gott á þig Silla. Setur upp eitthvað sem þú heldur að sé svo auðvelt að framkvæma á áramótaheita-listann þinn og færð það síðan allt í hausinn. Þú átt greinilega eftir að þurfa að hafa fyrir þessu"
"Ég trúi ekki að þetta sé ekki hérna - ég man þetta allt svo skýrt. Þetta er einhversstaðar skrifað með rauðum penna."
"Kannski fæ ég aldrei aftur að smakka þessa sultuköku. ERTU EKKI AÐ FOKKING GRÍNAST?"

og "Kannski man ég þetta cirkabát. Nei, í alvöru - ekki séns."

Næsta ráð var að reyna að googla orð eins og "sultukaka", "brúnir botnar" (já - ég veit hvernig það kann að hljóma - komu samt upp furðulega nice niðurstöður miðað við það) og "rabarbarasulta kaka". Allt kom fyrir ekki, það kom ekki upp ein einasta uppskrift sem komst nálægt því að líkjast þessari. 
Ég sendi Óla skilaboð á Facebook hvort hann ætti hana til eða myndi hana í stórum dráttum. Áður en hann náði að svara hafði ég misst þolinmæðina og náð sambandi við pabba. 
Pabbi spyr mig hvort hún sé ekki í uppskriftarmöppunni hennar mömmu - en ég segi honum að mamma hafi tekið hana aftur til sín svo ég viti það ekki. Ég er alveg við það að játa mig sigraða - sé fyrir mér auðan check-kassann fyrir framan atriði 54 á áramótalistanum og þar með ófullkominn, óyfirstíganlegan lista sem aldrei fær öll hakin.... og það þann 13. janúar. Ekki einu sinni tvær vikur frá áramótum. Þvílík skelfingar byrjun á áramótaheitum!

En þá segir pabbi:



"Sko, þegar þetta birtist hérna upphaflega hét þetta ábyggilega Royal svampterta. Var uppskrift í einhverri uppskriftarkeppni á vegum Royal lyftidufts. Ertu búin að prófa að gúggla það?"

What? Hvað gerðist?

Ég gúgglaði það. Fann uppskriftina strax, nákvæmlega eins og pabba minnti að hún væri. Ég bakaði hana líka. Hún smakkaðist eins - bara ekki með original family recipe hughrifum eins og áður. Hún er bara hér. Gjöriði svo vel. 


Sultukaka aka. Royal svampterta

Tertadiskur úr jólapakka


Ég sendi uppskriftina á Óla. Hann var jafn hissa. Likti þessu við Nestlé Tullhouse kökuuppskriftar-atvikið í Friends. Leyniuppskriftin hans pabba af bestu sultuköku í heimi er bara vinningsuppskrift úr einhverri Royal lyftidufts uppskriftakeppni. Ha? Í alvöru?




Þetta líf er greinilega ekkert hætt að koma manni á óvart - og það er hverfult eins og original family recipe hughrifin. Huh.  

54. Baka sultuköku a ala pabbi (öðru nafni "Royal svamptertu" úr uppskriftarkeppni Royal) - check

sunnudagur, 11. janúar 2015

Af 100 misstórum verkefnum

Þið sem hafið fylgst með mér eða þekkið mig ættuð að vera farin að átta ykkur á því að ekkert er ár án áramótaheita í mínum heimi. Ég gefst ekki upp þrátt fyrir að hafa ekki enn getað fagnað því að hafa staðið við slík heit. Í ár tók ég aðra hugsun á þetta heldur en síðustu ár og tímasetti engin markmið, ég einblíndi ekki á nokkra stóra hluti (eins og manni er jú frekar ráðlagt að gera) heldur setti niður 100 hluta to-do lista sem ég strika út af jafn óðum. 

Ástæðan er að ég veit að líf mitt er varanlega að breytt - næstu þrjá mánuði mun ég ekki geta hreyft mig eins hratt og áður og eftir þann tíma veit ég ekkert hvernig lífið verður. Ég hef nefnilega aldrei eignast barn áður og vissi þar af leiðandi ekki hvað væru raunhæf markmið í bland við þessa gífurlegu breytingu. Í staðinn fyrir að lesa mér til, skoða alls konar reynslusögur og búa mér til hugmyndir um hvað sé raunhæft, sennilegt o.s.frv. ákvað ég að byggja ekki um neina uppskrift, leyfa þessu að verða og taka einn dag í einu. Tækla lífið þetta árið með æðruleysi og leyfa því að koma mér á óvart án þess að vera með kröfur eða hugmyndir um bestu mögulegu uppskriftina. 

Á 100 atriða listanum mínum má finna atriði sem ég hef ætlað mér að framkvæma lengi og taka innan við klukkutíma. Þar má einnig finna atriði sem eru loforð um að ég muni sinna ákveðnum hlutum örlítið betur - í viku eða jafnvel mánuð, í von um að það breyti rútínunni að einhverju leyti. Þar má einnig finna atriði sem ég hef nú þegar byrjað á en verður ekki lokið fyrr en í lok ársins. Síðast en ekki síst má finna atriði sem eru "gúfí", skemmtileg og hafa í raun engan augljósan tilgang á listanum. 

Ég hef nú þegar strikað eitt atriði út af listanum sem ég ætla að segja frá í næsta bloggi. Í kvöld mun ég strika út annað atriði - að birta þrjú blogg í sömu vikunni. Ég er síðan að vinna í fimm atriðum, sum þeirra munu taka allt árið,  og stefni á að hafa strikað út 8 atriði af listanum um næstu mánaðarmót. 

Það er bara ekkert ár hjá mér án áramótaheita - þannig verður það sennilega allavega þangað til ég upplifi það einn daginn að hafa staðið alfarið við þau! Tólf mánuðir er langur tími til að halda athyglinni en eins og áður þá er ég uppfull af óraunsærri bjartsýni um að í ár muni þetta ganga upp. 

Í fyrra setti ég allt upp í excel - í ár er listinn krotaður inn í típíska dagbók. Ég hef komist að því "the hard way" að tryggð þín við markmiðin tengjast á engan hátt forritinu sem þú notar við að setja þau upp. Bömmer. 


Fyrir mér eru setning áramótaheita og vinnsla í þeim ákveðin skemmtun. Það er að segja alveg þangað til ég átta mig á því að það er ekki lengur séns að ná þeim. Ég óska ykkur því góðrar skemmtunar með ykkar eigin ef þið hafið sett ykkur einhver - ef ekki get ég örugglega hjálpað ykkar með eins og einn lista. EKKERT mál. 

þriðjudagur, 6. janúar 2015

Þrettándinn

Við Sindri erum bæði mikil jólabörn svo jólaskrautið fær að hanga uppi hjá okkur þar til þrettándanum lýkur í kvöld. Síðustu tvö ár höfum við kvatt jólin með því að kíkja á brennu á Ægisíðunni, versla flugelda á gífurlegum afslætti síðustu mínútur fyrir lokun og í fyrra vorum við síðan með smá kvöldkaffi með vinum til að nýta hverja einustu sekúndu jólanna vel. 

Í ár ákváðum við einnig að nýta þennan síðasta dag jóla vel og versluðum okkur kalkún á 45% afslætti í gær. Buðum síðan vinum í mat í kvöld þar sem síðasta sukk jólanna var haldið hátíðlegt með kalkún, fyllingu, sósu og sætum - auk þess sem gestirnir komu með sörur með sér sem við nutum yfir tebolla. 


Nú eru þau horfin heim á leið og jólin við það að renna sitt skeið þetta sinnið. Eftir sitjum við Sindri í sitthvorri tölvunni í sófanum á Fálkagötunni - bæði að rembast við það að renna ekki í miðju sófans sem liggur orðið örlítið neðar en restin. 

Ég sit með fæturnar í steikarpotti sem er heppilegasta ílát heimilisins fyrir fótabaðsiðkun. Í fótabaðinu eru síðan heimablönduð fótasölt sem Sindri gaf mér í jólagjöf; blanda af epson salti, sjávarsalti, matarsóda og piparmyntu. Framan í mig hef ég síðan smellt ógurlega fínum maska frá Nivea sem ég keypti eitt bréf af (2 skammtar) á Tax Free dögum í Hagkaup fyrir nokkrum vikum -  og sparaði mér með því 11 krónur.
Með hvítan maskann í andlitinu og fæturnar í svörtum steikarpotti sit ég síðan með tölvuna í fanginu og lem á lyklaborðið. 

Ég hugsaði um að taka mynd af þessu og setja hér inn en fannst skemmtilegra að lýsa bara þessum aðstæðum og leyfa ímyndunarafli ykkar að ráða myndinni. 


Það er þó óhætt að segja að ásýndin er ekkert í líkingu við þetta:




Vonandi áttuð þið þrettán góða jóladaga - ég væri alveg til í að spóla aftur á bak og upplifa þá alla aftur. 

sunnudagur, 4. janúar 2015

Árið 2014 - seinni hluti

Þriðji ársfjórðungur
Um mánaðarmótin var komið að langþráðu sumarfríi þar sem við skelltum okkur með allri fjölskyldunni hans Sindra í ellefu daga ferð til Danmerkur. Þar byrjuðum við á að dvelja viku á Blåvand á Jótlandi. Þar fórum við á ströndina, í minigolf, út að borða, keyrðum í nálæga bæi og sitthvað fleira skemmtilegt. Veðrið lék við okkur, sem var velkomin breyting frá ástandinu heima. Eftir vikuna við Blåvand eyddum við restinni af ferðinni í Odense hjá systur hans Sindra og manninum hennar. Þar fórum við Sindri í dýragarð, á hjólabáta, ég skrapp á flóamarkað og sitthvað fleira.


Þegar við komum heim áskotnuðust okkur á síðustu stundu miðar á ATP. Við kíktum því á Ásbrú og sáum þar hljómsveitirnar Samaris, Slow Dive, Interpol og síðast en ekki síst Portishead.

Seinnipartinn í júlí keyrðum við síðan austur í sæluna þar sem veðrið lék heldur betur við okkur. Þar hittum við í fyrsta sinn Bergrós vinkonu okkar og drukkum bjór á pallinum hjá henni, skelltum okkur á Eskifjörð í matarboð og enduðum ferðina að sjálfsögðu á Borgarfirði á Bræðslu. Þar hélt ég áfram bakraddarstuðinu og söng eina tónleika með Hljómsveitinni Borgfjörð á miðvikudagskvöldi fyrir Bræðslu auk þess að opna sjálfa Bræðsluna með sama hóp.




Þegar heim var komið var stoppið stutt því ég hafði tekið að mér verkefnastjórn fyrir Silent á Þjóðhátíð í Eyjum. Þangað fengu Minions-vettlinga vinir mínir, Dave og Kevin, að fylgja mér.

Bakraddargiggin héldu áfram en þann 6. ágúst mætti ég ásamt Ylfu Lind á Eldborgarsvið Hörpu í þriðja sinn. Í þetta sinn vorum við ekki að keppa, heldur var hún að skila titilinum „Draggkóngur Íslands“. Lagið var Show must go on og bakraddirnar málaðar eins og trúðar í sparifötum.
Þessi dagur var þó aðeins stærri en áætlað hafði verið. Á leiðinni heim komum við Sindri við í búð og keyptum þungunarpróf. Ég fór inn á baðherbergi og pissaði á prik. Í dag hefði ég verið til í að eiga á video þegar ég kem gangandi útaf baðherberginu í fjólubláa kjólnum mínum, með hárið útí loftið, máluð eins og trúður... haldandi á jákvæðu þungunarprófi.
En maður skal ekki treysta tækninni og alltaf vera svolítið skeptískur (ATH! kaldhæðni) og því ákvað ég að taka lítið mark á þessari niðurstöðu, taka aftur próf daginn eftir... og aftur rúmri viku seinna. Niðurstaðan breyttist ekki.


Fimm dögum eftir að ég var búin að pissa á prikið fer Sindri til Danmerkur til að dvelja í 6 vikur. Kvöldið sem hann flýgur út förum við saman á Hereford, kaupum Vesturbæjarís og göngum í kringum Tjörnina. Fyrir framan styttuna af Jónasi Hallgrímssyni stöldrum við við og Sindri dregur upp trúlofunarhringinn – þegar hann er búin að segja eitt orð mæta fyrir framan styttuna íslenskur strákur og erlend stelpa. Þau stansa og hann fer að fræða hana frekar hátt og skýrt um ævi Jónasar. Þetta þótti mér fyndið, sérstaklega í ljósi þess að það var eins og ýtt hefði verið á pásu á videotæki, við horfðum bara á hvort annað og flissuðum.
En hringarnir fóru upp og Sindri flaug til Danmerkur. Ég saknaði hans gífurlega og leið ekkert sérlega vel þessar fyrstu vikur meðgöngunnar. Hann græddi hins vegar á þessu þar sem versti tíminn var passlega liðinn þegar að hann lét sjá sig aftur á Íslandi.


Ég sat þó ekki auðum höndum á meðan hann var í burtu. Ég tók þátt í mínu öðru golfmóti 14. Ágúst og færði mig upp um sæti frá því árinu áður... en þá var ég á botninum. Ég sótti námskeið til að taka þjálfararéttindi í Pole fitness og Pole fabric, skrapp til Egilsstaða að fagna 30 ára afmæli Margrétar Daggar óvænt (fyrir hana þ.e.a.s), flutti starfstöðvar PIPARS í annað sinn á árinu og kíkti á meistara Justin Timberlake ásamt hálfri þjóðinni.




Um mánaðarmótin ágúst/september var söknuðurinn orðinn mikill og ég ákvað að skella mér til Danmerkur að hitta minn mann. Hann hafði þá pantað fyrir okkur gistingu á ótrúlega fallegu sveitasetri og ekki skemmdi fyrir gullfallega baðkerið sem beið inni á herberginu okkar. Eftir að hafa eytt nóttinni þar og mætt í morgunmat daginn eftir fórum við til Odense. Þar skelltum við okkur á bjórsmökkunarhátíð og borðuðum svo dýrindis máltíð um kvöldið með Söndru systur hans Sindra og Oddi, mági hans.


Ég átti líka afmæli í september og vinkonur mínar úr Fellabænum, Katrín, Berglind, Agla og Fanney sáu um að undirbúa hitting fyrir okkur. Þemað var varalitur og naglalakk. Við fórum í Hörpuna á Pop-up tónleika með Hljómsveitinni Evu og síðan heim til mín þar sem þær elduðu handa mér mat.  
Með þrjár óléttar í hópnum var villtara partý ekki á boðstólnum þetta árið.


Í lok september skrapp ég síðan til London í heimsókn til Kristrúnar vinkonu minnar ásamt Beggu vinkonu okkar. Sveinbjörg, fjórða vinkonan, mætti síðan frá Noregi til að taka þátt í þessu með okkur. Við fórum á Mamma mia, skoðuðum London Eye, kirkjuna sem Diana og Karl giftu sig í, hringekjubar, Sushi samba og Salsaklúbb svo eitthvað sé nefnt. Sindri kom síðan heim degi á eftir mér.




Fjórði ársfjórðungur
Fjórði ársfjórðungur byrjaði að venju á meistaramánuði. Ég ákvað að skrá mig 1. Október. Ég setti mér 4 markmið og náði einu þeirra – sem er meira en nokkru sinni fyrr. Markmiðið sem ég náði var að þvo framan úr mér málninguna á hverju kvöldi og þrífa húðina kvölds og morgna. Það er skemmst frá því að segja að mér fannst það enganveginn þess virði að hafa staðist þetta markmið þar sem í enda mánaðarins var ég með fleiri bólur en ég man eftir að hafa fengið í mörg ár – og frunsu.

Síðasti ársfjórðungurinn innihélt einnig marga skemmtilega viðburði. Halloween í vinnunni, Off venue tónleika á Airwaves, J-daginn, árshátíð SÍA og jólabjórasmakk Matviss, þar sem ég réði ríkjum – enda um blindsmakk að ræða.





Síðasti mánuður ársins byrjaði síðan með 20 vikna sónar þar sem við fengum að vita að væntanlegur erfingi væri strákur – og allt liti vel út.



Mánuðurinn var síðan mjög góður í alla staði. Vikan birt fjögurra síðna umfjöllun og uppskriftir frá Sindra og lagið mitt, sem samið hafði verið í mars, var tekið upp á 4 kvöldum í barnaherberginu heima hjá Óla bróður. Það var síðan dágott adrenalínskot sem skaust út í líkama minn þegar tilkynnt var að lagið hefði komist í 10 laga úrslit í jólalagakeppni Rásar 2.




Síðustu 3 vikurnar í desember eru síðan alltaf þessir föstu póstar. Afmælið hans Sindra- viku seinna jólin – viku seinna áramót. Þetta árið buðum við fjölskyldunni hans Sindra í mat og seinna um kvöldið vorum við með vinabjóð. Við eyddum kvöldinu að miklu leyti í að spila nýtt spil sem Sindri gerði ásamt Óðni vini sínum og heitir Ljótur leikur. Það er eins og íslensk útgáfa af Cards Against Humanity með skemmtilegu tvisti úr Hættuspilinu sígilda. Ef ykkur langar að prófa er hægt að downloada því ókeypis á ljoturleikur.is Bara hlaða niður, prenta og klippa. 

Á Þorláksmessu mátti ég ekki koma heima í 2 klukkutíma þar sem Sindri sagðist vera að dunda við gjöfina mína. Um nóttina dundaði hann síðan aðrar 3 klukkustundir við gjöfina mína. Ég var komin með getgátur um að hann ætlaði að gefa mér risapúsl og pakka hverju púsli inn fyrir sig. Eða að gefa mér púsl sem búið væri að púsla. Aðfangadagur rann upp og uppúr pakkanum kom heil heimagerð snyrtivörulína!

Á jóladag fórum við í matarboð til mömmu þar sem menn skiptust á að sofna í sófanum eftir matinn. Eftir það var þörf á göngutúr en við gengum yfir tjörnina og bjuggum til snjókarl í Hallargarðinum.



Gamlárskvöldi eyddum við í fyrsta sinn með vinum. Fjórar æskuvinkonur úr Fellabænum ásamt mökum samankomnar heima hjá einni þeirra. Rækju Chevice í forrétt, hreindýr með sveppasósu, sætum kartöflum, waldorfsalati og rauðvínslegnum perum í aðalrétt, og ís og marengssamlokur í eftirrétt. Sindri hafði síðan fjárfest í rosalega flottu kampavíni fyrir áramótin sjálf sem við skáluðum í horfandi yfir Fossvoginn útum stofugluggann. Eftir miðnætti tókum við í spil, borðuðum osta, sumir drukku vín og aðrir eitthvað annað. Eftir það settust strákarnir við YouTube myndbönd í vondra rokklagakeppni og við stelpurnar héldum partý uppí rúmi hjá Fanneyju – sem var orðin svolítið þreytt.



Á leiðinni heim, uppúr kl. 5, stoppuðum við í Iceland til að kaupa samlokubrauð svo hægt væri að enda djammið á eina rétta háttinn – með samloku úr samlokugrilli.

Ég er að sjálfsögðu komin með áramótaheit fyrir næsta ár. 100 hluta to do listi sem ég byrja að tékka af ekki seinna en á morgun ;)


Gleðilegt nýtt ár!

Árið 2014 - fyrri hluti

Árið 2014 var gott ár fyrir mig að mörgu leyti. Þrátt fyrir að hafa gleymt áramótaheitum ársins um leið og ég fór í sumarfrí (eins og svo oft áður) tókst mér þó að njóta fleiri augnablika en áður. Það eitt og sér var sennilega stærri sigur en mörg áramótaheitanna hefðu boðið upp á.

Fyrsti Ársfjórðungur
SkjárEinn hóf að sýna fyrstu seríu af íslenska Biggest Loser, sem varð fljótt heilög sjónvarpsstund hjá mér. Það gerði þó lítið fyrir mína eigin baráttu við aukakílóin þar sem sælgæti var einnig stór partur af þessari stund.


Það var annars rólegur hjá okkur janúar. Ég bauð Sindra á Roadhouse á bóndadaginn, hann varð ofur upptekinn vinnandi maður en gaf sér þó tíma til að blikka mig öðru hverju. T.a.m. fórum við saman á leiksýninguna Jeppi á fjalli fyrir gjafabréf sem við höfðum fengið í jólagjöf.




Í byrjun febrúar tók ég þátt í tónleikum með Aldísi á Rósenberg þar sem ég stóð bakraddarvakt ásamt tveimur öðrum. Fjórum dögum síðar héldum við Sindri síðan þorrablót heima hjá okkur í 60fm íbúðinni þar sem við höfðum opið hús. Mætingin var langt fram úr væntingum og myndaðist biðröð útúr eldhúsinu þegar heiti maturinn var klár. Þetta var virkilega vel heppnað kvöld þó ég hafi óvart dressað mig upp sem Wendesday Adams.





Seinnipart febrúar kíktum við Sindri á rauðkíttisostanámskeið í Búrinu, en ég hafði gefið Sindra námskeiðið í jólagjöf. Virkilega skemmtilegt kvöld, líka fyrir mig, ostagikkinn. Við lærðum helling um pörun á rauðkíttisostum og meðlæti, auk þess að borða alltof mikinn ost.


Konudagurinn var haldinn hátíðlegur, bæði heima og í vinnunni. Heima var mér boðið út að borða og gefið konfekt. Í vinnunni var það rauður drykkur, rós og ekkert reiður rokkari sem tók fyrir okkur slagara sem hann orti um móður sína. Það féllu nokkur tár í hópnum yfir því atriði.



Eftir að hafa misst af skilafresti fyrir jólalagakeppni Rásar 2 tvö ár í röð ákvað ég að vera tímanlega þetta árið og semja jólalagið loksins í mars. Ég settist niður eina kvöldstund með texta frá Sindra, gítar, umslag utan af launaseðli og símann að vopni. Þegar ég hafði raulað inn lagið lagði ég frá mér símann og gleymdi þessu verkefni alfarið.


Mars var skemmtilegur mánuður. Við byrjuðum eitt af mörgum deitkvöldum í bogfimisetrinu, ég smellti á mig fyrsta tattúinu í hádeginu einn þriðjudaginn eftir margra ára umhugsun, prófaði í fyrsta sinn ásamt nokkrum vinnufélögum að brugga bjór og skellti mér á langþráða tónleika með Moses Hightower ásamt Kristínu Rún. Ég fæ ekki nóg af þeim live.





Mánuðurinn endaði síðan á því að við fluttum starfstöðvar okkar upp um eina hæð á Tryggvagötunni, en það átti eftir að verða stutt stopp.


Annar ársfjórðungur
Ég man nú ekki til þess að hafa lagt mig mikið fram við aprílgöbbin þetta árið en man eftir 3. apríl þar sem ég skellti mér á verkið Baldur með Skálmöld. Það var vægast sagt geggjuð sýning og skemmti Sigga tengdamamma sér manna best í salnum.


Tveimur dögum síðar sat ég límd við sjónvarpið í klappstýrubúningnum þegar bróðurdóttir mín söng í fyrir hönd MA í Söngkeppni framhaldsskólanna. Daginn eftir átti ég árlegt gigg með pabba mínum á Heilsuhælinu í Hveragerði og Hótel Örk  (jájá, tvö sama kvöldið!) og tveimur kvöldum eftir það endurtókum við tónleika Aldísar á Rósenberg.



Við Sindri ákváðum seint að taka seinnipart páskanna í sumarbústað í Hvalfirði, þ.e. eina lausa sumarbústaðnum sem við fundum. Það var ofboðslega hugguleg ferð þar sem hann eldaði góðan mat, ég las, við lágum í heita pottinum, fórum í gönguferðir og drukkum heslihnetubjór með páskaegginu. Það combo var gjörsamlega skothelt!


Í maí var Sindri orðinn virkilega upptekinn og ég sá hann lítið en einn morguninn kom hann mér verulega á óvart með því að bjóða mér út að borða um kvöldið en fara fyrst með mig og kaupa á mig kjól. Þetta þótti mér ótrúlega magnað uppátæki! Enda sjúk í kjóla... og mat.


10. maí rann upp hátíðisdagur, Eurovision. Okkur var boðið í Eurovision partý þar sem allir voru látnir draga land. Í stigagjöfinni þurfti maður síðan að drekka visst marga sopa miðað við þau stig sem lagið manns fékk. Mér til mikillar skelfingar dró ég Holland – og til að sporna við heilsuleysi drakk ég varla sopa fyrr en stigagjöfin byrjaði. Sem betur fer þar sem lagið lenti í 2. sæti.


Í lok mánaðar var árshátíð hjá minni vinnu. Ég var í árshátíðarnefnd og þemað var 1994 þar sem fyrirtækið varð 20 ára á árinu. Við röðuðum mannskapnum í lið og nöfn liðanna höfðu öll tengingu við árið 1994. Lion King, Dumb and Dumber, Ace Ventura, Justin Bieber, Kurt Cobain...
Að sjálfsögðu var morgunmaturinn tekinn í Ölgerðinni.


Þann 30. maí er ég í sturtu (það kemur fyrir að ég skoli af mér). Þegar ég kem úr sturtunni segir Sindri mér að Katrín og Björn séu á leið á tónleika með Tinu Dico og eigi einn auka miða. Hann segist alveg hafa áhuga á því að fara en vill frekar að þiggi það. Á korteri hendist ég í föt, mála mig og dríf mig niður í Iðnó. Og þvílík gjöf. Ég hafði ekkert hlustað á hana fyrir en heyrt góða hluti. Slíka tónleika, þvílíka einlægni, nánd og þvílíkan sögumann, hafði ég ekki upplifað síðan ég sá Teit Lassen í fyrsta sinn í Odense árið 2005. Ég sat dolfallinn, hlustandi á hvert einasta orð og meðtók þau öll, hvort sem hún talaði eða söng. Takk Katrín og Björn! Takk Sindri! Takk Tina Dico!


Daginn eftir fórum við síðan á frumsýningu heimildarmyndar Aldísar Fjólu um Bræðsluna. Ég hafði árið áður hjálpað til við gerð myndarinnar með því að stökkva í hlutverk spyrils. Þetta var virkilega huggulegur hálftími í Bíó Paradís sem færði mann heim.

Júní bauð ekki upp á marga  sólardaga og 17. Júní var þar engin undantekning. Þrátt fyrir það fór ég í kjól og við Sindri gengum götur miðbæjarins með viðkomu í Tiger til að kaupa regnhlífar.

Í sama mánuði byrjaði ég að þjálfa Pole fitness eftir 6 mánaða aðstoðarkennslu.



Ákvað að skipta árinu upp í tvo parta því bloggið var orðið svo hrikalega langt. To be continued...