þriðjudagur, 25. febrúar 2014

Tónlist

Ég blogga eiginlega aldrei um tónlist. Stór partur af þeirri ákvörðun byggir á því að ég treysti ekki eigin skoðunum á tónlist. Ef mér finnst eitthvað leiðinlegt er ég alltaf þess fullviss að ég skilji bara ekki stefnuna/lagið/textann... og mögulega muni afstaða mín breytast við frekari hlustun.

Þetta skilar ótrúlegum óþægindum þegar hin klassíska spurning um uppáhalds tónlistarstefnu er dregin upp. RISA stórum parti af mér langar að segja "ég er alæta" en það er bæði hallærislegt, mjög líklega ekki satt og sannarlega barns síns tíma. Þegar ég les þetta svar frá einhverjum öðrum dreg ég alltaf þá ályktun að viðkomandi hlusti í raun ekki mikið á tónlist, þ.e.a.s. ekki sjálfur eftir eigin smekk.

Síðan finn ég þessa bloggáskorun - og að sjálfsögðu þarf hún að innihalda pistil um uppáhalds tónlistarstefnu. Heppnin er með mér.

Með árunum hef ég komist að niðurstöðu um að ákveðin einkenni í tónlist geri það að verkum að mér líkar vel. Þó hef ég einnig komist að því að ekkert þeirra er nauðsynlegt en hjálpar yfirleitt til.


  1. Góð melódía. Ég vel melódíu fram yfir takt allan daginn, alla daga. Þó taktur sé stundum töff.
  2. Raddanir - flottar raddanir geta gefið mér gæsahúð, og því miður gefur mér ekkert svo margt gæsahúð. Árstíðar strákarnir náðu mér á hálfu lagi í Egilsstaðakirkju árið 2009 og haldið mér sem verulega dyggum aðdáanda síðan. Moses Hightower útfæra raddir líka á ótrúlega skemmtilegan hátt, enda einnig í miklu uppáhaldi. Annars kemur kántrí líka sterkt inn í þennan punkt.
  3. Einlægni. Fyrir mig er það oft "Less is more" - ég elska reyndar að horfa á tónleikashow en þegar kemur að tónlistinni sjálfri finnst mér fjöldinn allur af hljóðfærum ekki geta komið í stað einlægni.
  4. Saga. Ég er sökker fyrir góðum textum. Ég er líka sökker fyrir textum sem ég tengi við - þó þeir séu ekki góðir. :)
  5. Góðir söngvarar. Það eru góðir söngvarar í öllum stefnum. Góðir söngvarar syngja líka stundum léleg lög. Þrátt fyrir það er líklegra að sæmileg lög nái mér ef þau innihalda söngvara sem hefur getað leikið sér mér laglínuna og skilað þessu "extra something".
  6. Rokk ballöður. Holy hell hve margar rokkballöður hafa hreyft við mig. Jafnvel fengið mig til að grenja við réttu aðstæðurnar. 
Almennt virðist, eins og í svo mörgu öðru, skapið síðan geta haft gífurleg áhrif á hvers konar tónlist ég hlusta. Stundum vill maður bara föstudagsfiðring með "We are young" og "Cheers (drink to that)" en stundum vill maður ekkert nema "She's gone" og "Bed of roses". Það kemur líka fyrir að maður vill Bjartmar og Megas og mikið af þeim. Enn annan tíma vill maður bara setja Árstíðir á tækið, gleyma að það sé til hversdagsleiki og finna tónlistina þeirra fylla mann ánægju. Jafnvel á mínum verstu dögum finn ég fyrir einhverskonar neista þegar ég hlusta á Árstíðir. 

Þetta var pistill um tónlist... ég trúi því varla sjálf.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli