fimmtudagur, 27. október 2011

Vikur 27-30 2011: Júlí uppgjör

Það gerist nú ekki oft þessa dagana að húsið fyllist af gestum. Það er hins vegar svoleiðis núna, en þar sem báðir gestirnir tilheyra Sindra, annar þeirra er í Fifa 12 og hinn að fylla flakkarann sinn af efni, þá er um að gera að blogga. Það er kannski heldur ekki seinna vænna þegar maður er kominn 3 mánuði á eftir áætlun í bloggi.
Júlí var fínn, einkenndist af tveimur góðum austurferðum þar sem mestum tíma var eytt á Borgarfirði eystri.

1. Vigtin
27. vika: -400 gr.
28. vika: +200 gr.
29. vika: N/A
30. vika: +500 gr.

Þetta gekk semsagt allt í öfuga átt í júlí og ég þyngdist um 300 gr. yfir mánuðinn. Eins og sést gengur þetta allt saman mjög hratt og örugglega :)

2. Sparnaður - eftir áætlun

3. Dáið

4. Nýtt mánaðarins

Vika 27:
Sumarfrí. Í fyrsta skipti á ævinni átti ég inni fullt sumarfrí og fór í rúmar 2 vikur í langþráð frí. Það átti að fara í það að skrifa mastersritgerð en það varð því miður ekki raunin, þá væri ég kannski búin að skila henni núna :)

Vika 28:
Gæsunarfundur. Þar sem fyrsta vinkonubrúðkaupið sem ég hef farið í var í sumar þá þurfti að sjálfsögðu líka að gæsa vinkonu í fyrsta skipti. Það átti hins vegar eftir að gerast seinna í mánuðinum. Í þessari viku fó rég hins vegar í fyrsta skipti á gæsunarfund þar sem ákveðið var hver fyrstu skrefin yrðu í að útbúa góða gæsun fyrir Hjördísi Mörtu.

Hárið í Hörpunni. Við Sindri skelltum okkur á Hárið í Hörpunni sem var vægast sagt æðislegt. Þrátt fyrir að hafa séð þennan söngleik ansi oft og veit nákvæmlega hvað gerist í honum þarf ég alltaf að berjast við tárin í lokasenunum. Það var líka unaður að hlusta á svona marga góða söngvara flytja lögin. En það er víst erfitt að mæla með þessu núna.


Vika 29: 

Ég í klippileik. Sindri plataði mig í að klippa sig. Ég ætlaði nú aldrei að þora því enda ávallt átt erfitt með að teikna tvær jafnar línur hvað þá meira. En ég dembi mér í þetta verkefni á endanum eftir að hann sagði að við gætum bara rakað allt hárið af ef ég myndi klúðra þessu. Þetta varð árangurinn.

Gæsun. Þá var komið að því að gæsa Hjördísi Mörtu. Dagurinn byrjaði á því að hún hélt hún væri að fara í afmælismat með Katrínu Huld á Nielsen en hún átti afmæli þennan dag. Áður en hún náði hins vegar að panta kom maður með ógeðslega grímu, rétti henni poka með búning, langloku og gosflösku ásamt miða þar sem henni var skipað að klæða sig í búninginn og koma með manninum. Gæsinni leist nú ekki sérlega vel á það. Hann teymdi hana síðan á hesti frá Nielsen að sundlauginni á Egilsstöðum þar sem restin af okkur stelpunum beið. Þar var kynnt fyrir henni stigakeppni dagsins en hún gat náð stigum á margan hátt, allt skv. masterplan excel skjali sem ég hafði útbúið með litaþema og prentað út í svarthvítu :) Hún gat einnig fengið refsistig, m.a. fyrir að prumpa. Seinni partinn var síðan farið út í Fljótsbakka þar sem við grilluðum, gáfum gæsinni hentugar gjafir fyrir hjónabandið, borðuðum typpaköku og drukkum vín.



Tjald og úlpa. Við Sindri skruppum líka í Ellingsen fyrir Bræðsluna sem var hjá þessa vikuna og fjárfestum í góðu tjaldi. Ég var reyndar svo heppinn að hitta líka á svaka útsölu á úlpum og fjárfesti í einni fyrir veturinn. Ég hins vegar notaði hana lítið á Bræðslunni þar sem ég vildi ekki stinga í stúf innan um allar lopapeysurnar. 
Aldís á Álfaborginni

Silla á Álfaborginni

Sindri Þór og Skírnir Garpur í útilegu

Sólsetrið á Borgarfirði eftir tónleikana

Sindri að taka viðtal við Sigtrygg eftir tónleikana
 Vika 30:
Hundapössun. Við Sindri upplifðum mjög villta verslunarmannahelgi þetta árið þegar við tókum að okkur að vera í Hveragerði og passa þá Hrekk og Móra á meðan tengdó skelltu sér til Danmerkur.

Hótel Örk. Þar sem Arna og pabbi höfðu stungið að okkur gjafabréfi sem þau höfðu unnið fyrir með skemmtun fyrir eldri borgara á Hótel Örk var tilvalið að nýta það á meðan á hundapössun stóð. Við fórum því þangað eitt kvöldið í þriggja rétta kvöldverð og þurftum einungis að borga fyrir gosið okkar. Það var verulega huggulegt, og alveg nýtt fyrir mér þar sem ég hef ekki borðað þar áður.

Lifið heil! Ágúst er á leiðinni!

laugardagur, 24. september 2011

Vikur 23-26 2011: Júní uppgjör


Þar sem það eru ár og aldir síðan ég skrifaði eitthvað hér inn síðast hef ég ákveðið að gera upp sumarið með því að blogga um einn mánuð í einu. Vonandi gerist það hratt og örugglega svo ég nái því að blogga um hverja og eina viku september mánaðar og það sem eftir er til áramóta.

1. Vigtin. Ég hékk voðalega mikið í sama farinu í sumar og lítið að frétta með þetta en vikurnar fóru svona:
23. vika: +300 gr. frá vikunni á undan
24. vika: -300 gr. frá vikunni á undan
25. vika: 0 gr. stóð í stað
26. vika: -200 gr. frá vikunni á undan.

Þetta þýðir það að eftir allan júní mánuð hafði ég lést um 200 gr. :) hahahaha! En það sem gladdi mig á þessum tímapunkti í sumar var að ég fann gamla matardagbók sem ég hafði skrifað í alveg frá 2008. Þar inni voru þyngdartölur fyrir hverja viku, eða mánuð eða eftir hentisemi og þar sá ég í júní að ég hafði lést um 7,1 kg frá því um haustið 2008, en ég hef reyndar aldrei verið þyngri heldur en þá. Þetta gladdi óneitanlega sálina mjög í þessu sífellda hundrað gramma hjakki.

2. Sparnaður. Ég lagði 5000 kr. sómasamlega inn á ferðareikninginn

3. Diskar mánaðarins! FYRSTA FALLIÐ! Já, þetta reyndist vera fyrsta áramótaheitið til þess að hverfa inn í svartholið í ár.... finnst samt ótrúlegt að það sé að gerast fyrst eftir rúma 5 mánuði af árinu.... En þarna gafst ég upp og viðurkenndi að ég væri búin að skíta upp á bak varðandi þetta! Finnst ég hálfpartinn laus úr viðjum með að sleppa þessu :)

4. Nýtt mánaðarins!!!
23. Vika:
Nýjungarnar þessa vikunna tengdust mikið tónlist, eða þ.e.a.s. tvær af þremur. Ég byrjaði á því að mæta á NASA á miðvikudeginum á Steelheart tónleika sem ég hefði alls ekki fyrir mitt litla líf viljað missa af!!! Ég var búin að tjúna mig vel upp af "She's gone" og Rockstar smellum..... ég bjóst svosem alveg eins við annari Whitesnake upplifun þar sem lögin höfðu öll verið lækkuð og söngvarinn við það að gefa upp öndina eftir hvert lag en svo var aldeilis ekki! Þvílíkt form sem maðurinn er í, það er eiginlega bara bull!!! Hvert lagið á fætur öðru endaði með gífurlegum raddæfingum og þrátt fyrir það vantaði EKKERT upp á síðasta lag kvöldsins, She's gone! Geðveikir tónleikar í alla staði!

Daginn eftir fór ég síðan alveg óvænt á aðra tónleika. Mig langaði en hafði ekki haft efni á að kaupa mig inn. Ég var á leiðinni á Pole fit æfingu í Egilshöll og var kominn upp á Ártúnshöfða þegar pabbi hringir og spyr mig hvort ég hafi áhuga á að þiggja miða á Eagles. Þá tók ég U-beygju. Eðlilega er ekki hægt að bera þessa tónleika saman við miðvikudagstónleikana þar sem Steelheart og Eagles eru ekki alveg í sama flokki. Hér var um ansi mikið stærri tónleika að ræða í höllinni og ég sá aðeins framan í hljómsveitarmeðlimi á tjöldunum sem héngu uppi í salnum, annars virkuðu þeir meira eins og legokallar með hljóðfæri að sjá. Eagles eru þéttir, þeir eru akkúrat og það er enginn svikinn um neitt. Hins vegar koma þeir heldur ekki á óvart.... á tímabili fannst mér eins og ég hefði sett best of diskinn minn í tækið... ég fann lítið fyrir því að tónleikarnir væru live.

Síðast en alls ekki síst keypti ég mér þennan fallega te kassa í Söstrene Grene :)
 24. vika:
Í 24.viku ákvað ég að nota happdrættisvinninginn sem ég fékk í happdrætti SSF og kaupa mér reiðhjól en ég hef ekki átt svoleiðis síðan í grunnskóla. Fyrir valinu varð Mongoose götuhjól sem ég keypti í GÁP. Ég hef því miður ekki ennþá tekið mynd af mér með því eða á því þannig að það verður að bíða betri tíma :)
25. vika:
Þessi vika innihélt 4 mjög ólíkar nýjungar. Í fyrsta lagi þá ákváðum við Sindri að prófa að fara í Kost og versla þar. Upplifunin var svipuð því að fara út í búð að verlsa í útlöndum, við vorum aðallega í því að benda hvort öðru á áhugaverðar vörur og áhugaverðar STÆRÐIR af vörum. Til dæmis þætti mér gaman að vita á hversu mörgum dögum væri mögulegt að torga snakkpokunum sem eru seldir þarna??? Áhugavert mjög.

Við Sindri kíktum líka á bílskúrsmarkað í Hveragerði þar sem Sara systir hans var meðal annars að selja föt. Þar keypti ég mér mjög fallegt heklað armband og Sindri gaf mér kamb sem gerður var af sömu konu. Meðfylgjandi var miði sem á stóð Dista - handgert skart sími: 865-9112.

Síðasta nýjungin þessa vikuna var síðan sú að ég sýndi í fyrsta skipti einhverjum öðrum en æfingafélög mínum pole fitness atriði. Það var uppskeruhátíð hjá okkur upp í Heilsuakademíu og þar tók ég þátt í hópatriði.
26. vika:
Það voru þrjár nýjungar í þessari viku. Eins og ég sagði áður hef ég oft skrifað matardagbók, það er ráð sem manni er gefið til að halda aftur að manni. Virkar rosa vel fyrst þegar þú sérð hvað þú ert að borða en með tímanum hefur það lítil áhrif á þig að lesa aftur og aftur yfir eigin mistök. Í þessari viku skrifaði ég hins vegar í fyrsta skipti matardagbók fyrir einhvern annan heldur en sjálfa mig þar sem Sólveig Pole fit þjálfarinn minn bauðst til þess að fara yfir dagbókina mína... og það er töluvert annað en að lesa yfir þetta sjálfur! :)
Ég keypti mér líka rosalega gott ilmvatn:
 
 Síðast en alls ekki síst þá kíkti ég á útsölu í KronKron þar sem mig hefur lengi langað í Kron by Kronkron skó og hafði sett það á verðlaunalistann minn að ég fengi að kaupa mér slíka þegar ég væri komin niður í vissa þyngd. Ég var þó ekki komin í hana en sá leik á borði að kaupa skóna ódýrari en annars, sem ég gerði og pakkaði þeim mjög heiðarlega strax niður í kassa aftur og setti þá inn í fataskáp þar sem þeir skyldu bíða eftir mér þangað til ég ætti þá skilið! Hins vegar var annað skópar þarna líka sem mig langaði voðalega í og Sindri sem var svo óheppinn að bjóðast til að fara með mér bauðst til þess að gefa mér þá í afmælisgjöf jafnvel þótt afmælið mitt væri ekki fyrr en í september. Ég lét auðvitað ekki segja mér það tvisvar og eignaðist þessa fallegu skó:



Held að þetta sé orðið meira en nóg í bili - tölvan mín nær ekki að kæla sig niður vegna of stórra verkefna við gerð þessarar færslu! :)

Júlí færslan er svo næst!