laugardagur, 20. apríl 2013

Ég er svo grææææn, því ég át svo mikið grænmeti...


Ég var í mörg ár forfallið Söngkeppni framhaldsskólanna nörd. Ég átti allar keppnirnar á video spólu, skrifaði niður textana og söng með eins og brjálæðingur með öllum keppnunum frá seinni hluta keppninnar 1996 (fyrri partur ekki tekinn upp þar sem Magni var í þeim seinni en þá var þetta sýnt í tveimur pörtum) og til 2003. Minn draumur frá 10 ára aldri var að standa í þessari keppni og sá draumur rættist árið 2004 en það er síðasta keppnin sem ég á til á videospólu. Titillinn á þessari færslu eru einmitt fyrstu orðin í laginu sem vann það ár þar sem Mr. Silla var annar af tveimur flytjendum og við vorum í kjólum úr eins efni. TILVILJUN!

Mig langaði í tilefni dagsins að rifja upp nokkur eftirminnileg atriði. Þau eru þó eftirminnileg af ólíkum ástæðum og eru ekki talin upp í sérstakri röð. Þau eru ekki endilega mín uppáhalds, bara þau sem koma upp fyrst í huga mér. Ég man ekkert endilega hvaða ár hvaða atriði voru eða hvaða skóli flutti þau og er því miður ekki með video-spólurnar með mér hér í Reykjavík til að fara í heimildaöflun en læt þetta fjúka hér:

Still loving you – Scorpions
Árið 2003 var mjög öflugt ár í Söngkeppni framhaldsskólanna. Keppnin var haldin á Akureyri og ég var á staðnum sem gerði keppninni mun eftirminnilegri. VMA stóð þó algjörlega upp úr að mínu mati og margra annarra, þar sem Stebbi Jak (söngvari Dimmu) tók lagið Still loving you. Þetta var eina lagið þetta kvöld sem meirihluti áhorfenda í salnum stóðu upp og fögnuðu frammistöðunni. Þessi frammistaða er líka á iPodinum mínum svo hún minnir reglulega á sig.

Muscle Museum – Muse
Sama ár mætti FSU á staðinn með metnaðarfullt atriði við lag Muse, Muscle Museum, með íslenskum texta Þorsteins Eggertssonar. „Ég hef spilað á mörg klósett, mitt sálarlíf er sjósett...“ Söngvarinn mætti í svörtum kufl sem hann síðan reif af sér og skartaði rauðum búningi og eldrauðu hári. Hann tók með sér eigin gítarleikara fyrir sjóvið og eitt stykki gjallarhorn. Mig minnir líka að það hafi verið „sprengjur“ í atriðinu en það gæti verið hugur minn að leika brellur því þetta er svo geðveikt atriði í minningunni. Ég virðist ekki vera ein á þeirri skoðun því reglulega hitti ég einhvern sem rifjar þetta atriði upp, síðast um síðustu helgi

Burning down the house – Cardigans og Tom Jones
Okey! Það er hægt að væla og skæla yfir þeirri reglu að nauðsynlegt sé að texti laganna sé á íslensku. Þrátt fyrir það verður því ekki neitað að skemmtanagildi þessarar keppni er töluvert meira á meðan þessari reglu er haldið lofti. Þessar aðstæður bjóða nefnilega bæði upp á hryllilega textasmíð og frumlega textasmíð. Ég kann einstaklega vel við þá sjálfsbjargarviðleitni sem átti sér stað hjá flytjendum Burning down the house sem tóku textann ekki of alvarlega og sungu lagið undir heitinu Börnin orðin hás. Þennan texta skrifaði ég ekki niður og ég hef ekki horft svo oft á þennan flutning en man samt alltaf eftir honum. Hann er skemmtilega skrifaður og virkilega vel upp settur.  Þetta er kannski ekki akkúrat en mjög nálægt því að vera brot úr honum allavega:
„ Hey þú! Hvar ertu bún‘að vera?
Karlpungur!
Og ekkert bún‘að gera.
Og svo þegar ég loks er komin heim 
Börnin orðin hás“
Þetta verður ekki mikið skemmtilegra.

Never ever – All Saints
Að öllu gamni slepptu þá er þetta sennilega uppáhalds atriðið mitt í sögu söngkeppninnar. Þetta er ekki það best sungna, textinn er hræðilegur og dansmúvin stundum svolítið vandræðaleg en það þræææælvirkar fyrir mig. Hér var um að ræða 4 stelpur, 2 í hvítum kjólum og tvær í svörtum kjólum árið 1999 (minnir mig, frekar en 1998). Fyrir aftan þær standa 4 karlmenn að baka sem allt í einu mæta berir að ofan í svuntum til að dansa svolítið við þær. Þetta getur bara ekki klikkað! Viðlagið var á þessa leið og alltaf gat ég brosað jafn mikið yfir þessu atriði:
„Aldrei aftur mun ég nokkurn tíma baka
Ég er viss‘um að þetta verður myndarkaka
Aldrei áður hef ég verið svona lúin 
Öll eggin eru löngu, löngu búin
Aldrei áður hef ég stundað þetta
Eldhúsið er orðin alveg eins sletta .......“
For the longest time – Billy Joel (Barber kvartett útgáfa + 1)
Brooklyn Fæv komu, sáu og sigruðu keppnina 1998 fyrir hönd MH. Þetta atriði er sennilega eftirminnilegt fyrir alla þá sem horfðu á keppnina. Davíð Olgeirs fór þar fremstur í flokki með laglínu lagsins. Þeir hafa síðar gefið út meira efni, t.d. jólalagið „Á sleða“ sem heyrist reglulega í desembermánuði ár hvert. Lagið hét Óralanga leið í þeirra flutningi.


When you believe – Mariah Carey og Whitney Houston
Ó já! Þetta verður að vera með! MH hefur oftar en ekki farið frumlegar leiðir með sín atriði í keppninni og unnið hana oftar en ég kæri mig um að muna. Í þetta sinn var þó ekki um sigurframmistöðu að ræða, ég leyfi mér að segja að það hafi verið langt frá því. Að mínu viti var hér um að ræða stórkostlega grínútgáfu af laginu þar sem dans, búningar og almennt attitude á sviðinu töluðu algjörlega því máli. Dansararnir litu helst út eins og á höfuð þeirra hafi verið troðið hvítum sokkabuxum og þeir blökuðu vængjunum eins og þeir ættu að tákna fugla. Söngkonurnar tóku slaufur forvera sinna á nýtt plan í þessu atriði sem gleymist seint úr manna minnum. Til að setja punktinn yfir beinþýddu þær texta lagsins yfir á íslensku óháð því hvort atkvæðafjöldi passaði endilega í línurnar.

Komdu til baka (frumsamið Tears in Heaven) – Kristmundur Axel og Júlí Heiðar
Nú er ég ekki að reyna að vera leiðinleg. Það eftirminnilegasta við hans atriði í keppninni frá minni upplifun var það að við hlið mér sátu 5 einstaklingar komnir yfir tvítugt sem allir voru vissir á því að þetta lag væri grín. Þannig að fyrst brostu allir, svo hlógu þeir (sérstaklega við flutning setningarinnar: „Jesú! Geturu látið pabba verða edrú!) en um miðbik lagsins byrjuðu allir að líta á hvern annan frekar undrandi á svipinn þegar að einn stamaði upp úr sér „nei, krakkar... ég held hann sé ekkert að grínast“. Eftir sigurinn vorum við viss um að ekki hafi verið um grín að ræða. Í millitíðinni youtube-uðum við samt Júlí Heiðar og hlustuðum á Blautt dansgólf. Það var ekki að hjálpa okkur í því að komast að niðurstöðu. Kannski ekki falleg saga, kannski óþarfi að segja frá þessu en mörkin á milli góðs gríns og alvarleika eru bara oft alls ekki svo skýr.

Always – Bon Jovi
Sverrir Begmann mætti og tókst á einni nóttu að breyta laginu um harða rokkarann í ástarsorg í heldur betur væmið kassagítarlag sem síðan hefur verið sungið í ÖLLUM gítarpartýum landsins. Eftirminnilegast í þessu lagi voru jakkafötin hans Sverris auk skeiðarinnar sem hann ætlaði að nota til að skera hjartað sitt úr. Þessi skeið fékk heldur betur stærra hlutverk í laginu í flutningi okkar vinkvennanna sem höfðum algjört dálæti af því að bæta henni í enda hverrar línu í laginu. Það fannst ekki öllum skemmtilegt... en okkur fannst það. Öll rútuferðalög, sleep over og tónlistarskólabreik voru nýtt í það að troða þessari skeið að. „Ég skæri mér hjartað úr með skeið, því ég gæt‘ ekki elskað þig með skeið, núna græt ég með skeið, ó, komdu með skeið! Því ég sakna þín skeið“. Sjúklega fyndið, right?


Ég á mikið af ættingjum, vinkonum og vinum sem hafa tekið þátt í þessari keppni. Ég man þeirra atriði að sjálfsögðu utan af öll sömul, svo það sé á hreinu. Hugmyndin var að grafa aðeins dýpra og skrifa niður nokkur atriði sem standa uppúr þrátt fyrir að innihalda engan sem ég þekki persónulega.

Gleðilega hátíð!

föstudagur, 19. apríl 2013

Braxton, spóla og árin


 Það er tvennt í lífi okkar sem er öruggt, við fæðumst og við deyjum. Þessa áminningu hef ég heyrt allnokkrum sinnum á ævinni og þó þetta séu alls engin geimflaugavísindi má ætla að flestir reikni fastlega með því að ná þessum tölfræðilega meðalaldri.
Þegar ég var 11-13 ára gömul flýtti ég mér ansi hratt að fullorðnast. Ég man eftir morgnum í 6. bekk þegar að ég gekk í skólann og hugsaði með sjálfri mér að nú yrði ég að einbeita mér að því að gera ekkert barnalegt, haga mér eins og unglingur. Þetta kann að hljóma undarlega og óheilbrigt en skrefið að fara úr barnaleikjum, eltingaleikjum er erfitt en mjög nauðsynlegt þegar að maður er skotinn í strák í 9. bekk.

Þegar ég varð 15 ára snérist dæmið algjörlega við, mér fannst tíminn líða of hratt og fann þá fyrir því að ég var ekki tilbúin að fullorðnast alveg strax. Menntaskólinn var handan við hornið og mér loksins farið að finnast gaman í grunnskólanum, auk þess sem ég var skotin í strák sem var ári yngri en ég. Ég upplifði 19 ára afmælið mitt eins og ég ímynda mér að flestir upplifi 30 ára afmælið sitt. Ég fékk áfall yfir því að markaðsett “bestu ár lífs míns” yrðu senn á enda og langaði helst að stöðva tímann.

Eftir það hef ég ekki mikið velt mér uppúr þessu, mér hefur tekist ágætlega að halda afneitun minni með hjálp eldra fólks á Heilsuhælinu í Hveragerði sem rökræðir aldur minn í hvert sinn sem ég mæti á svæðið og þá eru tölur milli 15 ára og 20 ára í umræðunni. Það fyndna er að mér finnst það bara jafn skrítið og mér fannst það þegar sömu umræður með sömu ágiskunum voru í gangi fyrir 7 árum síðan, ekki skrítnara.

Um helgar í miðbæ Reykjavíkur uppúr kl. 4 fara einhverjir gæjar að fikra sig nær, snúa manni í hringi og hella óvart bjór á mann í leiðinni, eitursvalir. Halla sér að manni og segja eitthvað á þessu leið “ógissleg’ ertu sæt” (fyrir utan þennan einstaka sem ég hitti í 10-11 og sagði mér að hann hafi alltaf langað til að eignast systir… ég sagði “mér líka svo þetta er bara góður díll fyrir þig”). Rétt eftir því mómenti segi ég “hvað ertu gamall?” Svörin verða síundarlegri með árunum og algengast  þessa dagana eru 1991 eða 1992.  Það undarlega er að ef þeir tækju ekki fram fæðingarárið heldur segðust vera 21 eða 22 finndist mér þeir sjálfsagt mun nær mér í aldri.

Það sem fékk mig til að velta þessu aldursmáli fyrir mér er að síðustu mánuði hef ég æ oftar lent í því að tala við fólk um tvítugt og byrja setningarnar á “hah! Veistu ekki hver …… er?”, lít síðan í kringum mig og átta mig á því að það er enginn annar að hneykslast á því og flestir með svona þú-ert-ekki-með-hlutina-á-hreinu-gamla lúkk.

Líkan svip fékk ég um daginn þegar ég lenti á spjalli við stúlku sem hefur mikið verið að syngja en hafði aldrei heyrt Toni Braxton nefnda á nafn. Sama stúlka ber nafn Mariuh Carey töluvert öðruvísi fram en stúlkur á mínum aldri. Þegar ég var 15 ára töluðu Íslendingar um Maríu Karei en í dag, með aukinni hnattvæðingu býst ég við, heitir hún orðið Meræha Kerí. Fyrir utan það að hún er að verða gömul...  og Brad Pitt, Jennifer Aniston, Johnny Depp, Stebbi Hilmars og Björn Jörundur líka. 

Annað dæmi um slíkan svip mátti sjá á litlu frænkum mínum sem grettu sig ægilega þegar ég gekk inn í herbergi til þeirra og spurði hvort þær væru að horfa á spólu. Eftir grettunni kom síðan hönd á mjöðm og “Hvað er eiginlega spóla?”

Það er kannski skrítið og jafnvel örlítið hlægilegt en sorglegu kallarnir á barnum, sem við bentum á og fussuðum við þegar ég var tvítug voru ekki nema kannski 3 árum eldri en ég í dag. Ég veit ekki hvort almennt sé viðhorfið annað í dag og þess vegna finnist mér þeir ekki eins sorglegir, eða hvort ég sé orðin sorglega gella í afneitun. Ég allavega harðneita að stunda Thorvaldsen fyrr en eftir 15 ár í fyrsta lagi!

Fyrstu fartölvuna mina fékk ég í fermingargjöf árið 2000, hún var keypt notuð af lögfræðingi. Til þess að ná nettengingu á hana þurfti ég að sitja í símastólnum heima, hringja inn á internetið til að ná í efni gegnum Napster og hanga á ircinu. Börnin sem fermdust í ár hafa aldrei verið án internets.

Þróunin er gífurlega hröð. Ég er ekki orðin þrítug og ég er samt farin að tala um hvernig þetta var hér “áður fyrr”. Þetta stefnir ekki í gott hjá mér.