mánudagur, 13. október 2014

Meistaramánuður - manstu?

Nú er að detta í miðjan október og má því reikna með að margir hverjir hafi nú þegar gefist upp á markmiðum sem settir voru fyrir meistaramánuðinn.
Ég hef tekið þátt með markmiðasetningu í meistaramánuði síðustu tvo ár og séð örlitlar framfarir milli ára, þ.e.a.s. í því að halda mig við dagskrána.
Fyrra árið gafst ég upp í kringum 12. október - var þá farin að skulda svo marga liði að ég hefði aldrei náð að klára dæmið. Í seinna skiptið dreif ég yfir miðjan mánuðinn en datt svo hressilega á andlitið eftir það.

Nú er þrettándi og ég er bara nokkuð vel stödd. Skulda orðið 2 blogg og 2 ljóð - en ekkert sem ekki er hægt að redda með aukinni innspýtingu yfir eitt kvöld eða svo.



Í ár ákvað ég að ætla mér ekki að breyta alveg öllu lífi mínu - heldur halda mig við tvö meginþemu; húð og orð.  Ég ákvað að nýta tækifærið til að reyna að koma inn í mína rútínu venjum sem mér finnst skipta máli en hef aldrei vanið mig á að passa upp á. Eftirfarandi reglur voru settar:

1. Lesa meira
2. Skrifa meira
3. Hugsa vel um húðina:

  • Alltaf fjarlægja farða áður en farið er að sofa
  • Alltaf bera á mig rakakrem á morgnanna
  • Alltaf setja á mig krem eftir sturtu
Það erfiðasta er þetta með farðann - var til dæmis eitthvað slöpp á föstudaginn, ofétin og þreytt eftir vinnu. Skreið inn í rúm í þeim tilgangi að leggjast aðeins niður og mögulega sofna. Vaknaði síðan um kl. 3 um nóttina, druslaðist fram á bað og tók farðann framan úr mér svo ég gæti nú staðið við markmiðið. 
Ég vildi líka að ég gæti sagt ég finni gífurlegan mun á húðinni - en það geri ég ekki. Allavega ekki til betri vegar. Nú má finna í andlitinu á mér allskonar óvelkomnar bólur sem ég nenni ekki að lifa í samlyndi við. Einhverntíma heyrði ég að þetta væru viðbrögð húðarinnar þegar hún væri að hreinsa sig - en ef svo er finnst mér hún ekki mjög hvetjandi. 
Það auðveldasta er svo lesturinn - ég hef gaman af honum, en sofna reyndar stundum ofan í bókina. Ég hef nú þegar náð að klára næstum 2 bækur sem ég hafði hálflesnar á náttborðinu hjá mér. Það versta er að ég man yfirleitt ekki stundinni lengur þær upplýsingar sem ég les, þ.e.a.s. ekki þannig að ég gæti sagt frá þeim í smáatriðum. 

Ég held að mitt aðalmarkmið verði að klára mánuðinn með því að geta tékkað í öll boxin - það yrði í fyrsta sinn og ég mun líklega springa úr stolti þegar þeim áfanga er náð, fagna og setja mér síðan næsta markmið... fara fram úr sjálfri mér og hafa það óyfirstíganlegt. Það er jú partur af því að vera þessi ég. 

Vonandi eruð þið ennþá með og hafið ekki gefist upp á óraunhæfum markmiðum ykkar... það er algjört lágmark að ná til 15. október.