mánudagur, 9. desember 2013

Þegar allt kemur til alls...

Þetta litla ljóð fann ég í tölvunni minni frá því í sumar. Ágætis áminning um að nýta tímann heiðarlega og vel. Held ég hafi skrifað það til framtíðar-mín.

-----------

Þegar allt kemur til alls
eru endalokin nærri
og gleðistundir færri
en við áttum okkur á

Þegar allt kemur til alls
vega orð manns ekki mikið
er á undan hefur svikið
allt sem áður sagði frá

Þegar allt kemur til alls
man ég aðeins fáa daga
þó margra ára ævisaga
sé að baki hér og nú

Þegar allt kemur til alls
skiptir engu hvað við heitum
eða eftir hverju leitum
ef að sönn er okkar trú

Þegar allt kemur til alls
vil ég gleðistundir telja,
engin tækifæri selja
freistni þeirr’ er mætir mér

Þegar allt kemur til alls
munu draumar allir rætast
munu sorg og gleði mætast
og mynda lífs míns veg með þér.