sunnudagur, 18. maí 2014

"Gamlar vörur daglega"

Haustönnina 2005 var ég í lýðháskóla á Fjóni í Danmörku. Í skólanum mínum voru 4 þemapartý yfir önnina og slíkt getur valdið örlitlum höfuðverk fyrir erlenda nemendur sem hafa afar takmarkað af fatnaði meðferðis. Undir nákvæmlega slíkum kringumstæðum kynntist ég fyrst Rauða kross fatabúðunum í Danmörku. Þangað gátum við farið og fatað okkur algjörlega upp fyrir þemapartýin fyrir 1000-2000 íslenskar krónur.
Þegar ég kom heim kíkti ég nokkrum sinnum í Rauða kross búðina hér heima og þótti hún heldur dýr í samanburðinum svo gaf ég henni einhverra hluta vegna aldrei aftur séns.

Í morgun ákváðum við Sindri síðan að kíkja þangað af hans frumkvæði. Ég endaði á að versla þar fyrir 7.200 kr. - fjórar vörur sem kostuðu 1.800 kr. hver. Í dag finnst mér það ekki mikill peningur fyrir þessar vörur og ekki er verra að leggja góðu málefni lið um leið og maður sækir sér eitthvað "nýtt" í fataskápinn.



Mig hefur lengi langað að eiga einhvern lítinn loðkraga til að smella á mig, sérstaklega yfir veturinn. Þeir sem ég hef fundið og litist á hafa yfirleitt kostað of mikið. Ég var því mjög ánægð að finna þennan fyrir 1800 kr.





Annað fallegt um hálsinn var þessi klútur. Ég er almennt ekki mikið fyrir klúta og kaupi þá mjög sjaldan. Held ég hafi keypt 5 um ævina.... og notað 2 af einhverri alvöru. Þessi hentar mér mjög vel, víður og hringlaga með fallegu skrauti.




Ég fann þessa rauðu, fínu skó... konan í búðinni sagðist vera svo glöð að loksins væri einhver kominn sem passaði í þá. Þetta var pínulítið eins og í Öskubusku. Reyndar ekkert svo líkt því en samt smá. Skórnir eru samt ekki úr gleri.




Síðast en þó ekki síst fann ég þessa stórskemmtilegu myntugrænu og hvítu peysu. Hún er frekar mikið þung og maður lítur pínulítið út eins og snjóbolti í henni en fyrst og fremst er hún sjúklega kósý.



Sindri fann sér sólgleraugu, skyrtur og peysu svo það má segja að þetta litla innlit hafi orðið að alvöru verslunarferð. Eitt er allavega víst, Rauða kross fatabúðin hefur fengið annan séns hjá mér. Ég hlakka strax til að sjá hvað bíður mín næst þegar ég rek nefið þar inn, enda um að ræða "gamlar vörur daglega" þar á bæ. :)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli