fimmtudagur, 20. mars 2014

Að borga það áfram

Ég fékk Google Translate til að þýða fyrir mig "Pay it forward". Besta og eina tillagan var "að borga það áfram".  Þessi þýðing skiptir í raun engu máli, var eingöngu léleg tilraun til að finna semi-sniðugt nafn á þessa færslu, sem að sjálfsögðu snýst um góðverk.

Það er ekki bara hollt fyrir sálina öðru hverju að gefa eitthvað af sér umfram það sem ætlast er til af manni, heldur eru ótrúlegustu hlutir innan heimilisins sem maður álítur rusl en gætu hjálpað einhversstaðar. Mín góðverk þessa vikuna munu felast í nákvæmlega þeirri staðreynd. Í fyrsta lagi ætla ég að gefa DVD spilara og gamalli myndavél nýtt heimili. Það er starfsemi út um allan bæ sem vinnur með börnum, unglinum, heimilislausum og veikum sem geta nýtt hluti eins og DVD spilara. Ég hvet ykkur til að leita eftir slíkum stöðum í stað þess að henda hlutum sem eru í lagi, þó meðalmaðurinn myndi ekki kaupa þá á Bland. 
Í öðru lagi er það blessað lesefnið. Ég geng út frá því að mörg ykkar hafið tekið eftir því við heimsóknir á sjúkrastofnunum hversu ömurlegt lesefni er oft að finna þar. Ef lesefnið er eitthvað er það oftar en ekki 5-6 ára gamalt. Hvernig væri að taka til í blaðahillunni og færa einhverri slíkri stofnun nokkur eintök af Vikunni, Séð og heyrt, Elle, Alt for damerne eða hvað það er sem þið eigið til. Ég hef valið mér einn slíkan stað til að fara með mín blöð, sjúkrastofnun þar sem fólk dvelst vikum og mánuðum saman. Þá er nauðsynlegt að sjá eitthvað nýtt við og við.  Að sjálfsögðu eru bækur ekki verri í þessu samhengi. 

Hér að neðan má finna nokkrar hugmyndir af því hvernig við getum einfaldað hvort öðru lífið. Gert góðverk eða einfaldlega glatt. Hugmyndirnar eru misstórar en allir ættu að finna eitthvað sem þeir ráða við. 
  1. Opna hurðina fyrir einhverjum.
  2. Kaupa kaffi handa ókunnugum sem stendur í kaffiröðinni (er það kannski krípí á Íslandi?)
  3. Gefa bækur/tímarit á sjúkrastofnanir, leikskóla, aðsetur fyrir heimilislausa eða til einhverra sem þú veist að gæti nýtt það.
  4. Bjóða fram vinnu, aðstoð eða sérþekkingu þína ókeypis til einhvers sem þarf á því að halda.
  5. Gefa ókunnugum á leið í strætó eitt stykki strætómiða.
  6. Svo er að sjálfsögðu hægt að halda Tombólu og safna fyrir góðu málefni, en mér sýnist svosem engin vöntun á því í Vesturbænum.
  7. Taktu extra vel á móti nýja vinnufélaganum sem er enn svolítið óöruggur. Til dæmis getur þú boðið honum að setjast hjá þér í hádeginu eða koma með þér þangað sem þú ferð. Leiddu hann inn í samræður með því að beina spurningum öðru hverju til hans í hópsamræðum.
  8. Gefðu blóð. Hér á heimasíðu Blóðbankans getur þú séð borða sem sýnir hvernig staðan er á hverjum blóðflokki. 
  9. Farðu í gegnum fataskápinn og grisjaðu. Þau föt sem þú ert hætt að nota má gefa öðrum sem þurfa á þeim að halda, eða gefa þau til góðgerðarmála. Sjálf nýti ég rauða kross kassana sem finna má út um allt land. Það er líka alltaf einhver að auglýsa eftir fötum á barnalandi ef maður vill fara þá leið.
  10. Láttu vita ef þú ert ánægð/ur. Til dæmis ef þú ert sérstaklega ánægður með einhvern veitingastað, segðu frá því. Nóg er nú til af miðlum, þú getur gefið review á TripAdvisor ef það á við, sagt frá á Facebooksíðu þinni eða fyrirtækisins, Twitter, Instagram, bloggi eða jafnvel skilið eftir falleg orð á servíettunni á staðnum.
  11. Vertu frábær og hleyptu fram fyrir þig ef einhver stendur með fáa hluti fyrir aftan þig í matvöruverslun. Ég elska þegar einhver gerir þetta fyrir mig!
  12. Deildu jákvæðum fréttum og sögum.
  13. Keyptu tombólumiða, miða á styrktartónleika, nælu, penna eða hvað sem býðst, svo lengi sem málefnið sem safna á fyrir höfðar til þín.
  14. Taktu þig til og fylltu prentarann í vinnunni af blöðum þegar þú hefur notað hann, eða settu nýja klósettrúllu á haldarann... svona aðeins til að auðvelda næstu einstaklingum í röðinni lífið.
  15. Farðu og gramsaðu aðeins í Rauða Kross búðinni eða Hjálpræðishernum. Ótrúlegt hvað hægt er að finna þar á fínu verði... og styrkja í leiðinni gott málefni.
  16. Komdu vini eða fjölskyldu á óvart með að færa honum uppáhalds máltíðina hans þegar hann á síst von á. Þetta getur að sjálfsögðu líka verið nammi eða hvað sem er.
  17. Færðu veikum vini eitthvað sem gleður hann. Hint: Nammi virkar oft.
  18. Vertu skemmtilegri ökumaður en margur annar. Hleyptu fólki inn á akreinina þína þegar þú sérð það stefnir þangað. Hjálpaðu mér svo að koma upp tannhjólareglu á Íslandi þegar umferðin er mikil. Þá verðum við allavega tvö/tvær í þessu.
  19. Vertu til staðar og hlustaðu. Stundum á fólk vandamál og viðrar þau við þig. Hjálpaðu vini þínum að leysa vandann... eða ekki, ef allt sem hann vill gera er pústa.
  20. Áttu klink? Smelltu nokkrum tíköllum í stöðumæli sem þú sérð að er útrunninn eða að renna út. 
  21. Ef þú nýtir ekki allan tímann í stöðumæli, gefðu þá miðann þinn áfram til einhvers sem þú sérð að ætlar sér að greiða þegar þú ert að fara.
  22. Faðmaðu þá sem þér þykir vænt um. Ekki verra að segja eitthvað fallegt líka.
  23. Komdu með veislu- eða kökuafganga í vinnuna - það gleður alltaf. Það er heldur ekki bannað að baka sérstaklega fyrir vinnuna ef maður vill. 
  24. Góð bók má berast lengra. Ef þú átt góða bók sem þú hefur lokið við að lesa, gefðu hana áfram til vinar sem þú heldur að njóti hennar.
  25. Skokkaðu út og týndu smá rusl. Ég hef hugsað um þetta milljón sinnum síðan um áramót - en hef ekki komið mér í þetta ennþá.
  26. Sendu bréf eða litla gjöf - jafnvel bara email. Almennt er fólk ekki duglegt við þetta í dag. Það eitt og sér er leiðinlegt en gerir það líka að verkum að hvert skipti verður mjög einstakt. 
  27. Hjálpum ferðamönnunum. Bjóðumst til að taka af þeim myndir ef við sjáum þá reyna við milljónasta selfie-ið í ferðinni. Reynum líka að benda þeim rétta leið þó við skiljum ekki alveg kortið þeirra.... og mælum með því sem er gott og gaman.
  28. Smellum smá mat fyrir dýrin í körfuna okkar og gefum til góðgerðarfélaga sem að þeim snúa, t.d. Kattholts og Dýrahjálpar. Og ekki gleyma fuglunum á veturna.
  29. Hrósum þeim sem okkur finnst eiga það skilið. Íslendingar eru aldrei hvattir of mikið til þess. 
  30. Láttu í þér heyra. Hjálpaðu þeim málstað sem þér finnst eiga það skilið og notaðu röddina. Segðu frá og verðu málstaðinn.
  31. Taktu þér tíma til að kenna áhugasömum eitthvað sem þú kannt. Til dæmis ef þú kannt góðan spilagaldur hefur verið vöntun á slíkum síðustu ár. 
  32. Biddu þann sem skuldar þér pening að leggja frekar inn á gott málefni í stað þess að borga það til baka.
  33. Brostu til kassastarfsmannsins. Það eitt og sér gerir mikið - og þeir lenda sjaldnar í því en maður myndi halda.
  34. Ef þú skreppur á Subway, pantaðu þá stóran þó þú borðir lítinn og láttu pakka honum í sitthvorn pappírinn. Færðu svo einhverjum svöngum hinn helminginn. Það má oft finna nokkra svanga á Austurvelli ef þig vantar hugmyndir.
  35. Næst þegar þú kemur heim frá útlöndum, komdu þá klinkinu þínu vel fyrir hjá heimamanni áður en þú ferð. Hann kemur mjög líklega til með að nota það... töluvert fyrr heldur en þú.
  36. Taktu sjálfboðaliðastarf í smá stund. 
  37. Leyfðu fólki stundum að njóta vafans. Stundum er óþarfi að taka málin lengra.
  38. Skelltu þér á Crowdfunding síðu eins og Indiegogo eða Karolinafund, taktu góða stund í að skoða áhugaverð verkefni og styrktu það/þau sem vekja áhuga.
  39. Ef þú færð klink til baka úr sjálfsala, skildu það eftir og gerðu þann sem kemur á eftir þér hissa og glaðan.
  40. Settu af stað söfnunarátak fyrir gott málefni. Hér er engin ein uppskrift, sjáum bara hvað hægt var að gera með einni bjóráskorun og facebook. 

Fyrir áhugasama mæli ég með að smella á like við síðu ýmissa fyrirtækja og aðila sem vinna með fólki í erfiðleikum. Þar má oft finna upplýsingar um hvað vantar hverju sinni hvort sem um er að ræða gallabuxur, mat, jólagjafir eða raftæki. Hér eru nokkur:

Vinakot - úrræði ætluð börnum á aldrinum 12-18 ára sem glíma við fjölþættan hegðunarvanda.
Vinir Dagsetursins - Staður fyrir heimilislausa og fólk í vímuefnavanda yfir daginn.

Og til að fá hvatningu góðverkin má like-a þessa síðu.



Það er svo auðvelt að létta lífið smá. 
Gefum af okkur... og með okkur.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli