mánudagur, 19. maí 2014

Gamlir sunnudagar... og dagurinn í dag.

Stundum get ég orðið verulega þreytt á sjálfri mér. Ástæðan er einföld, stundum verð ég bara svo uppáþrengjandi. Það gerist samt aðallega á sunnudögum. Sunnudagar eru í senn síðasti séns til að framkvæma það sem þú ætlaðir að gera í vikunni, síðasti séns til að framkvæma það sem þú ætlaðir að klára um helgina, tími til að vita ekki hvar þú átt að byrja á öllum þessum verkefnum þar sem þú veist í raun að tíminn er ekki nægur og síðast en ekki síst tími til að skella sér þá almennt í volæði og taka svartsýnis- og kvíðakast varðandi þau verkefni sem bíða þín í komandi viku. 
Ég geri mér grein fyrir því að sunnudagar eru kannski ekki alla jafna á þessa leið hjá fólki sem er ástæðan fyrir fyrstu setningu þessa pistils. 

Málið er nefnilega frekar einfalt. Ég verð mjög auðveldlega fyrir andlegum áhrifum af allskonar í kringum mig, hvort sem það er tónlist, bíómyndir, bækur eða aðrir einstaklingar. Við erum þá ekkert endilega að tala um vandaða tónlist, bíómyndir, bækur eða einstaklinga... almennt er bara verulega auðvelt að veita mér innblástur. Þegar því er lokið svíf ég - enda korteri frá því að sigra heiminn. Eins og heilsteyptum einstaklingi sæmir geri ég mér grein fyrir því að maður sigrar ekki heiminn tilviljanakennt, það þarf að útbúa plan. 

Ég er góð í að útbúa plön. Ég set þau upp í excel, skipti þeim í langtíma- og skammtímaplön og reikna jafnvel niður á vikur eða daga hversu mikið þarf að gera á hverjum tíma svo planinu sé náð. Almennt eru þau raunsæ, allavega fyrir þá sem eru einbeittir. Þegar plönun er lokið sofna ég yfirleitt gríðarlega sátt og fullviss um árangur. Það sem síðan gerist er vondi kaflinn í þessu öllu saman. Smám saman geri ég mér grein fyrir því að þó ég sleppi því að aðhafast í 1-2 daga, viku, jafnvel mánuð - þá gæti ég nú alveg unnið þetta upp og náð að halda plani. Frestunaráráttan bítur mig í rassinn og kannski gleymdi ég aðeins að gera ráð fyrir því að 4 kvöld vikunnar er ég með plön til kl. 21.... eða kannski ákveð ég í viku að þetta sé nú ekki eins mikilvægt og ég vildi vera láta í byrjun. 

Allt þetta endar svo með sunnudegi, einhverjum frábærum sunnudegi - þar sem allt er farið til fjandans og engar líkur á því að ég nái að klára allt sem ég ætlaði mér. Meiri aumingjaskapurinn - óánægjan hellist yfir mig og hjálpar mér ekki neitt að takast á við þetta. Þvert á móti er hún frekar letjandi eins og flestir geta væntanlega ímyndað sér. 

Í dag átti ég ekki svona sunnudag. Ég svaf frameftir, vaknaði og ætlaði að fara að skammast í sjálfri mér yfir því að hafa sofið svo lengi. Á nokkrum sekúndum snéri ég þessu við í hausnum á mér og ákvað að nýta þann tíma sem ég hefði vel. Ég skreið fram úr og bakaði pönnukökur, fór í gegnum fataskápinn minn og tók til föt í Rauða Krossinn (í staðinn fyrir þessi sem ég keypti í gær), moppaði gólfin, eldaði kvöldmat, hugleiddi, bloggaði, braut saman þvott, fór í stuttan göngutúr, hékk á netinu og fór í bíó. 
Í þessari viku get ég tikkað í öll boxin á TO DO listanum... nema panta mér tíma í vax, það virðist bara vera mánaðar verk í mínu tilfelli. 

Þetta hljómar kannski ekki merkilegt... en þetta er stór persónulegur áfangi. Með hverri vikunni sem líður af þessu ári fækkar tárum, fjölgar brosum, er styttra í hlátur og lengra í vanlíðan. Núið er staðurinn og tíminn er stutt frá því að verða vinur minn. 

Stundum er nefnilega fínt að verða bara svolítið þreyttur á sjálfum sér. Í mínu tilfelli fólust í því tækifæri til að hætta að verja sjálfa mig fyrir þeirri staðreynd að hlutirnir eru ekki bara svona eða hinsegin... það er engin ástæða til að sætta sig við eitthvað annað en bestu útgáfuna af sjálfum sér. Og guð minn góður hvað ég á mikið inni þar. 

Gleðilega nýja viku! Fulla af nýjum og skemmtilegum To Do kössum til að tikka í!

1 ummæli:

  1. Alltaf svo skemmtileg Silla mín. Ég kannast einmitt líka við svona To-do. Eg hef slíkt á símanum mínum, sem pípir út í eitt og ég hef ekki við að setja ýmist á blund eða gefast upp og smella á hætta.
    Gangi þér vel með allt þitt. Kær kveðja.

    SvaraEyða