sunnudagur, 27. apríl 2014

Fimm brúðkaupslög

Ég hef aldrei haft sérstaklega mótaða hugmynd um hvernig ég myndi vilja hafa mitt eigið brúðkaup en eitt af þeim störfum sem heillaði mig þegar ég var yngri var “wedding planner”. Eftir á að hyggja hugsa ég að það hafi þó ekkert haft með brúðkaupin sem slík að gera heldur almenna viðburðarstjórnun og skipulagsfíkn.
Seinna áttaði ég mig líka á því að markaðurinn fyrir þetta starf var ekki til á Íslandi.

Eftir því sem ég eldist og fleiri í kringum mig fara að velta fyrir sér eigin brúðkaupsdegi, hef ég einnig velt þessu fyrir mér. Við Sindri höfum líka oft látið hugann reika um hvað væri skemmtilegt að gera og hvað megi gjörsamlega missa sín okkar vegna. Sem betur fer erum við frekar samstíga í því.

Fyrir mér hefur reyndar eitt verið algjört aðalatriði og reyndar eini þátturinn sem ég hef byggt upp óskir í kringum. Það mun jú vera tónlistin. Til að byrja með eru það tvö lög sem ég myndi vilja að pabbi minn myndi flytja. Það fyrra er “Ég er komin heim” en hann hefur endað flest böll sem hann hefur spilað á með því lagi frá því á áttunda áratugnum.



Seinna lagið er Þú sem hann samdi til okkar systkinanna (aðallega strákanna held ég) fyrir mörgum árum og kom út á plötunni Frá báðum hliðum með Nefndinni.  Ástæðan er auðskiljanleg:

Svo stutt er síðan varstu barnið blítt
Til baka leitar stundum hugur minn
Er þú vafðir örmum þínum undurþýtt
þétt um háls og lagðir kinn við kinn
Hvíslaðir svo ofurblítt í eyra mér
hvað þér finndist ósköp vænt um mig
Labbaðir svo burtu til að leika þér
Líf mitt snérist aðeins kringum þig.
Þú varst sólargeisli lífs míns, ljúfur, hlýr
Lokkandi og fallegt ævintýr.

  Mér finnst tíminn hafa tifað alltof ótt.
Örstutt síðan kúrðir þú hjá mér.
Nú ég horf’ á þig þú hefur vaxið fljótt
heillastjarna alltaf fylgi þér.
Hamingjuna finnir þú á þinni leið,
þú skalt rækta hlýju, von og ást.
Stundum þegar gatan virðist ekki greið
gakktu áfram, takmarkið mun nást.
Þó að höf og álfur heilli hjarta þitt,
hjá mér ertu alltaf barnið mitt.
Já, þú verður alltaf, alltaf  barnið mitt.

Þriðja lagið sem yrði að flytja væri lagið Viltu þá elska mig?, allavega ef ég væri að giftast Sindra (hehehe) en þetta er það sem kemst næst því að vera okkar lag. Ekki væri verra ef Bjartmar sjálfur myndi sjá um það.



ABBA-dísirnar yrðu að sjálfsögðu að leika sama leik og í brúðkaupi Hjördísar og mæta með Going to the chapel – það hlýtur bara að verða hefð.


Fimmta lagið myndi ég vilja tileinka Sindra (ef ég væri að giftast honum allavega). Ég fann það einhverntíma, hlustaði á það milljón sinnum… og hlusta enn á það. Textinn í því er frábær og á vel við.

Þó að útaf bregði, þú ert hjá mér enn
ég get verið meistari og kjáni í senn
þú gefur allt til bakaog svo miklu meira til
ó, hvílíkt frelsi að elska þig.



Síðan yrði að sjálfsögðu krafa um að aðrir færir fjölskyldumeðlimir og vinir kæmu fram – og helst Moses Hightower og Árstíðir líka (svona ef maður vissi ekkert hvað maður gæti gert við alla peningana sína).


Hvað varðar kjóla, útlit og annað þá veit ég ekki meir. Ég veit hvað ég vil ekki – og það er bara fjári góð byrjun, svona fyrst maður er ekki einu sinni með það á planinu að gifta sig á næstunni. Nema enginn annar nenni að halda partý.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli