mánudagur, 24. mars 2014

Fyrstu fimm af tónleikum

Ég hélt 27 ára afmælistónleika á Rósenberg í september síðastliðnum. Smám saman hef ég verið að reyna að koma þessum tónleikum á Youtube - lag fyrir lag.
Loksins get ég sagt að fyrstu fimm lögin séu komin.

1. Brand New me



Ég opnaði tónleikana á þessu lagi. Ég kynntist því almennilega í söngtíma síðastliðið sumar og tengdi svona líka vel við það. Eins og hefur komið fram margoft á þessari síðu hefur farið fram mikil andleg vakning og síðan vinnsla hjá mér síðasta eitt og hálfa árið svo tengingin við þennan texta var mikil. Upphaflega sá ég fyrir mér að ég myndi labba inn á sviðið í geðveikum glimmerkjól á meðan forspilið væri í gangi. Þetta væri svona Extreme Makeover í byrjun tónleika. En svo fann ég engan kjól, og hafði ekki tíma til að gera neitt við hárið á mér auk þess sem stressið bar mig alla leið í þessu lagi... smá skjálfti, smá textaruglingur, smá glott... lærir sem lifir, ég byrja aldrei aftur á því lagi sem ég vil hafa best.

2. Leikur þinn leik (Videogames) - texti eftir Sindra Þór



Sindri kom með þennan texta til mín fyrir löngu síðan. Hafði dundað við að setja hann saman með stemningu úr upprunalegu útgáfunni til hliðsjónar, án þess þó að ætla sér að beinþýða. Fyrir einhvern eins og mig, sem elska tónlist og dreymir um að umgangast hana og skapa mun meira en ég geri, þá eru einstaklingar eins og Sindri Þór svolítið óþolandi. Í engri æfingu sest hann niður einu sinni á ári og setur saman texta sem oftar en ekki innihalda orð sem ég hef aldrei á ævi minni heyrt, þó tel ég mig ekki fáfróða eða almennt með lélegan orðaforða miðað við aðra af minni kynslóð.
Þrátt fyrir örlitla öfundsýki býr aðdáun á þessum eiginleika hans innra og mér þykir ekki leiðinlegt að púsla saman melódíum við ljóð eftir hann.
Það sem mér fannst erfitt við þetta lag var hvernig ég ætlaði að gera þetta, ég hef ekki mjúka rödd eins og Lana Del Rey né vanið mig á að gefa lofti svo mikið vægi í söngstílnum mínum. Mig langaði ekki að reyna að leika eftir það sem hún gerði, en samt vildi ég reyna að ná einhverjum drunga í lagið. Karókíútgáfur af laginu innihéldu allar þetta fallega, ljúfa undirspil sem mér fannst hreinlega ekki virka við röddina mína.
Á einni æfingunni fyrir tónleikana kom Hjalti Jón með lausnina, bassa útsetning yrði það. Ég er svo hoppandi kát með þessa útsetningu að ég gæti vart verið sáttari.

3. Þegar sólin rís - frumsamið og frumflutt



Það er flókið að hætta saman eftir rúm 5 ár, sérstaklega þegar maður vill það helst ekki. Það er líka erfitt að vera einn, læra allt upp á nýtt, reyna að vera vinir.... og oftast vildi ég bara gleyma því að þetta væri staðan, það var einhvernveginn svo miklu auðveldara að halda bara áfram í sama farinu.
Já, krakkar mínir, loksins var ég "heartbroken" aftur - í fyrsta sinn í 6 ár og úr varð fyrsta lagið sem samið hefði verið í 7 ár.
Eins og flest önnur lög var þetta samið eina andvökunótt þegar ég hefði þurft að vera löngu sofnuð en hugurinn hætti bara ekki að setja þetta saman. Á endanum greip ég símann minn og dagbókina - druslaði þessu niður og raulaði inn á símann í þeim tilgangi einum saman að fá frið til að sofna. Fyndið.
Hljómarnir komu síðastir og reyndar kláraði ég ekki alveg fyrr en í hléinu á þessum tónleikum. Þetta var fyrsta lag eftir hlé.
Ég svitna gífurlega í höndunum þegar ég verð stressuð. Það aftraði mér ekkert í söngnum - eða lítið allavega. Það er verra með gítarinn. Hef verið að reyna að taka hann meira með mér þegar ég kem fram, koma mér út fyrir þægindarammann í þeirri von að þetta jafni sig... eða ég verði gífurlega klár að spila þrátt fyrir sveittar hendur.
Þetta er sennilega það einlægasta sem þið fáið af þessum tónleikum - tilfinningarnar og hjartslátturinn verður ekki mikið meira ekta hjá mér.

4. Titanium



Ég er með píanóspils-blæti. Það getur orðið svolítið mikið af því góða en tengist sennilega því hvað ég vildi óska þess að ég hefði verið duglegri að rækta hæfileika mína á píanó. En það gerði ég ekki - ég vildi verða gítarleikari eins og fyrirmyndirnar í fjölskyldunni.
Björn er klár, ég er rosalega fegin að hann nennti þessum tónleikum með mér, eins og reyndar öll þessi frábæra hljómsveit. Ég hugsa reyndar að tónleikarnir hefðu mögulega ekki orðið án Katrínar, því ekki er hún bara hæfileikarík og klár, heldur hugsaði hún dálítið fyrir mig í kringum þá - ég hefði sennilega gleymt höfðinu á mér ef það hefði ekki verið fast á mér.


5. Love Hurts



Ó, já... þetta lag hefur verið eitt af mínum uppáhalds í mörg ár. Þetta hefur eitthvað að gera með aumingjas niðurbrotna berskjaldaða rokkarann sem á svo erfitt. Hann er sennilega með dökkt úfið hár líka - þið skiljið hvert ég er að fara með þetta. Þetta er í sömu tóntegund og hjá The Nazareth - er það vandræðalegt?


Ég elskaði þetta kvöld - þetta er sennilega eitt það skemmtilegasta sem ég hef á ævi minni gert. Reyndar ekki bara eitt það skemmtilegasta, heldur líka það sem hefur gefið mér hvað mest. 
Þrátt fyrir að ég tali mikið þegar ég er stressuð, segi of oft brandara sem eru ekki fyndnir og eigi það til að missa mál - og setningafræði kunnáttu þá kemur minn karakter hvergi betur fram. Vandræðalega, símalandi ég. Ég kann ágætlega við hana. 

Og það sem var best.... var að sjá bros á andlitum áhorfendanna. Sumir eru nefnilega til í að hlæja að vandræðalegheitum og lélegum bröndurum. Svoleiðis fólk er í miklu uppáhaldi hjá mér. 


2 ummæli:

  1. Þetta er megaflott hjá þér. Ég er sjúk í videogames og þegar sólin rís! er aðeins að taka repeat á þetta ;)

    SvaraEyða
    Svör
    1. Hahaha... þú mátt rípíta þetta eins oft og þú vilt mín vegna. Mér til mikillar gleði reyndar :)

      Eyða