fimmtudagur, 5. júní 2014

Sagan á bakvið myndina: Á Spáni sem Silvía Nótt

Ég er búin að sitja fyrir framan tölvuna í rúman hálftíma að reyna að finna út hvað ég ætli að skrifa hér. Allt sem mér dettur í hug krefst meiri tíma en ég hef fram að nætursvefni.
Gafst upp á þessum pælingum - "blogga bara á morgun" hugsaði ég... því á morgun segir sá hressi er vinsælt orðatiltæki á þessum bæ. Rímar ágætlega við markmið um síminnkandi niðurrifsstarfsemi.
Henti mér inn á myndaalbúmin mín á facebook og rakst þar á þessa mynd. Ákvað að segja ykkur stuttlega frá sögunni bakvið hana. 


Þessi mynd er tekin á Salou á Spáni vorið 2006. Þá var komin tími til að skella sér í útskriftarferð með útskriftarhópnum úr Menntaskólanum á Egilsstöðum. Þessi ferð mun líklega aldrei hverfa neinu okkar úr minni, af misjöfnum ástæðum þó. Við vorum 40 manna hópur og eignuðust fljótt uppáhaldsskemmtistað, Bus Stop, þar sem við gátum nánast bókað að við myndum hitta hvort annað á einhverjum tímapunkti á kvöldin. Þar hittum við líka Helga Björns, sælla minninga... 
Silvía Nótt átti þetta ár með húð og hári heima á Íslandi, nýkomin heim úr Eurovision, á milli tannanna á öllum - margir komnir með upp í kok af hennar framkomu en engu að síður stóðu Silvíu-Nætur þemapartýin sem hæst. Við ákváðum að halda eitt slíkt í útskriftarferðinni. 
Yfir daginn röltum við um og keyptum okkur varaliti, eyrnalokka, "perlufestar", naglalökk og allskonar drasl á örfáar evrur (sem þá voru líka næstum því ókeypis) til að búa okkur undir fjörið. Við skiptumst á fötum og settum þau eins ósmekklega saman og við gátum - þó með divu-stílinn á hreinu.
Að lokum smelltum við allar á okkur stjörnum og settumst við borðið í íbúðinni okkar í drykkjuleik.

Á leið okkar í bæinn vorum við hinar kátustu - töluðum eins og Silvía Nótt með ógissla og skiluru inn í hverri setningu og hlógum eins og vitleysingar hver af annari. Fólk sem við mættum leit varla á okkur og fannst við klárlega ekki jafn sniðugar og við upplifðum. Fljótlega ákváðum við að það væri greinilega enginn í þessum ferðamannabæ sem hafði fylgst með Eurovision. 

Við stöðvuðum á gangabraut á rauðu ljósi. Breskt par stóð á hinum enda götunnar og maðurinn setti upp einkennilegan svip þegar hann sá okkur. Svolítið eins og við ættum að skammast okkar. 
Þegar við mættum þeim síðan á miðri gangbrautinni heyrist í kauða segja töluvert hátt við konu sína "fucking disgusting whores". Við þögnuðum allar og litum á hvor aðra - það var mjög greinilegt að engri okkar hefði dottið í hug að þessi klæðnaður myndi vekja upp þessar grunsemdir hjá fólki. 
Okkur fannst þetta fyrst ömurlegt - svo urðum við hneykslaðar - næst brjálaðar - en síðan hlóum við okkur máttlausar og héldum áfram á næturklúbbinn meðvitaðar um hvað mögulega gæti beðið okkar. 

Þegar ég kom heim um kvöldið ætlaði ég í fótabað. En endaði í sturtu í fötunum... en það er allt önnur saga og allt önnur mynd. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli