mánudagur, 25. febrúar 2013

Einu ári síðar


Í dag er nákvæmleg eitt ár frá því að ég útskrifaðist úr meistaranáminu mínu. Það er undarleg tilfinning, sérstaklega í ljósi þess að líf mitt er allt öðruvísi en ég hafði ímyndað mér það yrði á nákvæmlega þessum tímapunkti. 

Þennan dag sem ég útskrifaðist eftir margra mánaða stanslausa vinnu í ritgerðinni minni og alltof lítil félagsleg tengsl við umheiminn, var ég ekkert þreytt. Ég var stolt af mínu verki og nánast tilbúin að hefja næstu ritgerðarskrif. Ég var í raun á svo mikilli ferð í þessu öllu saman að ég hefði vel getað þotið af stað í næsta rannsóknarverkefni án umhugsunar. Það var þó ekki svo að álagið hefði ekki náð mér, ég vissi það bara ekki enn.

Á síðustu metrum ritgerðarinnar var ég komin með lista yfir hluti sem ég ætlaði að leyfa mér að gera þegar henni væri lokið. Þetta voru ekki stórir draumar né merkilegir en engu að síður var þeirra sárt saknað úr lífi mínu. Ég ætlaði að plokka og lita á mér augabrúnirnar, setja á mig brúnkukrem, spila á gítar, syngja, semja ljóð, blogga, skrappa, hreyfa mig meira og hitta vini mína. Svo nokkrum mánuðum síðar þegar ég yrði komin í góða og skemmtilega vinnu tengda náminu mínu myndi ég skrá mig á alls kyns skemmtileg námskeið, söngnámskeið til dæmis og jafnvel skrá mig aftur í gítarnám.

Tveimur mánuðum eftir skilin á ritgerðinni vaknaði ég upp við það að ég hafði ekki gert einn af þeim hlutum sem ég hafði viljað brjótast út úr ritgerðarvirkinu til að framkvæma. Nema plokka og lita á mér augabrúnirnar. Þá fyrst áttaði ég mig á því að þetta hafði vissulega tekið sinn toll og ekki var að bæta ástandið að það gekk hægt að koma sér í starf sem tengdist náminu. Starfið sem ég var í höfðaði ekki til mín þó dagarnir liðu hratt því það var mikið að gera og skemmtilegir vinnufélagar í kringum mig. Ég hugsaði samt sem áður oft yfir daginn hvað ég hlakkaði til að koma heim og gera eitthvað af því sem ég hafði vanrækt svo lengi en yfirleitt liðu dagarnir hjá með áhugamálin ósnert.

Útskriftardagurinn minn var upphafið af mjög erfiðum tíma í mínu lífi og það má með sanni segja að 2012 fari ekki ofarlega á vinsældarlistann yfir uppáhaldsárin mín. Það er margt við það að verða fullorðinn og standa á krossgötum sem verður ekki kennt, í fyrsta sinn upplifir maður mögulega eftirsjá og árin sem maður eyddi á skólabekk fara að vísa manni í einhverjar áttir... og þá er spurning hvort maður vilji fara þangað. Önnur spurning er hvort gáttin sé yfir höfuð opinn þrátt fyrir að maður hafi gert sig fullkomlega tilbúinn bara fyrir hana og lagt sig 100% fram fyrir hana.

Árið 2012 kemur guðsblessunarlega aldrei aftur en þroskastökk mitt það árið er engu að þakka nema öllum þeim brostnu væntingum og hindrunum sem ég mætti. Æðruleysi er eitt það fallegasta sem ég get hugsað mér en sjálf hef ég aldrei getað státað mig af því. Ég byrjaði hins vegar árið 2013 skrefinu nær því að geta viðurkennt að ég hef ekki sjálf vald yfir öllum þáttum lífs míns.

Að lokum má setja upp smá jákvæðan samanburð sem staðfestir í mínum huga að árið 2013 verður mitt!

25.02.2012
Vinna: bakvinnsla í útibúi Arion banka
Síðasta ljóð samið: júlí 2008
Eftirsjá: stanslaus
Kg: 69,4

25.02.2013
Vinna: Verkefnastjóri hjá Silent Company ehf (silent.is)
Síðasta ljóð samið: 24. Janúar 2013
Eftirsjá: Engin
Kg: 66,6


Allt í áttina krakkar, allt í áttina...

1 ummæli: