sunnudagur, 20. janúar 2013

Bastkarfa fær nýtt líf

Ég verð að segja að ég stend mig ótrúlega vel í blogginu þessar fyrstu vikur ársins, en það getur svosem vel verið að það taki ekki að fagna þeim framförum alveg strax. Í framhaldi af síðasta bloggi þar sem ég málaði umbúðir til að nýta sem gjafaöskjur þá vil ég henda hér inn einu öðru dundi sem ég var að klára.
Við eigum eina bastkörfu hér á Fálkagötunni sem fylgdi Sindra og hann hefur nefnt það svo oft að henda henni því hún passi í fyrsta lagi ekki hér inn og sé ljót. Við höfum notað hana undir blöð sem við viljum eiga og ég hafði lengi verið að líta í kringum mig að fallegum blaðarekka eða fallegri blaðakörfu til að leysa þessa af hólmi. Einn daginn kviknaði hins vegar ljós, við áttum hvíta veggmálningu niðri í geymslu frá því í haust og ég skaust út og fjárfesti í einum pensli.

Ég fór tvær umferðir yfir körfuna og leyfði málningunni að þorna vel á milli (reyndar í rosalega marga daga í mínu tilfelli, en það er algjör óþarfi). Hér má sjá fyrir og eftir myndir af körfunni góðu, þess má geta að við nýttum tækifærið og tókum líka til í blaðabunkanum... enda mikilvægt að gera allt sem maður getur til að "eftir" myndirnar líti extra vel út :)


Fyrir - og full af drasli
Í málningarferlinu

Komin á sinn stað, með aðeins minna af drasli

Þetta er alveg ferlega sniðugt - sérstaklega ef þið eigið einhversstaðar afgangs veggmálningu. Annars er sniðugt að kaupa svona "prufudósir". Þær innihalda yfirleitt alveg nóg af málningu fyrir svona dund verkefni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli