mánudagur, 28. janúar 2013

Fimm góðar uppskriftir

Stundum tek ég mig til og elda. Aðallega þegar Sindri er upptekinn samt. Ég er ekkert svo góð í því að elda án þess að fara NÁKVÆMLEGA eftir uppskriftinni, sérstaklega þar sem skynjun mín á krydd í mat virðist vera eitthvað undarleg stundum. Bragðið sem ég næ að þróa meðan maturinn er að eldast er ekkert endilega bragðið sem ég finn síðan þegar ég sest niður og borða hann. Þá hef ég komist að því að það að setja tvö góð krydd saman er ekki endilega uppskrift að góðu bragði. 
Ég er ekki alveg jafn léleg að baka og treysti mér töluvert betur til þess að leika mér með bakstursuppskriftir. Vegna þess hef ég stundum boðist til þess að setja inn uppskriftir á Matviss.com af bakstursárangrinum mínum. Hér fyrir neðan má finna þær 5 uppskriftir sem ég hef skrifað fyrir Matviss, fjórar þeirra eru bakstur en ein þeirra voðalega gott humarsalat.

1. Sumarkaka


Mesta uppáhaldið af þessum 5 uppskriftum, en ekki fengin úr mínum hugarheimi. Þetta er kaka sem Elsa amma mín í Sæbergi bakaði alltaf og óhætt að nefna "uppáhald barnabarnanna". Hún smakkast samt einhvernveginn alltaf betur í eldhúsinu í Sæbergi, en slær sérstaklega í gegn hjá börnum. Þá ber að nefna að mikilvægasta innihaldsefnið í uppskriftinni að mínu mati, er skrautsykurinn. Hann má ekki vanta eða skipta út fyrir eitthvað annað.

2. Surtsbrauð

Klárlega sú uppskrift sem ég er stoltust af, enda ekki hönnun einhvers annars... þó ég hafi fengið smá hjálp frá Sindra. Þetta er líka nýjasta uppskriftin af þessum fimm og mér til mikillar gleði á ég ennþá slatta í frystinum. Þetta var aðalatriðið í bóndadagsmorgunverði ársins.

3. Humarsalat og hvítlauksbrauð 


Þetta er klárlega uppáhaldssalatið mitt. Sindri kenndi mér að útbúa svona salat fyrir nokkrum árum síðan og þrátt fyrir að það sé ákaflega sumarlegt þykir mér alls ekki verra að fá það í janúar, rétt eftir jólin. Hvítlauksbrauðið þykir mér líka mjög gott og ég nota það við hin ýmsu tækifæri og nota brauðafganga úr frystinum til þess. Til dæmis ætla ég að útbúa svona með fiski í kvöld.

4. Belgískar vöfflur

Í síðustu viku bjó ég til belgískar vöfflur í morgunsárið. Þar sem ég átti ekki vöfflujárn fékk ég það bara lánað, bakaði úr öllu deiginu og frysti þær vöfflur sem ekki voru borðaðar. Þá er ekkert mál að taka þær úr frysti og skella í brauðrist. Tilvalið þegar það mæta gestir með litlum fyrirvara. Ég setti súkkulaði í deigið og reyndar rúsínur í hluta af því. Bar það síðan fram með ávöxtum, súkkulaði, hunangshnetum, sultu og sírópi. Dálítið heavy og engin nauðsyn að hafa þetta allt.

5. Dutch baby (German pancake)

Í byrjun janúar stakk ég uppá því við Sindra að einn morgun í viku myndi ég fara fyrr á fætur og útbúa handa okkur morgunmat. Hugmyndin kviknaði meðal annars vegna þess að mig langaði að hafa eitthvað skemmtilegt fyrir stafni þegar ég færi á fætur en var einnig liður í því að reyna að njóta þessa tíma sem ég er heima við, á meðan ég þarf þess. Ég byrjaði á að prufa að útbúa Dutch-baby eða German pancake en þessi máltíð gengur undir báðum þessum nöfnum í Bandaríkjunum. Ég ákvað að útbúa útgáfu með ferskum berjum, því þau toppa alltaf allt! Mjög áhugaverð og skemmtileg máltíð.... eina sem er nauðsynlegt að eiga er panna sem má fara í ofn, eða einhverskonar form sem getur komið í staðinn.

Þangað til næst!





Engin ummæli:

Skrifa ummæli