mánudagur, 7. janúar 2013

Áramótaveisla nr. 1



Það má með sanni segja að ég hafi farið inn í árið gerandi eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Við Sindri héldum í fyrsta sinn áramót heima hjá okkur. Kvöldið innihélt allt sem þurfti fyrir góð áramót, góða gesti, góðan mat, afruglara svo hægt væri að ná RÚV þar sem loftnetið er í ólagi og ekta kampavín. Við tókum ákvörðun um það standandi í Vínbúðinni að nýtt ár ætti skilið alvöru kampavín þar sem þess er óskað að það verði töluvert mikið betra en hið blessaða ár 2012.

Við (ásamt nánast helmingi borgarbúa) ákváðum að skreppa í Hagkaup á gamlársdag til að ná í það sem upp á vantaði. Ég hugsa að tíminn sem við eyddum í röð hafi verið jafn langur og sá sem fór í innkaup.Við náðum að kaupa smá skraut til að hafa á borðinu um kvöldið; gyllta skrautsteina, rauðar perlur með borða og innisprengjur (sem reyndar standa hér enn ónotaðar) :)

Gylltir skrautsteinar, innisprengjur og perluborði úr Hagkaup
 
Við ákváðum að nota síðan servíettur sem við fengum í aðventuglaðning frá Óðinsvé, en það er ólík mynd á öllum hliðum þeirra og ýmist snéru hreindýrarassar eða andlit að matargestum. Diskarnir voru stórir svartir keramikdiskar sem Sindri fann á útsölu í EGG einhverntíma og hnífapörin frá ömmu hans. Nýju fínu Ittalla glösin okkar, sem við fengum að hluta til í jólagjöf, voru síðan að sjálfsögðu á borðum.
Snilldar servíettur frá Danmörku

Hreindýrarassar

Hvítvínsglas, rauðvínsglas og vatnsglas

Matseðillinn var ekki af verri endanum:

Forréttur:
Heimagerð hreindýraliframousse á grófu brauði með salati og sultuðum kirsuberjum frá Selleberg á Fjóni.
Rauðvín: Jam jar 2009
Sá sem ekki borðar kjöt fékk ofnrétt úr barbapabba graskeri J

Aðalréttur:
Humar eldaður í ofni með hvítlauk og steinselju
Kúskús
Salat
Hvítvín: Gewurtztraminer frá Pfaffenheim

Veisluborð fyrir 7 tilbúið

Ákveðið var að sleppa eftirrétti (man ekkert af hverju) og leggja þeim mun meira í snarlið sem borðað var yfir og fram að Skaupi. Þar má telja upp grafna gæs sem við keyptum á bændamarkaði fyrir jólin, grafið ærkjöt frá Bjarteyjarsandi, heimareykta gæsabringu, danskan kúmenost og hollenskan Gouda. Þetta var síðan borið fram með grófu brauðu, kexi, birkisírópi úr Hallormsstað, heimagerðri íslenskri berjasultu og hunangi frá Selleberg. Nóa konfektið var að sjálfsögðu á sínum stað ásamt döðlunammi, heimagerðu lakkrískonfekti og unaðslega góða jólalakkrísnum frá Johan Bülow sem Sindri fékk í afmælisgjöf.


Útsýnið af öðrum svölunum


Á miðnætti var síðan gripið í glas af Veuve Clicquot og fagnað nýju ári! 2013 verður gott ár!

2 ummæli: