miðvikudagur, 9. október 2013

Tvær ódýrar og skemmtilegar deithugmyndir

Fljótlega eftir að við Sindri fluttum til Reykjavíkur ákváðum við að hafa föst Deitkvöld einu sinni í viku. Það hafa yfirleitt verið þriðjudagar, bæði vegna þess að þeir henta vel við vikulega rútínu okkar og eins vegna þess að mánudaga til miðvikudaga er oft hægt að nýta sér allskonar góð tilboð á veitingastöðum. Til dæmis erum við bæði í Arion Banka og eigum því Einkaklúbbskort en því fylgja mörg góð tilboð sem hægt er að nýta sér, mörg hver einmitt fyrri part vikunnar. Auk þess höfum við verið dugleg að nýta 2fyrir1.is og Nova tilboð mánaðarins.

Þrátt fyrir að þetta séu allt saman góð tilboð þá kosta þau að sjálfsögðu eitthvað. Í byrjun meistaramánaðar hét ég því að spara eins og ég mögulega gæti eftir frekar VISA-freka New York ferð í ágúst og þá var ekki í boði að fara út að borða í hverri viku þrátt fyrir tilboðin. Auk þessa langaði okkur frekar að prófa að gera fleira skemmtilegt saman heldur en fara alltaf út að borða og skiptumst nú alltaf á að skipuleggja deitin.

Í síðustu viku bauð Sindri mér á heimatilbúið deit sem rennur mér seint úr minni. Þannig er að uppáhaldsmaturinn minn heima hjá pabba er kjöt í karrý... ég segi heima hjá pabba vegna þess að sé karrýsósan ekki góð er rétturinn ónýtur og fáir gera hana jafn góða og pabbi. Í gegnum árin hefur Sindri ekki verið mjög spenntur fyrir þessum mat og við höfum t.d. aldrei eldað hann síðan við byrjuðum saman árið 2007. Það gladdi mig því ólýsanlega mikið þegar ég kem heim til hans síðasta þriðjudag og eftir mér bíður kjöt í karrý. Algjör draumabyrjun á deiti. Karrýsósan var mjög góð en ekkert lík pabba, svo nú á ég tvo uppáhalds kjöt í karrý-rétti.

Kjöt í karrý
Hann hafði fundið súpukjöt á góðum afslætti sem hjálpaði til við budgetið. Eftir matinn hafði hann síðan bjórsmakk fyrir mig þar sem bjórarnir voru Giljagaur, Surtur og Júdas sem hafa verið í þroskun í kjallaranum. Hann fræddi mig um muninn á þessum týpum auk og við veltum þessu fyrir okkur í sameiningu. Alveg bannað að hafa kveikt á sjónvarpinu eða slíku á meðan. Athyglin á öll að vera á smakkið. Þetta fannst mér verulega skemmtilegt þar sem hann kynnti mig fyrir einu af sínum áhugamálum með því að fræða mig og gera mig part af því.

Í gær var síðan komið að mér að bjóða honum á deit. Ég hugsaði mikið um að geta gert eitthvað skemmtilegt sem við höfðum ekki gert áður án þess að það kostaði mig mikinn pening. Þema-nördið ég þurfti þó að sjálfsögðu að búa mér til þema yfir deitið í huganum og þá kom upp hugmyndin Fingur. Þeir sem vilja hugsa dónalega um það þema er það velkomið :) Það var þó ekki meiningin með þemanu.
Ég fór og keypti hamborgara úr 100% nautakjöti í Kjötbúðinni, Grensásvegi. Það hentaði líka mjög vel því þar gat ég keypt 200 gr. hamborgara fyrir Sindra og 140 gr. fyrir mig. Það var samt mjög stórt fyrir mig. Ég fór síðan og splæsti í einn ost, valhnetur og hunang auk þess að kaupa FINGERS til að narta á, að sjálfsögðu.
Borgarinn ásamt frönskum sem til voru í frystinum, osti sem til var í kælinum, sinnepi, tómatsósu og majonesi var allt borðað með fingrunum. Eða það var allavega hugmyndin þangað til ég gafst upp.

Ég hafði líka farið í A4 og keypt eitt stórt karton í dröppuðum lit og fingramálningu. Eftir matinn var komið að því að leika sér með það. Ég minntist þess ekki að hafa nokkurn tíma fengið að mála með tánum á æfinni og aldrei búið til mót af fætinum á mér. Þess vegna þótti mér tilvalið að setja handa - og fótaför okkar beggja á kartonið og hafa um leið verulega gaman af. Sem það að sjálfsögðu varð því Sindri gat ekki stillt sig um að klína allt andlitið á mér út í málningu þegar hann hafði klárað að merkja kartonið.

Fætur eftir listaverkagerð

Listaverk. Fæst á 15.000 kr. :) 
Kostnaðurinn við þetta deit var 1000 kr. fyrir karton+málningu, 1000 kr. fyrir hamborgara, 1500 kr. fyrir möns. Stundum getur nefnilega verið sniðugt að líta sér nær, nýta það sem maður á til og nota hugmyndaflugið þegar kemur að afþreyingu svo maður lendi ekki eina ferðina enn upp í sófa að horfa á mynd. Það er gott og gaman... en þarf ekki að gerast á deitkvöldi.

Það er líka eitthvað svo ótrúlega upplífgandi við það að sjá einhvern hugsa út fyrir rammann í þeim eina tilgangi að gleðja mann. Þarf ekki að vera dýrt eða langt prógramm. Ekki einu sinni það frumlegt... bara pínulítið annað en sama gamla rútínan.

Hann fékk að gjalda fyrir árásina. Verra að ná þessu úr skeggi.

1 ummæli: