föstudagur, 19. apríl 2013

Braxton, spóla og árin


 Það er tvennt í lífi okkar sem er öruggt, við fæðumst og við deyjum. Þessa áminningu hef ég heyrt allnokkrum sinnum á ævinni og þó þetta séu alls engin geimflaugavísindi má ætla að flestir reikni fastlega með því að ná þessum tölfræðilega meðalaldri.
Þegar ég var 11-13 ára gömul flýtti ég mér ansi hratt að fullorðnast. Ég man eftir morgnum í 6. bekk þegar að ég gekk í skólann og hugsaði með sjálfri mér að nú yrði ég að einbeita mér að því að gera ekkert barnalegt, haga mér eins og unglingur. Þetta kann að hljóma undarlega og óheilbrigt en skrefið að fara úr barnaleikjum, eltingaleikjum er erfitt en mjög nauðsynlegt þegar að maður er skotinn í strák í 9. bekk.

Þegar ég varð 15 ára snérist dæmið algjörlega við, mér fannst tíminn líða of hratt og fann þá fyrir því að ég var ekki tilbúin að fullorðnast alveg strax. Menntaskólinn var handan við hornið og mér loksins farið að finnast gaman í grunnskólanum, auk þess sem ég var skotin í strák sem var ári yngri en ég. Ég upplifði 19 ára afmælið mitt eins og ég ímynda mér að flestir upplifi 30 ára afmælið sitt. Ég fékk áfall yfir því að markaðsett “bestu ár lífs míns” yrðu senn á enda og langaði helst að stöðva tímann.

Eftir það hef ég ekki mikið velt mér uppúr þessu, mér hefur tekist ágætlega að halda afneitun minni með hjálp eldra fólks á Heilsuhælinu í Hveragerði sem rökræðir aldur minn í hvert sinn sem ég mæti á svæðið og þá eru tölur milli 15 ára og 20 ára í umræðunni. Það fyndna er að mér finnst það bara jafn skrítið og mér fannst það þegar sömu umræður með sömu ágiskunum voru í gangi fyrir 7 árum síðan, ekki skrítnara.

Um helgar í miðbæ Reykjavíkur uppúr kl. 4 fara einhverjir gæjar að fikra sig nær, snúa manni í hringi og hella óvart bjór á mann í leiðinni, eitursvalir. Halla sér að manni og segja eitthvað á þessu leið “ógissleg’ ertu sæt” (fyrir utan þennan einstaka sem ég hitti í 10-11 og sagði mér að hann hafi alltaf langað til að eignast systir… ég sagði “mér líka svo þetta er bara góður díll fyrir þig”). Rétt eftir því mómenti segi ég “hvað ertu gamall?” Svörin verða síundarlegri með árunum og algengast  þessa dagana eru 1991 eða 1992.  Það undarlega er að ef þeir tækju ekki fram fæðingarárið heldur segðust vera 21 eða 22 finndist mér þeir sjálfsagt mun nær mér í aldri.

Það sem fékk mig til að velta þessu aldursmáli fyrir mér er að síðustu mánuði hef ég æ oftar lent í því að tala við fólk um tvítugt og byrja setningarnar á “hah! Veistu ekki hver …… er?”, lít síðan í kringum mig og átta mig á því að það er enginn annar að hneykslast á því og flestir með svona þú-ert-ekki-með-hlutina-á-hreinu-gamla lúkk.

Líkan svip fékk ég um daginn þegar ég lenti á spjalli við stúlku sem hefur mikið verið að syngja en hafði aldrei heyrt Toni Braxton nefnda á nafn. Sama stúlka ber nafn Mariuh Carey töluvert öðruvísi fram en stúlkur á mínum aldri. Þegar ég var 15 ára töluðu Íslendingar um Maríu Karei en í dag, með aukinni hnattvæðingu býst ég við, heitir hún orðið Meræha Kerí. Fyrir utan það að hún er að verða gömul...  og Brad Pitt, Jennifer Aniston, Johnny Depp, Stebbi Hilmars og Björn Jörundur líka. 

Annað dæmi um slíkan svip mátti sjá á litlu frænkum mínum sem grettu sig ægilega þegar ég gekk inn í herbergi til þeirra og spurði hvort þær væru að horfa á spólu. Eftir grettunni kom síðan hönd á mjöðm og “Hvað er eiginlega spóla?”

Það er kannski skrítið og jafnvel örlítið hlægilegt en sorglegu kallarnir á barnum, sem við bentum á og fussuðum við þegar ég var tvítug voru ekki nema kannski 3 árum eldri en ég í dag. Ég veit ekki hvort almennt sé viðhorfið annað í dag og þess vegna finnist mér þeir ekki eins sorglegir, eða hvort ég sé orðin sorglega gella í afneitun. Ég allavega harðneita að stunda Thorvaldsen fyrr en eftir 15 ár í fyrsta lagi!

Fyrstu fartölvuna mina fékk ég í fermingargjöf árið 2000, hún var keypt notuð af lögfræðingi. Til þess að ná nettengingu á hana þurfti ég að sitja í símastólnum heima, hringja inn á internetið til að ná í efni gegnum Napster og hanga á ircinu. Börnin sem fermdust í ár hafa aldrei verið án internets.

Þróunin er gífurlega hröð. Ég er ekki orðin þrítug og ég er samt farin að tala um hvernig þetta var hér “áður fyrr”. Þetta stefnir ekki í gott hjá mér.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli