sunnudagur, 4. janúar 2015

Árið 2014 - seinni hluti

Þriðji ársfjórðungur
Um mánaðarmótin var komið að langþráðu sumarfríi þar sem við skelltum okkur með allri fjölskyldunni hans Sindra í ellefu daga ferð til Danmerkur. Þar byrjuðum við á að dvelja viku á Blåvand á Jótlandi. Þar fórum við á ströndina, í minigolf, út að borða, keyrðum í nálæga bæi og sitthvað fleira skemmtilegt. Veðrið lék við okkur, sem var velkomin breyting frá ástandinu heima. Eftir vikuna við Blåvand eyddum við restinni af ferðinni í Odense hjá systur hans Sindra og manninum hennar. Þar fórum við Sindri í dýragarð, á hjólabáta, ég skrapp á flóamarkað og sitthvað fleira.


Þegar við komum heim áskotnuðust okkur á síðustu stundu miðar á ATP. Við kíktum því á Ásbrú og sáum þar hljómsveitirnar Samaris, Slow Dive, Interpol og síðast en ekki síst Portishead.

Seinnipartinn í júlí keyrðum við síðan austur í sæluna þar sem veðrið lék heldur betur við okkur. Þar hittum við í fyrsta sinn Bergrós vinkonu okkar og drukkum bjór á pallinum hjá henni, skelltum okkur á Eskifjörð í matarboð og enduðum ferðina að sjálfsögðu á Borgarfirði á Bræðslu. Þar hélt ég áfram bakraddarstuðinu og söng eina tónleika með Hljómsveitinni Borgfjörð á miðvikudagskvöldi fyrir Bræðslu auk þess að opna sjálfa Bræðsluna með sama hóp.




Þegar heim var komið var stoppið stutt því ég hafði tekið að mér verkefnastjórn fyrir Silent á Þjóðhátíð í Eyjum. Þangað fengu Minions-vettlinga vinir mínir, Dave og Kevin, að fylgja mér.

Bakraddargiggin héldu áfram en þann 6. ágúst mætti ég ásamt Ylfu Lind á Eldborgarsvið Hörpu í þriðja sinn. Í þetta sinn vorum við ekki að keppa, heldur var hún að skila titilinum „Draggkóngur Íslands“. Lagið var Show must go on og bakraddirnar málaðar eins og trúðar í sparifötum.
Þessi dagur var þó aðeins stærri en áætlað hafði verið. Á leiðinni heim komum við Sindri við í búð og keyptum þungunarpróf. Ég fór inn á baðherbergi og pissaði á prik. Í dag hefði ég verið til í að eiga á video þegar ég kem gangandi útaf baðherberginu í fjólubláa kjólnum mínum, með hárið útí loftið, máluð eins og trúður... haldandi á jákvæðu þungunarprófi.
En maður skal ekki treysta tækninni og alltaf vera svolítið skeptískur (ATH! kaldhæðni) og því ákvað ég að taka lítið mark á þessari niðurstöðu, taka aftur próf daginn eftir... og aftur rúmri viku seinna. Niðurstaðan breyttist ekki.


Fimm dögum eftir að ég var búin að pissa á prikið fer Sindri til Danmerkur til að dvelja í 6 vikur. Kvöldið sem hann flýgur út förum við saman á Hereford, kaupum Vesturbæjarís og göngum í kringum Tjörnina. Fyrir framan styttuna af Jónasi Hallgrímssyni stöldrum við við og Sindri dregur upp trúlofunarhringinn – þegar hann er búin að segja eitt orð mæta fyrir framan styttuna íslenskur strákur og erlend stelpa. Þau stansa og hann fer að fræða hana frekar hátt og skýrt um ævi Jónasar. Þetta þótti mér fyndið, sérstaklega í ljósi þess að það var eins og ýtt hefði verið á pásu á videotæki, við horfðum bara á hvort annað og flissuðum.
En hringarnir fóru upp og Sindri flaug til Danmerkur. Ég saknaði hans gífurlega og leið ekkert sérlega vel þessar fyrstu vikur meðgöngunnar. Hann græddi hins vegar á þessu þar sem versti tíminn var passlega liðinn þegar að hann lét sjá sig aftur á Íslandi.


Ég sat þó ekki auðum höndum á meðan hann var í burtu. Ég tók þátt í mínu öðru golfmóti 14. Ágúst og færði mig upp um sæti frá því árinu áður... en þá var ég á botninum. Ég sótti námskeið til að taka þjálfararéttindi í Pole fitness og Pole fabric, skrapp til Egilsstaða að fagna 30 ára afmæli Margrétar Daggar óvænt (fyrir hana þ.e.a.s), flutti starfstöðvar PIPARS í annað sinn á árinu og kíkti á meistara Justin Timberlake ásamt hálfri þjóðinni.




Um mánaðarmótin ágúst/september var söknuðurinn orðinn mikill og ég ákvað að skella mér til Danmerkur að hitta minn mann. Hann hafði þá pantað fyrir okkur gistingu á ótrúlega fallegu sveitasetri og ekki skemmdi fyrir gullfallega baðkerið sem beið inni á herberginu okkar. Eftir að hafa eytt nóttinni þar og mætt í morgunmat daginn eftir fórum við til Odense. Þar skelltum við okkur á bjórsmökkunarhátíð og borðuðum svo dýrindis máltíð um kvöldið með Söndru systur hans Sindra og Oddi, mági hans.


Ég átti líka afmæli í september og vinkonur mínar úr Fellabænum, Katrín, Berglind, Agla og Fanney sáu um að undirbúa hitting fyrir okkur. Þemað var varalitur og naglalakk. Við fórum í Hörpuna á Pop-up tónleika með Hljómsveitinni Evu og síðan heim til mín þar sem þær elduðu handa mér mat.  
Með þrjár óléttar í hópnum var villtara partý ekki á boðstólnum þetta árið.


Í lok september skrapp ég síðan til London í heimsókn til Kristrúnar vinkonu minnar ásamt Beggu vinkonu okkar. Sveinbjörg, fjórða vinkonan, mætti síðan frá Noregi til að taka þátt í þessu með okkur. Við fórum á Mamma mia, skoðuðum London Eye, kirkjuna sem Diana og Karl giftu sig í, hringekjubar, Sushi samba og Salsaklúbb svo eitthvað sé nefnt. Sindri kom síðan heim degi á eftir mér.




Fjórði ársfjórðungur
Fjórði ársfjórðungur byrjaði að venju á meistaramánuði. Ég ákvað að skrá mig 1. Október. Ég setti mér 4 markmið og náði einu þeirra – sem er meira en nokkru sinni fyrr. Markmiðið sem ég náði var að þvo framan úr mér málninguna á hverju kvöldi og þrífa húðina kvölds og morgna. Það er skemmst frá því að segja að mér fannst það enganveginn þess virði að hafa staðist þetta markmið þar sem í enda mánaðarins var ég með fleiri bólur en ég man eftir að hafa fengið í mörg ár – og frunsu.

Síðasti ársfjórðungurinn innihélt einnig marga skemmtilega viðburði. Halloween í vinnunni, Off venue tónleika á Airwaves, J-daginn, árshátíð SÍA og jólabjórasmakk Matviss, þar sem ég réði ríkjum – enda um blindsmakk að ræða.





Síðasti mánuður ársins byrjaði síðan með 20 vikna sónar þar sem við fengum að vita að væntanlegur erfingi væri strákur – og allt liti vel út.



Mánuðurinn var síðan mjög góður í alla staði. Vikan birt fjögurra síðna umfjöllun og uppskriftir frá Sindra og lagið mitt, sem samið hafði verið í mars, var tekið upp á 4 kvöldum í barnaherberginu heima hjá Óla bróður. Það var síðan dágott adrenalínskot sem skaust út í líkama minn þegar tilkynnt var að lagið hefði komist í 10 laga úrslit í jólalagakeppni Rásar 2.




Síðustu 3 vikurnar í desember eru síðan alltaf þessir föstu póstar. Afmælið hans Sindra- viku seinna jólin – viku seinna áramót. Þetta árið buðum við fjölskyldunni hans Sindra í mat og seinna um kvöldið vorum við með vinabjóð. Við eyddum kvöldinu að miklu leyti í að spila nýtt spil sem Sindri gerði ásamt Óðni vini sínum og heitir Ljótur leikur. Það er eins og íslensk útgáfa af Cards Against Humanity með skemmtilegu tvisti úr Hættuspilinu sígilda. Ef ykkur langar að prófa er hægt að downloada því ókeypis á ljoturleikur.is Bara hlaða niður, prenta og klippa. 

Á Þorláksmessu mátti ég ekki koma heima í 2 klukkutíma þar sem Sindri sagðist vera að dunda við gjöfina mína. Um nóttina dundaði hann síðan aðrar 3 klukkustundir við gjöfina mína. Ég var komin með getgátur um að hann ætlaði að gefa mér risapúsl og pakka hverju púsli inn fyrir sig. Eða að gefa mér púsl sem búið væri að púsla. Aðfangadagur rann upp og uppúr pakkanum kom heil heimagerð snyrtivörulína!

Á jóladag fórum við í matarboð til mömmu þar sem menn skiptust á að sofna í sófanum eftir matinn. Eftir það var þörf á göngutúr en við gengum yfir tjörnina og bjuggum til snjókarl í Hallargarðinum.



Gamlárskvöldi eyddum við í fyrsta sinn með vinum. Fjórar æskuvinkonur úr Fellabænum ásamt mökum samankomnar heima hjá einni þeirra. Rækju Chevice í forrétt, hreindýr með sveppasósu, sætum kartöflum, waldorfsalati og rauðvínslegnum perum í aðalrétt, og ís og marengssamlokur í eftirrétt. Sindri hafði síðan fjárfest í rosalega flottu kampavíni fyrir áramótin sjálf sem við skáluðum í horfandi yfir Fossvoginn útum stofugluggann. Eftir miðnætti tókum við í spil, borðuðum osta, sumir drukku vín og aðrir eitthvað annað. Eftir það settust strákarnir við YouTube myndbönd í vondra rokklagakeppni og við stelpurnar héldum partý uppí rúmi hjá Fanneyju – sem var orðin svolítið þreytt.



Á leiðinni heim, uppúr kl. 5, stoppuðum við í Iceland til að kaupa samlokubrauð svo hægt væri að enda djammið á eina rétta háttinn – með samloku úr samlokugrilli.

Ég er að sjálfsögðu komin með áramótaheit fyrir næsta ár. 100 hluta to do listi sem ég byrja að tékka af ekki seinna en á morgun ;)


Gleðilegt nýtt ár!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli