sunnudagur, 11. janúar 2015

Af 100 misstórum verkefnum

Þið sem hafið fylgst með mér eða þekkið mig ættuð að vera farin að átta ykkur á því að ekkert er ár án áramótaheita í mínum heimi. Ég gefst ekki upp þrátt fyrir að hafa ekki enn getað fagnað því að hafa staðið við slík heit. Í ár tók ég aðra hugsun á þetta heldur en síðustu ár og tímasetti engin markmið, ég einblíndi ekki á nokkra stóra hluti (eins og manni er jú frekar ráðlagt að gera) heldur setti niður 100 hluta to-do lista sem ég strika út af jafn óðum. 

Ástæðan er að ég veit að líf mitt er varanlega að breytt - næstu þrjá mánuði mun ég ekki geta hreyft mig eins hratt og áður og eftir þann tíma veit ég ekkert hvernig lífið verður. Ég hef nefnilega aldrei eignast barn áður og vissi þar af leiðandi ekki hvað væru raunhæf markmið í bland við þessa gífurlegu breytingu. Í staðinn fyrir að lesa mér til, skoða alls konar reynslusögur og búa mér til hugmyndir um hvað sé raunhæft, sennilegt o.s.frv. ákvað ég að byggja ekki um neina uppskrift, leyfa þessu að verða og taka einn dag í einu. Tækla lífið þetta árið með æðruleysi og leyfa því að koma mér á óvart án þess að vera með kröfur eða hugmyndir um bestu mögulegu uppskriftina. 

Á 100 atriða listanum mínum má finna atriði sem ég hef ætlað mér að framkvæma lengi og taka innan við klukkutíma. Þar má einnig finna atriði sem eru loforð um að ég muni sinna ákveðnum hlutum örlítið betur - í viku eða jafnvel mánuð, í von um að það breyti rútínunni að einhverju leyti. Þar má einnig finna atriði sem ég hef nú þegar byrjað á en verður ekki lokið fyrr en í lok ársins. Síðast en ekki síst má finna atriði sem eru "gúfí", skemmtileg og hafa í raun engan augljósan tilgang á listanum. 

Ég hef nú þegar strikað eitt atriði út af listanum sem ég ætla að segja frá í næsta bloggi. Í kvöld mun ég strika út annað atriði - að birta þrjú blogg í sömu vikunni. Ég er síðan að vinna í fimm atriðum, sum þeirra munu taka allt árið,  og stefni á að hafa strikað út 8 atriði af listanum um næstu mánaðarmót. 

Það er bara ekkert ár hjá mér án áramótaheita - þannig verður það sennilega allavega þangað til ég upplifi það einn daginn að hafa staðið alfarið við þau! Tólf mánuðir er langur tími til að halda athyglinni en eins og áður þá er ég uppfull af óraunsærri bjartsýni um að í ár muni þetta ganga upp. 

Í fyrra setti ég allt upp í excel - í ár er listinn krotaður inn í típíska dagbók. Ég hef komist að því "the hard way" að tryggð þín við markmiðin tengjast á engan hátt forritinu sem þú notar við að setja þau upp. Bömmer. 


Fyrir mér eru setning áramótaheita og vinnsla í þeim ákveðin skemmtun. Það er að segja alveg þangað til ég átta mig á því að það er ekki lengur séns að ná þeim. Ég óska ykkur því góðrar skemmtunar með ykkar eigin ef þið hafið sett ykkur einhver - ef ekki get ég örugglega hjálpað ykkar með eins og einn lista. EKKERT mál. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli