þriðjudagur, 6. janúar 2015

Þrettándinn

Við Sindri erum bæði mikil jólabörn svo jólaskrautið fær að hanga uppi hjá okkur þar til þrettándanum lýkur í kvöld. Síðustu tvö ár höfum við kvatt jólin með því að kíkja á brennu á Ægisíðunni, versla flugelda á gífurlegum afslætti síðustu mínútur fyrir lokun og í fyrra vorum við síðan með smá kvöldkaffi með vinum til að nýta hverja einustu sekúndu jólanna vel. 

Í ár ákváðum við einnig að nýta þennan síðasta dag jóla vel og versluðum okkur kalkún á 45% afslætti í gær. Buðum síðan vinum í mat í kvöld þar sem síðasta sukk jólanna var haldið hátíðlegt með kalkún, fyllingu, sósu og sætum - auk þess sem gestirnir komu með sörur með sér sem við nutum yfir tebolla. 


Nú eru þau horfin heim á leið og jólin við það að renna sitt skeið þetta sinnið. Eftir sitjum við Sindri í sitthvorri tölvunni í sófanum á Fálkagötunni - bæði að rembast við það að renna ekki í miðju sófans sem liggur orðið örlítið neðar en restin. 

Ég sit með fæturnar í steikarpotti sem er heppilegasta ílát heimilisins fyrir fótabaðsiðkun. Í fótabaðinu eru síðan heimablönduð fótasölt sem Sindri gaf mér í jólagjöf; blanda af epson salti, sjávarsalti, matarsóda og piparmyntu. Framan í mig hef ég síðan smellt ógurlega fínum maska frá Nivea sem ég keypti eitt bréf af (2 skammtar) á Tax Free dögum í Hagkaup fyrir nokkrum vikum -  og sparaði mér með því 11 krónur.
Með hvítan maskann í andlitinu og fæturnar í svörtum steikarpotti sit ég síðan með tölvuna í fanginu og lem á lyklaborðið. 

Ég hugsaði um að taka mynd af þessu og setja hér inn en fannst skemmtilegra að lýsa bara þessum aðstæðum og leyfa ímyndunarafli ykkar að ráða myndinni. 


Það er þó óhætt að segja að ásýndin er ekkert í líkingu við þetta:




Vonandi áttuð þið þrettán góða jóladaga - ég væri alveg til í að spóla aftur á bak og upplifa þá alla aftur. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli