sunnudagur, 4. janúar 2015

Árið 2014 - fyrri hluti

Árið 2014 var gott ár fyrir mig að mörgu leyti. Þrátt fyrir að hafa gleymt áramótaheitum ársins um leið og ég fór í sumarfrí (eins og svo oft áður) tókst mér þó að njóta fleiri augnablika en áður. Það eitt og sér var sennilega stærri sigur en mörg áramótaheitanna hefðu boðið upp á.

Fyrsti Ársfjórðungur
SkjárEinn hóf að sýna fyrstu seríu af íslenska Biggest Loser, sem varð fljótt heilög sjónvarpsstund hjá mér. Það gerði þó lítið fyrir mína eigin baráttu við aukakílóin þar sem sælgæti var einnig stór partur af þessari stund.


Það var annars rólegur hjá okkur janúar. Ég bauð Sindra á Roadhouse á bóndadaginn, hann varð ofur upptekinn vinnandi maður en gaf sér þó tíma til að blikka mig öðru hverju. T.a.m. fórum við saman á leiksýninguna Jeppi á fjalli fyrir gjafabréf sem við höfðum fengið í jólagjöf.




Í byrjun febrúar tók ég þátt í tónleikum með Aldísi á Rósenberg þar sem ég stóð bakraddarvakt ásamt tveimur öðrum. Fjórum dögum síðar héldum við Sindri síðan þorrablót heima hjá okkur í 60fm íbúðinni þar sem við höfðum opið hús. Mætingin var langt fram úr væntingum og myndaðist biðröð útúr eldhúsinu þegar heiti maturinn var klár. Þetta var virkilega vel heppnað kvöld þó ég hafi óvart dressað mig upp sem Wendesday Adams.





Seinnipart febrúar kíktum við Sindri á rauðkíttisostanámskeið í Búrinu, en ég hafði gefið Sindra námskeiðið í jólagjöf. Virkilega skemmtilegt kvöld, líka fyrir mig, ostagikkinn. Við lærðum helling um pörun á rauðkíttisostum og meðlæti, auk þess að borða alltof mikinn ost.


Konudagurinn var haldinn hátíðlegur, bæði heima og í vinnunni. Heima var mér boðið út að borða og gefið konfekt. Í vinnunni var það rauður drykkur, rós og ekkert reiður rokkari sem tók fyrir okkur slagara sem hann orti um móður sína. Það féllu nokkur tár í hópnum yfir því atriði.



Eftir að hafa misst af skilafresti fyrir jólalagakeppni Rásar 2 tvö ár í röð ákvað ég að vera tímanlega þetta árið og semja jólalagið loksins í mars. Ég settist niður eina kvöldstund með texta frá Sindra, gítar, umslag utan af launaseðli og símann að vopni. Þegar ég hafði raulað inn lagið lagði ég frá mér símann og gleymdi þessu verkefni alfarið.


Mars var skemmtilegur mánuður. Við byrjuðum eitt af mörgum deitkvöldum í bogfimisetrinu, ég smellti á mig fyrsta tattúinu í hádeginu einn þriðjudaginn eftir margra ára umhugsun, prófaði í fyrsta sinn ásamt nokkrum vinnufélögum að brugga bjór og skellti mér á langþráða tónleika með Moses Hightower ásamt Kristínu Rún. Ég fæ ekki nóg af þeim live.





Mánuðurinn endaði síðan á því að við fluttum starfstöðvar okkar upp um eina hæð á Tryggvagötunni, en það átti eftir að verða stutt stopp.


Annar ársfjórðungur
Ég man nú ekki til þess að hafa lagt mig mikið fram við aprílgöbbin þetta árið en man eftir 3. apríl þar sem ég skellti mér á verkið Baldur með Skálmöld. Það var vægast sagt geggjuð sýning og skemmti Sigga tengdamamma sér manna best í salnum.


Tveimur dögum síðar sat ég límd við sjónvarpið í klappstýrubúningnum þegar bróðurdóttir mín söng í fyrir hönd MA í Söngkeppni framhaldsskólanna. Daginn eftir átti ég árlegt gigg með pabba mínum á Heilsuhælinu í Hveragerði og Hótel Örk  (jájá, tvö sama kvöldið!) og tveimur kvöldum eftir það endurtókum við tónleika Aldísar á Rósenberg.



Við Sindri ákváðum seint að taka seinnipart páskanna í sumarbústað í Hvalfirði, þ.e. eina lausa sumarbústaðnum sem við fundum. Það var ofboðslega hugguleg ferð þar sem hann eldaði góðan mat, ég las, við lágum í heita pottinum, fórum í gönguferðir og drukkum heslihnetubjór með páskaegginu. Það combo var gjörsamlega skothelt!


Í maí var Sindri orðinn virkilega upptekinn og ég sá hann lítið en einn morguninn kom hann mér verulega á óvart með því að bjóða mér út að borða um kvöldið en fara fyrst með mig og kaupa á mig kjól. Þetta þótti mér ótrúlega magnað uppátæki! Enda sjúk í kjóla... og mat.


10. maí rann upp hátíðisdagur, Eurovision. Okkur var boðið í Eurovision partý þar sem allir voru látnir draga land. Í stigagjöfinni þurfti maður síðan að drekka visst marga sopa miðað við þau stig sem lagið manns fékk. Mér til mikillar skelfingar dró ég Holland – og til að sporna við heilsuleysi drakk ég varla sopa fyrr en stigagjöfin byrjaði. Sem betur fer þar sem lagið lenti í 2. sæti.


Í lok mánaðar var árshátíð hjá minni vinnu. Ég var í árshátíðarnefnd og þemað var 1994 þar sem fyrirtækið varð 20 ára á árinu. Við röðuðum mannskapnum í lið og nöfn liðanna höfðu öll tengingu við árið 1994. Lion King, Dumb and Dumber, Ace Ventura, Justin Bieber, Kurt Cobain...
Að sjálfsögðu var morgunmaturinn tekinn í Ölgerðinni.


Þann 30. maí er ég í sturtu (það kemur fyrir að ég skoli af mér). Þegar ég kem úr sturtunni segir Sindri mér að Katrín og Björn séu á leið á tónleika með Tinu Dico og eigi einn auka miða. Hann segist alveg hafa áhuga á því að fara en vill frekar að þiggi það. Á korteri hendist ég í föt, mála mig og dríf mig niður í Iðnó. Og þvílík gjöf. Ég hafði ekkert hlustað á hana fyrir en heyrt góða hluti. Slíka tónleika, þvílíka einlægni, nánd og þvílíkan sögumann, hafði ég ekki upplifað síðan ég sá Teit Lassen í fyrsta sinn í Odense árið 2005. Ég sat dolfallinn, hlustandi á hvert einasta orð og meðtók þau öll, hvort sem hún talaði eða söng. Takk Katrín og Björn! Takk Sindri! Takk Tina Dico!


Daginn eftir fórum við síðan á frumsýningu heimildarmyndar Aldísar Fjólu um Bræðsluna. Ég hafði árið áður hjálpað til við gerð myndarinnar með því að stökkva í hlutverk spyrils. Þetta var virkilega huggulegur hálftími í Bíó Paradís sem færði mann heim.

Júní bauð ekki upp á marga  sólardaga og 17. Júní var þar engin undantekning. Þrátt fyrir það fór ég í kjól og við Sindri gengum götur miðbæjarins með viðkomu í Tiger til að kaupa regnhlífar.

Í sama mánuði byrjaði ég að þjálfa Pole fitness eftir 6 mánaða aðstoðarkennslu.



Ákvað að skipta árinu upp í tvo parta því bloggið var orðið svo hrikalega langt. To be continued...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli