sunnudagur, 18. janúar 2015

Þrír mánuðir

Þrír mánuðir. Ársfjórðungur. 90 dagar. 13 vikur. 

Í gær voru þrír mánuðir í settan dag og því þriðji og síðasti leikhluti meðgöngunnar hafinn. 

Ég hef þónokkrum sinnum verið spurð hvort það sé allt tilbúið og fannst aldrei neitt liggja á. Í gær hljóp ég upp til handa og fóta, skoðaði samfellurnar sem við höfum eignast á strákinn aftur (já, það er það eina sem við eigum fyrir utan plastskeiðar sem eiga að vera betri en venjulegar plastskeiðar), fór á bland.is og skoðaði allskyns barnadót, sjova.is og las mér til um barnabílstóla.... og ákvað síðan aftur að mér finndist ennþá ekkert liggja á. 

Fyrsti hluti meðgöngunnar fannst mér líða mjög hægt - sérstaklega parturinn þar sem fáir vissu af henni og mér leið sem verst. Ég var orkulaus, leið illa í vinnunni sem bitnaði á framlagi mínu þar og ég vissi ekki hvernig ég myndi höndla níu mánuði af þessari líðan. Sem betur fer, eins og í flestum tilfellum, gekk það yfir og hægt og rólega fékk ég matarlystina, orkuna og metnaðinn til baka. 

Núna finnst mér tíminn hins vegar líða mjög hratt og sveiflast á milli þess að vilja að hann hraði enn frekar á sér eða hægi gífurlega. Suma daga óska ég þess að hafa lengri tíma fyrir sjálfa mig, njóta þess að hafa hlutina einfalda og hugsa bara um mig, en aðra daga myndi ég helst kjósa að ljúka þessu öllu af og fá drenginn í hendurnar strax. 

Þrátt fyrir þessar sveiflur er markmiðið að njóta síðustu metranna til fulls - njóta þess að vera bara tvö, sofa út um helgar og lifa í núinu. Halda áfram að taka til í sálinni og samhliða þessu, hægt og rólega, safna að sér nauðsynlegum hlutum áður en frumburðurinn mætir. 

Framundan er fæðingarnámskeið, skoðanir, sykurþolspróf og allskonar stuð tengt komu barnsins í þennan heim, fyrir utan mikilvægar heita potts ferðir, meðgöngujóga og gönguferðir sem Sindri hefur verið duglegur að draga mig í. Ég er ekki alltaf í stuði fyrir þær en hef vanið mig á að segja samt alltaf já. Hingað til hef ég verið voðalega ánægð með það eftir á.
Já, þetta eru merkilegir tímar fyrir litlu mig og oft hræða þessar tilvonandi breytingar mig gífurlega, sérstaklega ef ég leyfi áhyggjuhluta heilans að leika sér. Vísvitandi hef ég þó reynt að fanga leiki hans og eyðileggja fyrir honum því vissulega hjálpar það lítið að taka þátt í leiknum. 

90 dagar. 13 vikur. Ársfjórðungur. 3 mánuðir. 

Ekkert stress krakkar. Ekkert stress. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli