þriðjudagur, 13. janúar 2015

Nr. 54 - Sultukaka a la pabbi

Eins og áður segir hef ég sett mér upp 100 atriða to-do lista til að haka við árið 2015. Í kvöld lauk ég atriði nr. 54 (er samt ekki búin með 54 atriði á þessum tveimur vikum, svo það sé á hreinu).


54. Baka sultuköku a la pabbi
Ég hef áður minnst á þessa sultuköku hér á blogginu í færslu um uppáhaldsbaksturinn minn. Þar minntist ég á að þurfa að grafa upp þessa uppskrift einhverntíma og deila með ykkur. 
Sultukaka var ein af fáum kökum sem mér fannst rosalega góð sem krakki. Um er að ræða tvo brúna botna með rabarbarasultu á milli. Ekki of heavy - passlega þannig að ég gat borðað endalaust af henni. Það sem einnig var sérstakt við þessa ágætu sultuköku var að með henni drakk ég yfirleitt mjólk en ég hef aldrei verið hrifin af mjólk yfir höfuð og lenti oft inn á skrifstofu hjá Gunnu á leikskólanum mínum Hádegishöfða fyrir það að vilja ekki drekka hana. Þar sat ég og danglaði löppunum og vældi síðan í mömmu þegar hún kom að sækja mig og bað hana að segja fóstrunum (þær voru víst fóstrur í den tid) að ég drykki ekki mjólk og alls ekki nýmjólk. 
Þessi kaka hefur því sennilega komið ofan í mig fleiri mjólkurglösum en nokkur annar einstakur réttur, eða mögulega fæðuflokkur. 

Þegar Óli bróðir var unglingur tók hann sig til og bakaði þessa köku stundum um helgar - þegar hann kom heim frá Eiðum, þar sem hann var á heimavist. Mér þótti það alls ekki leiðinlegt og yfirleitt kláraðist hún á mettíma, enda hægt að borða stórar sneiðar. 

Nóg af fortíðinni og hér kemur athyglisverða saga kvöldsins. Eftir matinn fór ég upp í hæstu hæðir svefnherbergisskápsins að sækja gömlu, bleiku uppskriftarmöppuna mína en hana hef ég átt síðan ég var 6 ára. Þar var ég viss um að ég hefði skrifað niður uppskriftina af sultukökunni einhverntíma fyrir löngu síðan. Pabbi hafði einhverntíma þulið hana upp fyrir mig í síma eftir minni en efast síðan um að hún væri alveg rétt hjá honum seinna meir - en það var of seint, sú útgáfa var orðin að klassík. 
Ég fór þrisvar sinnum í gegnum hvert eitt og einasta blað í möppunni og skoðaði hvert einasta krot sem mögulega gæti verið vísir af umræddri uppskrift en fann ekkert. 
Á þeim tímapunkti voru farnar að grípa mig hugsanir eins og 

"Djöfull er þetta gott á þig Silla. Setur upp eitthvað sem þú heldur að sé svo auðvelt að framkvæma á áramótaheita-listann þinn og færð það síðan allt í hausinn. Þú átt greinilega eftir að þurfa að hafa fyrir þessu"
"Ég trúi ekki að þetta sé ekki hérna - ég man þetta allt svo skýrt. Þetta er einhversstaðar skrifað með rauðum penna."
"Kannski fæ ég aldrei aftur að smakka þessa sultuköku. ERTU EKKI AÐ FOKKING GRÍNAST?"

og "Kannski man ég þetta cirkabát. Nei, í alvöru - ekki séns."

Næsta ráð var að reyna að googla orð eins og "sultukaka", "brúnir botnar" (já - ég veit hvernig það kann að hljóma - komu samt upp furðulega nice niðurstöður miðað við það) og "rabarbarasulta kaka". Allt kom fyrir ekki, það kom ekki upp ein einasta uppskrift sem komst nálægt því að líkjast þessari. 
Ég sendi Óla skilaboð á Facebook hvort hann ætti hana til eða myndi hana í stórum dráttum. Áður en hann náði að svara hafði ég misst þolinmæðina og náð sambandi við pabba. 
Pabbi spyr mig hvort hún sé ekki í uppskriftarmöppunni hennar mömmu - en ég segi honum að mamma hafi tekið hana aftur til sín svo ég viti það ekki. Ég er alveg við það að játa mig sigraða - sé fyrir mér auðan check-kassann fyrir framan atriði 54 á áramótalistanum og þar með ófullkominn, óyfirstíganlegan lista sem aldrei fær öll hakin.... og það þann 13. janúar. Ekki einu sinni tvær vikur frá áramótum. Þvílík skelfingar byrjun á áramótaheitum!

En þá segir pabbi:



"Sko, þegar þetta birtist hérna upphaflega hét þetta ábyggilega Royal svampterta. Var uppskrift í einhverri uppskriftarkeppni á vegum Royal lyftidufts. Ertu búin að prófa að gúggla það?"

What? Hvað gerðist?

Ég gúgglaði það. Fann uppskriftina strax, nákvæmlega eins og pabba minnti að hún væri. Ég bakaði hana líka. Hún smakkaðist eins - bara ekki með original family recipe hughrifum eins og áður. Hún er bara hér. Gjöriði svo vel. 


Sultukaka aka. Royal svampterta

Tertadiskur úr jólapakka


Ég sendi uppskriftina á Óla. Hann var jafn hissa. Likti þessu við Nestlé Tullhouse kökuuppskriftar-atvikið í Friends. Leyniuppskriftin hans pabba af bestu sultuköku í heimi er bara vinningsuppskrift úr einhverri Royal lyftidufts uppskriftakeppni. Ha? Í alvöru?




Þetta líf er greinilega ekkert hætt að koma manni á óvart - og það er hverfult eins og original family recipe hughrifin. Huh.  

54. Baka sultuköku a ala pabbi (öðru nafni "Royal svamptertu" úr uppskriftarkeppni Royal) - check

2 ummæli:

  1. Gaman að þessu Silla mín. Hlakka til að sjá næsta póst. Eigðu góðan dag og mér finnst sjálfsagt að pabbi þinn fái prik fyrir að muna hvað kakan hét og hvaðan hún kom upphflega. :)

    SvaraEyða
    Svör
    1. Já, ætli þetta verði nú ekki áfram Sultukaka a la pabbi hjá mér... svona þegar ég hef jafnað mig.

      Eyða