miðvikudagur, 19. mars 2014

Uppáhalds barnabókin (færsla fyrir bugaða móður austur á landi)

Ég elska að lesa. Ég hef alltaf elskað að lesa. Ég les samt rosalega lítið og hef alltaf gert. Ástæðan er einföld, á klukkutíma næ ég að lesa að meðaltali 19-20 blaðsíður í hinni týpísku kiljustærð.... og já, á íslensku. 
Þar sem ég er líka óþolinmóð að eðlisfari (sérstaklega þegar kemur að afköstum mínum) næ ég sjaldan þeim slaka sem þarf til að njóta þess að sitja og lesa. Oft tók ég þó ákvörðun á unglingsárum að lesa ALLT dagblaðið (eða moggann), hverja einustu grein... sem er frekar fáránleg hugmynd þar sem helmingurinn höfðar engan vegin til manns. Það tókst heldur aldrei.
Í dag er ég byrjuð á þremur bókum og vinn mig að því að klára þær korter í svefn á kvöldin. 

Þegar ég var yngri voru ákveðnar bækur sem aldrei mátti lesa fyrir mig, allavega ekki fyrir svefninn. Ég kunni samt báðar sögurnar utan af en það voru atriði og myndir í bókunum sem hræddu mig. Þetta átti einkum við um tvær bækur, Skilaboðaskjóðuna og Búkollu.
Í Skilaboðaskjóðunni er ákveðin blaðsíða sem sýnir óhugnarlegar fætur Nátttröllsins í skóginum. Þessi mynd gat þýtt andvöku"nætur".


Þetta var aðeins flóknara með Búkollu. Þó ég skildi söguna og áttaði mig á aðstæðunum í henni bendist hræðsla mín að hetjunni, Búkollu. Þessi hræðsla gekk svo langt að á næturnar þegar ég vaknaði til að fá mér honey nut cheerios (ég veit - óþolandi óvani) og mamma bað mig að redda mér sjálf gat ég engan veginn stigið inn í ógnvænlegt myrkrið í eldhúsinu. Ástæðan? Jú, það gæti verið Búkolla undir borðinu.


Ég man ekki til þess að á þessum árum hafi ég átt uppáhaldsbók. Þegar ég var hins vegar 9 ára gáfu amma og afi í Sæbergi mér bókina "Litlu greyin" eftir Guðrúnu Helgadóttur. Það fannst mér frábær bók og ég sagði öllum frá henni sem vildu eitthvað um hana heyra. Ég man ekki hvort það var síðan amma sjálf eða Gugga, þáverandi mágkona mín, sem las fyrir mig bókina. En hvort heldur sem var grunar mig að mér hafi ekki þótt hún verri fyrir vikið... enda best að hlæja þegar einhver hlær með manni. 


Ég man lítið eftir bókinni að öðru leyti en því hvað mér fannst hún fyndin. Yngsta systkinið í sögunni fannst mér samt fyndnast, enda gert í því að láta það bulla í sögunni. Í aðalatriðum fjallar bókin um fjölskyldu, mamman og pabbinn eru að skilja og mamman fer með börnin upp í bústað til að finna sjálfa sig. Strákurinn í sögunni finnur í einum af sínum gönutúrum bústað þar sem fangi hefur komið sér vel fyrir - og í endanum á sögunni (spoiler) er fanganum boðið í mat. Amma kemur í heimsókn og týnist - en á eftir henni kemur síðan pabbinn að hjálpa til við leitina. 

Ég er ekki frá því að ég lesi hana aftur einhvern daginn - samkvæmt fortíðar-mér er hún allavega þvílíkt skemmtileg og rituð niður sem uppáhaldsbókin í ófáar vinabækurnar.


2 ummæli:

  1. Mér finnst tilfinnanlega vanta allar þær bækur sem viss frænka þín eyddi töluverðum tíma í að breyta öllum persónum í vini þína svo að þær yrðu nú skemmtilegar fyrir áheyrendann... Það var metnaður, skal ég þér segja!! ;)

    SvaraEyða
  2. Sammála.... en ég man bara voða lítið eftir þeim, man bara eftir þessari frábæru hugmynd! Ætli ég hafi ekki verið of upptekin við að hlæja að því sem "vinir mínir" og ég vorum að gera og segja í þessum ótrúlega sögum.

    SvaraEyða