laugardagur, 4. janúar 2014

Tíundi dagur jóla

Það eru ennþá jól og mjög mikilvægt að halda áfram að gera vel við sig. Kannski ekki mjög mikilvægt, en engu að síður gott fyrir sálina.
Í gær bauð ég góðri vinkonu sem ég hitti alltof sjaldan í mat til mín og við áttum ákaflega huggulegt kvöld enda frá nógu að segja eftir langan tíma.

Að sjálfsögðu var öllu til skartað, enda jólin.


Ég vildi elda eitthvað girnilegt sem við gætum sötrað hvítvín með. Það þurfti einnig að vera mjög einfalt því ég hafði bara rétt um hálftíma til að elda. Klassísk ítölsk pizza varð því fyrir valinu, reyndar með fínum botni þar sem gróft var ekki í boði í Melabúðinni í þetta sinn. Að sjálfsögðu var hún borin fram með heimagerðri hvítlauksolíu... og étin upp til agna.


Með pizzunni drukkum við síðan sætasta hvítvín sem ég hef smakkað úr fallegu spariglösunum frá Ittala. 




Síðast en ekki síst dró ég fram jólaservíetturnar mínar frá Reykjavík Letterpress. Þær fann ég í Kokku fyrir rúmu ári síðan þegar ég fór þangað að skipta einni jólagjöf. Tók þessar servíettur í staðinn og pakkaði strax niður með jólaskrautinu. Það gladdi mig síðan alveg ótrúlega mikið í byrjun desember þegar ég mundi eftir því að ég ætti þær. Í einum pakka eru 20 servíettur, engin eins og allar prýða þær setningu úr frægum jólalögum.

Þegar kjaftakvöldinu lauk ákvað ég að hafa smá dekurstund. Naglalakkaði mig, bæði fingur og tær, auk þess að bera á mig fótakrem og handáburð sem ég fékk frá mágkonu minni og hennar manni í jólagjöf. Hún er snyrtifræðingur og því treysti ég því fullkomlega að hér sé um gæðavöru að ræða þó ég sé langt frá því að hafa vit á því. 


Nýja L'oreal naglalakkið mitt. Það er aðeins meira út í appeslínugult heldur en sést á þessari mynd. Liturinn á myndinni fyrir neðan er nær því að vera réttur. 


Kremin góðu.

Í kvöld fer ég síðan í tímamótapartý hjá annari góðri vinkonu, sú verður þrítug og flytur tímabundið til London á morgun vegna vinnu. Nú er því tækifæri til þess að skvísa sig aðeins upp og súpa á nokkrum kokteilum. Njótið helgarinnar! 





Engin ummæli:

Skrifa ummæli