fimmtudagur, 2. janúar 2014

Krefjandi og gefandi

Árið 2013 reyndist mér vel, þrátt fyrir allskonar erfiðleika og stórar ákvarðanir situr ekki vottur af depurð í mér eftir þetta ár. Ég óskaði þess fyrir nákvæmlega ári síðan að finna vinnu sem ég kynni að meta, finna styrk til að þróa mín áhugamál og kjark til að taka þau lengra.

Á þessu ári hef ég heldur betur bætt mig í söng, samið lag í fyrsta sinn í 7 ár, byggt upp sjálfstraust, haldið tvenna tónleika, efast minna, liðið betur og síðast en ekki síst orðið partur af stórskemmtilegu vinnuumhverfi, fyrst með uppbyggingu Silent frá febrúar til ágúst og síðan hjá PIPAR/TBWA frá 1. september.

Ég fór á Bræðslu, Þjóðhátíð, til New York og Danmerkur. Heillaðist af mörgum nýjum hlutum og lærði örlítið betur á sjálfa mig. Árinu hef ég að mestu leyti eytt á þönum og þegar frítími manns minnkar verður hann verðmætari fyrir vikið að mínu mati. Hjá mér gerðist það að ég fór virkilega að velta fyrir mér hvað af þeim hlutum sem ég eyddi tíma mínum í gæfu mér eitthvað, hvað léti mér líða vel og hver af mínum áhugamálum væru í raun eingöngu skemmtun. Ég fór einnig að velta þessu fyrir mér vegna þess hversu oft ég lendi í því að mæta á einhvern viðburð eða sjá eitthvað sem öðrum finnst dásamlegt og finna ekki fyrir neinum áhrifum af því. Það þarf ekki að vera að mér leiðist sá tími fyrir því en hann skilur heldur ekkert eftir sig.

Einhverntíma á mínum menntaskólaárum varpaði ég fram þeirri hugmynd í kennslustund hvort það gæti verið fylgni milli þess hversu krefjandi hlutirnir eru og hversu gefandi þeir reynast fyrir mann. Það er skemmst frá því að segja að þessi hugmynd fékk enga styðjendur í þeim hópi, raunar var ég gjörsamlega kjöftuð í kaf vegna þess. Það vill þó þannig til að margur heldur mig sig og þannig virðast hlutirnir svolítið virka hjá mér. Það sem ýtir mér út fyrir comfort zone-ið eða krefst þess að ég virkilega einbeiti mér að því, það gleður mig mest.

Eins og áður hef ég sett mér áramótaheit. Í þetta sinn ákvað ég að setja ekki með það markmið að verða mjó, þó augljóslega myndi ég ekki slá hendinni á móti því. Ég vil bara ekki að það eigi hug minn allan lengur. Ég setti þess í stað niður 5 atriði sem ég ætla að einblína á þetta árið, öll færa þau mér gleði og hafa mikla þýðingu fyrir það hver ég tel mig vera. Sjötta atriðið er ekki talið með en það er gleðin sem því fylgir að ná einhverjum markmiðum - öll þessi atriði hafa skráð markmið í excelskjalinu "áramótaheit 2014" og ef þetta excel skjal virkar ekki þetta árið, þá verð ég að skipta um vinnsluforrit á næsta ári.

1. Skrifin mín - bloggin, ljóðin og sögurnar
Ég elska að skrifa. Ég fæ ákveðna útrás við það, sérstaklega í ljósi þess að ég er oft heilu dagana með blogghugmyndir í höfðinu, búinn að baka þær - en þær líta aldrei dagsins ljós því eitthvað minna merkilegt tekur yfir.

2. Tónlistin mín - söngur, gítarleikur og sköpun tónlistar
Þetta er aftur í farvegi og vil ég ekki fyrir mitt litla líf missa það. Einn söngtími er nánast eins og sálfræðitími þegar maður hefur lagt sitt að mörkum og tekst loks að framkvæma það. Eitt lag sem maður getur verið stoltur af er ein besta næring sem ég hef upplifað.

3. Heilsa - hreyfing og matarræði
Ég vil verða betri í Pole fitness, ég vil einbeita mér að því frekar heldur en að missa ákveðinn kílóafjölda því það að bæta mig þar veitir mér gleði eitt og sér. Varðandi matarræðið þá þykir mér gaman að elda þó niðurstaðan sé ekki alltaf framúrskarandi, ég er með viðkvæman maga og því skiptir þetta atriði máli til að hægt sé að njóta lífsins til fulls. Maður gerir minna af því með krampaköst.

4. Gefa af mér - rækta vináttu og sýna náungakærleik
Ég hringi aldrei, ég er alltaf að flýta mér, svara stundum ekki og ekkert af þessu er hollt fyrir mig. Ég er raunverulega ótrúlega fegin því að ekki allir hafi gefist upp á því að hringja í mig. Í ár ætla ég að rækta mín sambönd og gefa af mér til þeirra sem eiga minna, til dæmis með því að koma í not hlutum sem ég hef enga þörf fyrir.

5. Spara - fyrir öllum draumum mínum.
Þetta er boring áramótaheit og veitir mér enga sérstaka gleði - nema þegar markmiðunum er náð og ég get leyft mér að framkvæma eitthvað af því sem mig dreymir um. Maður kemst aldrei neitt ef allur aurinn fer í hádegismat og stöðumæli í miðbænum.

Hver mánuður á sitt þema með sinni áskorun, allar tengdar einhverju af þessu.
Hver vika á sinn fókus-punkt, minni áskorun að einblína á.

Hver þau eru mun vonandi, ef ég loksins stend mig, koma fram hér á blogginu.


Gleðilegt ár kæru vinir - þetta ár verður nákvæmlega það sem þið gerið úr því! :)

2 ummæli:

  1. Gleðilegt nýtt ár kæra vinkona og takk fyrir gott blogg! ég hef góða tilfinningu fyrir árinu 2014 enda með mörg plön í tænkeboxen. Annars væri rosa gott að sjá ykkur aðeins oftar. Vonandi verður hægt að bæta aðeins úr því á þessu ári :) Knús Hófí
    ps. mikið líst mér vel á fjórða atriðið :D hehehehe

    SvaraEyða
    Svör
    1. Takk og sömuleiðis :)
      Já, aldrei að vita nema ég drullist til að hringja einu sinni!!!

      Eyða