fimmtudagur, 3. janúar 2013

Sama gamla tuggan...

Þá hef ég kvatt árið 2012, ekki með miklum söknuði þó. Ég er bjartsýn á nýja árið og hef að sjálfsögðu sett mér áramótaheit.... ég strengdi þau þó ekki fyrr en rétt í þessu þar sem ég var of löt í fríinu fyrir austan til að taka nokkrar ákvarðanir.
Ég varð að sjálfsögðu líka að líta til þeirra markmiða sem ég setti mér fyrir árið 2012 og bíta í það súra epli að ég náði ENGU þeirra! Hins vegar neita ég að gefast upp og held í trúnna um það að með örlítið meiri excel æfingum takist mér að gera sjálfri mér grein fyrir hversu mikið það er sem ég þarf að leggja á mig til að ná þessum markmiðum í ár, til dæmis með að búta þau frekar niður í excel og nota niðurtalningakerfi á vikur ársins. ÞAÐ MÁ ALLTAF REYNA!

Það verður þó ekki sagt að sum áramótaheitin hafi ekki hvatt mig til athafna þó ég hafi ekki alveg náð þeim. Ég setti mér það markmið að lesa 5 bækur á árinu og náði að lesa 3. Það er 2,5 meira en árið 2011 (ef skólabækur eru ekki taldar með). Þannig kláraði ég skáldsöguna Good in bed (átti hálfa bókina eftir um síðustu áramót), las bók Evu Hauksdóttur Ekki lita út fyrir (sjálfshjálparbók með verkefnum ;)), bókina Ómunatíð - saga af geðveiki eftir Styrmi Gunnarsson sem fjallar um rúmlega 40 ára baráttu konu hans við geðhvarfasýki og er hálfnuð með skáldsöguna Heimsins heimskasti pabbi eftir Mikael Torfa. Þetta áramótaheit virkaði því hvetjandi á mig þó því hafi ekki verið náð.

Hvað varðar þau 6 lög og 7 ljóð sem ég ætlaði að semja á árinu varð árangurinn 0! Ég hef því ákveðið að flytja lagamarkmiðið áfram óbreytt en hækka fjölda ljóða á milli ára (því 7 ljóð er ekki neitt - kannski ekki nógu háleitt markmið bara... ég ætla að trúa því að þess vegna hafi það klikkað).

Hvað varðar kílóin þá var ég 400 gr. léttari 31. des 2012 heldur en ég var þann 2. janúar. Það er ekki merkilegt... en miðað við öll skrefin sem fóru í ranga átt hvað þetta varðar í vor og sumar er ég fegin að hafa allavega ekki verið þyngri en ég var í janúar.

Áramótaheit ársins 2013, sett upp í excel og með mjög mikilli sundurliðun!

Svo við skulum bara enda þetta á, gangi mér vel í þetta sinn! 
Þetta er í þriðja sinn sem ég strengi áramótaheit og allt er þegar þrennt er!

4 ummæli:

  1. Frábært hjá þér ... ég hef fulla trú á þér, þú rúllar þessu upp núna þar sem þetta er svo flott uppsett - knús <3

    SvaraEyða
  2. Það er rétt hjá þér að gefast ekki upp, þú getur þetta! Kv. Guðrún Á. R.

    SvaraEyða
  3. Ég get ekki séð hvernig þetta á eftir að klikka! Skipulagsfríkið í mér fær alveg flogakast af gleði við að horfa á þetta skjal! HELD MEÐ ÞÉR ALLA LEIÐ og skal gera mitt : skal ekki gefa þér gos og nammi og kökur næst þegar þú kemur í heimsókn (kílóin), skal minna þig á að blogga þegar þú kemur í heimsókn (bloggið) og skal vera heimspekileg og gáfuleg í smá tíma þegar þú ert í heimsókn þannig að þú fáir andann yfir þig og semjir lög og ljóð (lög og ljóð)

    og hana nú!

    Kv. Margrét Dögg

    SvaraEyða
  4. æj, hvað það er gott að hafa svona klapplið :D

    SvaraEyða